19.01.1961
Neðri deild: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð almennt um þetta mál, sem hér hefur verið lagt fyrir.

Ég býst við, að það hafi verið ætlun hæstv. ríkisstj. og þeirra, sem hafa stutt hana, að hún mundi eiga annað erindi við hv. Alþingi tæpu ári eftir að lagt var í hina svokölluðu viðreisn en að flytja frv. um eins konar skuldaskil eða kreppulánastarfsemi fyrir sjávarútveginn. Okkur var þá sagt, að það væri verið að stofna til efnahagskerfis, sem ætti að tryggja, að höfuðatvinnuvegir landsins gætu staðið óstuddir, styrkjalausir, og að ekki þyrfti, þegar því væri á komið, sí og æ að vera að gera nýjar ráðstafanir til stuðnings atvinnuvegunum.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er á hinn bóginn svo augljóslega, að ekki verður um deilt, ein af þeim tilraunum, sem hæstv. ríkisstj. er að gera til þess að ná sjávarútveginum út af því skeri, sem hún hefur stýrt honum á.

Það er einkennilegt, að þetta mál skuli hafa verið gert að bráðabirgðalögum. Hvernig stendur á því, að það eru gefin út bráðabirgðalög í þinghléinu um þetta mál, sem óneitanlega er stórmál, og þau eru gefin út 5. janúar? Hvers vegna eru þessi bráðabirgðalög gefin út? Hvers vegna var ekki hægt að setja þessi lög með venjulegum hætti á Alþingi? Ekki eitt einasta orð í ræðu hæstv. ráðherra fyrir málinu var til þess að útskýra þetta. Lá svona mikið á að setja þessa löggjöf? Og ef það lá svona mikið á að setja þessa löggjöf, hvernig stóð þá á því, hvaða ástæður lágu til þess, að svona mikið lá á að setja löggjöfina einmitt þennan dag, 5. janúar? Er kannske byrjað að veita þessi lán? Er þetta lánakerfi komið í gang? Fór það í gang 6. jan., lögin eru gefin út 5. jan., — eða 7. jan.? Er það komið í gang? Nei, það hefur enginn enn þá fengið nokkra aðstoð samkvæmt þessari löggjöf, og það er ekki einu sinni núna, þegar þingið er komið saman, búið að gefa út reglugerðina samkvæmt þessari löggjöf. Það er ekki búið að gefa út reglugerðina, og það er fyrst nú í framsöguræðu hæstv. viðskmrh., sem hv. alþm. og þjóðin fær hugmynd um ýmsa þýðingarmestu þætti þessa máls, sem alls ekki er að finna í sjálfum bráðabirgðalögunum.

Þannig horfir þetta við um málsmeðferðina. En hvernig stóð þá á því, að um þetta voru sett bráðabirgðalög? Vill ekki hæstv, ráðherra skýra þá nauðsyn, sem á því var, og í hverju hún liggur málefnalega séð, því að ég vænti, að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstj. þekki ákvæði stjórnarskrárinnar um bráðabirgðalög, að það á ekki að gefa út bráðabirgðalög, nema sérstaklega brýna nauðsyn beri til? Það verða að vera sterkar og þýðingarmiklar ástæður fyrir því, að bráðabirgðalagaheimild stjórnarskrárinnar sé notuð. Hverjar voru hinar knýjandi ástæður til þess að gefa út bráðabirgðalög um þetta efni 5. jan., en hreyfa síðan hvorki hönd né fót til þess að gefa út reglugerð eða gera aðrar ráðstafanir til þess, að nokkur aðili geti fengið nokkra aðstoð eða stuðning samkvæmt þessari löggjöf, alveg fram til þessa dags?

Eða var þetta, að gera þetta með bráðabirgðalögum, kannske bara einn liðurinn i því að reyna að ná sjávarútveginum af skerinu? Var kannske málsmeðferðin sjálf líka einn þátturinn í því að reyna að ná sjávarútveginum af skerinu, sem hæstv. ríkisstj. hefur siglt honum á? Og hvernig kemur það heim og saman við þá meginstefnu, sem ríkisstj. sagðist hafa, sem sé þá, að koma þannig hag og aðstöðu höfuðatvinnuveganna, að það þyrfti engin afskipti af þeim af ríkisvaldsins hendi, þar gæti allt gengið öruggt og tryggilega? Ég skora enn á hæstv. ráðherra að færa greinagóð rök fyrir því, hvers vegna þessi löggjöf var gerð að bráðabirgðalögum.

Við sjáum, að hér eru ráðgerð eins konar skuldaskil fyrir sjávarútveginn, og hæstv. ráðherra tindi fram nokkrar ástæður, sem hann sagði að væru fyrir því, að nú þyrfti að grípa til þessara ráðstafana. Ég skal ekki rekja þær ástæður, sem hann færði fyrir því, lið fyrir lið eða hverja fyrir sig, en ég ætla að bregða upp mynd af þessu máli, eins og ég býst við að hún blasi við hverjum þeim manni, sem er kunnugur því, sem hér hefur gerzt á undanförnum mánuðum, um ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum.

