20.01.1961
Neðri deild: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Málsvarar stjórnarandstöðunnar, hv. 1. þm. Austf. (EystJ) og hv. 4. þm. Austf. (LJós), héldu í gær alllangar ræður um þetta frv. Það merkilegasta við þessar ræður var, að þótt þær væru allýtarlegar, var í þeim engar upplýsingar að finna um, hvort hv. ræðumenn og þá væntanlega flokkar þeirra væru með frv. eða mótfallnir því. Um það féll ekki eitt orð í ræðum þeirra. Það mun hins vegar væntanlega koma í ljós við meðferð málsins á þinginu, í síðasta lagi við atkvgr., hvort það hlýtur stuðning þeirra flokka, sem þessir hv. þm. eru fyrirsvarsmenn fyrir, eða hvort þeir beita sér gegn því, og verður sannarlega fróðlegt að fá um það vitneskju. En það voru nokkur atriði í ræðum þeirra, sem mig langar til að gera að umtalsefni.

Í fyrsta lagi kvörtuðu þeir báðir undan því, að brbl. skyldu hafa verið gefin út um þetta efni, og töldu engar viðunandi skýringar hafa verið á því gefnar, hvers vegna það hafi verið nauðsynlegt. Þær skýringar er þó að finna í forsendum brbl. sjálfra, en þar segir, að um leið og vertíð hæfist, hafi verið talið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að allmiklu af skuldum sjávarútvegsins til skamms tíma verði breytt í löng lán. Það var upphaf vertíðarinnar, sem gerði það nauðsynlegt, að þessu máli, sem um nokkurt skeið hafði verið á döfinni, væri komið í höfn. Þeir töldu og, að ekki hefði verið hafður mikill hraði á vinnubrögðum í kjölfar setningar brbl., þar sem enn væri ekki búið að gefa út reglugerð samkv. brbl. Ég furðaði mig dálítið á því, að þeim skyldi ekki vera kunnugt, hvorugum held ég, að reglugerðin var gefin út 14. jan. s.l., er undirrituð s.l. laugardag, svo að öllum undirbúningi af hálfu stjórnarráðsins í þessum efnum er lokið og þegar farið að vinna að framkvæmd málsins af fullum krafti af hálfu þeirra, sem um framkvæmdina eiga að fjalla, þ.e.a.s. stjórn stofnlánadeildarinnar og viðskiptabankanna. Ríkisstj. hefur engan dag látið líða, síðan brbl. voru sett, án þess að inna af hendi sínar skyldur í þessum efnum gagnvart þeim aðilum, sem hagræðis eiga að njóta í kjölfar þessarar lagasetningar. Ef beðið hefði verið eftir Alþingi með lagasetninguna, er augljóst mál, að málið hefði tafizt um 3–4 vikur og hefði því alls ekki getað komið að því gagni, sem þessari nýskipan er ætlað að koma.

Auk þessa voru tvö atriði í ræðum hv. þm., sem mig langar til að gera að umtalsefni. Þeir fjölluðu báðir um þessi atriði og á nokkuð svipaðan hátt. Annars vegar voru þær staðhæfingar þeirra, sem raunar hefur verið mjög á loft haldið, bæði hér í þingsölunum í síðustu viku fyrir jólaleyfi og í blöðum hv. stjórnarandstöðu nú um nokkurra mánaða skeið, þær fullyrðingar, að vaxtahækkunin á s.l. ári hafi verið og sé útgerðinni sem og öðrum atvinnurekstri landsmanna algerlega óbærileg byrði. Þetta var margundirstrikað í ræðum hv. þm. í gær. Það var eins og þessu væri teflt fram sem eins konar mótvægi á móti því hagræði, sem allir hlytu að játa að útvegurinn mundi njóta í kjölfar þessarar lagasetningar, það hagræði væri í raun og veru smámunir hjá þeim gífurlegu búsifjum, sem útgerðin hefði orðið fyrir, fyrst og fremst vegna vaxtahækkunarinnar og einnig vegna lánatakmörkunarinnar á s.l. ári. Þetta er hið fyrra af þeim atriðum, sem mig langar til að gera að umtalsefni. Hið síðara eru þær staðhæfingar, sem fram komu í ræðum þessara hv. þm. um greiðslujöfnuðinn á s.l. ári og þann samanburð, sem þeir gerðu á niðurstöðu greiðslujafnaðarins þá við undangengin ár.

