23.01.1961
Neðri deild: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú raunverulega engum blöðum um það að fletta, hvernig þessi brbl., sem hér hafa verið lögð fyrir hv. d., eru til komin. Það er greinilegt, að þessi brbl. stafa af samningum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert við L.Í.Ú., og sjálf útgáfa þessara brbl. er brot á þeim fávíslegu yfirlýsingum, sem ríkisstj. áður hefur gefið um, að hún mundi ekki skipta sér af atvinnulífinu. Það er vitanlegt, að engin stjórn á Íslandi getur setið án þess að skipta sér af atvinnulífinu. En spurningin, sem fyrir liggur hér, er, á hvern hátt hún gerir það. Og það, sem ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj, að, er: Til hvers samdi hún við L.Í.Ú. um að gefa út þessi brbl.? Gerði hæstv. ríkisstj. það til þess að láta þá, sem ráða í L.Í.Ú., stöðva sjávarútveginn? Eiga þetta að vera mútur til þeirra, sem ráða í Landssambandinu, til þess að stöðva sjávarútveginn núna? Eða var meiningin hjá ríkisstj., að þetta ætti að hjálpa til þess að koma sjávarútveginum af stað? Ég vil vonast eftir, að hæstv. ríkisstj. viti, hvað er að gerast þessa dagana. Þessa dagana er klíka nokkurra manna hér í Reykjavík, voldugustu og ríkustu manna landsins, að senda erindreka út um allt land til þess að reyna að hindra samninga sjómanna og útgerðarmanna. L.Í.Ú. hefur látið útgerðarmenn úti um allt land skrifa upp á ekki aðeins umboð til sín um að semja, heldur líka upp á víxla, og þessa dagana, þrjá síðustu dagana, hefur klíkan, sem stjórnar í L.Í.Ú., verið að hóta þessum útvegsmönnum úti um allt land að ganga að þeim, svo framarlega sem þeir semji við sjómenn. Ég hef stundum dálitla hugmynd um, að a.m.k. hæstv. viðskmrh., enda sýna ræður hans það, sé nokkuð langt frá lífinu og fylgist litið með því, sem gerist í atvinnulífinu á landinu. Ef hann hefur ekki vitað af þessu, vil ég, að hann viti af því. Ég vil, þegar liggur fyrir frv. eins og þetta, vita, hvort á að nota þá aðstoð, þann skuldaskilasjóð, sem verið er að skapa handa útvegsmönnum, til þess að gera þá færari um að stöðva útveginn eða hvort það er gert til þess að gera þá færari um að gera út. Það er nauðsynlegt, að við vitum, hvort ríkisstj. ætlar að hjálpa til þess, að útvegurinn komist af stað. Hún er sem stendur með því að standa á bak við vinnuveitendaklíkuna hér í Reykjavík gegnum ríkisbankana að stöðva útveginn, og það er bezt, að hún geri sér strax ljósa ábyrgðina af því.

Ég hef haft allmikið með útvegsmenn að gera allan þann tíma, sem ég hef setið hér á Alþingi, og ekki sízt með þá lagasetningu, sem hér um ræðir, stofnlánadeildina. Ég efast um, að nokkur annar einstaklingur hafi meira að því unnið að koma þeirri stofnlánadeild á heldur en ég og háð harðari baráttu fyrir henni. Spurningin, sem hlýtur að leggjast fyrir í hvert skipti, er, hvort þeir útvegsmenn, sem með þessu móti er verið að hjálpa, eiga það skilið eða ekki. Í íslenzkri útvegsmannastétt er mikið af mönnum, sem hafa áhuga á að reka sjávarútveginn, mönnum, sem fyrst og fremst eru fiskimenn, veiðimenn, mönnum, sem eru áhugasamir um að geta gert út sína báta. Þessir menn, þessir útvegsbændur standa í góðu sambandi við sína sjómenn. Þessir útvegsbændur hafa enga sérstaka tilhneigingu til þess að troða skóinn niður af sínum sjómönnum eða níðast á þeim. En þessir útvegsmenn hafa verið flæktir inn í L.Í.Ú. og orðið svo að segja að vera í því, vegna þess að öðruvísi hefur varla verið hægt að reka fiskframleiðslu á Íslandi á undanförnum árum. Og nú er svo komið, að lítill hópur manna, sem raunar er ekki fyrst og fremst útvegsmenn, heldur eigendur hraðfrystihúsa, ræður yfir L.Í.Ú., og það eru þessir menn, sem reyna að knýja það í gegn með aðstoð Vinnuveitendasambands Íslands að stöðva sjávarútveginn á Íslandi með því að neita sómasamlegum samningum við sjómenn. Smáútvegsmenn úti um allt land hafa viljað semja undanfarið, það hafa verið sendir erindrekar til Vestmannaeyja, það hafa verið send skeyti til Stöðvarfjarðar, það hefur dunið yfir héðan úr Reykjavík pískurinn frá Reykjavíkurauðvaldinu til þess að brjóta þessa smáútvegsbændur niður, til þess að hóta þeim gjaldþroti, svo framarlega sem þeir semja við sína sjómenn. Þetta er nauðsynlegt að sé Alþingi ljóst, þegar við förum að ræða mál eins og þetta hérna.

