02.03.1961
Efri deild: 68. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

41. mál, Listasafn Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hreyfa neinum athugasemdum við brtt. frá hv. menntmn. Ég hygg, að þær muni flestar eða allar til bóta. En ég vil hafa orð á því nú, að mér finnst, að brtt. hv. n. hefðu átt að vera fleiri. Sérstaklega sakna ég þess, að ekki skuli hafa komið frá n. nein till. til breyt. á 13. gr. frv., en þá grein gerði ég að umtalsefni lítils háttar við 1. umr. málsins.

Í 13. gr. segir, að reisa skuli sérstakt hús fyrir listasafnið, þegar nægilegt fé er veitt til þess á fjárlögum eða á annan hátt. Ég hafði orð á því, að með tilliti til hinna miklu húsnæðisvandræða listasafns ríkisins væri þetta harla óákveðið ákvæði og veitti ekki af að herða á því. Þeim tilmælum eða þeirri áskorun beindi ég til hv. n. að taka þetta sérstaklega til athugunar. Margir, sem þekkja til listasafns ríkisins, eru þeirrar skoðunar, að safnið vanhagi miklu meira um hús en um lagabálk. Þetta kemur greinilega fram í álitsgerðum, sem þessu frv. fylgja, og skal ég aðeins minna á álit þjóðminjavarðar, en hann segir svo, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagafrv. um Listasafn Íslands er gott út af fyrir sig, en missir marks, ef ekki kemst mjög bráðlega skriður á byggingu þess húss, sem verður frumskilyrði þess, að lögin geti verkað eðlilega.“

Listasafnið er nú til húsa í þjóðminjasafnshúsinu. Um það segir þjóðminjavörður á þessa leið:

„Í fáum orðum sagt: Listasafnið kemst aldrei úr kútnum, meðan það er hér, og það, sem sárgrætilegra er, að það kreppir að þjóðminjasafninu í þess eigin húsi. Þjóðminjasafninu veitir ekkert af öllu því plássi, sem listasafnið hefur nú, og skal ég sýna fram á það, ef óskað er.“

Þannig kemst þjóðminjavörður að orði í sinni álitsgerð.

Sjálft menntamálaráð Íslands hefur tjáð sig í svipaða átt. Það segir í sínu áliti:

„Ráðið leyfir sér hins vegar að benda á, að sú er brýnust nauðsyn safnsins, að húsnæðismálum þess verði komið í bætt horf. Þyrfti þegar að hefja undirbúning þess máls, og tjáir menntamálaráð sig fúst til að veita því hvern þann stuðning, er það gæti í té látið.“

Ég vil enn minna á þetta. Ég vil líka minna á það, að í gildandi lögum er til ákvæði um byggingu listasafnshúss. Það er í lögum, sem nú eru a.m.k. 30 ára gömul. Þar er menntamálaráði falið að undirbúa byggingu listasafnshúss. Þetta gamla ákvæði er sem sagt mun ákveðnara í orðalagi en ákvæðið í 13. gr. frv.

Ég vil nú beina þeirri fsp. til hv. menntmn., hvort hún virkilega hafi alveg gengið fram hjá þessu mikilvæga atriði í athugun málsins, hvort það hafi alls ekki komið til athugunar eða tals, að þessi 13. gr. væri linlega orðuð, og hvort ekki væri unnt á einhvern hátt, um leið og þetta frv. væri afgr., að ýta undir byggingu listasafnshúss, sem er langtum brýnna verkefni en samþykkt þessa frv.