Það er nú öllum kunnugt, að þegar núverandi valdasamsteypa tók við, var sjávarútvegurinn rekinn með blóma, það má víst nærri segja: með óvenjulegum blóma, og ákaflega örar framfarir voru þá í sjávarútvegsmálum, eins og m.a. sést á þeim glæsilega fiskiflota, sem þá kom til sögunnar og var að koma til landsins raunar löngu eftir að núverandi valdasamsteypa tók við.

En það náðist ekki samkomulag þá um að stöðva dýrtíðarskrúfuna, og vegna þess komst núverandi valdasamsteypa til valda, náði völdum í landinu, náði tökum á málefnum landsins. Þá var efnt til algerrar stefnubreytingar í efnahagsmálum, eins og alkunnugt er, og stefnubreytingin var fólgin í því að gera allt í senn: lækka gengi íslenzkrar krónu stórkostlega, leggja gífurlegar nýjar álögur á þjóðina, hækka vextina og gera þá hærri og þungbærari en í nokkru öðru nálægu landi og draga stórkostlega saman alla lánastarfsemi í landinu. Allar þessar ráðstafanir samanlagðar gátu aldrei haft minni áhrif en sem nam yfir 1000 millj. kr. til hækkunar á verðlagi í landinu, samanborið við óbreytt viðskipti, eins og þau voru fyrir þessar breytingar. Það var þegar augljóst fyrir fram og margsagt, að óhugsandi var, að framleiðslan gæti staðizt þessar ráðstafanir. Bara vaxtahækkunin ein nam hjá mörgum fyrirtækjum sem svaraði 15–20% af því kaupgjaldi, sem fyrirtækin greiddu, — bara vaxtahækkunin ein nam slíkum fjárhæðum, og því var meira að segja lýst yfir af þeim, sem fyrir þessu stóðu, að það væri ekki neitt gert ráð fyrir þessum vaxtahækkunum, þegar gert var upp, hvernig þessar ráðstafanir mundu verka á framleiðsluna í landinu. Það var sérstaklega tekið fram, að vaxtahækkunin væri ekki tekin með inn í það dæmi. En hún nam svona gífurlegum fjárhæðum fyrir framleiðsluna, eins og ég var að gera grein fyrir. Þetta var sett ofan á þá gífurlegu verðhækkun, sem átti sér stað á öllum rekstrarvörum framleiðslunnar og á öllum vörum í landinu yfirleitt vegna gengislækkunarinnar og hinna nýju álaga.

Ofan á þetta bættist svo, að ríkisstj. lýsti því yfir, að nú ætti að taka upp nýja stefnu í útlánum, það hefði allt of mikið verið lánað út í landinu, og því var lýst yfir í grg. fyrir viðreisninni, að útlánaaukningin í heild mætti ekki verða meiri en 200 millj. kr., það hafði ríkisstj. reiknað út. Auðvitað var þetta ekki minnsta fásinnan af öllu því, sem þá var haldið fram um þessi mál, þegar þess var gætt, að allt verðlag og allur framleiðslukostnaður var stórhækkaður frá því, sem hann hafði áður verið. Því var sem sé lýst yfir, að það ætti að draga svo saman útlánin í landinu með tilstyrk Seðlabankans, að útlánaaukningin ætti að verða minni en hún hefur verið á undanförnum árum, þrátt fyrir stórkostlegum mun hærra verðlag og meiri framleiðslukostnað, enda varð náttúrlega reynslan fljótlega sú, að það sýndi sig í framkvæmd, hvílík fásinna þetta var. Langflest framleiðslufyrirtæki landsins hefðu stöðvazt þegar s.l. vor, ef ríkisstj. hefði treyst sér til eða reynt að framkvæma þessa yfirlýsingu sína eins og hún lá fyrir. Þess vegna varð auðvitað að brjóta þessa áætlun. En samt sem áður voru útlánin dregin stórkostlega saman. Seðlabankinn var látinn endurkaupa minna af afurðavíxlum en nokkru sinni áður, endurkaupin voru sem sé dregin stórkostlega saman, og viðskiptabönkunum var svo ætlað að bæta við nokkrum lánum, til þess að allt stöðvaðist ekki.

Niðurstaðan af þessu öllu saman var svo orðin sú í haust, að sjávarútvegsfyrirtækin voru algerlega stöðvuð og komin í greiðsluþrot í stórhópum. Þá var það, sem hæstv. ríkisstj. fór til viðskiptabankanna í landinu og bað þá um að auka lánin, bað þá um að brjóta þá stefnu eða þær yfirlýsingar, sem ríkisstj. hafði fyrir fram gert um útlánastefnuna, — bað þá um að brjóta þessar reglur, bað þá um að auka útlánin til fyrirtækjanna og þá með það fyrir augum, að ríkisstj. mundi síðar gera ráðstafanir til útlánaaukningar, sem gætu að einhverju leyti komið bönkunum til góða, ef þeir ykju útlánin s.l. haust til þess að koma í veg fyrir algera stöðvun sjávarútvegsins þá þegar.