Ég hef ekki síður en nokkur annar hér á Alþingi barizt fyrir því að tryggja íslenzkum sjávarútvegi og íslenzkum útvegsmönnum góð vaxtakjör og góð lánakjör. Ég veit ekki, hvort þeir hafa nokkurn tíma notið betri lánakjara en þeirra, sem við knúðum í gegn eftir harðvítuga baráttu einmitt í þessari stofnlánadeild, 21/2 % vexti til 15–20 ára, allt upp í 75–85% af kostnaðarverði eignarinnar. En ég verð að segja það, að þegar ég barðist fyrir slíku og verkalýðshreyfingin, sem ég er hér fulltrúi fyrir, þá hefur hún gert það til þess, að útvegurinn gæti gengið, þá hefur hún gert það til þess að létta undir með þeim, sem vinna í þessum útvegi, sjómönnum og vinnandi útvegsbændum, en ekki til þess að skapa aðstöðu fyrir litla auðmannaklíku hér í Reykjavík til þess að drottna yfir útgerðinni. Ég held, að það verði það fyrsta, sem við verðum að rannsaka í sambandi við þessa stofnlánadeild og í sambandi við það, sem nú stendur yfir, og þá samninga, sem nú standa yfir, hvernig eigi að nota þá hjálp, sem þarna er verið að veita. Það er verið að reyna að reyra núna sjávarútveginn á öllu Íslandi í fjötra lítils og fámenns auðvalds hér í Reykjavík. Verkalýðshreyfingin hefur yfirleitt rétt útvegsmönnum bróðurhönd. Hún hefur hjálpað þeim hér á Alþingi til þess að koma í gegn, jafnvel stundum haft forgöngu fyrir að koma í gegn löngum lánum, lágum vöxtum, hjálpað til að útvega þeim markaði og reyna að tryggja á þennan hátt viðgang íslenzka sjávarútvegsins, svo að maður tali ekki um að fá þeim tæki upp í hendurnar, þegar þeir höfðu enga trú á því sjálfir að reka þau.

Eigi nú það Reykjavíkurauðvald, sem virðist vera að taka að sér yfirstjórnina á L.Í.Ú., að fara að ráða þarna og fara að sýna klærnar, bæði gagnvart sjómönnum og útvegsbændum úti um allt land, þá náttúrlega verður að endurskoða þessa hluti. Það getur farið svo, að verkalýðshreyfingin verði að sýna hnefann, ef hinir sýna klærnar. Þess vegna er nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. fylgist með því, sem er að gerast í þessum málum. Aðstoð til manna getur því aðeins komið til greina, að það sé ekki aðstoð við að sýna fjandskap við sjávarútveginn og sjómennina.

Ég verð að segja það, að mér finnst fara litið fyrir baráttu L.Í.Ú. á móti vöxtunum. Það heyrist ekki mikið í þeim herrum, hvorki hér í þingsalnum né annars staðar, sem eru fulltrúar og eru í L.Í.Ú., um kröfurnar um að lækka v extina. En ef menn ætla að sýna að sama skapi aumingjaskap gagnvart bankavaldinu hér í landinu og ríkisstjórnarvaldinu í því að berjast fyrir sómasamlegum vöxtum og una við það að búa við hæstu vexti í Evrópu, þá fer skörin að færast upp í bekkinn, ef menn á sama tíma ætla að sýna sig í því að vilja reyna að kúga þá sjómenn, sem skapa þó allan þennan auð og draga allan þennan fisk að landi. Þess vegna held ég, að það verði vel að athuga, þótt málið út af fyrir sig sé gott, sem hér liggur fyrir um, hvernig á að nota þá aðstoð. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort hún ætli að gerast þumalfingurinn á þeirri járnkrumlu, sem stóratvinnurekendavaldið í Reykjavík nú er að reyna að teygja um allt land til að stöðva atvinnulíf landsins. Og ég vil minna á það um leið, að það er hægt að reka sjávarútveg á Íslandi án útvegsmanna, en það er ekki hægt að reka sjávarútveg á Íslandi án sjómanna. Það er þess vegna bezt, að menn athugi frá upphafi þá ábyrgð, sem þeir bera í þeim efnum.

