20.01.1961
Neðri deild: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það má greinilega verða var við það í þessum umr., að hæstv. viðskmrh. finnur allóþægilega nú, að hann hefur tekið upp sérstaka þýðingu á ákveðnu orði, sem hér hafði verið notað allmikið af opinberum aðilum áður, en það var orðið „greiðsluhalli“. Bæði hagstofan og eins hagfræðideild Landsbankans, sem gefur út Fjármálatíðindi, höfðu notað þetta orð um margra ára skeið þannig, að ekki fór mikið á milli mála, hvað stóð á bak við þetta orð, hvað þar var átt við, og það var einmitt í þeirri merkingu, sem við stjórnarandstæðingar notuðum þetta orð i nokkrum deilum, sem hér fóru fram um efnahagsmálin um það leyti, sem verið var að samþykkja viðreisnarlöggjöf ríkisstj. Allt fram til þess hafði verið gerð sú grein fyrir orðinu „greiðsluhalli“, að hér væri um að ræða uppgjör á viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd, þ.e.a.s., að taldar voru til útgjalda hjá okkur allar innfluttar vörur, sem við keyptum til landsins, og greiðsla fyrir alla þjónustu til útlendinga, en hins vegar var tekið sem tekjur hjá okkur allur okkar útflutningur og allar þær tekjur, sem við áttum að fá fyrir þjónustu við útlendinga. Þannig var dæmið gert upp, og þetta var kallað í öllum opinberum skýrslum greiðsluhalli þjóðarinnar, þegar svo stóð á, eða greiðslujöfnuður við útlönd.

En hæstv. núv. ríkisstj. dugði það ekki, þegar hún fór að rökstyðja frv. sitt til gengislækkunar og efnahagsráðstafana, að notfæra sér þessa skýringu á orðinu „greiðsluhalli“, og hún tók upp þá nýlundu, að nú bætti hún við þessa tölu, sem birt hafði verið af þessum opinberu aðilum, allríflegri summu til viðbótar og lagði hana þar við og sagði: Hinn raunverulegi greiðsluhalli er svona mikill. — Þá var vitanlega komin önnur merking í orðið greiðsluhalli. Og hvað var þetta í aðalatriðum, sem hér skakkaði um? Það var það, að ríkisstj. tók til viðbótar afborganir af erlendum lánum þjóðarinnar og bætti við hið fyrra uppgjár og fékk þannig greiðsluhallann út hærri. M.ö.o.: ef þjóðin hefur skuldað 700 millj. kr. erlendis og borgað síðan af þessum 700 millj. kr. 100 millj., lækkað skuldir sínar úti, þá var sú greiðsla tekin til viðbótar við innfluttar vörur og talin sem bein útgjöld og skapa halla hjá þjóðinni. Auðvitað höfðu okkar fjármálastofnanir, eins og hagfræðingarnir við Landsbankann og hagfræðingarnir við hagstofuna, aldrei viljað telja þetta til halla í rekstri þjóðarinnar, þó að hún lækkaði skuldir sínar við útlönd. En þetta þótti hæstv. ríkisstj. nauðsynlegt að gera á þessum tíma, að telja þessar afborganir með og bæta ofan á þá tölu, sem alltaf hafði verið færð í opinberum skýrslum sem greiðsluhalli, og þannig fékkst út háa talan. Svo gerist auðvitað það einkennilega, að þegar uppgjörið kemur fyrir viðreisnarárið, þá þarf allt í einu að taka upp gamla lagið aftur. Þá má ekki hafa sama hátt á og telja afborganir af skuldum líka með. Nei, þá eru sýnilega merkingarnar tvær í orðinu, og nú verða menn bara að gæta að sér, hvort þeir nota heldur þessa merkinguna eða hina.

Nei, það er alveg augljóst, hvað hér er um að ræða, og getur hver hv. alþm. glöggvað sig greinilega á því með því að líta yfir Hagtíðindi og með því að líta yfir Fjármálatíðindin. Þá sést greinilega, að árum saman hefur greiðsluhallinn alltaf verið gerður upp á þann hátt, sem við notuðum þessa tölu, en ekki á þann hátt, sem ríkisstj. leyfði sér að gera, þegar hún gerði upp greiðsluhallann við útlönd

Í grg. sinni fyrir viðreisnarfrv. Þar var verið að hafa rangt við, og nú kemur það henni í koll aftur.