Þá er fyrst að snúa sér að vöxtunum og þýðingu vaxtanna fyrir sjávarútveginn. Hv. 1. þm. Austf. gekk jafnvel svo langt að staðhæfa í ræðu sinni í gær, að vaxtahækkunin ein næmi sem svaraði 15–20% af kaupgjaldi margra útgerðarfyrirtækja. Ég hef hér fyrir framan mig rekstraráætlun togara fyrir eitt ár og rekstraráætlun línubáts. Báðar þessar áætlanir eru samdar af sérfróðum mönnum á þann hátt, sem ágreiningslaust hefur verið um mörg undanfarin ár, að slíkar áætlanir skuli samdar. Áætlanir sem þessar voru ekki aðeins grundvöllur undir þeim útreikningum, sem gerðir voru í sambandi við gengisbreytinguna á s.l. ári. Slíkar áætlanir, nákvæmlega eins og þessar í öllum aðalatriðum, voru einnig undirstaða undir þeim ráðstöfunum, sem stjórn Hermanns Jónassonar gerði nokkrum sinnum á sinu valdaskeiði, svo að um gerð þeirra í sjálfu sér er enginn ágreiningur á milli þeirra flokka, sem setið hafa í ríkisstj. undanfarin ár. Vextir eru nú um 2% hærri en þeir voru fyrir efnahagsráðstafanirnar og verða það væntanlega enn um nokkurt skeið. Ef reiknaður er útgjaldaaukinn af 2% vaxtahækkun í rekstraráætlun togara fyrir eitt ár, hækkar heildarrekstrarkostnaður togarans um 0.7%. 2% vaxtahækkun hjá togaranum þýðir 0.7% útgjaldaaukningu fyrir togarann á ári. Ég orðlengi ekki um, hvílík fjarstæða það er, að slík útgjaldahækkun vegna vaxtahækkunarinnar geti stefnt eða stefni rekstri togara í bráða hættu. Til samanburðar má geta þess, að kaupgreiðslur til skipshafnar eru 27% af heildarútgjöldum togarans. Að því er línubátinn snertir, þýðir 2% vaxtaaukning hækkun á heildargjöldum hans um 0.6%, eða mjög svipaða tölu. Hlutdeild hlutanna í heildarútgjöldum bátsins er hins vegar 33%. Ég segi um þetta hið sama og áðan, að öllum mönnum má vera augljóst, að það er reginfjarstæða að telja þessa útgjaldaaukningu skipta nokkru meginmáli í rekstri línubátsins. Hins er svo að geta á hinn bóginn, að þýðing vaxtanna í rekstri vinnslufyrirtækjanna er mun meiri, áreiðanlega helmingi meiri og líklega ríflega það heldur en hlutur vaxtanna í rekstri báts og togara. Um hlutdeild vaxtanna í rekstri frystihúsa, saltfiskvinnslustöðva og við skreiðarverkun er því miður ekki hægt að, fá jafnóyggjandi upplýsingar og um áætiaðan rekstrarkostnað togara og báts. Ég hygg þó, að segja megi, að 2% vaxtahækkun þýði jafnvel 2–21/2 % aukningu á rekstrarkostnaði vinnslustöðvanna, og er það að vísu mun meira en vaxtaútgjöldin fyrir togarann og bátinn.

Þótt ekki sé hægt að fá glöggar upplýsingar um þýðingu vaxtanna fyrir vinnsluna í heild, er hægt að mynda sér mjög greinargóða hugmynd og í raun og veru miklu nákvæmari hugmynd um vaxtabyrði útgerðarinnar með því að fá upplýsingar í bönkunum um heildarlán bankanna til útgerðarinnar, því að um það eru til nákvæmar skýrslur í viðskiptabönkunum. Ég hef fengið upplýsingar um það, hversu mikið bankarnir áttu í útlánum hjá útgerðinni, allri útgerðinni, vinnslustöðvunum auðvitað meðtöldum, í nóvemberlok 1960. Þá voru heildarlán útgerðarinnar hjá bankakerfinu 1471 millj. kr. Þar af voru 70 millj. löng lán á föstum vöxtum, sem vaxtahækkunin hafði ekki áhrif á. Síðan varð lækkun á lánunum í desember í sambandi við birgðabreytingar, og það er því áreiðanlega mjög nálægt lagi að áætla lánin til útgerðarinnar á árinu 1960 1400 millj. kr. Nú hækkuðu vextir í febrúarlok 1960 um um það bil 4%, svo að það er hægur vandi að reikna, hverju 4% vaxtahækkun í 10 mánuði af 1400 millj. kr. nemur, en það eru 47 millj. kr. Útgjaldaaukning útgerðarinnar í heild hefur því numið einhvers staðar mjög nálægt 47 millj. kr. á árinu 1960. Ég segi nú aftur: Dettur nokkrum manni í hug í alvöru, eða eru það frambærilegar staðhæfingar á Alþingi og gagnvart alþjóð að halda, að jafnvel þessi útgjaldaaukning í þessa 10 mánuði hafi haft úrslitaþýðingu fyrir rekstur sjávarútvegsins á Íslandi? Verðmæti sjávarútvegsframleiðslunnar hefur á árinu 1960 verið um það bil 2400 millj. kr., svo að vaxtahækkunin er um 1.9% af heildarframleiðsluverðmæti sjávarútvegsins.