Það vill svo til, að það standa yfir í þessu sama húsi, sem við erum í, samningar dag eftir dag,og það er alveg greinilegt, að það eru ekki útvegsmennirnir sjálfir, sem í þeim samningum standa, sem ráða, hvað gert er. Það er vald utan að, sem skipar þeim. Og þegar við á sama tíma vitum, að hver einasti útvegsmaður á Íslandi skuldar hjá bönkum ríkisins, og fáum öðru hvoru hugmynd um, að þessir bankar ríkisins séu notaðir til þess að ógna þessum útvegsmönnum, þá er eðlilegt, að maður spyrji hæstv. ríkisstj., hvort hún standi þarna á bak við.

Það fer ekki hjá því, að þessi mál fléttist inn í þetta. Er hér verið að beita ríkisvaldinu til þess að hjálpa sjávarútveginum á Íslandi og til þess að koma honum á stað, eða er verið að beita ríkisvaldinu í þjónustu örfárra auðmanna í Reykjavík til þess að stöðva bæði útvegsbændur og sjómenn úti um allt land? Það er bezt, að ríkisstj. geri sér sjálf ljóst, hvaða ábyrgð hún ber í þessu efni, og tali ekki seinna meir um neina, sem hafi stöðvað sjávarútveginn. Það eru þessir menn, sem eru að gera það. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að fara að athuga það, ef útvegurinn fer ekki af stað strax, að afhenda sjómönnum bátaflotann. Það er ekkert því til fyrirstöðu að reka bátaflotann á Íslandi, við höfum nóga sjómenn á hann, ef ríkisstj. er þá ekki bara handbendi fyrir þá auðvaldsklíku.

Þetta vildi ég segja fyrst í sambandi við þau mál, að við erum að ræða um sjávarútveginn og frv., sem er afleiðing af samningum á milli L.Í.Ú. og ríkisstj., og ég vil fá að vita þess vegna, ekki sízt vegna þess, að þetta frv. á að fara til þeirrar n., sem ég á sæti í, hvað ríkisstj. hefur hugsað sér, hvort þetta er hjá henni þáttur í áætlun um að stöðva útveginn eða hvort þetta á að vera til að hjálpa honum.

Hæstv. viðskmrh. talaði um það hér áðan, að vextir hefðu litla þýðingu. Ef við litum til baka til þess tíma, sem erfiðastur hefur verið fyrir sjávarútveg á Íslandi, tímans 1930–40, má ég þá rifja upp fyrir hæstv. viðskmrh., af því að hann var þá tiltölulega ungur maður og hefur kannske ekki fylgzt með hlutunum, að tvö stórfyrirtæki, sitt af hvoru tagi, annað Kveldúlfur og hitt Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, söfnuðu skuldum hjá Landsbanka Íslands á þessu tímabili. Vextirnir voru á þessu tímabili 91/2 % og ef ég man rétt, var ekki mjög mikill munur á því, sem þessi tvö fyrirtæki, sitt af hvoru tagi, höfðu borgað í vaxtafúlgu öll þessi ár eða áttu að borga, og því, sem þeirra skuldir voru. Við skulum gá að því, að vextirnir ráða úrslitum í öllu atvinnulífi, og það er alveg dæmalaust af hagfræðingi og hagfræðiprófessor. viðskiptamálaráðherra og bankamálaráðherra að koma hér og vera gagnvart Alþingi og þjóðinni að reyna að draga úr gildi vaxtanna. Sannleikurinn er sá, að Íslendingar gera sér yfirleitt alls ekki ljóst, hvað vextir hafa mikla þýðingu. Og það er af tveim orsökum, að Íslendingar gera sér það ekki ljóst. Önnur orsökin er sú, að okkar atvinnulíf er svo mikið happdrætti, af því að við erum fyrst og fremst sjómenn, að við eigum svo mikið undir sjálfum aflanum, að hlutur eins og vextir hafa þess vegna í hlutfalli við gæzku náttúrunnar haft miklu minni þýðingu fyrir okkur en aðrar þjóðir í þessu tilfelli. Í öðru lagi, allan þann tíma, sem kapítalisminn hefur staðið á Íslandi, hefur verið meira eða minna hröð verðbólga, sem líka hefur náttúrlega orðið til þess að draga úr gildi vaxtanna. Þess vegna hefur þjóðinni yfirleitt ekki orðið ljóst, hve gífurlegur þáttur vextir eru í öllu atvinnulífinu. Það var sagt um vini vora og bandamenn, Englendinga, sem við eigum nú í ýmsum erjum við, að Jón boli þyldi allt nema 2%. Það var sagt um hann, þegar Englendingar stóðu sig hvað bezt í styrjöldum og öðru slíku, að þeir þyldu allt nema 2%. Ef vextirnir af þeirra auðmagni, og þeir voru helzta auðmagnsþjóð heimsins um langt tímabil, færu niður í 2%, væri enska auðvaldið búið að vera.

