10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

179. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er annað af tveimur stjórnarfrumvörpum um Landsbankann, sem ríkisstj. hefur borið fram. Hitt er frv. um Seðlabanka Íslands. Aðalbreytingin, sem þetta frv. felur í sér frá núgildandi lögum, er viðkomandi vali á mönnum í bankaráð Landsbankans. Gert er ráð fyrir að haga því með nokkuð öðru móti en nú er og jafnframt ákveðið að svipta núv. bankaráðsmenn umboði, þó að kjörtími þeirra sé ekki liðinn. Ég tel enga þörf fyrir þessa breyt. á bankalögunum og lít svo á, að hún sé sízt til bóta, og mæli því gegn því, að frv. verði samþykkt.