En það er fleira í þessum efnum, sem er eftirtektarvert og í rauninni miklu athyglisverðara en þetta uppgjör og það, sem nú er sagt, og það, sem þá var sagt. Við stjórnarandstæðingar bentum á, að hinar opinberu skýrslur hefðu sagt, að greiðsluhallinn við útlönd árið 1958, síðasta ár vinstri stjórnarinnar, hefði samkv. opinberum skýrslum verið talinn 90 millj. Það er rétt, að á sumum skýrslunum var hann talinn 75, eins og hæstv, viðskmrh, nefndi hér áðan. Var það vegna þess, að tilteknar fiskbirgðir, sem höfðu verið fluttar út til Ameríku, voru þá ekki taldar með í öðru tilfellinu. En hagstofan notaði töluna 90 millj. í greiðsluhalla, og ég held mig við þá tölu árið 1958. Við þessa tölu þurfti auðvitað ríkisstj. að bæta afborgunum af lánum til lækkunar á erlendum skuldum til þess að fá greiðsluhallann eitthvað upp þetta ár. En það var ekki það, sem ég ætlaði að tala um nú. Við bentum á, að þegar litið væri á þennan greiðsluhalla fyrir árið 1958, 90 millj., þá bæri að líta á það, að birgðir í landinu af útflutningsvörum, framleiddum fiski, sem lá tilbúinn hér í landinu, höfðu aukizt um 90 millj. Hefði hann verið fluttur út, þá náðist fullkominn greiðslujöfnuður þetta ár. En það var alveg hlaupið yfir það, alveg stigið yfir það. Menn vildu ekki líta á það, þó að það sé vitanlega eitt af stærstu atriðunum í þessu, hvort birgðir af útflutningsvörum hafa minnkað eða aukizt á viðkomandi ári. Við bentum einnig á annað atriði, og það var það, að þegar menn litu á greiðsluhallann 90 millj. árið 1958, bæri að taka tillit til þess, að þá væri búið að telja til útgjalda hjá þjóðinni allan hinn mikla innflutning, sem væri vegna innflutnings á skipum, flugvélum og stórkostlegum gjaldeyrisgreiðslum til þess að greiða slík mannvirki eins og Sogsvirkjunina og önnur stór mannvirki í landinu. Við bentum á, að þegar svo stæði á, að þjóðin stæði í stórfelldum framkvæmdum, eins og við að byggja Sogsvirkjun, sem kostaði yfir 200 millj. kr., þá hlyti það vitanlega að skapa allmikil gjaldeyrisútgjöld á því ári, sem þetta gengi yfir, og það yrði að taka tillit til þess, þegar menn gerðu sér grein fyrir því, hvað þessi greiðsluhallatala raunverulega segði. Nei, ríkisstj. var ekki aldeilis á því, leit fram hjá því öllu saman, og greinargerðin fyrir viðreisnarfrv. ber þess glöggt vitni, að hún tók ekkert tillit til þess í sinum tölum, hvað var flutt inn á árunum 1958 og 1959 af skipum, af flugvélum og öðru, sem var í sambandi við stórframkvæmdir í landinu.

En nú, þegar kemur til uppgjörs á árinu 1960 og það er auðvitað mikill greiðsluhalli, þá segir hæstv. viðskmrh.: Þetta segir ekkert, það verður að taka tillit til þess og draga hér frá innflutning á skipum, bátum og flugvélum, ef það á nokkurt vit að vera í þessum samanburði. Man þessi hæstv. ráðh., hvernig hann brást við þessum athugasemdum okkar, þegar hér var verið að deila um viðreisnarfrv. á sínum tíma í byrjun ársins? Ég veit, að hv. alþm. muna vel eftir því. Þá var stigið yfir þetta, og ríkisstj. lézt ekki sjá það og vildi ekki viðurkenna það, að raunverulega hefði útkoman á árinu 1958 verið mjög hagstæð í viðskiptum þjóðarinnar út á við, þar sem bókfærður greiðsluhalli var aðeins 90 millj. kr., en birgðaaukning á útflutningsvörum var jafnmikil á því ári, þrátt fyrir gífurlega mikinn innflutning, sem þá var, eða óvenjulega mikinn innflutning á dýrum tækjum og stofnkostnaði nýrra atvinnufyrirtækja í landinu. En það þurfti að sanna þjóðinni það þá, að svo væri komið, að þjóðarbúið væri rekið með gífurlegum halla, 200–300 millj. kr. halla á hverju ári, og að þessi halli hefði verið til jafnaðar 200 millj, kr. s.l. 5 ár eða yfir 1000 millj. kr. alls, eins og menn muna vel eftir. Menn verða vitanlega að vera sjálfum sér samkvæmir í þessum efnum. Ef þeir vilja gera greiðsluhallann upp eitt árið þannig, að hin gamla merking í orðinu „greiðsluhalli“ ætti ekki að notast, heldur ætti að bæta við hana líka greiðslum á afborgunum, og það ætti heldur ekkert tillit að taka til þess, hvort mikið var flutt inn af dýrum atvinnutækjum, þá vitanlega verður að gera það annað árið líka.

Við skulum nú aftur halda okkur við það að líta örlítið á uppgjör ársins 1960 og ársins 1959, því að mér þótti hæstv. viðskmrh. fara þannig með tölur þar eða leggja þannig merkingu í tölur, að menn hefðu getað haldið, að útkoman á því ári hefði raunverulega verið miklum mun betri í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd en t.d. á árunum á undan. En ef hann vill vera heiðarlegur í málflutningi, eins og hann var hér að óska mjög eftir að þm. væru, verður hann þó að viðurkenna, að hvernig svo sem hann veltir tölunum fyrir sér fyrir árið 1960, þá er afkoma þjóðarinnar út á við langverst það ár og enn verri en árið 1959, sem hún var þó lökust samkvæmt opinberum tölum.