Sannleikurinn er, að vextirnir, vaxtaarðránið, — það þarf ekki annað en að taka vextina, sem við borguðum á tímabilinu 1930–40, til þess að sjá, hve gífurlegur þáttur þetta er hjá þjóðfélagi, sem annars vegar hefur ekki verðbólgu, og hins vegar þjóðfélagi, sem þarf að byggja meira eða minna á raunverulegum iðnaði.

Þess vegna er það rangt að vera að reyna að blekkja þjóðina með því að draga úr því, hvaða gildi vextirnir hafa. Og þetta er alveg nýtilkomið. 1927 og 1928, þegar Alþfl. og Framsókn taka hér t.d. við völdum, er þessum flokkum alveg sérstaklega ljóst, hvað vextirnir þýða. Það var þess vegna m.a., að bæði landnámssjóður og byggingarsjóður verkamanna voru settir með þeim lágu vöxtum, sem þá voru, af því að mönnum var ljóst, að lágu vextirnir höfðu úrslitaþýðingu í því að reka eitt þjóðfélag. Hið sama gerðum við þess vegna, þegar nýsköpunarstjórnin tók við völdum. Við knúðum fram lága vexti, vegna þess að þetta er undirstaða undir öllum heilbrigðum rekstri.

Svo er í þessu frv. atriði, sem ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. viðskmrh. um. Í 2. gr., síðasta málsl., stendur, að eignirnar, sem eru veðsettar, skuli metnar til endurkaupsverðs. Með þessu „endurkaupsverði“, sem þarna er talað um, er verið að innleiða alveg nýtt hugtak, og ég vil vona, að hæstv. ríkisstj. geri sér það ljóst. Það er þarna ákveðið að meta eftir allt öðrum forsendum en nú er yfirleitt metið á Íslandi. Þegar eitthvað er metið nú, er það venjulega metið til söluverðs, til markaðsverðs. Bankar, ef þeir ætla að lána út á einhvern hlut, og það er meira að segja í þeirra lögum og reglugerðum, þá skulu þeir láta tilkvadda menn meta hlutina til þess að sjá, hve lánshæfir þeir eru. Má ég nú spyrja: Hvernig stendur á því, að þarna er tekið upp nýtt hugtak? Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. þorir ekki að miða við það, sem stendur í lögum og reglugerðum bankanna um þessa hluti, um matsverð frá hálfu bankanna? Hvernig stendur á því? Er það vegna þess, að hæstv. ríkisstj. treystir ekki því svokallaða söluverði á þessum hlutum? Það kann vel að vera, að það sé rétt. En vill þá ekki hæstv. ríkisstj. athuga, hvernig á því stendur, að hún þorir ekki að treysta á söluverð á þessum hlutum? Það er nefnilega svo, að í öllum þeim hugsunarhætti, sem hæstv. ríkisstj. gengur út frá, gengur hún út frá venjulegu kapitalistísku skipulagi, þar sem markaðsverð myndast á eðlilegan hátt, en hugsar ekki, hvernig aðstæðurnar eru á Íslandi. Hvernig er það um togarana, bátana, hraðfrystihúsin? Hvert er söluverð á þeim, svo framarlega sem ætti að meta þetta á venjulegan kapítalistískan mælikvarða? Hvað er þeirra markaðsverð í íslenzku þjóðfélagi í dag? Hæstv. viðskmrh. hefur tilhneigingar til þess að tala mjög „lært“ hér, og ég vildi gjarnan, að hann notaði eitthvað af sínum miklu fræðum til að ræða þennan hlut við mig. Ég leyfi mér að halda því fram, að skip og hraðfrystihús og bátar hafi ákveðið, mjög mikið notagildi fyrir íslenzku þjóðina, en vegna smæðar okkar þjóðar getur ekki skapazt hérna samsvarandi markaðsverð eða söluverð á þessum hlutum. Togarar, bátar, hraðfrystihús hafa fyrir okkur stórkostlegt gildi, sem vart verður jafnvel til peninga metið, af því að líf okkar byggist á þessum tækjum. En eigi að fara að selja