Þannig var búið að þjarma að með ráðstöfunum ríkisstj. til þess að auka rekstrarútgjöldin, með vaxtahækkuninni og með lánasamdrættinum, að ríkisstj. varð þá strax að fara að gera þessar ráðstafanir, til þess að framleiðslan stöðvaðist ekki. Þá varð að gera fleiri ráðstafanir til þess að bæta upp þau mistök, sem hæstv. ríkisstj. hafði staðið fyrir. Það varð að gera ráðstafanir til þess að greiða öll vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans, og það varð að gera ráðstafanir til þess að útvega sjávarútveginum gjaldfrest á afborgunum af föstum lánum, það varð að gera sérstakar ráðstafanir varðandi uppbætur úr hlutatryggingasjóði vegna síldarútgerðarinnar, og það varð að gera sérstakar ráðstafanir vegna lána út á síldarnætur. Allar þessar ráðstafanir hefur ríkisstj. verið að gera í haust, smátt og smátt, til þess að reyna að koma sjávarútveginum út af því skeri, sem viðreisnin hefur komið honum á.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er síðasta og nýjasta skrefið, sem hæstv, ríkisstj. hefur stigið í þessu efni. Það er sagt, að þetta lánakerfi, sem nú á að setja upp, sé sett upp vegna þess, að sjávarútvegurinn hafi fengið of lítil stofnlán á undanförnum árum. Ég skal ekki fara mjög út í það. En hitt vita allir, að þetta kerfi er auðvitað fyrst og fremst sett upp vegna þess, hve ráðstafanir núv. ríkisstj. hafa reynzt sjávarútveginum gersamlega óbærilegar, hafa haft í för með sér rekstrarhalla á því ári, sem nú er að líða, og stóraukna rekstrarfjárþörf, sem ríkisstj. ætlaði sér að mæta með því að draga stórkostlega saman lánveitingar til sjávarútvegsins, því að það voru yfirlýsingar hennar í fyrra. Þær voru um, að það skyldi mæta stóraukinni rekstrarfjárþörf sjávarútvegsins með því að draga stórkostlega saman lánveitingar til útvegsins.

Það er því verið með þessu fyrst og fremst að mæta þeim stórkostlegu búsifjum, sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir vegna ráðstafana hæstv. ríkisstj., afleiðingunum af efnahagslöggjöfinni, sem voru alveg fyrirsjáanlegar og varað var við hér í fyrravetur og forráðamenn sjávarútvegsins hafa bæði fyrr og síðar varað við og bent á.

En ríkisstj. barði höfðinu við steininn í þessu efni í fyrravetur og fram eftir árinu, barði höfðinu við steininn, en hefur síðan orðið vitanlega, til þess að ekki yrði allsherjarstöðvun til frambúðar, að gera þessar neyðarráðstafanir, sem ég hef verið að lýsa, en allar ganga þveröfugt á þá stefnu, sem ríkisstj. lýsti yfir í fyrravetur. Þær eru því allar samanlagt og hver út af fyrir sig yfirlýsingar um, hve gersamlega hefur mistekizt sú tilraun, sem hæstv. ríkisstj. taldi sig vera að gera til þess að koma málum hér á heilbrigðari grundvöll en áður var.

Hæstv. ríkisstj. er þetta auðvitað ljóst, og hún er ákaflega mædd, eins og gefur að skilja, yfir þeirri ömurlegu reynslu, sem á þessu tæpa ári hefur orðið af þessum ráðstöfunum. Og það er ekki nema mannlegt og skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj. sé mædd yfir þessu. Hún vill kenna öllu mögulegu öðru um, og það eru sendir menn út af örkinni við öll hugsanleg tækifæri til þess að segja mönnum, að þeir erfiðleikar, sem nú sé við að fást, séu ýmist gamlar leifar, frá því áður en þessi valdasamsteypa tók við, eða þá vegna óviðráðanlegra ástæðna.

En hverjar eru staðreyndirnar í þessum efnum? Staðreyndirnar eru þær, að afli bátaflotans á þorskveiðum hefur verið óvenju góður s.l. ár. Togararnir öfluðu mjög illa, það vitum við. En það er ekki hægt að kenna aflaleysi á togurum um, hvernig komið er hag bátaútvegsins og fiskiðjuveranna. Síldarafli var á s.l. sumri sá mesti, sem hér hefur orðið, utan einu sinni á s.l. 16 árum. Verðlag á sjávarafurðum, mjöli og olíu var lágt og lækkandi framan af árinu og á siðari hluta ársins 1959. En því er lýst yfir berum orðum í grg. efnahagsmálafrv. frá í fyrra, að það sé orðin veruleg verðlækkun á þessum vörum og þeim, sem hafi reiknað dæmið fyrir hæstv. ríkisstj., sé þessi verðlækkun ljós og það sé gert ráð fyrir henni, ráðstafanir til þess að mæta henni séu innifaldar í þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu.

