10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

9. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hér hafa verið lagðar fram tvær skriflegar brtt. við frv. frá hv. 9. þm. Reykv. (AGl).

Varðandi fyrri brtt. er það að segja, að enda þótt það sé ekki beint tekið fram í frvgr., er það algerlega samkvæmt eðli málsins, að nemendur geti fengið skírteini, þannig að það er ástæðulaust að taka það fram. Einmitt ákvæði 5. gr. eru því til tryggingar, að svo sé. Ákvæðin eru beinlínis við það miðuð, að það séu innfærð í bækur öll þau atriði, sem máli skipta um próf umsækjenda, og að það próf sé jafnframt staðfest af prófdómendum og stjórn námskeiðanna. Mér sýnist það liggja algerlega í augum uppi, að nemandi, sem hefur verið á námskeiði, geti hvenær sem er fengið útskrift úr slíkri bók, því að ef svo væri ekki, væru ástæðulaus þessi nákvæmu fyrirmæli um það, að bækur þessar skuli einmitt uppfylla öll þau skilyrði, sem prófbækur uppfylla. Ég hygg, að í ýmsum lögum, þar sem menn gangast undir próf, sé það ekki sérstaklega tekið fram, að nemandi geti átt rétt til eða hann eigi kröfu á því að fá prófskírteini, heldur sé það talið liggja svo í augum uppi, að ákvæði í því efni þurfi ekki. Þetta er nú auðvitað atriði hins vegar, sem skiptir ekki öllu meginmáli, en mér sýnist sem sagt, að brtt. sé þarflaus.

Hin brtt. er aftur efnislegs eðlis, þannig að þar er gert ráð fyrir að breyta allveigamiklu atriði í frv., þ.e.a.s. að veíta verkstjórum, sem verið hafa á námskeiði þessu, sérstök forréttindi. Þessu atriði er breytt frá frv. 1959, og það er beinlínis tekið fram í grg. þessa frv., að þessu efnisatriði sé breytt vegna þess, að ekki þyki vera hér um svo fullkomna menntun að ræða hjá verkstjórum, þó að þetta námskeið verði sett á laggirnar, að það sé auðið að veita slíkan forgangsrétt eins og hér er um að ræða, og það er rétt einnig að taka það fram, að í allmörgum þeirra umsagna, sem komið hafa um málið, er beinlínis varað við því að veita slík réttindi sem gert er ráð fyrir í brtt. Ég hygg þess vegna, að það sé bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að láta þessi námskeið þróast nokkuð og láta reynsluna leiða í ljós, hversu haldgóð þau verða, áður en sett er jafnróttækt ákvæði og hér greinir, að þeir verkstjórar, sem á námskeiðunum eru, skuli beinlínis eiga lagarétt til þess að sitja fyrir öðrum um verkstjórn.

Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að ef námskeið þessi skila góðri raun, sem allar vonir standa til að verði, muni það verða þátttakendum í þeim til mikilla hagsbóta við að fá verkstjórnarstörf, þannig að atvinnurekendur telji sér hag í því að fá slíka verkstjóra til starfa, enda þótt þeim sé ekki veitt slík lagavernd eða lagaréttur, sem brtt. gerir ráð fyrir. Enda þótt hér sé um námskeið að ræða, er þó ekki um formlegan skóla að ræða, og miðað við þær aðvaranir, sem einmitt hafa komið um þetta efni frá ýmsum þeim aðilum, sem reka mjög veigamikinn atvinnurekstur, teldi ég vera mjög varhugavert, að farið yrði á þessu stigi að veita slík réttindi, sem umrædd brtt. gerir ráð fyrir.