þessi tæki nú, hverjir kaupa þau? Það var verið að bjóða upp í Hafnarfirði nýlega, það var gengið að einum manni, sem var eitthvað óheppinn. Hverjir kaupa? Jú, Landsbankinn keypti, mjög lágt, að því er menn segja, kom því út aftur til einhverra, auðvitað með því að lána þeim mönnum allt. Það er sem sé endalaust hægt að framkvæma þessa hluti þannig á Íslandi, að bankastjórarnir taki af einum nafna mínum í dag og svo af öðrum nafna mínum á morgun og geti ráðskazt með þetta eins og þeir vilja. Hér er ekki til neitt, sem heitir frjálst markaðsverð á þessum hlutum. Ef það væru 100 millj. í okkar þjóðfélagi í staðinn fyrir 167 þús., þá væri það kannske. — Ég ræði um þetta og vildi gjarnan, að hæstv. viðskmrh. ræddi þetta, vegna þess að þetta er eitt dæmið um, hvernig allt, sem ríkisstj. gerir, og öll hennar afskipti af atvinnulífi á Íslandi eru byggð á hringlandi vitlausum forsendum, forsendum, sem eru ekki til, forsendum, sem eru til í öðrum löndum. Þess vegna er hún að tala um hluti, sem hafa óskaplegt gildi fyrir íslenzku þjóðina, en mundu hrynja niður í ekki neitt, ef ætti að fara að selja þá á Íslandi. Ég vil leggja það dæmi fyrir ríkisstj., að ef við göngum á morgun að öllum þeim mönnum, sem skulda, öllum þeim sjávarútvegsmönnum, sem skulda í ríkisbönkunum, og segðum þeim að borga upp skuldirnar, er það bara fræðilega til, að þeir gætu það. Ég vil minna á, að erlendis á sama tíma eiga menn, sem hafa sömu aðstöðu og okkar útvegsmenn, ekki aðeins tækin jafnvel skuldlaus, þeir eiga peninga og þeir eiga heila banka.

Ég vil ræða þessa hluti við hæstv. ríkisstj., vegna þess að það getur aðeins verið ein forsenda fyrir því, að hún sé að hugsa um að reyna að framkvæma svona kapítalistísk prinsip hér. Það er, að hún ætli að fara að koma hér á einkaauðvaldi og einkaauðvaldsskipulagi, sem hefur engan grundvöll í íslenzku þjóðfélagi. Það er ríkið, sem hefur orðið að gera alla þessa einstaklinga út og gerir þá enn út.

Það er ekki aðeins vitleysa, það væri líka mjög rangt að vera að reyna að skapa „prívatkapítalisma“ hér á Íslandi. Ég veit að vísu, að það voru miklar vonir uppi um það. Einn af hv. þm., sem hér sitja núna, skrifaði um það fyrir síðustu kosningar, að það ætti helzt ekki bara að koma öllu á grundvöll einkarekstrarins. Það ætti helzt að selja úr eigu ríkisins áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna, hraðfrystihúsin, og það má mikið vera, ef á ekki að fara að selja kannske Landsbankann og Útvegsbankann og eitthvað slíkt fleira. Þess háttar aðferða yrðu menn að grípa til, að gefa auðvaldinu í landinu þetta, svo framarlega sem þeir ætla að fara að koma á þessum kapítalistísku háttum hér á Íslandi.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. viðskiptamrh. í sambandi við þetta, biðja um nákvæmt svar. Það stendur viðvíkjandi endurkaupsverðinu, að það eigi að vera að frádregnum afskriftum, er miðast við rýrnun eignarinnar, frá því að hún varð til. Hvernig eru reglurnar um rýrnun nú í þessum efnum? Sjávarútvegurinn hefur fengið alveg sérstakar reglur í sambandi við rýrnun. Í skattalögunum eru aðrar sérstakar reglur í sambandi við rýrnun. Á að setja þriðju reglurnar í sambandi við rýrnun? Og hvernig eiga þær að vera? Hvað á sú prósenta að vera há? Út frá hverju á að reikna þetta?

