02.03.1961
Efri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

41. mál, Listasafn Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til 1. umr. hér í hv. Ed., fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði með ræðu, og þar sem frv. fylgir enn fremur allýtarleg grg., sé ég ekki ástæðu til að fara hér mörgum orðum um frv. almennt, en mun hins vegar aðallega ræða um þær brtt., sem menntmn. hefur orðið sammála um að flytja við frv. og ég mun síðar koma að.

Menntmn. hefur rætt þetta frv. á allmörgum fundum. Hún boðaði á sinn fund þá nefnd, sem samdi frv. á sínum tíma, og auk þess formenn þeirra þriggja félaga myndlistarmanna, sem nú eru hér starfandi. Þessir aðilar mættu á einum af fundum n., nema formaður Nýja myndlistarfélagsins, sem var forfallaður. Þeir gáfu nm. ýmsar skýringar og ábendingar og tjáðu sig um brtt., sem til umr. voru í menntmn.

Nm. hafa allir orðið sammála um að flytja við frv. brtt. þær, sem eru á þskj. 430, en einstakir nm. hafa óbundnar hendur um að flytja frekari brtt. við frv. og fylgja öðrum, sem fram kunna að koma.

Ég mun þá víkja nokkuð að brtt. þeim, sem menntmn. flytur og eru á þskj. 430.

Er þá 1. brtt., sem er við 2. gr. A-liður hennar er um, að aftan við b-lið bætist: „geyma má fé í þessu skyni frá ári til árs“. Sú upphæð, sem skv. frv. skal verja til kaupa á erlendum listaverkum, þ.e.a.s. 1/10 hluti af þeirri heildarupphæð, sem safninu er fengin til listaverkakaupa, yrði vart svo mikil, að eins árs framlag nægði til þess að kaupa erlent listaverk, sem safninu gæti orðið verulegur fengur að. Það má frekar gera ráð fyrir, að leggja yrði saman framlög fleiri ára til slíkra kaupa, og það þykir rétt að taka af öll tvímæli um heimild til slíks, enda vakti það einnig fyrir þeirri n., sem frv. samdi.

Með b-lið 1. brtt. er lagt til, að listasafninu verði falin umsjón með öllum listaverkum í eigu ríkisins, þótt geymd séu utan safnsins, öðrum en þeim, sem geymd eru í þjóðminjasafninu eða falin eru þjóðminjaverði eða öðrum til umsjónar. Það síðasttalda nær þannig til safns Einars Jónssonar og Ásgrímssafns, sem nú eru bæði undir sérstakri stjórn eða í sérstakri umsjá. N. var tjáð, að eins og nú hagaði til, væru listaverkin, sem þessi brtt. nær til, þ.e.a.s. listaverk í eigu ríkisins, á skrá hjá listasafninu. Með brtt. er lagt til, að listasafninu verði falin umsjón þeirra, þ. á m. eftirlit með því, að þau séu forsvaranlega varðveitt og hljóti nauðsynlegar viðgerðir o.s.frv.

2. brtt. n. er við 4. gr. frv. Hér er lagt til, að forstöðumaður safnsins verði skipaður, þegar lögin öðlast gildi. Samkvæmt frv. er safnráði falið mikilvægt hlutverk, en forstöðumaður safnsins skal eiga sæti í safnráði, og jafnframt er hann formaður þess. Safnráð verður því eigi fullskipað og starfhæft, fyrr en skipaður hefur verið forstöðumaður safnsins, og því virtist nm. einsætt að flytja þessa brtt.

3. brtt. n. er við 5. gr. frv., sem fjallar um safnráð og skipun þess, og er lagt til, að á þeirri grein verði gerðar allverulegar breyt. Er þá fyrst það að nefna, að lagt er til, að menntmrh. skipi einn mann í safnráð og varamann hans eftir hverjar alþingiskosningar, í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir, að þegar kennsla í listasögu verði hafin í Háskóla Íslands, skuli kennarinn í þeirri grein vera sjálfkjörinn í safnráð, en þangað til skuli heimspekideild háskólans velja mann í safnráð svo og varamann.

Eins og fram kemur í grg. með frv., varð ágreiningur í undirbúningsnefndinni eða n. þeirri, sem frv. samdi, um þetta atriði. Minni hl., eða tveir af fimm nm., vildi hafa þá skipan á, sem menntmn. leggur nú til. Fyrir meiri hl. undirbúningsnefndarinnar mun það hins vegar hafa vakað, að sú skipan, sem í frv. felst, mundi ýta frekar undir það, að upp yrði tekin kennsla í listasögu við háskólann.