Þessi málflutningur hæstv. ríkisstj. er því gersamlega vonlaus undanbrögð, enda getur hver maður sagt sér sjálfur, að það var óhugsandi, að sjávarútvegurinn eða nokkur annar íslenzkur atvinnuvegur gæti staðizt þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir í fyrravetur. Það var alveg óhugsandi, að það væri hægt að hækka framleiðslukostnaðinn svo gífurlega sem þá var gert og vextina og draga jafnframt stórkostlega saman allar lánveitingar, eins og lagt var út í, en hæstv. ríkisstj. hefur orðið að hopa frá að verulegu leyti, en þó alltaf of seint, þannig að tjónið hefur orðið.

Það er ekki hægt að segja annað en ráðstafanir þær, sem gerðar voru nú um áramótin til þess að draga nokkuð úr vaxtaokrinu, sem hæstv. ríkisstj. innleiddi, gangi í rétta átt, og það verður einnig að segja, að þær ráðstafanir, sem ganga í þá átt að auka lánveitingar til sjávarútvegsins, ganga líka í rétta átt. Það er verið að stiga skref til baka frá því, sem hæstv. ríkisstj. hafði ætlað sér. En þessi skref eru stigin of seint. Það er búið að verða óbætanlegt tjón að hinum fávíslegu ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. í vaxtamálum og lánamálum framleiðslunnar og almennings í landinu, og auk þess þýðir ekki að stíga í þessu nein hálf skref, eins og hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, heldur þarf t.d. að lækka vextina nú þegar niður í það, sem þeir voru, og taka upp heilbrigða útlánapólitík í stað þeirrar samdráttarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir.

Það kalla ég óheilbrigða útlánapólitík og hreinlega miðaða við að búa til kreppu í landinu að minnka stórkostlega lán út á afurðir, eins og hæstv. ríkisstj. hefur leyft sér að gera, því að vitanlega er það ekkert annað en að minnka stórkostlega lán út á afurðir að láta Seðlabankann lána sömu krónutölu út á afurðir og áður, enda þótt verðlag allt hækki stórkostlega í landinu. Það er að búa til kreppu að gera slíka ráðstöfun og fær ekki staðizt.

Þessar ráðstafanir eru þegar búnar að misþyrma mörgum framleiðslufyrirtækjum í landinu og búnar að hafa í för með sér stórkostlegan samdrátt og verkun niður á við í efnahagslífi þjóðarinnar, sem er ekki búið að bíta úr nálinni með, því að það er máske hægara að koma slíkri hreyfingu niður á við af stað en að stöðva hana og snúa henni við aftur. En þessi hreyfing niður á við, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið af stað með þessum margumtöluðu ráðstöfunum, er nú farin að sýna sig á öllum sviðum þjóðlífsins. Hún hefur dregið úr sjálfri framleiðslunni, hún hefur dregið úr atvinnunni, og hún hefur minnkað tekjur heimilanna í landinu, þannig að margir sjá nú engan veginn, hvernig þeir fá hag sínum borgið. Og þessi hreyfing niður á við hefur þegar skert lífskjör þjóðarinnar stórkostlega frá því, sem þau þyrftu að vera. Á þessari hreyfingu niður á við ber hæstv. ríkisstj. og þeir, sem standa að þessum efnahagsráðstöfunum, fulla ábyrgð.

Og nú er þannig komið þessum málum, ekki aðeins í sjávarútvegsmálum, heldur málum yfirleitt, að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur vafalaust sjaldan, ef það hefur nokkurn tíma verið jafngeigvænlegt og það er nú. Við sjáum aðeins sýnishorn af þessu í þeim margvíslegu kreppuráðstöfunum og uppbótaráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. neyðist nú til þess að gera fyrir sjávarútveginn. Það er eitt dæmið. En það eru því miður fleiri hættulegar hliðar á þessu máli, t.d. eins og það, að varla nokkur maður í landinu treystir sér til þess að halda því fram, að það sé hægt að lifa mannsæmandi eða sómasamlegu lífi á verkamannakaupi, eins og nú er orðið, miðað við 8 stunda vinnudag. Að minnsta kosti hef ég engan mann heyrt bera sér í munn, að það sé í raun og veru hægt. Þannig er búið að koma þessum málum. Það er ekki aðeins sjávarútvegurinn, sem býr við þungan kost og stendur á þessu skeri, sem hæstv. ríkisstj. er að reyna að ýta honum út af, heldur blasa hinar ömurlegu afleiðingar af þessari samdráttar- og kjaraskerðingarstefnu hvarvetna við. Og hvernig hugsa menn sér að leysa þennan vanda? Hvernig hugsa menn sér að leysa þessi mál? Hvaða ráðstafanir ætlar hæstv. ríkisstj. að gera til þess að leysa þennan vanda alþýðuheimilanna í landinu?

