18.11.1960
Neðri deild: 24. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

6. mál, heimild til að veita Friedrich Karl Lüder atvinnurekstrarleyfi á Íslandi

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 14. júní s.l. Í forsendum fyrir lögunum segir, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi gert samning við Friedrich Karl Lüder verkfræðing í Kiel í Þýzkalandi um vinnslu hraunefnis í landi kaupstaðarins, en slík vinnsla hefur í för með sér þörf viss atvinnurekstrar hér á landi. Eigi er heimild í lögum til þess að veita útlendingum leyfi til atvinnurekstrar í landinu, nema þeir séu þar heimilisfastir. Þar eð umræddur Friedrich Karl Lüder á ekki lögheimili hér á landi, ber brýna nauðsyn til þess, að heimild sé gefin í þessu sérstaka tilfelli, til þess að veita atvinnurekstrarleyfi, þó að atvinnurekandi sé ekki heimilisfastur hér á landi.

Iðnn. hefur athugað frv. og leggur einróma til, að það verði samþykkt. Ég legg til, að því verði vísað til 3. umr.