Ég benti á það í umr, í gær, að einn af þekktum hagfræðingum í landinu og einn af þeim, sem munu vera í sjálfu hagfræðingaráði Sjálfstfl., starfsmaður Verzlunarráðs Íslands, Þorvarður J. Júlíusson, hefði alveg nýlega gert grein fyrir því í Morgunblaðinu, að á sambærilegum grundvelli, — en hann reiknaði allar tölur á nýja genginu, en ekki á gamla genginu, eins og hæstv. viðskmrh. gerði, — þá hefði greiðsluhallinn verið árið 1959 475 millj., en árið 1960 460 millj., eða svo að segja jafnmikill. En sá var bara munurinn, eins og ég benti á, og ég vil minna hæstv. viðskmrh. á að gera þar athugasemd við, ef ekki er rétt með farið hjá mér, að árið 1959, þegar greiðsluhallinn er talinn þarna 475 millj., það ár var mjög mikil birgðaaukning á útflutningsvöru í landinu. Greiðsluhallinn það ár stafaði að verulegu leyti af því, að það var aukning á útflutningsbirgðum í landinu. Það stóð svona á um áramótin með útflutninginn. En árið 1960, þegar greiðsluhallinn er talinn 460 millj., var hins vegar gengið verulega á útflutningsbirgðirnar, þær minnkuðu. Það var ekki nóg að flytja út afurðir ársins 1960 á þessu ári, heldur þurfti einnig að flytja út á þessu ári afurðir frá árinu 1959. Allar síldarlýsisbirgðirnar og síldarmjölsbirgðirnar frá árinu 1959 voru fluttar út á árinu 1960 og gera vitanlega útkomu ársins 1960 þar af leiðandi miklu betri, þegar litið er á þetta í tölum. Það sér því hver maður, sem tekur þarna tillit til birgðanna, að hinn raunverulegi halli á búskapnum árið 1960 er miklum mun meiri en hallinn var 1959, þegar hallinn var þó mestur áður. En eins og ég benti á í ræðu minni í gær, þá er sanngjarnt að bæta við, að vitað er, að árið 1960 er innflutningurinn — eða útgjöld þjóðarinnar gjaldeyrislega séð — talinn minni en hann raunverulega er, vegna þess að talsverður hluti af innflutningnum, sem búið er að taka inn í landið og nota, hefur ekki enn verið færður til reiknings gjaldeyrislega séð, við skuldum hann enn þá í stuttum vörukaupalánum til erlendra verzlunarhúsa. En áður var þetta ekki. Þá varð að greiða vöruna, þegar hún var flutt inn og hún var tekin til notkunar. Raunverulega er því alveg augljóst mál, að árið 1960 er langsamlega lakasta árið hjá okkur í gjaldeyrislegu tilliti í viðskiptunum við útlönd.

Ég tók eftir því, að þegar hæstv. viðskmrh. reyndi að fegra nokkuð árið 1960 — síðasta ár í samanburði við önnur ár í þessum efnum, þá vill hann nú orðið draga frá innflutningnum andvirði báta, skipa og flugvéla, og hann fellst gjarnan á að draga það þá líka frá í uppgjöri áranna 1956, 1957, 1958 og 1959. En eins og hann vill fallast á að draga þennan óvenjulega mikla innflutning á bátum, skipum og flugvélum á þessu ári frá, hvers vegna þá ekki einnig að draga frá hin óvenjulega miklu gjaldeyrisútgjöld vegna Sogsvirkjunarinnar, vegna sementsverksmiðjubyggingarinnar, af hverju ekki að draga það frá líka? Var það bara vegna þess, að það var á árunum 1957 og 1958, en ekki nú á árinu 1960? Nei, svona meðferð á tölum, eins og hæstv. ríkisstj. hefur leyft sér að viðhafa í þessum efnum, hefur vitanlega hneppt hana í þennan vanda, sem hún er komin í nú.

