02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

179. mál, Landsbanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. um Landsbanka Íslands er í nánum tengslum við það frv., sem var til umr. hér áðan, um Seðlabanka Íslands. Í þessu frv. eru fólgin þau ákvæði óbreytt í öllum meginatriðum, sem nú gilda um Landsbanka Íslands, viðskiptabankann. Í frv. er fátt nýmæla og ekkert, sem talizt getur skipta máli um hlutverk eða skipulag Landsbanka Íslands, viðskiptabankans. Það leiðir hins vegar af eðli málsins, að um leið og aðskilnaður er gerður á milli Landsbanka Íslands, seðlabankans og Landsbanka Íslands, viðskiptabankans, er nauðsynlegt að setja sérstök lög, ekki aðeins um seðlabankann, heldur einnig um viðskiptabankann. Þær einar breytingar, nánast orðalagsbreytingar, hafa verið gerðar á gildandi lagaákvæðum um Landsbankann í þessu frv., sem gera orðfæri einfaldara og ákvæði orðfærri en er í gildandi lögum. Um efnisbreytingar er engar að ræða. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr, og hv. fjhn.