Nákvæmlega sama er að segja um aðstöðu og afkomu bændastéttarinnar. Þessar ráðstafanir og þessi nýja efnahagsmálastefna hefur þannig hitt bændastéttina, að það er alveg sama að segja um þeirra tekjur og tekjur alþýðustéttanna við sjóinn, það mun varla nokkur maður hafa sig til þess að halda því fram, að þetta geti staðizt til frambúðar og að á slíkum tekjum verði lifað sómasamlegu lífi. Það hefur þegar dregið stórkostlega úr framkvæmdum í sveitunum, eins og upplýsingar hafa verið gefnar um, alveg eins og við sjávarsíðuna.

Það var látið í veðri vaka eða því var haldið fram, þegar verið var að leggja út í þetta, sem ég kalla fásinnu, að það yrði að gera þetta vegna þess, að það hafi verið svo stórkostlegur halli á þjóðarbúskapnum á undanförnum árum. Sjálfur forsrh. lét sér sæma það í fyrra um áramótin að halda því fram, að Íslendingar hefðu eytt um efni fram 1050 millj. á fimm árum og það væri ástæðan til þess, að nú væri verið að gera þessar geigvænlegu ráðstafanir í þjóðarbúskapnum og leggja á menn stórkostlega kjaraskerðingu. En hvernig var þetta dæmi sett upp? Það var sett upp þannig, að þá voru talin til eyðslu um efni fram þau lán, sem tekin höfðu verið til þess að reisa Sogsvirkjunina, áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna og gera fjöldann allan af hliðstæðum framkvæmdum í landinu. Þetta var kallaður eyðsluhalli þjóðarinnar. Þetta var kölluð eyðsla þjóðarinnar umfram efni, sem væri þess valdandi, að innleiða yrði stórkostlega kjaraskerðingu. Og það var sagt, að þessi kjaraskerðing yrði að vera svo rækileg, því að það væri ekki hægt að fá lán til framkvæmda, enda gefið í skyn, að það væri algerlega óheilbrigt að taka slík lán. Nú hefðu menn ekki úr að spila á næstu árum nema aðeins sjálfu útflutningsverðmætinu, hreinum gjaldeyristekjum, engu lánsfé. Þess vegna yrðu menn að búa sig undir þetta, og á þessu væri kjaraskerðingin byggð. Hún væri byggð á því, að menn yrðu að fara að borga aftur til baka skuldirnar. Menn yrðu að taka af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, sem svaraði afborgunum af þeim lánum, sem búið væri að taka. En um lánsfjárinnflutning mættu menn ekki hugsa, menn yrðu að gera sér það ljóst.

Allt voru þetta hreinar blekkingar, eins og við sjáum á því, að ekki var stjórnin fyrr búin að læða þessum ráðstöfunum yfir eða koma þeim á en hún fór að ráðgera stórkostlegar lántökur, og síðast endaði hæstv. viðskmrh. ræðu sína hér áðan með því að lýsa því yfir, að það stæði til að taka stórkostleg erlend lán til þess að byggja upp framleiðsluna í landinu, lýsti yfir, að það yrði mikill innflutningur á erlendu lánsfé. Það voru því hreinar blekkingar, sem þjóðinni var sagt til rökstuðnings fyrir þessum nýju álögum og hinni nýju kjaraskerðingarstefnu, og er margsinnis játað af þeim, sem fyrir þessu standa.

Svo er því bætt við, að nú um áramótin er mönnum sagt af hæstv. forsrh., að það sé nú nokkuð annað viðhorf, því að nú sé 270 millj. kr. afgangur á þjóðarbúskapnum, það var sem sé ekki hægt að skilja annað af því, sem hæstv. ráðh. upplýsti þjóðina um á sjálfan nýársdaginn. En þá var ekki gert upp eins og gert var upp í fyrra. Nei, það var ofur lítið annað. Þessar 270 millj., sem verið var að tala um nú, var gjaldeyrisstaða bankanna, sem hafi batnað um það. Nú var ekki verið að taka tillit til lánanna, sem tekin hafa verið. Það var alger óþarfi. Ekki tekið neitt tillit til þess, sem flutt hefur verið inn í landið af erlendu lánsfé, og ekki einu sinni þess, sem menn hafa tekið í stuttum vörulánum á árinu, sem eru ekki smáræðis fúlgur. M.ö.o.: það er nú nefnd tala, sem ekkert segir um afkomuna og er gersamlega allt annars eðlis en þær, sem notaðar voru í fyrra. En menn eiga i sakleysi sínu að líta svo á, að það hafi ekki orðið nein smávægileg breyting á afstöðunni út á við við viðreisnina. Hún sé fólgin í því, að í staðinn fyrir, að á síðustu fimm árum hafi þjóðin eytt um efni fram rúmlega 200 millj. á ári, þá sé hún nú farin að leggja fyrir 270 millj.

