21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

179. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og grg. frv. þess, sem hér liggur fyrir, ber með sér, hefur það aðallega að geyma tvær efnisbreytingar. Í fyrsta lagi þá, sem leiðir af aðskilnaði seðlabankans og viðskiptabanka Landsbankans. Jafnhliða þeim breytingum, sem nauðsynlegt hefur þótt að gera á landsbankalögunum í tilefni af þessu, hafa lögin um Landsbankann, að því leyti sem þau snerta viðskiptastarfsemi hans, verið samrýmd nýrri lagafyrirmælum um hliðstæða viðskiptabanka, svo sem þeim, sem gilda um Útvegsbanka Íslands og aðra viðskiptabanka, sem nú eru starfandi, en landsbankalögin eru í meginatriðum frá 1927, svo að eðlilegt er vegna þeirrar þróunar, sem síðan hefur átt sér stað, að slíkra breytinga væri þörf. Annað efnisatriðið, sem breytt er með þessum lögum, er ákvæði um kosningu bankaráðs Landsbankans, sem er í samræmi við tilsvarandi ákvæði um kosningu bankaráða annarra ríkisbanka, eins og þegar hefur verið samþ. hér í hv. deild hvað Framkvæmdabankann snertir.

Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar, og mælum við fjórir, sem stöndum að nál. á þskj. 534, með því, að það verði samþ. óbreytt, en einn nefndarmanna, hv. 1. þm. Norðurl. e., tjáir sig frv. andvígan og hefur skilað séráliti á þskj. 540.