09.12.1960
Neðri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

128. mál, alþjóðlega framfarastofnunin

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ísland er aðili að Alþjóðabankanum í Washington og hefur verið það, frá því að ákveðið var að stofna hann árið 1944, en hann hefur starfað siðan 1946. Starfsemi þessa banka hefur verið mjög mikil. Hann hefur veitt mörg og stór lán, einkum til rafveitna, samgangna, áveitna og þungaiðnaðar víða um heim. Hann hefur m.a. veitt talsverð lán hingað til Íslands. Enda þótt starfsemi bankans hafi verið víðtæk, hafa lán hans þó yfirleitt verið takmörkuð við greiðslu erlends kostnaðar við þær framkvæmdir, sem bankinn hefur á annað borð lánað til, og hafa að ýmsu leyti gilt allstrangar reglur um þessar lánveitingar. Þess vegna hafa á síðustu árum verið uppi raddir um það, að æskilegt væri, að á hinum alþjóðlega lánamarkaði ættu ýmis lönd, sem skammt eru á veg komin í efnahagsþróun sinni, völ á lánum, sem væru ekki með jafnströngum skilyrðum og þeim, sem Alþjóðabankinn setur fyrir sínum lánum, m.a. að lánað væri einnig að einhverju leyti til greiðslu á innlendum kostnaði við framkvæmdirnar, sem lán eru veitt til. Hefur verið um það rætt að koma upp annarri alþjóðlegri lánastofnun við hlið Alþjóðabankans, sem hafi þetta hlutverk með höndum.

Á næstsíðasta aðalfundi Alþjóðabankans í Washington, sem var haldinn í september árið 1959, var ákveðið að koma á fót nýrri stofnun, sem hlaut nafnið Hin alþjóðlega framfarastofnun, í þessu skyni, og var ákveðið, að hlutafé þessarar nýju stofnunar skyldi vera 1000 millj. dollara, og öllum aðildarríkjum Alþjóðabankans gefinn kostur á að verða stofnendur þessa nýja banka. Ef Ísland gerist aðili að þessari stofnun, mundi hlutur íslenzka ríkisins í hlutafé hennar verða 100. þús. dollarar, og bæri að greiða af því í erlendum gjaldeyri 10 þús. dollara á fimm árum. En 90 þús. dollarar skulu greiddir í innlendum gjaldeyri og leggjast á reikning stofnunarinnar hjá Seðlabankanum.

Með þessu frv. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að gerast aðili að þessari nýju alþjóðlegu lánastofnun. Virðist vera sjálfsagt, þegar af þeirri ástæðu, að Ísland er aðili að Alþjóðabankanum og ekki er annað vitað en öll aðildarríki Alþjóðabankans verði einnig aðilar að þessari nýju stofnun, að Ísland verði það líka. Alveg eins og Ísland hefur fengið lán hjá Alþjóðabankanum og haft tvímælalausan hag af því að vera þar aðildarríki, ætti Ísland einnig að geta haft skilyrði til þess að fá lán hjá þessari nýju stofnun, og er því rétt að skapa nauðsynlegan grundvöll til þess með því að gerast stofnaðili að henni. En ef Ísland á að vera stofnaðili, þarf það að gerast fyrir áramótin næstu, og af þeim ástæðum er æskilegt, að þetta frv. hljóti afgreiðslu, áður en alþingismenn fara í jólaleyfi.

Ég óska þess, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.