Það er margt til tínt til að reyna að skjóta ástæðum undir þá óheppilegu kjaraskerðingar- og samdráttarstefnu, sem upp var tekin í fyrra, illu heilli. Afleiðingarnar sjá sennilega sumir hverjir betur en áður, og er ekki of mikið sagt með því. Ég býst við, að margur sá, sem þá studdi að þessum ráðstöfunum, mundi feginn vilja gefa mikið til, að ekki hefði verið út í þetta lagt, enda býst ég sannast að segja við, að það hefði aldrei verið lagt út í þetta, eins og það var gert, ef hv. Alþ. hefði ekki verið rekið heim í fyrrahaust, á meðan hæstv. ríkisstj. lokaði sig inni og bruggaði þetta. Ég leyfi mér að segja þetta. Og ég held, að það sé ekkert of mikið traust í því á þm. Sjálfstfl., að ef þeir hefðu fengið að vera með í ráðum á undirbúningsstigum þessa máls og ekki verið sendir heim, eins og gert var, þá hefði ekki komið til mála að leggja út í þessar ráðstafanir, eins og gert var. Þessar ráðstafanir allar saman bera það nefnilega með sér, að þar hafa ekki þeir um fjallað, sem hafa nægilegan kunnugleika á íslenzku atvinnulífi, enda leyfi ég mér að endurtaka það, sem ég sagði hér eitt kvöldið fyrir jólin, því að það voru svo fáir viðstaddir þá, að sumir af þeim hæstv. ráðherrum, sem um þessi mál fjalla, þekkja ekki miklu meira til íslenzks atvinnu- og framkvæmdalífs en þeir sjá af tilviljun út um gluggana hjá sér. Tökum bara það dæmi eitt að bjóða mönnum upp á annað eins og það að gera þessar ráðstafanir, sem við þekkjum, og lýsa því yfir um leið, að útlánaaukningin í heild í landinu eigi ekki að verða nema 200 millj. Hugsið þið ykkur að bera annað eins og þetta fram og reyna svo að framkvæma þetta og gera mönnum allt það tjón, sem af öllum þeirra tilraunum til að fram. kvæma svona fásinnu hefur leitt. Alltaf hafa þeir verið að brjóta þessa stefnuyfirlýsingu vitanlega, smátt og smátt, en alltaf of seint og of lítið, þannig að þessar tilraunir til að halda atvinnulífinu í kútnum eru búnar að gera sitt tjón, áður en lagfæringarnar eiga sér stað.

Nú segir hæstv. viðskmrh., að þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að veita sjávarútveginum, útvegsmönnum og vinnslufyrirtækjum, lán til talsvert langs tíma, eigi að gera með því að breyta stuttum lánum í löng lán. Og hæstv. ráðh. lætur helzt í það skina, að það sé hægt að gera þetta án þess, að það þurfi nokkurt nýtt fjármagn til þess. Það má vera, að í ýmsum dæmum sé hægt að breyta svona, án þess að nýtt fjármagn þurfi til. En í öðrum dæmum er það vitanlega ekki mögulegt. Það er ekki alveg ljóst enn þá, hvernig þetta á að framkvæmast í einstökum atriðum, en ég held, að það hljóti að vera hugsunin, að eitthvað af þeim lánum, sem útvegsmenn eða fiskiðjufyrirtæki hafa fengið í viðskiptabönkunum út á afurðir, verði lengt upp í t.d. 15 ára lán. En ef það er meiningin og þarna er um lán að ræða, sem áttu að greiðast upp, þegar afurðirnar fóru út úr landinu eftir tiltölulega stuttan tíma, en eiga að verða að 15 ára lánum, þá eiga peningarnir að koma til baka á 15 árum í staðinn fyrir að koma inn eftir 3 eða 4 mánuði. Til þess að hægt sé að gera svona lagaðar ráðstafanir og þær komi að gagni fyrir útveginn, en komi mönnum ekki í koll aftur eftir örfáa mánuði, hlýtur náttúrlega að þurfa nýtt fjármagn. Það hlýtur auðvitað að þurfa nýtt fjármagn til þess að lána mönnum þá rekstrarlánin aftur á ný, án þess að hafa fengið þau eldri inn, því að ekki getur það verið ætlunin að hætta að veita mönnum rekstrarlán. Eða er það kannske meiningin hjá hæstv. ríkisstj. að lengja að vísu þessi lán, en skera svo niður rekstrarlánin alveg að sama skapi strax á næsta ári? Kannske það sé meiningin að lána þá þeim mun minna út á nýju afurðirnar á þessu ári.