Nú var í fyrsta lagi öllum kunnugt, að sú mikla vaxtahækkun, sem gerð var í febrúarlok 1960, var gerð til bráðabirgða. Henni var aldrei ætlað að standa til frambúðar, enda voru vextirnir lækkaðir um s.l. áramót, eins og öllum er í fersku minni. Eru vextirnir nú ekki nema um 2% hærri en þeir voru fyrir efnahagsráðstafanir. Því hefur enn fremur verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að þessum vöxtum er ekki meiningin að halda lengur en talið er nauðsynlegt til þess að vera öruggur um að halda verðbólguþróuninni í skefjum. Á það væntanlega ekki að taka mjög langan tíma frá þessari stundu, að úr því fáist skorið endanlega, hvort stefnubreytingin verður sigursæl eða ekki. Ef við minnumst þess, að vextir eru nú 2% hærri en þeir voru fyrir efnahagsráðstafanirnar, og ef við gerum ráð fyrir því, að útlán til útgerðarinnar verði á næsta ári um 1500 millj. kr., þá þýðir það 30 millj. kr. útgjaldaaukningu á heilu ári fyrir útgerðina, miðað við það ástand, sem var fyrir efnahagsráðstafanir. Hér verður þess enn fremur að geta, að það frv., sem hér er til umræðu, sem sagt lánabreytingin, mun hafa í för með sér mjög verulega vaxtalækkun fyrir útveginn. Ekki er hægt að segja með víssu, hversu miklu hún muni nema, en ég leyfi mér samt að fullyrða, að í kjölfar samþykktar þessa frv. muni sjávarútvegurinn njóta vaxtalækkunar, sem muni nema einhvers staðar um 10 millj. kr., sem þá má draga frá vaxtahækkuninni eða útgjaldaaukningunni, vegna þess að viðskiptavextir eru nú 2% hærri en þeir voru fyrir efnahagsráðstafanirnar, þannig að áætla má, að vaxtaútgjöld útvegsins á árinu 1961 muni verða eitthvað í kringum 20 millj. kr. meiri en þau voru á heilu ári fyrir efnahagsráðstafanirnar. 20 millj. kr. af um það bil 2500 milljóna framleiðsluverðmæti er um 0.8%.

Þetta eru tölur, sem ógerningur er að véfengja. Ég segi ekki, að þær séu nákvæmar upp á milljón. Það geta slíkar tölur aldrei verið. En það getur engu skakkað, sem neinu máli skiptir, enda þyrfti að tvö-, þre- eða fjórfalda tölurnar, til þess að þær hefðu nokkuð í áttina við þá þýðingu, sem hv. málsvarar ríkisstj. hafa verið að gefa í skyn að þær hefðu. 20 millj, kr. útgjaldaaukning á árinu 1961 vegna vaxtahækkunarinnar fyrir útveg í heild eins og sjávarútveginn getur bókstaflega enga úrslitaþýðingu haft fyrir hag eða rekstur útvegsins. Allar staðhæfingar um, að með þessum ráðstöfunum hafi verið og sé áfram verið að leggja óbærilegar byrðar á útgerðina, eru því algerlega staðlausir stafir.