Ef menn gera upp greiðsluhallann við útlönd eftir beinum tölum á nákvæmlega sambærilegum grundvelli og áður var, kemur í ljós, að greiðsluhallinn 1959 var miklum mun meiri en 1958, en greiðsluhallinn 1960 er gerður upp í beinum tölum nokkurn veginn sá sami og hann var 1959, en þá er raunverulega eftir að taka tillit til birgðahreyfinga og svo einnig til vörukaupalánanna.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. sagði, alveg eins og við bentum honum á, þegar viðreisnarfrv. lá hér fyrir þinginu, að það er ekki hægt að gera neinn skynsamlegan samanburð á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd frá ári til árs nema taka sanngjarnt og fullt tillit til þess, hvort þjóðin er að flytja inn á því ári stórkostleg stofnverðmæti i formi skipa, í formi nýrra orkuvera eða verksmiðja. Það verður vitanlega að taka tillit til slíks. Við vitum, að svo gæti staðið á hjá þjóðinni, að hún hefði mjög góða afkomu á einu ári raunverulega, þ.e.a.s. mikla framleiðslu og miklar tekjur og eyddi í sjálfu sér ekkert meiru en venjulega, en það ár hefði hún ráðizt í að flytja inn, auðvitað vegna þess, að hún hefur tekið erlend lán, tæki eða verksmiðjur upp á gífurlega háa upphæð, mörg hundruð milljónir eða jafnvel milljarð, og það mundi auðvitað þýða það á pappírnum, að þá væri kominn greiðsluhalli, því að þetta er allt saman talið til útgjalda, þó að eignin liggi fyrir í landinu. Slíkt uppgjör segir auðvitað ekki nema mjög takmarkað. Það var þetta, sem við vorum að benda á, stjórnarandstæðingar, þegar ríkisstj. var að berja hér fram viðreisnarfrv. sitt á sínum tíma, að það yrði að taka tillit til þess, að sá greiðsluhalli, sem hefði orðið á árunum 1957 og 1958, stafaði að mjög verulegu leyti af því, að þjóðin var þá að flytja inn þessi verðmæti, sem áttu vitanlega að koma henni að gagni í framleiðslu á komandi árum og hafa gert og eru að gera núna. Þá fékkst ríkisstj. ekki til að hlusta á þessi rök og lamdi sitt mál í gegn og blekkti þjóðina með því að halda því fram, að hallinn á þjóðarbúskapnum væri allt annar en hann var.

Á árinu 1958 varð framleiðsluaukning í sjávarútveginum í kringum 20%, af því að skipin voru orðin fleiri og nýting flotans var ein sú bezta, sem við höfum þekkt. Flotanum var jafnar og meir haldið til veiða en nokkurn tíma var áður, og því varð framleiðsluaukning. Af því náðum við því raunverulega á því ári að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd, ef við tökum birgðirnar með, sem þá höfðu safnazt upp í landinu, þrátt fyrir hinn gífurlega mikla innflutning á því ári. Það var samt sem áður öskrað framan í þjóðina af boðberum viðreisnarinnar á þessum tíma, að allt væri hér að steypast á höfuðið og að hér yrði að taka upp þessa nýju stefnu vegna gífurlegs halla á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. En það var ósatt.

Það var svo annað atriði, sem mig langaði til að víkja að nokkrum orðum, af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Hann vék hér nokkuð að vaxtagreiðslum útgerðarinnar og hvaða áhrif vaxtahækkunin hefði haft á útgerð landsmanna og komst þar að mínum dómi að furðulega vitlausri niðurstöðu. Fyrst var það, að hæstv. ráðh. tók rekstur togara og síðan tók hann rekstur vélbáts og miðaði við þær áætlanir, sem lágu fyrir um rekstrarútgjöld þessara fyrirtækja, og taldi, að vaxtaútgjöldin væru ekki rétt mikil hjá þessum aðilum, og reiknaði þetta út í 0.7% af heildarútgjöldum togara og 0.6% af heildarútgjöldum báta, þá vaxtahækkun, sem þarna hefði verið samþ. Það lá alveg greinilega í orðum hans, að þó að hann viðurkenndi, að vaxtaútgjöldin hjá fiskiðnaðinum, hjá frystihúsum mundu vera allmiklu meiri en hjá bátum og togurum, þá væri þó alls fjarri, að þetta gæti haft nein úrslitaáhrif á rekstrarafkomu fiskiðnaðarins í landinu.

