14.03.1961
Neðri deild: 74. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

41. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Um listasafn íslenzka ríkisins eru engin lög til. Þó er hér um að ræða merka stofnun, þar sem geymd eru mjög mikil — að segja má jafnvel ómetanleg verðmæti. Fyrsti vísir safnsins var það, er Björn Bjarnarson, síðar sýslumaður í Dölum, gaf ríkinu 38 erlend málverk, flest eftír Norðurlandalistamenn. Síðar, eða á árinu 1902, eignaðist ríkið fyrsta íslenzka listaverkið, höggmynd eftir Einar Jónsson, og nokkru síðar eignaðist ríkið fyrsta málverkið, eftir Þórarin Þorláksson.

Lengi vel var listasafnið í vörzlu þjóðminjavarðar eða allt þangað til 1928, að lög voru sett um menningarsjóð og menntamálaráð og var þá menntamálaráði falin umsjá safnsins, og hefur menntamálaráð síðan haft safnið í sinni vörzlu og skoðazt sem stjórn þess undir yfirstjórn menntmrn.

Þegar lögin um menningarsjóð og menntamálaráð voru sett 1928, var menningarsjóði veittur sérstakur tekjustofn, sektir fyrir brot gegn áfengislögunum. Eitt af þeim þremur meginverkefnum, sem menningarsjóði var ætlað að sinna, var að kaupa listaverk til listasafnsins, auk þess sem honum var ætlað að fást við bókaútgáfu og styrkja náttúrurannsóknir.

Áður en núgildandi lög um menningarsjóð voru sett og honum tryggðar stórauknar tekjur frá því, sem hann áður hafði, þá hafði hann síðustu árin um 1/2 millj. kr. á ári, sem skipt var nokkurn veginn í þrjá jafna hluta milli þessara þriggja höfuðverkefna sjóðsins. Með lagasetningunni frá 1958 voru menningarsjóði hins vegar tryggðar um 3 millj. kr. í tekjur árlega. Þar af ganga að vísu 800 þús. kr. til vísindasjóðs, en nokkuð á 3. millj. er árlega til ráðstöfunar í þágu bókaútgáfu, til listaverkakaupa og til stuðnings vissra náttúrurannsókna.

Það er ekki með öllu vansalaust, að ekki skuli vera til sérstök löggjöf um stofnun eins og listasafnið. Þess vegna var það, að ég í ársbyrjun 1957 fól nokkrum mönnum að gera drög að frv. fyrir safnið, þeim Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra, Birni Th. Björnssyni listfræðingi, Gunnlaugi Scheving listmálara og dr. Gunnlaugi Þórðarsyni stjórnarráðsfulltrúa, ásamt Selmu Jónsdóttur umsjónarmanni listasafnsins. Þetta frv., sem hv. Ed. hefur nú afgreitt með shlj. atkv., er upphaflega samið af þessari n. Nokkrar minni háttar breytingar voru gerðar á tillögu n. í menntmrn. á sínum tíma, og að till. hv. menntmn. Ed. hafa enn verið gerðar smávægilegar breytingar á frv. Aðalatriði þess eru þau, að í 1. gr. er svo kveðið á, að menningarsjóður skuli greiða listasafninu árlega a.m.k. 500 þús. kr. af tekjum sínum til listaverkakaupa, en það er mun hærri upphæð en menntamálaráð hefur varið undanfarin ár í þessu skyni. Í 2. gr. er síðan kveðið á um hlutverk safnsins, og er ástæðulaust að lýsa því nánar, sem þar er greint.