Þá eru örfá orð um það atriði, að lánaaðhaldið á s.l. ári hafi einnig reynzt útgerðinni mjög alvarlegur baggi. Ég gat þess áðan, að í nóvemberlok s.l. hafi lán bankanna til sjávarútvegsins numið 1471 millj. kr. Ég fékk upplýsingar um það, hver lánin til sjávarútvegsins voru í nóvember 1959. Þá námu þau 1262 millj. kr. Þannig hafði sjávarútvegurinn frá bankakerfinu 209 millj, kr. meira í nóvemberlok 1960 en hann hafði í nóvemberlok 1959. Þetta er öll hörkumeðferðin, sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir af hálfu bankakerfisins. Ef tekið er tillit til verðlækkunar, sem orðið hefur á ýmsum afurðum, eru birgðir í nóvember 1960 aðeins um 25 millj. kr. lægri en í nóvember 1959, svo að hér hefur verið greinilega um það að ræða, að sjávarútvegurinn hefur haft meira fé til umráða úr bankakerfinu á s.l. ári en hann hafði árið áður, og var það í raun og veru eðlilegt og sjálfsagt í framhaldi af þeirri kostnaðaraukningu, sem átti sér stað á því ári. Þessar tölur ættu einnig að taka af tvímæli um, að mjög hafi verið sorfið að sjávarútveginum og jafnvel rekstur hans torveldaður með því að meina honum eðlilegan og heilbrigðan aðgang að lánsfé. Hitt er svo annað mál, að það tókst á s.l. ári að koma í veg fyrir það, sem gerzt hefur mörg undanfarin ár, að ýtt væri undir vaxandi verðbólgu með því að deila út í þjóðfélagið lánsfé úr bönkunum, sem heilbrigður sparnaður stóð ekki á bak við.

Þá var einnig að því vikið í ræðum beggja hv. stjórnarandstæðinga í gær, að ríkisstj. hafi sett mjög strangar lánatakmörkunarreglur og síðar orðið að fara bónarveg til bankanna um að brjóta þessar reglur. Hér er mjög villandi frá skýrt. Ríkisstj. setti sér í sambandi við efnahagsráðstafanirnar að vinna að því, að útlán bankakerfisins færu ekki fram yfir visst mark. Ríkisstj. datt auðvitað aldrei í hug að binda sjálfa sig nokkrum böndum í þessum efnum. Slíkur ásetningur er einungis til viðmiðunar, og það er til mikils hægðarauka og mikils gagns að vinna þannig. Eitt af því, sem á vantaði einmitt í stjórn Hermanns Jónassonar, var, að þannig væri unnið, að menn settu sér mark fram í tímann, stefnumið til þess að vinna að. Slík stefnumið geta hins vegar aldrei reyrt þróunina í fastar skorður og mega ekki gera. Ef í ljós kemur, að víkja þarf í einhverju smávægilegu frá því, þá er það gert. Það var það, sem var gert á árinu 1960. Í staðinn fyrir að einblína á þessi stefnumið sem óumbreytanlegt lögmál, var tekið eðlilegt og sjálfsagt tillit til þróunarinnar og staðreynda lifsins. Það var lögð meiri áherzla á að halda atvinnuvegunum gangandi, eins og gert var og tókst, heldur en að skoða viðmiðunartölur, að skoða áætlanir sem bindandi lög. Þarna hygg ég, að ríkisstj. hafi farið rétt að. Annars var í þessum efnum um svo smávægileg frávik að ræða, ef sambærilegar tölur eru teknar, að ekki er sérstakt orð þar á gerandi.

Seinna atriðið, sem ég vildi gera að umtalsefni úr ræðum hv. stjórnarandstæðinga í gær, voru ummæli þeirra um greiðsluhallann á árinu 1960 og sá samanburður, sem þeir gerðu á þessum greiðsluhalla og greiðsluhallanum sérstaklega árin 1959 og 1958. Ég rek ekki málflutning þeirra, geri ráð fyrir, að flestum hv. þm. sé hann ljós. Hann hefur auk þess birzt í morgun í forustugrein í dagblaðinu Tímanum, sem flestir hafa væntanlega rifjað upp þar, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka Það hér, heldur skal snúa mér beint að þeim svörum, sem hægt er að gefa og nauðsynlegt er að gefa við þessum málflutningi.