Hann minntist á það, hæstv. ráðh., að hér hefðu fallið orð um, að vaxtahækkunin, sem ríkisstj. ákvað i upphafi ársins og var að meðaltali um 4%, mundi hafa jafngilt í rekstrarútgjöldum hjá frystihúsi 15–20% hækkun á öllum launagreiðslum, og taldi slíkt algera fjarstæðu. Ég hef í nokkrum tilfellum einmitt rannsakað þetta beint upp úr reikningum slíkra fyrirtækja. Ég gæti meira að segja látið ráðh. hafa reikninga eins slíks fyrirtækis. Ég tók þessar tölur hjá þessu fyrirtæki vegna þess, að ég hafði góða aðstöðu til þess að fá reikningana, og það er engin launung á því, að í þessu fiskverkunarfyrirtæki, þessu frystihúsi, sem hefur aðra fiskverkun með höndum líka, voru árið 1959 allar vinnulaunagreiðslur yfir og undirmanna þar 3.3 millj. kr. Hins vegar voru vaxtagreiðslurnar í þessu fyrirtæki árið 1959 rétt aðeins innan við eina millj. kr. Síðan voru reiknaðir út þeir vextir, sem yrðu hjá fyrirtækinu við sams konar rekstur á árinu 1960 eftir nýja vaxtakerfinu, og vaxtahækkunin var um 720 þús. kr. hjá þessu fyrirtæki. Samtals voru þá vextirnir orðnir rúmlega 1700 þús. kr. á móti 3.3 millj. vinnulaunagreiðslum, eða vaxtahækkunin jafngilti nákvæmlega 22% af öllum vinnulaunagreiðslum þessa frystihúss. Ég skal einnig bæta því við, að ég var nokkru seinna staddur á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, og þar hlustaði ég m.a. á tvo landsþekkta útgerðarmenn, þekkta sjálfstæðismenn um leið, Ólaf Jónsson úr Sandgerði og Finnboga Guðmundsson úr Gerðum, báða mjög þekkta útgerðarmenn. Lögðu þeir á þessum fundi fram skrifaða greinargerð með fyrirspurn til Jónasar Haralz, sem mætti á þessum fundi, og þar gerðu þeir grein nákvæmlega í tölum fyrir áhrifum vaxtahækkunar á tiltekinn rekstur hjá þeim í þeirra fiskiðnaði. Og niðurstaða þeirra var sú, að þeir töldu, að vaxtahækkunin hefði numið heldur hærri upphæð en í þessu dæmi, sem ég hafði litið á, þar sem dæmið sagði, að vaxtahækkunin næmi 22%. Þessir landsþekktu menn upplýstu þarna, að af þeirra bókhaldi væri það að segja, að vaxtahækkunin væri heldur hærri en þetta. Og svipaða sögu hafa aðrir að segja.

Nú skal ég koma hér með frekari skýringar á þessu almenns eðlis, svo að hæstv. viðskmrh. mætti þá athuga málið að nýju.

Það er talið, að meðalfrystihús í landinu framleiði rúmlega 1000 tonn af frystum þorskflökum. Ásamt með annarri framleiðslu, sem venjulega fylgir þessu í flestöllum tilfellum, er vægilega metið að telja, að öll framleiðsla, sem um er að ræða í slíku frystihúsi sem þessu, að fylgiafurðunum meðtöldum, sé að framleiðsluverðmæti í kringum 8–10 millj. kr., í sumum tilfellum nokkru hærri, en sjaldan eða aldrei lægri en þessi upphæð. Nú vita allir, að reynslan er sú, að þeir, sem standa í framleiðslu á fiskafurðum, verða að leggja út svo að segja allt þetta andvirði, og það geta þeir ekki gert nema taka lán til þess, þeir verða að greiða vinnulaunin, þeir verða að greiða aflaverðmætið o.s.frv., enda hefur reynsla bankanna orðið sú, að þeir hafa í langflestum tilfellum orðið að lána þessum aðilum rétt við 100% af útflutningsverði vörunnar eða alveg eins og varan kostar. Slíkt fyrirtæki sem þetta hefur þá bara af afurðunum einum varla minna umleikis á árinu en 8–9 millj. kr., sem það þarf að liggja með í lánum. Þá er spurningin þessi: Þurfa þeir nú að hafa lánið allt árið fyrir þessa ársframleiðslu? Þeir, sem hafa komið nærri skreiðarframleiðslu og verkun á saltfiski t.d., ef hann er verkaður, gefa allir upp, að þeir verði að hafa sín afurðalán í meira en sem nemur heilu ári. Það er svo og kunnugt mál, að frystihúsaeigendur hafa gefið það upp, að þeir þurfi meira að segja að bíða í kringum 6–7 mánuði að meðaltali eftir því að fá þann fisk sinn greiddan, sem þeir eru búnir að afhenda til útflutnings, það taki þá að jafnaði 6–7 mánuði, frá því að þeir afhenda fiskinn til útflutnings, þar til þeir hafa fengið hann fyllilega greiddan. En til viðbótar við þessa 6–7 mánuði má svo auðvitað bæta þeim tíma við lánstímann, frá því að fiskurinn er framleiddur og þangað til hann er tekinn til afskipunar, og það mun því mjög vægilega áætlað, að í sambandi við hraðfrystan fisk séu lánin frá 9–12 mánuði til jafnaðar. Það mun því ekki vera fjarri því, að meðaltalshús eins og þetta verði að hafa í bein afurðalán 8–10 millj. kr. yfir árið. Þá fer að verða auðvelt að sjá, hvaða vextir og vaxtahækkun er eingöngu á því. En svo er um miklu meira að ræða en aðeins afurðalánin, sem hæstv. ráðh. virðist aðallega miða við. Útgerðin þarf auðvitað að standa undir miklu, miklu meira en bara afurðalánum. Til viðbótar við þau lán, sem almennt eru bókfærð sem afurðalán framleiðslunnar, koma önnur rekstrarlán útgerðarinnar í ýmsu formi hjá bönkunum og oft og tíðum yfirdráttarlán á hlaupareikningum, sem verða líka vegna ýmiss konar bæði framkvæmda og sveiflna í rekstri. Til viðbótar við þetta koma svo líka hjá sjávarútveginum öll stofnlánin. Á hverju ári þarf útgerðin vitanlega að taka meira og minna af stofnlánum: í fiskveiðasjóði, í Framkvæmdabankanum, og útgerðarfyrirtæki verða, eins og menn vita, að taka tugi milljóna króna að láni úr ýmsum kunnum sjóðum í landinu, atvinnuleysistryggingasjóði og fleiri sjóðum, þar sem þau fá lán til sins stofnkostnaðar og á óbeinan hátt til síns rekstrar. Til viðbótar við þetta má einnig telja, að t.d. núna, eftir að vextirnir urðu svona gífurlega háir, þurfa útgerðarfyrirtæki einnig að borga þessa feiknarlega háu vexti til margra viðskiptavina sinna, eins og t.d. olíufélaga og margra annarra, ef um drátt er á greiðslu þangað að ræða. Það er því alveg furðulega fjarstætt, þegar hæstv. ráðh. talar um það, að öll lán til sjávarútvegsins hafi verið núna í nóvemberlok 1470 millj. kr. Ef hann vill líta á skýrslur bankanna, þá segja þær, að öll lán bankanna, — aðeins lán bankanna og sparisjóðanna, — hafi verið 4600 millj. kr. um þetta sama leyti. En svo heldur hæstv. ráðh., að lán sjávarútvegsins, þegar þau eru öll talin, hafi ekki verið nema 1400 millj. Hverjir skyldu hafa allt hitt? Ekki eru í þessari tölu nein stofnlán. Stofnlánasjóðirnir eru þar að auki taldir með 2500 millj. kr. í stofnlán. Heildarlánin hjá fjárfestingarlánasjóðunum og bönkum og sparisjóðum eru þannig talin hartnær 7 þúsundir milljóna. Það er vitanlega alger fjarstæða að tala um, að öll lán til sjávarútvegsins séu þessar 1470 millj., sem hæstv. ráðh. hér talar um. Hér er fyrst og fremst um að ræða afurðalán eða lán, sem eru í beinum tengslum við afurðalán hjá bönkunum. En önnur lán eru í margs konar formi veitt til útgerðarinnar og eru langt umfram þetta. Þessi einstöku dæmi, sem auðvelt er að taka, ef menn vilja kanna það í einstökum tilfellum, — þessi einstöku dæmi um rekstur fiskiðjuvera sýna glögglega, hversu vaxtaútgjöldin eru gífurlega þung á rekstrinum.