Má ég enn fremur spyrja: Þegar talað er þarna um endurkaupsverð, það er kannske auðvelt með togara, báta og hraðfrystihús, hvernig á að meta lóðirnar í því sambandi? Og þegar jafnvel sum stærstu fyrirtækin í landinu eiga kannske í lóðum meginið af sínum verðmætum, hvaða mat á að leggja þar á? Erfitt verður að leggja hið svokallaða endurkaupsmat þar á. Þar verður líklega heldur að fara eftir söluverði eða slíku.

Ef nú á að innleiða þetta svokallaða endurkaupsverð sem reglu hvað snertir sjávarútveginn, þá man máske hæstv. viðskmrh., að það hefur verið frv. og liggur enn þá fyrir þessari hv. d., þar sem gengið er út frá svipuðu mati, og hefur ekki komizt áfram. Það er viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni. Það eru tillögur um, að það skuli breyta matinu á henni, fyrningunni þar með og öllu saman, miðað við hvað hún mundi kosta, ef hún væri byggð í dag. Og það virðist vera þess háttar, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við sjávarútveginn, að það eigi að meta hlutina eins og þeir mundu kosta nýir í dag og draga svo kannske einhverjar tilbúnar fyrningarafskriftir frá því. Þá vil ég segja: Ef sjávarútvegurinn fær þessa sérstöku aðstöðu, sem hv. d. hefur ekki viljað veita áburðarverksmiðju ríkisins enn þá, dettur þá hæstv. ríkisstj. í hug, að aðrar atvinnugreinar á landinu komi ekki með sömu kröfur á eftir? Var það ekki meiningin hjá þessari hæstv. ríkisstj., þegar hún settist á laggirnar, að það ættu allir að sitja við sama borð í þjóðfélaginu hvað reksturinn snertir, það ætti að hætta að reikna allar mögulegar uppbætur og allt mögulegt annað slíkt, það ættu engin sérréttindi að vera, engar uppbætur, sjávarútvegurinn ætti ekki að hafa nein einkaréttindi hvað slíkt snerti? Ef þetta endurkaupsmat, eins og ég a.m.k. eftir þessum orðum skil það, á að innleiðast hvað snertir sjávarútveginn, þá er verið að veita honum einkaréttindi í þjóðfélaginu. Ég vil taka dæmi. Iðnaðurinn í þjóðfélaginu, sá iðnaður, sem er ekki t.d. fiskiðnaður, ætti hann ekki kröfu á því sama, að það væri metið til endurkaupsverðs og síðan kannske mjög lágar fyrningarafskriftir dregnar frá og hann fengi lán út á hitt? Eða svo að maður taki annað enn þá harðvítugra dæmi, íbúðarhúsin, ættu menn ekki kröfu þá á því að fá slíkt endurkaupsmat á þeim og lán í sambandi við það? Ég er hræddur um, að ríkisstj. verði að gera sér ljóst, hvað hún er að gera með þessu. Ég held, að þetta endurkaupsverð, sem þarna á að setja inn, sé tilbúið atriði til þess að veita fé í sjávarútveginn, samt þannig, að ríkisstj. þurfi ekki opinberlega að kannast við það, að hún hafi þverbrotið öll sín prinsip. Það er verið að reyna að fela hlutina. En ef við tökum þetta hagfræðilega, þá held ég, að það sé ekki nokkurt spursmál um það, að með svona ráðstöfunum er verið að stofna beint til verðbólgu, með því að koma inn þessu endurkaupsmati, a.m.k. nema þá fyrningarprósentan eigi að vera eitthvað sérstaklega há og harðvítug, sem ég hef ekki trú á, því að það mundi ekki hjálpa sjávarútveginum mikið. Og ég vil minna hæstv. ríkisstj. á, hve rangt var að farið, það var dálítið svipað atvik hér fyrir átta árum, það var þegar húsaleigulögin voru afnumin. Þegar húsaleigulögin voru afnumin, var það um leið raunverulega gert frjálst eða réttara sagt gert mögulegt að selja öll gömul hús í Reykjavík á því, sem ríkisstj. mundi líklega kalla endurkaupsverð. Það var skapaður grundvöllur fyrir að hækka allar gamlar húseignir í Reykjavík upp í það verð, sem svo að segja ný hús voru í. Ég hef aldrei séð, að sérfræðingar hæstv. ríkisstj. hafi reiknað út þann þátt, sem þessi kjánalega og vitlausa ráðstöfun átti í verðbólgunni. En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskmrh. að því, hvað hann gizkar á, að sú kaupgeta hafi verið mikil, sem skapaðist á næstu átta árum, ekki sízt í Reykjavík, en líka um allt land, á því að meta gömlu húsin og selja þau á nýju uppsprengdu verði og koma síðan leigunni í þeim og öllu saman á margfalt hærra stig en áður var. Það er venjulega þagað um þetta, þegar þessir lærðu hagfræðingar eru að athuga verðbólguna og annað slíkt, vegna þess að mönnum þykir þægilegra að reyna að kenna verkamönnum um verðbólguna og þeirra baráttu á móti henni, af því að það er vani hjá hæstv. ríkisstj. að stinga staðreyndunum undir stól, reyna að þegja um þær, en það er áreiðanlega eitt af því, sem olli mestri verðbólgu á Íslandi, þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar. Ég vil sem sé vonast til þess, að um þetta fáist skýr og góð svör.