Það er því miður mikill galli á þeim umr., sem fara fram um greiðslujafnaðarmálin, að menn hafa þar mikla tilhneigingu, margir þm. og jafnvel fyrrv. ráðh., eins og báðir hv. ræðumenn frá því í gær, til þess að fara mjög villandi með tölur og tala í sömu andránni um tölur, sem þýða sitt hvað, og jafnvel nota orðið „greiðslujöfnuður“ í tveimur ólíkum merkingum. Það er í raun og veru nauðsynlegt, að a.m.k. þm. komi sér saman um að nota orð í einni og sömu merkingu, og það á að vera tiltölulega auðvelt. Ef við komum okkur saman um, hver skuli vera merkingin í orðinu „greiðslujöfnuður“, jafnvel þó að við komum okkur saman um, að nota megi orðið í tvenns konar merkingu, ættum við ekki að þurfa að deila um þá tölu, sem hér er um að ræða. Ástæðan til þess, að við deilum, er, að hugtakið „greiðslujöfnuður“ er í belg og biðu notað í tvenns konar merkingu, sem er alveg óskyld. Maður gæti fyrirgefið mönnum á götunni, sem hugsa ekki sérstaklega um þessi mál, að láta slíkt henda sig. Maður gæti jafnvel fyrirgefið blaðamönnum, sem þurfa að skrifa um þúsund hluti og þurfa því miður oft að skrifa um hluti, sem þeir hafa ekki tíma til að setja sig inn í, að þeir skrifi villandi um slík mál eins og þessi. Ég segi alveg hiklaust, að ég á erfitt með að fyrirgefa þingmönnum og þá alveg sérstaklega fyrrverandi ráðherrum að tala þannig um þessi mál, að augljóst er, að þeir nota orð í tvenns konar merkingu, með þeim afleiðingum, að þeir, sem á þá hlusta og hafa ekki sett sig rækilega inn í hlutina, misskilja niðurstöðu málsins herfilega. Það, sem hefur gerzt, er það, að í umr. hér á þingi og í blöðum um greiðslujafnaðarmálin ` hefur orðið „greiðslujöfnuður“ verið notað í þessum tveim merkingum: Annars vegar hefur orðið „greiðslujöfnuður“ verið notað til þess að tákna hallann á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd í vörum og þjónustu, þ.e. mismuninn á gjaldeyrisgreiðslum þjóðarinnar í heild til útlanda og frá útlöndum fyrir allar vörur og alla þjónustu, sem frá landinu fer og til landsins kemur. Greiðsluhalli hefur annars vegar verið talinn tákna hallann á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd í vöruskiptum og þjónustuviðskiptum. Þessi halli var á s.l. ári 460 millj. kr. Hann var á árinu 1959 475 millj, kr. Hins vegar verður að vita, hvað þessi tala raunverulega táknar, að það geta verið stórir þættir í aðalliðunum, sem mynda þessa tölu, sem eru alls ekki sambærilegir frá ári til árs. (EystJ: En hvað var þetta 1958? Hefur ráðh. það hjá sér?) Ekki nema á gamla genginu, 75 millj. Ég ætla einmitt að koma að því á eftir. Ég var ekki búinn. — Inn í þessar tölur ganga liðir, sem eru ekki og geta ekki verið sambærilegir frá ári til árs. Það er mjög misjafnt hjá einstökum þjóðum, hvað slíkir liðir eru stórir. Það er mjög misjafnt, hvað mikið samræmi er í þessum tölum frá ári til árs. Hjá okkur, þar sem mjög verulegur hluti innflutningsins eru skip og bátar og flugvélar, geta þessar tölur breytzt mjög mikið frá ári til árs og alls ekki gefið rétta hugmynd um heildarniðurstöðuna, þannig að það getur verið nauðsynlegt og er hjá okkur tvímælalaust nauðsynlegt að athuga, hversu mikill hluti af innflutningnum hefur verið skip, bátar og flugvélar, og taka tillit til þess. Eins og við vitum hefur endurnýjun skipaflotans hér og flugvélaflotans orðið í stórum stökkum. Við höfum keypt inn okkar skip með nokkurra ára millibili og þá í einu fyrir tugi, ef ekki hundruð milljóna, reiknað á núverandi gengi. Það er algerlega augljóst mál, að ekki dugir að bera saman tölur frá ári til árs, þar sem mjög stórir liðir, jafnvel aðalliðirnir, taka slíkum stökkbreytingum frá einu árinu til annars. Þess vegna er það einnig, að þegar hagstofan og hagfræðistofnanir bankanna gefa upp innflutninginn, geta þær jafnan um innflutning á skipum og bátum alveg sérstaklega til þess að auðvelda mönnum samanburðinn frá ári til árs. Þess vegna er það einnig, að þegar talað er um þennan heildarhalla á vörum og þjónustu, þar sem innflutningur og útflutningur eru stærstu liðirnir, verður einnig að taka tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa á greiðslum vegna skipa og báta, til þess að hægt sé að gera slíkan samanburð réttan. (Gripið fram í.) 1959? Nei, þetta kemur allt saman á eftir. Svarið við þessu kemur hér á eftir, ef ég bara fæ að ljúka máli mínu. (Gripið fram í.) Þetta er rangt. Ég hef þetta allt saman hérna. Ég kem að þessu öllu saman á eftir. Ég átti von á þessu satt að segja. Ég er farinn að þekkja hv. þm. og búinn að heyra svo mikið af umr., að ég var undir það búinn að svara þessu líka. Það kemur hér á eftir.

