10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

9. mál, verkstjóranámskeið

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta frv. er sennilega mjög tímabært og verðskuldar að fá fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Verkmenning okkar Íslendinga þykir ekki standa á sérlega háu stigi, og það, sem þetta frv. fjallar um, ætti að verða spor í þá átt að bæta úr þeim ágöllum, sem hjá okkur eru í þessu efni. Frumvörp hafa áður verið lögð fram á Alþingi í sömu átt. Segir í aths., að það hafi þrívegis verið lögð fram frv. sömu tegundar, fyrst árið 1939, síðan árið 1950 og loks árið 1959, en ekki orðið að lögum.

Frv., sem síðast var hér á ferðinni, árið 1959, er að ýmsu leyti samhljóða því, sem nú liggur fyrir, en þó hefur nokkrum atriðum nú verið sleppt, og þar á meðal eru þau atriði, sem ég vildi minnast á hér.

Eins og frv. ber með sér, stendur til að gera allmiklar kröfur til þeirra manna, sem sækja þessi námskeið og ljúka þar prófi. Samkvæmt 3. gr. frv. eru inntökuskilyrði ákveðin og það allströng. Að vísu gerir hv, iðnn. þá brtt., að þessi inntökuskilyrði verði ákveðin með reglugerð, en vitanlega verða einhver inntökuskilyrði. Þar við bætist svo, að próf skulu haldin og skýrslur um prófin síðan skráð í bækur, sem rn. löggildir til þess.

Í frv. frá 1959 var sérstök grein um það, að hver sá, sem staðizt hefði verkstjórapróf, ætti rétt á að fá skírteini á eyðublaði, sem rn. léti í té. Þetta er fellt burt nú. Hvort það ber að skilja á þann veg, að ætlunin sé, að þeir, sem prófi hafi lokið, eigi ekki rétt á að fá skírteini, veit ég ekki, en það, að þessu ákvæði er nú sleppt úr frv., gæti þó bent til þess. Þetta finnst mér í meira lagi athugunarvert, og vil ég því vekja á þessu athygli, hvort það sé ætlunin, að þeir menn, sem prófi ljúka, eigi ekki rétt á að fá skírteini.

Annað ákvæði í frv. frá 1959, sem sleppt er nú, er um réttindi þeirra manna, sem prófi ljúka. Í frv. frá 1959 var sérstök grein þess efnis, að verkstjórar, sem lokið hefðu prófi, og verkstjórar, sem starfandi eru, þegar lögin öðluðust gildi, og starfað hefðu þá sem verkstjórar a.m.k. 12 mánuði á síðustu þremur árum, skyldu að öðru jöfnu ganga fyrir um verkstjórn í sömu starfsgrein í opinberri vinnu. M.ö.o.: þá átti að veita þeim, sem lokið hefðu tilskildu prófi, nokkur réttindi. Þetta ákvæði er algerlega fellt niður í frv., eins og það nú liggur fyrir. Er þetta sanngjarnt: fyrst að gera sérstök og kannske allströng inntökuskilyrði til námskeiðanna um menntun og annan undirbúning, síðan að heimta svo og svo ströng próf, en veita síðan engin réttindi? Ég vil benda á, að til eru lög um skóla og um námskeið. Í öllum þessum lögum eru þeim, sem prófi ljúka, veitt réttindi. Það er í fyrsta sinn nú, að lög verða samþ. um þessi efni þannig, að engin réttindi eru veitt þeim, sem prófi ljúka. Ég skal aðeins minna á, að íþróttakennaraskólapróf veitir réttindi. Þar er um skóla að ræða og þó raunar aðeins um 9 mánaða námskeið. Handíðakennaraskólapróf veitir réttindi. Þar er einnig aðeins um 9 mánaða námskeið að ræða. Mótornámskeið, hið minna og hið meira, veita bæði réttindi, en hér í þessu tilfelli á ekki að veita nein réttindi. Þetta finnst mér ekki sanngjarnt og ekki heppilegt.

Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. við þetta frv. varðandi þessi atriði, sem ég hef nú rætt um. Brtt. eru á þessa leið:

„Á eftir 4. gr. komi tvær nýjar greinar, svo hljóðandi:

1. (5. gr.) Hver sá, sem staðizt hefur verkstjórapróf, á rétt til að fá skírteini. Um prófskírteini og frágang þeirra skal nánar ákveðið í reglugerð.

2. (6. gr.) Verkstjórar, sem lokið hafa prófi, og verkstjórar, sem starfandi eru, þegar lög þessi öðlast gildi, og starfað hafa þá sem verkstjórar a.m.k. 12 mánuði á síðustu þrem árum, ganga að öðru jöfnu fyrir um verkstjórn í sömu starfsgrein í opinberri vinnu.“

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram þessa till. Hún er skrifleg og of seint fram komin, og ég óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.