10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

9. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið, eins og segir í grg., samið í iðnmrn., og hefur verið haft samráð við þá aðila, sem málið helzt snertir. Iðnn. hefur að auki fengið um frv. umsagnir margra aðila, svo sem greint er frá í nál. n. á þskj. 453. Allir þessir aðilar mæla efnislega með frv. og telja það vera til mikilla bóta að fá lögfesta þá starfsemi til þjálfunar verkstjórum, sem frv., gerir ráð fyrir.

Í umsögnunum koma hins vegar fram ýmsar aths., eins og að sjálfsögðu alltaf vill verða, þegar um slíkt mál er að ræða, þar sem hér er um nýja starfsemi að ræða, á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Allir þessir aðilar leggja þó ríka áherzlu á nauðsyn þess, að komið sé á sem beztri þjálfun verkstjóra, en telja ýmsir, að þó að þetta sé mjög gott skref í þá átt, þá sé æskilegt að ganga í framtíðinni enn lengra. Það er t.d. í umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna bent á, að það væri æskilegt að stefna að því síðar að koma á sérstökum skóla, og af fleiri aðilum er tekið fram, að það gæti verið mjög æskilegt í framtiðinni, að hér kæmi teknískur skóli í framhaldi af þessum námskeiðum. Það er vitanlega framtíðarinnar mál, og á þessu stigi er ekki hægt að fara að lögfesta slík ákvæði.

Aths. hafa komið fram bæði varðandi stjórn stofnunarinnar, sem auðvitað er alltaf töluvert mikið vandamál, þar sem margir aðilar koma við sögu, og enn fremur varðandi inntökuskilyrði á námskeiðin. Ákvæði um stjórn stofnunarinnar er í frv. sett eftir vandlega athugun og samráð milli þeirra aðila, er málið skipta, og ekki talið auðið að gera þar breyt. á, á þessu stigi málsins a.m.k.

Varðandi 3. gr. frv., um inntökuskilyrði á námskeiðin, þá er það skoðun flestra þeirra aðila, sem umsögn hefur verið fengin frá, að það sé ekki heppilegt að ákveða þau í lögunum, svo sem gert er ráð fyrir í 3. gr., heldur verði þau ákveðin eftir nánari athugun í reglugerð, og það er till. iðnn., að sú breyt. verði gerð á 3. gr., að í stað hinna tilteknu inntökuskilyrða, sem þar eru, verði það almenna ákvæði sett, að ráðh. ákveði með reglugerð inntökuskilyrði á námskeiðin.

Það er ekki ástæða til þess að orðlengja frekar um málið. Í grg. frv. koma fram skýringar á mikilvægi þess, og allir aðilar, sem umsagnar hefur verið leitað hjá, telja, að með því sé stigið mjög stórt spor í þá átt að koma þessum málum í viðhlítandi horf. Það er samdóma álit iðnn. að mæla með því, að frv. verði lögfest. Iðnn. sjálf flytur ekki nema þessa einu brtt. við frv. Hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða styðja brtt., sem fram kynnu að koma, svo sem nál. ber með sér.