15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma, en hv. 2. þm. Norðurl. v. og endurskoðandi ríkisreikninga m. m. var í gær að leika sér svolítið að tölum við 2. umr. um ríkisreikninginn, og það er út af því og þeim orðaskiptum, sem á milli okkar fóru, sem ég vildi segja örfá orð til viðbótar. Hann taldi mér ekki henta að rjúka upp, eins og hann orðaði það, og taldi líka, og það var náttúrlega aðalatriðið, að dráttur á innheimtu hjá vélasjóði væri kominn út í öfgar, sem ekki dygði, þar sem útistandandi hefðu verið í árslok 1958 nálega 6 millj. kr., sem væri hærra en allar tekjur sjóðsins.

Ég hef svolítið athugað þessi mál síðan í gær, og kemur þá í ljós það, sem ég í gær gizkaði á í síðari ræðu minni, að það er síður en svo, að hér sé um nokkurt áhættuspil að ræða fyrir vélasjóð. Það er nefnilega svo, eins og hv. endurskoðanda hefði átt að vera kunnugt, að vélasjóður hefur allmikla umsetningu umfram sjálfa vélaleiguna og einnig umfangsmikla varahlutaverzlun til skurðgröfustjóranna og ræktunarsambandanna. Á árinu 1958 seldi hann varahluti og viðgerðir fyrir nálega 3 millj. kr. Þar til viðbótar selur hann einnig skurðgröfustjórunum yfirleitt rekstrarvörur aðrar en olíur. Það þarf þess vegna ekki að undra, þótt eitthvað sé óuppgert um áramót af viðskiptum við líklega um 50 skurðgröfustjóra, sem flestir annast líka viðgerðir á vélunum og hafa í langflestum tilfellum reikninga á vélasjóð á móti rekstrarvöruúttekt, og ræktunarsamböndin borga venjulega sín varahlutakaup af skurðaframlaginu, þegar það kemur. Ræktunarsamböndin búa, eins og kunnugt er, við mikinn rekstrarfjárskort, og þetta er fyrirgreiðsla við þau, sem er óhjákvæmileg. Það má líka geta þess um leið, að vélasjóður hefur ekki þurft að afskrifa af þessum viðskiptum, svo að umtalsvert sé. Þá bera reikningar vélasjóðs fyrir 1958 það með sér, að um hálf millj. af þessu, sem sjóðurinn átti útistandandi í árslok, er vegna fyrirframgreiðslu upp í varahluti og eina nýja skurðgröfu, sem í pöntun var. Og enn er þess að geta, að reikningar vélasjóðs fyrir 1958 eru þannig upp settir af löggiltum endurskoðanda, að reikningsupphæðin segir lítið til um viðskiptaveltuna. Veltan er nálega þrisvar sinnum hærri en reikningsniðurstaðan, og vélaleigan er lítið meira en 2/5 hlutar af tekjum vélasjóðs.

Til þess að bæta úr þessu er eitt ráð, svo að vélasjóður þurfi ekki að eiga svona fjárhæðir útistandandi í reikningslok. En það er ekki heldur nema eitt ráð til við því, og það er, að ríkissjóður greiddi sinn hluta kostnaðarins við skurðgröftinn fyrr en verið hefur. Það má hv. endurskoðandi vita, að það yrðu ekki mörg ræktunarsambönd, ef það yrði þá nokkurt, sem gæti tekið skurðgröfur vélasjóðs á leigu, ef þessi fyrirgreiðsla væri ekki fyrir hendi. Ef ætti að taka þann hátt upp að krefja bændurna um allan kostnað við skurðgröftinn hálfu til heilu ári fyrr en þeir fá ríkisframlagið, þá yrðu ekki grafnir miklir skurðir á Íslandi með því fyrirkomulagi, því að skurðgröfur vélasjóðs grafa um 2/3 af öllum skurðum, sem grafnir eru, — og hvað mundi þá ræktuninni líða á eftir? Það er því ekki nema tvennt til um hv. 2. þm. Norðurl. v., annaðhvort hefur hann ekki hugsað út í, hverjar afleiðingar það hefði fyrir landbúnaðinn, ef farið yrði að hans ráðum um þetta atriði, eða áhugi hans fyrir velferð sveitanna og hagsmunum bændanna er minni en hann hefur oft viljað vera láta. Ég vil ekki aðeins vona, ég vil mega trúa því, að hér sé fyrra atriðið til staðar, að hann hafi ekki hugsað dæmið til enda, áður en hann talaði hér í gærdag.

Um það atriði, að ríkissjóður greiði framlagið til skurðgraftarins framvegis fyrr en verið hefur, vil ég líka vona, að hv. 2. þm. Norðurl. v. taki það til athugunar. Hann ætti að hafa góða aðstöðu og væntanlega mjög sterka aðstöðu til þess að fá því framgengt nú um áramótin, þar sem hann er áhrifamaður stjórnarflokks. Með því móti gæti hann ekki aðeins fengið reikninga vélasjóðs fyrir yfirstandandi ár áferðarfallegri og meira að sínu skapi, heldur mundi hann einnig skapa vélasjóði, ræktunarsamböndunum og bændunum, sem hafa leigt skurðgröfurnar á þessu ári, mjög mikil þægindi fram yfir það, sem verið hefur. Það væri vissulega miklu meira virði en útlit reikninga vélasjóðs, enda eins og ég sagði áðan aldrei stafað nein hætta af því fyrir sjóðinn, þó að hann hafi átt einhverjar milljónir útistandandi við reikningsuppgjör.