21.02.1961
Efri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

128. mál, alþjóðlega framfarastofnunin

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að gerast aðili að nýrri alþjóðlegri fjármálastofnun, eins konar nýjum alþjóðabanka. Í því er enn fremur gert ráð fyrir því, að stjórninni verði heimilað að taka lán í Seðlabankanum, sem jafngildi 100 þús. dollurum, til þess að standa straum af framlögum Íslands til stofnunarinnar, en 10% af þessu framlagi á að greiðast í erlendum gjaldeyri, gulli, en 90% má greiða í íslenzkum krónum.

Það var árið 1944, sem fjölmörg ríki, ýmis þau helztu, sem þá stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar, stofnuðu einnig alþjóðabanka og alþjóðagjaldeyrissjóð, hvort tveggja í því skyni að stuðla að endurreisn heimsins úr rústum styrjaldarinnar.

Alþjóðabankinn tók til starfa árið 1946 og hefur síðan haft aðsetur í Washington. Hann hefur verið mjög aðsópsmikill og veitt stórfé til framkvæmda í flestum þeirra ríkja, sem gerðust aðilar að Alþjóðabankanum, en þau eru nú 68 að tölu.

Mestur hluti þess fjár, sem Alþjóðabankinn hefur lánað, hefur farið til rafveitna, til vegalagninga, til áveitna og til þungaiðnaðar í öllum heimsálfum, og fé það, sem hann hefur lánað, hefur hann lánað með þeim kjörum, sem gilt hafa á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, bæði að því er snertir vexti og lánstíma. Það hafa hins vegar löngum verið uppi þær skoðanir, að æskilegt væri, að til væri við hlið Alþjóðabankans stofnun, sem gæti veitt vanþróuðum löndum lán með nokkru rýmri skilmálum en Alþjóðabankinn hefur getað veitt, fyrst og fremst af því, að fé það, sem hann hefur haft til útlána, hefur fyrst og fremst verið fengið á verðbréfamarkaðinum í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Samkvæmt reglum Alþjóðabankans hafa lán hans fyrst og fremst verið fyrir erlendum kostnaði við þær framkvæmdir, sem hann hefur lánað til, með örfáum undantekningum að vísu. Það hefur einnig þótt vera heppilegt, að til væri við hlið Alþjóðabankans lánastofnun, sem einnig gæti lánað til greiðslu þess innlenda kostnaðar, sem þær framkvæmdir, sem á annað borð væri lánað til, hefðu í för með sér. Af þessum sökum hefur það alllengi verið á döfinni að koma upp slíkri alþjóðlegri lánastofnun, í grundvallaratriðum hliðstæðri Alþjóðabankanum, en þó þannig, að hún gæti, ef svo sýndist, lánað með nokkru vægari kjörum en Alþjóðabankinn verður að lána, og einnig með nokkru rýmri lánsskilmálum, einkum að því er það snertir, að lánsféð megi einnig ganga til greiðslu innlends kostnaðar við framkvæmdirnar, og hefur þá verið gert ráð fyrir því, að slík lán færu fyrst og fremst til vanþróaðra landa.

Á næstsíðasta aðalfundi Alþjóðabankans, sem haldinn var í Washington í september 1959, var samþykkt, að bankinn skyldi beita sér fyrir stofnun slíkrar fjármálastofnunar, sem þá skyldi hljóta nafnið Hin alþjóðlega framfarastofnun. Það var samþykkt með samhljóða atkvæðum allra 68 aðildarríkja Alþjóðabankans, og var í samþykktinni ákveðið, að bankinn skyldi teljast stofnaður, þegar þátttakendur hefðu skrifað sig fyrir 2/3 hlutum hlutafjárins, en það átti að vera 1000 millj. dollara. Í september s.l., 1960, höfðu ríki þegar skrifað sig fyrir 2/3 hlutum af þessum 1000 millj. dollara, og var því þeirri forsendu í samþykkt aðalfundar Alþjóðabankans fullnægt, að þessi stofnun teldist stofnuð og gæti tekið til starfa.

Það er gert ráð fyrir því, að öll aðildarríki Alþjóðabankans geti orðið aðildarríki að þessari nýju fjármálastofnun, Hinni alþjóðlegu framfarastofnun. Ísland hefur verið aðili að Alþjóðabankanum allt frá stofnun hans 1944, og þykir því ríkisstj. vera einsætt, að Ísland eigi einnig að gerast aðili að þessari nýju fjármálastofnun, en hún á að vera systurstofnun Alþjóðabankans að öllu leyti og lúta sömu stjórn og sama stjórnarfyrirkomulagi og Alþjóðabankinn lýtur, Ísland á aðild að stjórn Alþjóðabankans og atkvæði um öll hans málefni og mundi því einnig sjálfkrafa öðlast aðild að þessari nýju fjármálastofnun og aðild að stjórn hennar. En hlutur Íslands í stofnuninni mundi verða 100 þús. dalir, og af því á að greiðast 1/10 hluti eða 10 þús. dalir í erlendum gjaldeyri, og það á að greiðast á næstu fimm árum. Hinn hlutinn, 90 þús. dalir, má greiðast í íslenzkum gjaldeyri og má vera innistæða íslenzka ríkisins í Seðlabankanum.

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. Hún afgreiddi málið samhljóða eftir einróma meðmælum hv. fjhn. í þeirri deild. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að málið fái sams konar afgreiðslu hér í hv. Ed., að um það þurfi ekki að reynast neinn ágreiningur. Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjhn., og vil mega beina þeim tilmælum til nefndarinnar, að hún hraði afgreiðslu sinni á málinu eftir föngum.