09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

183. mál, Útvegsbanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar ég lagði fyrir þessa hv. deild frv. um Seðlabankann og Landsbankann, lét ég þess getið, að bráðlega mundi ríkisstj. leggja fyrir hv. þingdeild frv. til laga um Útvegsbanka Íslands.

Í þessu frv. eru ekki önnur efnisnýmæli en þau, að í 9. gr. eru ákvæði um, hvernig bankaráð skuli skipað, og eru þessi ákvæði að því leyti breyting frá gildandi skipun, að gert er ráð fyrir því, að allt bankaráðið, þ.e. hinir fimm menn, sem það skipa, sé kosið hlutbundinni kosningu af sameinuðu Alþingi, en gildandi regla er sú, að fjórir bankaráðsmenn eru kosnir af Alþ., en einn skipaður af bankamálaráðherra. Í frv. um Seðlabanka og Landsbanka, sem nú liggja fyrir hv. deild, er einmitt gert ráð fyrir þessari skipan á bankaráðum þeirra banka, og er ákvæði þessa frv. til samræmis við það, sem þar er lagt til, og sama gildir um frv. um Framkvæmdabankann. Slík breyting var gerð á skipun bankaráðs Búnaðarbankans á s.l. ári.

Tvær aðrar minni háttar efnisbreytingar eru í þessu frv.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir heimild ráðherra til þess að víkja bankastjóra frá, en hér er gert ráð fyrir því, að bankaráð geti undir víssum kringumstæðum haft slíka heimild, enda er það bankaráðið, sem ræður bankastjórana, en ekki ráðh.

Þá eru tekin af tvímæli um það, hvernig skilja beri ákvæði gildandi laga um það, hvaða aðila innan bankans Fiskveiðasjóður Íslands lúti, en um það hefur verið nokkur ágreiningur, hvort skilja beri ákvæði gildandi laga þannig, að stjórnendur fiskveiðasjóðs séu bankastjórn Útvegsbankans eða bankaráð hans. Í framkvæmd hefur fiskveiðasjóður verið talinn heyra undir bankastjórnina, og er gert ráð fyrir, að þetta atriði verði lögfest þannig.

Að öðru leyti er ekki um efnisbreytingar að ræða, en orðalagi hins vegar á nokkrum stöðum breytt, það gert einfaldara, og þó einkum og sér í lagi er því breytt til samræmis við það, sem á sér stað í frv. um Landsbanka Íslands, sem liggur fyrir þessari hv. deild.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.