Nei, það hlýtur auðvitað að þurfa nýtt fjármagn að koma til að einhverju verulegu leyti, enda lét hæstv. ráðh. i það skina, að það mundi ekki alls kostar vera hægt að komast hjá því, að nýtt fjármagn kæmi til. En mér skilst, að það atriði sé eins konar feimnismál hjá hæstv. ríkisstj., það megi helzt ekki mikið um það tala, að það þurfi nýtt fjármagn, vegna þess að hún er búin að tala svo digurbarkalega um, að allt nýtt fjármagn, sem látið væri út úr Seðlabankanum umfram það, sem hún hugsaði sér í fyrravetur, þegar hún lýsti yfir um þessar margumtöluðu 200 milljónir, hefði í för með sér verðbólgu og væri brot á lögmálinu, sem þessi viðreisn var byggð á. Þess vegna er það svona mikið feimnismál, ef til mála kæmi, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að nýtt fjármagn færi út úr bönkunum.

Auðvitað hlýtur hér að einhverju leyti að verða um nýtt fjármagn að ræða, og er síður en svo, að það sé ámælisvert, því að einmitt ef það verður þannig, að hér sé um nýtt fjármagn að ræða út úr Seðlabankanum, þá er ríkisstj. með því, alveg eins og með vaxtalækkuninni, sem hún neyddist til að framkvæma, að stíga skref til baka, ofur lítið skref til baka til að leiðrétta þá óhæfu, sem hún lét Seðlabankann framkvæma í fyrra með þeim gífurlega lánasamdrætti, sem þá var innleiddur og alls ekki hefur staðizt á nokkurn hátt og ríkisstj, hefur smátt og smátt orðið að gera ráðstafanir til þess að vega á móti og nú síðast þessa ráðstöfun, sem verður auðvitað í reyndinni að verulegu leyti sú, að Seðlabankinn lætur út nýtt fjármagn. Þá er þessi speki öll saman orðin þannig, að fyrst eru innleiddir okurvextir og hagur fyrirtækjanna lamaður með því og lánasamdrættinum út á afurðirnar frá Seðlabankanum, og síðan eru mönnum lánuð skuldaskilaeða kreppulán til þess að borga með í bili tjónið, sem hæstv. ríkisstj. hefur valdið.

Mér sýnist, að það gangi alveg í rétta stefnu, að þarna komi nýtt fjármagn frá Seðlabankanum, og að það sé örlítil bót á þeim óhóflega samdrætti, sem sú stofnun hefur verið látin framkvæma með því að draga stórkostlega úr afurðalánunum, og ég tel, að Seðlabankinn muni mjög vel geta lagt þetta nýja fjármagn til, án þess að fá þar nokkuð á móti, og þá einnig með tilliti til þess, að Seðlabankinn hlýtur að hafa alveg óhemjugróða af þeim skatti, sem hæstv. ríkisstj. lét hann leggja á útgerðina og aðra framleiðslu í fyrra með vaxtahækkuninni, þegar afurðavextirnir voru hækkaðir. Það var hreinn skattur, þegar vextirnir á afurðalánunum voru hækkaðir úr 5% og upp í 9%. Það var hreinn skattur, sem Seðlabankinn var látinn leggja á útgerð og landbúnað. Það er því sannarlega engin ástæða til að efast um, að Seðlabankinn geti mjög vel skilað einhverju af þessu aftur með því að greiða fyrir lánamálum útgerðarinnar. Og það má að mínu viti tala um það algerlega feimnislaust, að ef þetta á að verða að gagni fyrir útveginn, þá verður Seðlabankinn að koma með eitthvert nýtt fjármagn inn í þetta, eins og dæmið, sem ég tók áðan um veðlán út á sjávarafurðirnar, sýnir glöggt. Ef á að breyta þeim í löng lán að einhverju leyti, þá verður það til þess, að það fjármagn kemur inn á 15 árum t.d., sem átti að koma inn eftir nokkra mánuði. Og rekstrarlán verða menn svo að fá aftur, eins og áður. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það sé hægt að draga stórkostlega úr rekstrarlánunum, þó að þessar ráðstafanir séu gerðar.

