15.03.1961
Efri deild: 72. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

9. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. málsins voru fluttar brtt., sem hv. flm. tók aftur til 3. umr. Ég lýsti þá þeirri skoðun, að önnur brtt., sem var um það að veita verkstjórum, sem á námskeiðunum væru, ákveðin forréttindi til starfa, gæti ekki samrýmzt þeirri stefnu, sem mörkuð væri í frv., og mundi ekki geta orðið til góðs, a.m.k. ekki á fyrsta stigi málsins, fyrr en séð verður, hvaða reynsla verður af þessum námskeiðum.

Hin till. hv. 9. þm. Reykv. var þess efnis, að hann lagði til, að sú breyting yrði gerð við 5. gr. frv., að þar yrði beinlínis tekið fram, að nemendur skyldu eiga rétt á að fá prófskírteini, og taldi, að ef það ákvæði yrði ekki tekið inn í greinina, væri vafasamt, að þeir ættu slíkan rétt. Ég lofaði, að það yrði tekið til athugunar milli umr. Að vísu hefur nefndin ekki haldið um það fund, en við nánari athugun málsins kom í ljós, að þessi till. er, svo sem ég hafði gert ráð fyrir, algerlega óþörf, vegna þess að í 4. gr. frv. er beinlínis gert ráð fyrir, að prófskírteini verði gefin út, því að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra setur ákvæði um það með reglugerð, að fengnum till. Verkstjórasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Iðnaðarmálastofnunar Íslands, hvaða námsgreinar skuli kenna og hverjar prófkröfur skuli vera, svo og um það, hvernig kennslu, prófi, einkunnagjöf og útgáfu prófskírteina skuli hagað, um skólagjöld og annað“ o.s.frv.

Með orðalagi þessarar greinar er beinlínis tekið fram, að það sé gert ráð fyrir því, að prófskírteini séu gefin út, en hins vegar, í stað þess að ákveða það í lögunum sjálfum, skuli form þessara skírteina ákveðið með reglugerð, eins og svo mörg önnur atriði frv. Og einmitt vegna þess, að hér er um byrjunarframkvæmd að ræða, þar sem er ekki við neina reynslu að styðjast, hefur það komið fram, eins og ég gat um við 2. umr. málsins, að flestir þeir aðilar, sem umsagnir hafa sent um málið, hafa einmitt lagt til, að það verði aukin þau ákvæði í frv., sem sett verði með reglugerð, en ekki beinlínis endanlega settar reglur um í lögunum sjálfum, svo sem t.d. um inntökuskilyrðin í 3. gr. frv., sem eru að sjálfsögðu veigamikil atriði. Það er þá ekki síður eðlilegt, enda mun það vera sú algilda regla við allt nám og skólahald, að það sé ákveðið í reglugerð, en ekki lögunum sjálfum, hvernig hagað sé útgáfu prófskírteina. Af því að till. hv. 9. þm. Reykv. kom fram undir umr. um málið, hafði ég ekki athugað þetta ákvæði í 4. gr., en mér sýnist, eftir að það hefur verið athugað, og vona, að hann geti einnig á það fallizt, að þetta sé svo skýrt sem verða má og það væri í rauninni mjög óeðlileg lagasetning, ef yrði svo farið að taka það fram í annarri lagagrein, að nemendur skyldu eiga rétt á prófskírteinum.