Ég vil um leið spyrja hæstv. ráðh.: Ef á að gefa útvegsmönnum sérstök réttindi viðvíkjandi þeirra eignum og viðvíkjandi þeirra skuldum, eiga þá ekki þeir menn, sem núna stendur fyrir dyrum nauðungaruppboð hjá út af þeirra húsum, sama þjóðfélagslegan rétt? Af hverju er ekki settur greiðslufrestur fyrir þá? Af hverju er verið að kippa fótunum undan þeim vísvitandi af hæstv. ríkisstj.? Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vita, að það, sem menn hafa byggt á þær gífurlegu íbúðabyggingar, sem menn hafa lagt í á Íslandi, er að þræla fyrir að borga þetta i eftirvinnu. Eftirvinnan fellur burt fyrir ráðstafanir ríkisstj. Meira eða minna atvinnuleysi er þegar byrjað. Það þýðir, að tekjuvonirnar, sem menn gerðu sér, af því að menn reiknuðu með heiðarlegri ríkisstj. í landinu, bregðast og menn missa húsin sín. Menn reiknuðu rétt, og reikningurinn hefur staðizt i allmörg ár. En það kemur skyndilega ríkisstj., sem virðist leggja upp úr því fyrst og fremst að ræna menn þessum eignum. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki þora að ræna útvegsmenn. En eiga ekki aðrir borgarar í landinu sama rétt? Ég vil þess vegna biðja hæstv. ríkisstj. um að athuga það, þegar hún er að gera svona ráðstafanir, sem gátu verið mjög eðlilegar út frá því sjónarmiði, sem áður ríkti, að það þyrfti að setja fram uppbætur og annað slíkt viðvíkjandi sjávarútveginum, þá er hún að bregða út af sínum prinsipum, hvernig sem hún reynir svo að fela það.

Svo sagði hæstv. viðskmrh., að það ætti því aðeins að veita þessi lán, að með því væri hægt að koma fyrirtækjunum á viðunanlegan grundvöll. Við þekkjum báðir ofur lítið til í skuldasúpu bankanna. Dettur hæstv. viðskmrh. í hug, að með þessum aðferðum verði hægt að koma íslenzkum sjávarútvegi á viðunanlegan grundvöll? Ætlar hæstv. viðskmrh. að segja mér, að það eigi að gera alla þá upp, sem væru ekki komnir á viðunanlegan grundvöll með þessum aðgerðum, þessum smáaðgerðum? Á að gera þá upp, eða á að fara eftir pólitískum sjónarmiðum í því, hverjir skuli gerðir upp og hverjir ekki? Hæstv. viðskmrh. veit jafnvel og ég, að það er ekki hægt að koma því á neinn viðunanlegan grundvöll með þessu. En hví er verið að reyna að básúna þetta út hérna?