Ég get ekki stillt mig um i þessu sambandi að minnast á það, sem hæstv. viðskmrh. sagði um skort á stofnlánum á undanförnum árum. Það er alveg rétt, að það hefði verið æskilegt, að það hefði verið hægt að veita í mörgum dæmum ríflegri stofnlán en gert var á undanförnum árum. En ég man eftir því, að aðalmálgagn núv. ríkisstj. var ekki alls fyrir löngu að lýsa því, hvað margvísleg mistök hefðu orðið varðandi atvinnuuppbygginguna í landinu á dögum t.d. vinstri stjórnarinnar, eða áður en núv. stjórnarflokkar náðu tökum á þessum málum. Það var sagt alveg skilmerkilega í þessu uppgjöri blaðsins, — það var Morgunblaðið, — að höfuðmeinsemdin í sjávarútveginum væri sú, að eignalausir menn og eignalítil fyrirtæki hefðu átt allt of greiðan aðgang að stofnlánum og of háum stofnlánum, það hefði ekkert vit verið í því og mundi framvegis verða fyrirbyggt, að slík mistök ættu sér stað. Það var lögð alveg sérstök áherzla á þetta, að það hefði verið allt of greiður aðgangur að því fyrir þá, sem hefðu of lítið eigið fé á milli handa, allt of greiður aðgangur að allt of háum stofnlánum einmitt í sjávarútveginum. Ég get ekki stillt mig um að minna á þetta, vegna þess að það sýnir ofur lítið málflutninginn úr þessum herbúðum yfirleitt. En það var höfuðatriði í þessu, að þetta ætti ekki að verða framvegis. Og hugsunin var sú, að einungis þeir, sem hefðu nægilegt eigið fé, eins og það var orðað, ættu að eiga rétt á því að fá stofnlán, m.ö.o. einungis þeir efnuðu, þeir ríku ættu að eiga rétt á því að fá stofnlán, hinir ættu ekkert erindi í framleiðsluna eða atvinnureksturinn. Það var hugsunin.

Og það er einn angi af þeirri sömu hugsun, sem kemur fram í því, sem hæstv. viðskmrh. lýsti hér áðan og þarf að athuga mjög gaumgæfilega við meðferð málsins, sem sé að hámarkslán samkv. þessu kerfi, sem nú á að setja upp, ætti aldrei að mega vera yfir 70% af matsverði. M.ö.o.: ef ég skil þetta rétt, eiga þeir, sem skulda t.d. meira en 70% af matsverði eigna, alls ekki að koma til greina að fá nokkurn stuðning samkv. þessu nýja lánakerfi, og þetta er í góðu samræmi við þennan höfuðleiðara Morgunblaðsins, sem var um það, að einungis þeir, sem hefðu nægilegt eigið fjármagn, ættu erindi inn í atvinnureksturinn, hinir ættu þangað ekkert erindi.

En á undanförnum árum hefur verið reynt að greiða fyrir sem allra flestum í þessu tilliti. T.d. víðs vegar úti um landið hefur verið reynt að greiða fyrir fyrirtækjum til að koma upp framleiðslutækjum, jafnvel þó að þau þyrftu að fá 80–85% af fénu að láni eða meira, og ég fullyrði, að ef það hefði á undanförnum árum átt að halda sér við þessa 70% reglu, sem hér var lauslega nefnd, þá hefði orðið litið úr þeirri stórkostlegu uppbyggingu, sem á síðustu árum hefur átt sér stað viðs vegar um landið í sjávarútvegi og öðrum atvinnurekstri. Ég fullyrði þetta.

Það þarf þess vegna að athuga mjög gaumgæfilega þessa hlið á málinu, hvort þeir eiga að úrskurðast hér utangarðs algerlega, sem kunna að skulda meira út á eignir sínar en sem svarar 70% af matsverði. Ef það verður gert, þá er hér tekin upp algerlega ný stefna í þessum efnum. Þetta er því eitt af þeim atriðum, sem þarf að athuga mjög rækilega.

Mér finnst enn þá margt óljóst um, hvernig þessar lánveitingar eru hugsaðar. En ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að það verði athugað gaumgæfilega í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, og vitanlega þarf annaðhvort að setja nánari ákvæði um þessar lánveitingar inn í lögin sjálf eða þá þarf að liggja fyrir, hvernig reglugerðin er hugsuð, og þá um leið, hvernig lánveitingarnar verða.

Þá vil ég minnast á, að það er rík nauðsyn að athuga gaumgæfilega um aðstöðu landbúnaðarins á hliðstæðan hátt og hér er ráðgert varðandi sjávarútveginn. Mér er kunnugt um, að samtök landbúnaðarins hafa haft samband við hæstv. ríkisstj. um það efni, því að það er langt síðan það kom greinilega fram, að ætlunin var að athuga skuldamál sjávarútvegsins. Mér er kunnugt um, að samtök landbúnaðarins hafa haft samband um þetta við hæstv. ríkisstj., og mér hefur skilizt, að það sé verið að starfa að hliðstæðri athugun á skuldamálum bænda og landbúnaðarfyrirtækja og hér hefur átt sér stað um sjávarútveginn. Ég vil fyrir mitt leyti leggja hina mestu áherzlu á, að það verði gert og það geti orðið tekið til meðferðar í beinu sambandi við þetta mál, gerðar verði hliðstæðar ráðstafanir til þess að greiða fyrir landbúnaðinum. Það er alveg óhætt að fullyrða, án þess að ég vilji vera að fara lengra út í það núna, að það er knýjandi þörf á því, að hliðstæðar ráðstafanir geti orðið gerðar fyrir landbúnaðinn, bæði einstaklingana og þau fyrirtæki, sem starfa fyrir hann.