Ég vil víkja að því, hversu mikil breyting hefur orðið á greiðslum vegna skipa og báta og flugvéla á árinu 1959 og 1960. Á árinu 1959 námu greiðslur vegna skipa og báta og flugvéla 320 millj. kr., en á árinu 1960 500 millj. kr. M.ö.o.: greiðslur vegna skipa og báta og flugvéla aukast um 180 millj. kr., eru 180 millj. kr. meiri 1960 en þær voru 1959. Þar er auðvitað meginskýringin á því, að hallinn á vörum og þjónustu er 460 millj. kr. 1960, miðað við 475 millj. 1959, að hann hefur ekki minnkað um meira en 15 millj. kr. þrátt fyrir batann í gjaldeyrisstöðunni. Meginskýringin á því er sú, að við höfum notað 180 millj. kr. meira til þess að greiða fyrir skip og flugvélar en við gerðum 1959. M.ö.o.: á árinu 1959 er verið að greiða skip og báta, sem gerðar voru pantanir á í stjórnartíð Hermanns Jónassonar og stjórnartíð Emils Jónssonar. Það er það, sem þarf að greiða. Þann reikning var verið að greiða á s.l. ári. (Gripið fram í.) Það hef ég aldrei sagt. Reikninga á að greiða.

Ég var að segja áðan, að annars vegar hefði orðið „greiðsluhalli“ verið notað til þess að tákna hallann á vörum og þjónustu. Það er önnur merkingin, sem lögð hefur verið í orðið „greiðsluhalli“. Einnig hefur verið lögð í orðið „greiðsluhalli“ önnur viðtækari merking, og hún er sú að taka þar einnig tillit til afborgana af skuldum þjóðarinnar og annarra fjármagnshreyfinga, t.d. breytinga, sem verða á skuldum eða inneignum Íslendinga, þ.e. einstaklinga, erlendis. Þegar orðið „greiðsluhalli“ er notað í þessari merkingu, er það gert til þess að fá heildarmynd af þeirri breytingu, sem verður á heildargjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að þó að halli á vörum og þjónustu vaxi ekki frá einu ári til annars, getur orðið mikil breyting á heildargjaldeyrisaðstöðu þjóðarinnar gagnvart útlöndum, ef afborganir á skuldum vaxa mjög mikið, ef áður er búið að stofna til skulda, sem auðvitað þarf að borga af. Þess vegna verður, ef menn vilja fá heildarmynd af gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar við útlönd, jafnframt að taka tillit til þeirra afborgana, sem þjóðin er búin að skrifa undir að borga, og annarra minni háttar breytinga, sem geta orðið á öðrum gjaldeyrisviðskiptum einstaklinga. Þá fyrst fæst heildarmynd af gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar við útlönd.

Þessi merking, sem ég var nú að lýsa í orðinu „greiðsluhalla“, var lögð í orðið í grg. ríkisstj. fyrir efnahagsmálafrv. veturinn 1960, og það var engin dul á það dregin, að þetta var merkingin, sem lögð var í orðið „greiðsluhalli“. Það var sem sé hallinn á vörum og þjónustu við útlönd, að viðbættum afborgunum af föstum lánum og öðrum breytingum á gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Sú merking hefur verið lögð í það síðan í þeim skýrslum, sem gefnar hafa verið út í framhaldi af þessu. Nú skal ég færa rök fyrir því, hvers vegna var alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu. Það var vegna þess, að það hafði komið í ljós, hvers vegna ekki mátti þegja um þessa hlið á málinu. Það var komið í ljós, að til svo mikilla lána hafði verið stofnað á undanförnum árum, smám saman á áratugnum 1950–60, einkum á síðari helmingi hans, að greiðslubyrðin vegna þessara lána var að verða miklu, miklu meira vandamál en breytingin, sem varð á hallanum á vörum og þjónustu. Til þess að sýna fram á þetta hef ég einnig látið taka saman yfirlit yfir hallann á vörum og þjónustu og afborganir af lánum og aðrar fjármagnshreyfingar frá 1956 til 1960, allt reiknað á gamla genginu, til þess að auðveldari sé samanburðurinn við fyrri árin. Ég tel að sumu leyti eðlilegra, af því að þau eru fleiri, að reikna allt saman þannig, heldur en fara að umreikna árin 1956–59 yfir í nýja gengið. Hér eru tölur, sem mig langar — með leyfi hæstv. forseta — til að lesa fyrir þm., til þess að þeir sjái nákvæmlega, hvað er um að ræða, þannig að menn þurfi ekki að deila um þessi atriði, ef menn vilja ekki deilurnar, ef menn vilja ekki segja rangt, þá þurfi ekki neinn að gera það vegna skorts á upplýsingum. Tölurnar um hallann á vörum og þjónustu frá 1956 til 1960, reiknaðar á gamla genginu, eru þessar:

1956 ............

162

millj.

kr.

1957 ............

166

1958 ............

75

1959 ............

204

-

1960 ............

197

-

Ef við hins vegar athugum afborganir, samningsbundnar, fastar afborganir af skuldum, eru þær tölur þessar:

1956 29 millj. kr. Við sjáum, að í samanburði við greiðsluhallann á vörum og þjónustu, sem þá var 162 millj., skiptir afborgunartalan þá ekki neinu verulegu máli. Afborganir af föstum lánum 1956 eru ekkert verulegt vandamál í hlutfalli við hallann á vörum og þjónustu, sem raunar þarf ekkert vandamál að vera heldur, því að það er alveg eðlilegt, að land eins og Ísland hafi halla í viðskiptum, að því er snertir vörur og þjónustu. Sem sagt, afborganirnar þá eru ekkert sérstakt vandamál, sem sést á hlutfallinu á milli talnanna. Nú les ég áfram:

1956

.

afborganir

29

millj

kr

1957

.

45

1958

63

-

1959

.

106

1960

124

-

-

Þetta mun verða enn meira 1961, 124 millj. kr. M.ö.o.: samningsbundnar afborganir af erlendum lánum eru á árunum 1959 og 1960 orðnar meira en helmingur af hallanum á vörum og þjónustu. Það er þessi staðreynd, sem auðvitað hefði gert algerlega óforsvaranlegt að tala eingöngu um greiðsluhalla þjóðarinnar gagnvart útlöndum í merkingunni: greiðsluhalli á vörum og þjónustu. Það varð að taka fram og margundirstrika hina stórvaxandi þýðingu afborgana af erlendum skuldum. Þess vegna var ekki aðeins sjálfsagt, heldur hefði allt annað verið óheiðarlegur málflutningur og til þess að blekkja þjóðina, ef ekki hefði verið gert yfirlit yfir summuna af greiðsluhallanum á vörum og þjónustu og samningsbundnum afborgunum af erlendum lánum. Þá varð auðvitað líka að taka tillit til hins, sem skiptir miklu minna máli, sem sé breytinga á öðrum gjaldeyrisviðskiptum einstaklinga og birgðabreytinga hérlendis, sem þýða gjaldeyri, og þar fram eftir götunum. Þær tölur fyrir þessi sömu ár eru þær, að 1956 er jákvæð breyting um 22 millj. kr., þá koma gjaldeyristekjur inn af þessum sökum, 1957 40 millj., 1958 55, 1959 aðeins 4 og 1960 jákvæð breyting 18 millj. kr. Þannig hefur heildarhallinn á greiðsluviðskiptum landsins við útlönd á þessum árum orðið þessi 1956–60, þessir þrír liðir, halli á vörum og þjónustu, afborganir og aðrar fjármagnshreyfingar:

1956

............

169

millj.

kr.

1957

...........

251

-

1958

............

208

-

-

1959

............

314

-

-

1960

............

303

-

Heildargreiðsluhallinn hefur á þessu fimm ára tímabili því verið þessi. Við þurfum auðvitað að vita, hvað átt er við, þegar talað er um greiðsluhalla í þessari merkingu. Þetta eru allt aðrar tölur og þýða allt annað en orðið greiðsluhalli í merkingunni: halli á vörum og þjónustu.

Nú þarf að taka út úr þessum samanburði þær tölur, sem eru algerlega ósambærilegar frá ári til árs, sem sagt innflutning skipa og flugvéla og svokallaðar nettó-fyrirframgreiðslur, og þær tölur hvert ár eru þessar: 1956 91 millj., 1957 42 millj., minnkar um helming, 1958 107 millj., næstum þreföldun, 1959 137 millj. og 1960 214 millj. Greiðslurnar vegna innflutnings skipa og flugvéla eru 1960 fimm sinnum hærri en 1957. Maður fær engan skynsamlegan samanburð á milli ára, nema því aðeins að maður taki þessar tölur burt, dragi frá, ef maður vill bera árin saman, þó að hinar tölurnar séu auðvitað réttar að því er snertir heildargjaldeyrisaðstöðuna.