Vextirnir í sambandi við rekstur bátanna og rekstur togaranna koma svo raunverulega fram í gegnum þennan gífurlega vaxtaþunga fiskiðnaðarins. Þegar svona baggar eru lagðir á fiskiðnaðinn, gerir hann ekkert annað en það, að hann lækkar fiskverðið til bátanna og fiskverðið til togaranna, og þannig vitanlega hvílir þetta á þessum greinum sjávarútvegsins á óbeinan hátt. En við getum sagt, að þessar byrðar hvíli á sjávarútveginum sem heild.

Ég veit svo ekki, hvort það er einhver hending líka, að hæstv. viðskmrh. nefndi hér tiltekna tölu í nóvemberlok. En það er einmitt svo, að í nóvemberlok eru allajafna allar afurðabirgðir og hin skráðu lán útvegsins hin lægstu, sem þau yfirleitt verða, vegna þess að þá er búið að ganga lengst á birgðirnar, sem liggja í landinu. Þá er búið að flytja tiltölulega mest út, og menn eru rétt að verða búnir að hreinsa sig upp fyrir næsta úthald. En lánin til sjávarútvegsins í maí-júní, þegar mjög mikill hluti af afurðalánum út á vetrarvertíðina er enn standandi og þar að auki eru lán vegna síldveiðanna, bæði til síldarverksmiðja og annarra, að bætast þar í hópinn, eru vitanlega miklum mun hærri.

Ég held, að það væri miklu sæmra fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að gera sér alveg hleypidómalausa grein fyrir því, hvað er rétt í þessum efnum, en vera að fimbulfamba með slíka fádæma fjarstæðu og vitleysu, eins og Morgunblaðið hefur verið með undanfarna daga í sambandi við þunga vaxtanna og ég heyri nú, að hæstv. viðskmrh. endurtekur hér lið fyrir lið, eins og Morgunblaðið hefur verið að hafa þetta upp undanfarna daga, hvort sem hann hefur nú gefið Morgunblaðinu þessar upplýsingar, sem hann sagðist hafa fengið eftir góðum heimildum, eða hann hefur farið að taka þessa vizku beint upp úr Morgunblaðinu. En ég get fullvíssað hann um það, að hér er algerlega rangt með farið og ekki í neinu samræmi við það, sem staðreyndir segja til um.