Þegar þeir, sem að samningu frv. stóðu, mættu á fundi menntmn., var álits þeirra leitað m.a. um þetta atriði, og ég ætla, að mér sé óhætt að fullyrða það, að meiri hl. hafi út af fyrir sig ekki verið henni andvígur, ekki talið, að sú skipan, sem lögð er til með brtt., væri á neinn hátt óheppilegri, heldur hafi vakað fyrir þeim að ýta e.t.v. undir, að upp yrði tekin kennsla í listasögu við háskólann, með því að fela heimspekideildinni að tilnefna mann.

Þá eru lagðar til verulegar breyt. á kosningu hinna þriggja fulltrúa listamanna í safnráðið og varamanna þeirra. Það er í fyrsta lagi lagt til, að kosningarréttur og kjörgengi sé bundið við félög myndlistarmanna, sem starfandi eru, þegar kosning fer fram, þó þannig, eins og í frv. er reyndar gert ráð fyrir, að það nægi, til þess að menn hafi kosningarrétt og kjörgengi, að þeir hafi verið starfandi í einhverju slíku félagi, þótt ekki séu þeir enn félagar, þegar kosningin fer fram, en brtt. felur það m.a. í sér, að þarna sé miðað við félög, sem þá eru starfandi.

Þá er sú mikilvæga breyt. lögð til, að í stað þess að kosið sé á fundi, sem boðað sé til með þeim hætti, sem í frv. greinir, fari kosning fram skriflega og utan kjörfundar, og séu þeim, sem kosningarrétt hafa, sendir kjörseðlar. Kjörstjórn skuli sjá um undirbúning og framkvæmd kosningarinnar og sé hún skipuð forstöðumanni safnsins, sem sé formaður hennar, ráðuneytisstjóranum í menntmrn. og einum manni tilnefndum af stjórn Bandalags íslenzkra listamanna. Kjörstjórn skuli láta gera kjörseðla, sem séu í samræmi við það, sem lögin ákveða, og m.a. sé þannig frá gengið, að kosnir verði, eins og bæði er í frv. og eins í brtt. gert ráð fyrir, tveir málarar og einn myndhöggvari í safnráðið. Þótt ekki komi það fram, hvorki í frv. né heldur í brtt. þeim, sem menntmn. hefur flutt, þá er það vitanlega undirskilið, að varamenn skuli einnig vera tveir málarar og einn myndhöggvari. Það yrði sem sé kjörstjórnarinnar að hafa hér kjörseðla þannig, að tryggilega verði frá því gengið, að kjörnir safnráðsmenn af listamanna hálfu sem og varamenn skiptist þannig í hópa.

4. brtt. n. er við 6. gr. frv. Þar leggur menntmn. til, að áfram haldist það vald safnstjóra eða forstöðumanns safnsins, sem ráðgert er í 6. gr. frv., þegar um listaverkakaup er að ræða, eða m.ö.o. falli burt, að einróma samþykki fjögurra safnráðsmanna þurfi til ákvörðunar um kaup á listaverkum, ef forstöðumaður safnsins eða safnvörður í forföllum hans er henni andvígur. Það er sem sé, ef um listaverkakaup er að ræða. En um önnur þau mál, sem safnráð fjallar um, er lagt til, að rísi ágreiningur milli formanns safnráðs og annarra safnráðsmanna, þá skuli bóka ágreiningsatriðið og rökstudda grg. aðilanna í gerðabók ráðsins og megi siðan skjóta slíkum ágreiningi til menntmrh. til úrskurðar.

Við 11. gr. frv. flytur n. 5. brtt. sína, sem er um það, að við bætist nýr málsl.: „Með samþykki safnráðs má þó víkja frá þessu ákvæði.“ Það er sem sé því, að óheimilt sé að lána listaverk safnsins nema á listsýningar, og þá því aðeins, að forstöðumaður telji sérstaka ástæðu til. Þetta þótti vera nokkuð strangt, og n., sem undirbjó frv., var einnig sömu skoðunar og taldi nú, að þarna væri of fast að orði kveðið og rétt væri að veita heimild til annarra lána en á listsýningar, að því tilskildu, að samþykki safnráðs kæmi til.

Loks er 6. og síðasta brtt. n., við 14. gr. frv., og fjallar um rétt til eftirmyndunar eða annarrar eftirgerðar af listaverkum. Í frv. er gert ráð fyrir, að safnið hafi rétt til slíkrar eftirmyndunar til afnota fyrir safnið sjálft og til sölu innan veggja þess, en hér er lagt til, að við bætist: „og á sýningum, sem það heldur,“ þ.e.a.s. sýningum, sem safnið gengst fyrir. Fulltrúar listamanna, sem mættu á fundi menntmn., höfðu ekkert við þetta að athuga, og n. þótti rétt og eðlilegt, að ákvæði um þetta bættist inn í frv.

Ég ætla, að það sé ekki fleira, sem ég þarf um þetta mál að segja að svo komnu.