Ef teknar eru tölurnar yfir hallann fyrir utan skip og flugvélar, þannig að tölurnar séu sambærilegar, eru þær þessar: 1956 er heildarhallinn 78 millj., 1957 er hann 208 millj., 1958 er hann 101 millj., 1959 er hann 177 millj., og 1960 er hann 89 millj., allt reiknað á gamla genginu. Þannig er heildargreiðsluhallinn á árinu 1960, að frátöldum skipum og flugvélum, 88 millj. kr. minni en hann var á árinu 1959, reiknað á gamla genginu.

Ég taldi rétt að láta þessar tölur koma fram, til þess að menn þyrftu ekki að deila, hvað væri rétt i þessu, ef menn vilja hafa það, sem er rétt í því. Það er sem sagt nauðsynlegt, ef menn eru með þessar greiðslujafnaðartölur, að segja alveg skýrt, hvað menn eiga við með orðinu „greiðslujöfnuður“. Það er með þetta orð eins og orð almennt, að það má nota orð í margs konar merkingu, og það er ekkert einsdæmi, að orðið „greiðslujöfnuður“ sé notað í fleiri en einni merkingu. Það hefur verið notað í fleiri en einni merkingu. En það er skylda hvers manns, sem orðið notar og segir frá tölum, sem það tákni, að segja, í hvaða merkingu hann er að nota orðið. Það er í þeim efnum, sem hv. forsvarsmönnum stjórnarandstöðunnar hefur orðið fótaskortur og þess vegna sagt hluti, sem gefa tilefni til mjög alvarlegs misskilnings á málinu. Ég tók hér með mér frv. ríkisstj. um efnahagsmál ásamt grg. og vitna þar í bls. 31 til þess að taka af öll tvimæli um, í hvaða merkingu ríkisstj. og hennar sérfræðingar frá byrjun hafa notað orðið „greiðsluhalli“. Það er á bls. 31, með leyfi hæstv. forseta:

Yfirlit um greiðsluhallann við útlönd frá 1955–1958. Þar er fyrsti liðurinn greiðslujöfnuður á vörum og þjónustu, og niðurstaðan á honum er halli á vörum og þjónustu. Í næstu línu fyrir neðan eru afborganir af erlendum lánum, eins og ég var að lesa, og svo aðrar fjármagnshreyfingar og leiðréttingar og síðan gerð grein fyrir, hvernig hallinn er jafnaður, og alls er greiðsluhallinn við útlönd svona saman settur talinn það, sem þar er greint, og þær tölur eru í samræmi við það, sem ég las áðan, nema ég hef aðeins fengið bætt við tölunum fyrir 1959 og 1960.

Ég mun því algerlega vísa þeirri staðhæfingu heim til föðurhúsanna, að ríkisstj. hafi sagt eða gert neitt eða birt nokkurn skapaðan hlut, sem gefi tilefni til misskilnings í þessum efnum. Ég vil raunar ekki heldur trúa því, að hv. þm., sem ég þekki af margra ára samstarfi í ríkisstj. að eru báðir mjög töluglöggir, átti sig ekki á þessu. Ég er sannfærður um, að þeir gerðu það báðir. Þess vegna get ég ekki annað en harmað það, að þrátt fyrir það skuli svona alvarleg tilefni vera gefin almenningi til þess að misskilja þessi efni.

Niðurstaðan af því, sem ég hef sagt um þetta efni, er því sú að beina því til hv. stjórnarandstæðinga og raunar til þm. yfirleitt í umr. um þessi mál að gera almenningi þau ekki enn torskildari en þau í raun og veru eru með því að fara gálauslega með orð og tölur í þessu sambandi. Við ættum að koma okkur saman um það hér á hinu háa Alþingi, það er í raun og veru atriði, sem skiptir miklu máli fyrir virðingu Alþingis hjá þjóðinni, að við stöndum hér ekki hver framan í öðrum og segjum hver annan segja ósatt um hluti, sem engin ástæða á að vera til að della um, ef menn bara koma sér fyrir fram saman um að meina það sama með þeim orðum, sem menn nota.