En það er með þetta eins og ýmislegt fleira, að það virðist vera, að það fari alveg eftir því, hvað við á í hvert skipti. Vaxtahækkunin var feiknalega mikil og voldug og stórkostlega þýðingarmikil fyrir alla hina mörgu og sárþjáðu sparifjáreigendur í landinu. Þá var hún mikil. En þegar þarf aftur að telja hana fram hjá hinum, sem eiga að borga hana, þá bara munar ekkert um þetta. Svipaða sögu er að segja um aðra hluti í þessu uppgjöri hæstv. ríkisstj., að það skiptir auðvitað engu máli að taka tillit til þess, þegar hún var að rökstyðja sína viðreisn, þó að þjóðin hefði notað mjög miklar fjárfúlgur á árinu 1958 til þess að flytja inn skip og flugvélar og heilar verksmiðjur. Það skipti engu máli. Það varð bara að líta fram hjá því. En núna, þegar hún stendur þannig fyrir því sjálf, þá gefur alranga hugmynd af ástandinu að taka ekki tillit til þess arna. Þetta er auðvitað að segja eitt í dag og annað á morgun, af því að maður er kominn í flækju, af því að maður er búinn að tefla sig inn í vitleysu og menn sjá ekki almennilega leið út úr henni. Þetta er nákvæmlega sama myndin og ég gerði hér grein fyrir í gær, og auðvitað kom ekki eitt einasta orð frá hæstv. ráðh. út af. Eins og það sé ekki einkennilegt, að einn liður í viðreisninni skyldi vera í febrúarmánuði að breyta gamalli lagasetningu varðandi sjávarútveginn og ákveða að stytta lánstímann á stofnlánum til sjávarútvegsins? Lög, sem höfðu staðið í mörg ár, þar sem ákveðið var, að fiskveiðasjóður skyldi lána út á skip og báta til 20 ára og til mannvirkjagerðar í landi til 20 ára, það þurfti endilega vegna viðreisnarinnar að breyta þessum lögum og segja: Það má ekki hafa lánin lengur en til 15 ára og 12–15 ára, ef það voru fasteignir í landi. — En núna eftir tíu mánuði koma sömu menn og segja: Nú höfum við fundið leiðina út úr öllum vandanum. Það er bara að lengja stuttu lánin. Það á að taka þessi lán, sem eru til of stutts tíma, og lengja þau í 15–20 ár. Þá er allt í lagi. — Í fyrra tilfellinu var það svo, að þá þurfti endilega að hækka vextina á stofnlánum sjávarútvegsins úr 4% í 6.5%. En menn þurfa að borga núna 7–8% af þessum stuttu lánum, og á að lækka þetta niður í 61/2 %.

Nei, ég held fyrir mitt leyti, að langbezta leiðin fyrir hæstv. ríkisstj. og ráðherra hennar væri að segja það, sem er nú líklega mjög mikið til rétt, að hún hafi látið ákveðna ráðunauta sína villa sér sýn og hafi álpazt út í ráðstafanir, sem verði að kippa öllum til baka aftur, af því að þær hafi allar reynzt vitlausar, og snúa svo bara hreinlega til baka aftur, setja skömmina í þessum efnum á þá, sem líklega eiga frumskömmina í þessu, þótt auðvitað geti ríkisstj. ekki skotið sér undan því, að hún hefur samþykkt þetta, hún hefur fallizt á þessar ráðstafanir, sem allar hafa mislukkazt.

Nú standa menn frammi fyrir því, að nettóskuldaaukning þjóðarinnar við útlönd er í kringum 500 millj. á árinu 1960. Það er ekki mín tala, það er ekki ég, sem hef sagt þetta, heldur sagði svo í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum einn af hagfræðingum Sjálfstfl.. Þorvarður J. Júlíusson. Hann sagði, að nettóskuldaaukningin við útlönd af föstum lánum væri um 500 millj. En einn megintilgangur viðreisnarinnar átti einmitt að vera að minnka skuldirnar við útlönd, því að þær væru orðnar allt of háar. Og hæstv. viðskmrh. er nýlega búinn að vera hér uppi í pontunni og verður þar að viðurkenna, að raunverulega er greiðsluhalli við útlönd, mældur á sömu mælistiku og hér hefur verið gert áður, á árinu 1960 einn sá mesti, sem við höfum haft. Og það er, eins og ég sagði þá, engin afsökun fyrir ríkisstj., þó að hún geti sagt: Á árinu 1960 var flutt inn mikið af bátum og skipum, óvenjumikið, — vegna þess að á árunum á undan var flutt inn óvenjumikið bæði af bátum og skipum og flugvélum og verksmiðjum. Það er því enginn munur á því nú og því, sem áður var.