Í 4, og 5. gr. er kveðið á um yfirstjórn safnsins. Er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi safninu forstöðumann, safnvörð og annað nauðsynlegt starfslið, þegar fé er veitt í því skyni í fjárlögum, en yfirstjórn safnsins skal vera í höndum safnráðs, fimm manna, sem sé þannig skipað, að forstöðumaður safnsins skal vera sjálfkjörinn í safnráðið og formaður þess, listamenn skuli kjósa úr sínum hópi eftir vissum reglum þrjá fulltrúa í safnráðið, en eins og frv. er nú komið frá hv. Ed., er gert ráð fyrir því, að menntmrh. skipi fimmta manninn í safnráð. Í upphaflega stjórnarfrv. var í samræmi við tillögu n., sem samdi það á sínum tíma, gert ráð fyrir því, að fimmti maðurinn skyldi vera valinn af heimspekideild háskólans, þangað til kennsla í listsögu sé hafin í háskólanum, en þá skuli kennarinn í þeirri grein eiga sæti í safnráðinu. Hv. Ed. þótti hins vegar réttara að breyta þessu ákvæði í það horf, að ráðh. skipi fimmta manninn. Gert er ráð fyrir því, að safnráðið taki allar helztu ákvarðanir, sem safnið varða, þ. á m. ákvarðanir um listaverkakaupin, og að safnráðið taki sinar ákvarðanir með meiri hluta atkv. Þó er gert ráð fyrir því, að ef formaður safnráðsins, þ.e. forstöðumaður safnsins, er ekki í þeim meiri hluta, verði allir hinir fjórir að vera sammála, til þess að ákvörðun sé gild. Með þessu móti eru forstöðumanni safnsins og formanni safnráðsins tryggð mest áhrif á gerðir safnráðsins og sérstaklega val listaverkanna. Ef hann er slíkri ákvörðun andvígur, verða hinir fjórir að vera sammála, til þess að ákvörðunin sé gild. Hv. Ed. hefur einnig bætt inn í frv. ákvæði um það, að ef ágreiningur verði á milli formanns safnráðsins, þ.e. forstöðumanns safnsins, og hinna 4 nm., þá eigi hvor aðili um sig rétt á því að gera grein fyrir þessum ágreiningi og bóka hann og vísa honum til menntmrh. til úrskurðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um efni frv. að öðru leyti. Þess má þó geta, að í 13. gr. er gert ráð fyrir því, að sérstakt hús verði reist yfir safnið, þegar nægilegt fé er veitt til þess á fjárlögum eða á annan hátt. Alþingi samþykkti fyrir tveimur árum lög um byggingarsjóð Listasafns Íslands. Stofnframlag hans var það fé, sem Alþ. hafði veitt til þess að reisa hús yfir verk Jóhannesar Kjarvals listmálara. Hann afþakkaði það boð Alþingis og mæltist til þess, að það fé, sem Alþingi hafði þegar veitt til byggingar húss yfir sín verk, skyldi ganga sem stofnframlag til byggingarsjóðs yfir listasafn ríkisins, og samþykkti Alþingi þá með shlj. atkv. frv., þar sem byggingarsjóður listasafnsins var stofnaður. Síðan hefur Alþ. veitt árlega 1/2 millj. kr. í þennan byggingarsjóð. Hann er hins vegar ekki orðinn svo gildur enn, að hægt sé að hefjast handa um byggingu safnsins með því fé, sem í honum er. Ef þetta frv. nær fram að ganga og safninu er með því fenginn lagagrundvöllur til þess að starfa á og tryggð myndarleg fjárupphæð, a.m.k. 1/2 millj. kr. á ári, til listaverkakaupa árlega, tel ég næsta verkefnið í málefnum safnsins vera að huga að möguleikum til þess að afla byggingarsjóðnum aukins fjár, þannig að hægt sé sem fyrst að hefja byggingu listasafnsins. Þar sem það er nú til húsa, í efstu hæð í þjóðminjasafnsbyggingunni, er þegar farið að verða of þröngt um þau listaverk, sem safnið á. Ég hygg þó, að ekki sé rétt að blanda saman annars vegar lagasetningu um safnið og því að tryggja safninu tekjur til árlegra listaverkakaupa og svo hins vegar byggingarmálum safnsins, en vildi þó láta þess getið, að ég tel það ekki mega dragast lengur að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla nægilegs fjár í byggingarsjóðinn, þannig að hægt verði að hefjast handa um byggingu yfir safnið.

Ég vil mega vænta þess, að jafngott starf takist í hv. menntmn. þessarar d. og tókst í menntmn. hv. Ed., þannig að það megi takast að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.