Ég beindi svo þeirri fsp. til hæstv. viðskmrh. í gær í sambandi við þessa lagasetningu, hver hefði raunverulega verið ástæðan til þess, að ríkisstj. hefði talið sig vera knúna til þess að setja brbl. um þetta skuldauppgjör hjá útgerðinni. Eins og menn kannast við, er svo fyrir mælt í stjórnarskrá landsins, að ekki skuli setja brbl. nema brýn nauðsyn sé til slíks. Hæstv. ráðh. svaraði hér áðan því einu til, að í grg. fyrir brbl. væri tekið fram, að hér væri um brýna nauðsyn að ræða, og það hefði verið nauðsynlegt, vegna þess að vertíð væri að byrja. Ég fæ ekki séð það enn, hvaða munur hefði verið á því fyrir útgerðina til þess að byrja vertíð að vera búin að fá, eins og hún var búin að fá áður, loforð ríkisstj. fyrir því, að þessar lánalengingar skyldu fara fram, og svo því, að sjá þetta sett sem brbl. án nokkurrar athugunar hér á Alþingi. Nú var líka öllum útgerðarmönnum alveg augljóst mál, að þó að þessi lög yrðu sett sem brbl. 5. jan., hlaut það að taka alllangan tíma, ég vil segja marga mánuði, þangað til búið verður að veita lán samkvæmt þessum lögum, svo að nokkuð um muni. Lánveitingarnar geta aldrei farið fram fyrr en á miðri vertíð eða seinni hluta vertíðar, það er gefið mál, því að menn vita, að framkvæmdin á að vera sú, að þrír matsmenn eiga að meta allar eignir útgerðarinnar. Það á að taka frystihús úti á landi og meta það í hólf og gólf, hvað slíkt frystihús mundi kosta á verðlagi dagsins í dag, og rannsaka, hvað vélarnar eru gamlar, hvað húsið er gamalt, og fyrna þetta niður til þess að finna matsverð. Auðvitað tekur þetta langan tíma, allt það uppgjör, sem hér á að fara fram. Undirbúningsvinnu að þessu hefði mátt vinna alla saman, ef ríkisstj. var búin að gefa útgerðarmönnum loforð um að setja þessi lög og ef hún víssi, að hún hafði raunverulega þingfylgi fyrir lögunum. En hún átti ekki heldur að gefa út nein brbl., nema hún hefði slíkt þingfylgi, og það hlýtur hún að hafa verið búin að kanna, þegar hún gaf út brbl. Það var því þarflaust með öllu að rjúka upp og gefa út brbl. í þessum efnum, og ég sé ekki annað en öllum ríkisstj. sé mjög auðvelt að gefa út brbl. yfirleitt í öllum tilfellum, ef má rökstyðja þörfina fyrir brbl. á jafnléttilegan hátt og hér er gert. Mér finnst því, að skýring hæstv. ráðh. á setningu brbl., nokkrum dögum áður en þing kom saman, sé mjög ófullnægjandi.

Ég lagði fyrir hæstv. ráðh. hér í umr. í gær nokkrar aðrar fsp. varðandi framkvæmd þessara væntanlegu laga. Ég spurðist m.a. fyrir um það, hvort nokkuð væri ákveðið í þeim efnum, hvað hér væri um mikil heildarlán að ræða, ég hefði heyrt minnzt á 300 millj., 400 millj. og jafnvel allt upp í 700 millj. Hefur ríkisstj. ekki hugsað sér einhver takmörk í þessum efnum, hvað má taka undir þessa lengingu mikla heildarfjárhæð, eða er hér kannske engin takmörkun á? Enn fremur spurðist ég fyrir um, hvort ákvarðanir hefðu verið teknar um vexti af þessum væntanlegu lengingarlánum. Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. svaraði þessu neinu.

Annað atriði er líka mjög mikilvægt, sem ég spurðist hér fyrir um, en það er varðandi framkvæmdina á þessum málum, hvort ákveðnar hefðu veríð einhverjar reglur um það, hvað af skuldum útvegsins skyldi fyrst og fremst taka upp í þessi lengingarlán. Á t.d. fyrst að taka lán, sem hafa verið veitt sem afurðalán, jafnvel upp í 100%, og lækka þau lán ofan í 70% af áætluðu útflutningsverði afurðanna, eins og ég hef heyrt nokkuð talað um? Eru þetta þau lánin, sem m.a. eiga að ganga fyrst yfir í þessa lengingu, eða eiga það kannske að vera viðskiptabankarnir, sem algerlega ráða, hvað af skuldum útgerðarfyrirtækja verður lengt á þennan hátt? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þessi atriði. En meginatriðið er þó það, sem ég hef aðallega rætt í þessum umr., en það eru ástæðurnar fyrir því, að þessi lög eru nú sett, þau eru nú fram komin, að nú þarf tíu mánuðum eða svo, eftir að viðreisnarlöggjöfin tók gildi, að framkvæma almenn skuldaskil hjá útgerðinni, þó að sagt væri með viðreisnarlöggjöfinni, að megintilgangur hennar væri að koma rekstri útgerðarinnar á hallalausan grundvöll og heilbrigðan grundvöll. Auðvitað sjá menn, að þetta takmark viðreisnarinnar hefur gersamlega brugðizt.