Þá minntist hæstv. viðskmrh. á fjárfestingaráætlun og að stofnlánadeild mundi hafa eitthvað með hana að gera. Við heyrum öðru hvoru talað um þessar fjárfestingaráætlanir. Ég mun nú alveg sérstaklega óska eftir því, m.a. til þess, að við í stjórnarandstöðunni gerum ekki hæstv. ríkisstj. allt of rangt til í okkar ádeilu á hana, að við í fjhn., þegar þetta mál kemur þar fyrir, fáum að sjá þá fjárfestingaráætlun, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, og athuga, hvað hún er að hugsa um. Ég er af hálfu Alþingis að vinna í nefnd, sem fjallar líka um áætlanir, sem Alþingi hefur ákveðið að gerðar skuli, og það væri þess vegna ekki ófróðlegt, að við gætum a.m.k. borið bækurnar saman.

Þá talar hæstv. ráðh. um, að ýmis af fyrirtækjunum hafi of lítið eigið fé. Má ég spyrja: Hvað á að gera við þau fyrirtæki, sem hafa of lítið eigið fé? Á að setja þau á hausinn, eða á að aðstoða þau? Hvort prinsipið á að ráða? Hvor reglan á að ráða í því, sem ríkisstj. segir að vaki fyrir sér með þessum lögum? Hún sagði einu sinni, þegar hún var sett á laggirnar, að menn ættu að standa á eigin fótum. Ég sagði við hana, að útvegsmenn á Íslandi og hraðfrystihúsaeigendur hefðu enga fætur til að standa á, þeir hefðu aldrei staðið á öðrum fótum en ríkisins. Og okkur þykir gott, ef þeir geta gengið á þeim fótum. Á nú að kippa þessum fótum undan þeim? Þeir, sem hafa of lítið fé, þessi hugsunarháttur, að vera að tala um þetta, þetta er óíslenzkur hugsunarháttur. Er hæstv. viðskmrh., sem stundum gefur langt og mikið yfirlit yfir þróun íslenzks atvinnulífs og íslenzkra fjármála, er honum ljóst, af hverju Landsbanki Íslands var stofnaður upphaflega? Það var til þess að hjálpa þjóð, sem átti ekki eigið fjármagn. Og það er það sjónarmið, sem síðan hefur meira eða minna verið ráðandi á Íslandi, hvort sem menn hafa verið að hjálpa einstökum atvinnurekendum, einstökum samvinnufélögum, bæjarfélögum eða ríkisfyrirtækjum.

Það hefur verið hugsunarháttur lítillar þjóðar að reyna að hjálpa sjálfri sér til þess að geta lifað. Meginið af öllum fyrirtækjum hringinn i kringum allt Ísland er fyrst og fremst skapað sem sjálfsbjargarviðleitni fátækrar þjóðar. Ég held ég hafi verið að reyna að skýra það nýlega, að það væru í raun og veru tvö þjóðfélög þannig á Íslandi: annars vegar nokkuð venjulegt auðvaldsskipulag hér við sunnanverðan Faxaflóa og hins vegar það, sem ég var að kalla eins konar sjálfsbjargarþjóðfélag úti um landið.

Það, sem hæstv. ríkisstj. virðist vera að hugsa um, er eftir amerískum fyrirskipunum að koma á reglum, sem gilda í stórum auðvaldsþjóðfélögum, á öllu Íslandi. Þetta er ekki aðeins vonlaust verk, þetta er rangt og illt verk. Þess vegna spyr ég hæstv. viðskmrh., — við skulum bara nefna eitthvert fyrirtæki, við skulum bara taka t.d. Samvinnufélag Ísfirðinga, félag, sem alþýðan á Ísafirði myndar, þegar einkakapítalistarnir flýja þaðan, til þess að reyna að lifa þar, — ætlar Alþfl. að drepa það? Ég mun kannske biðja um upplýsingar um það, þegar kemur að þessu í fjhn., en mig grunar, að slíkt fyrirtæki standi ekki alltaf vel. Á það að fara að verða reglan að gera þessi fyrirtæki upp og gera þau gjaldþrota? Það er kannske bezt að taka einhver dæmi frá einkaauðvaldinu um það sama. Eða á að hlífa fyrirtækjunum, ef einhverjir úr stjórnarflokkunum eru riðnir við þau, og setja þau á hausinn ef það eru einhverjir aðrir? Það eru svona spurningar, sem hljóta að koma upp. Það er hægt að halda fallega hagfræðilega fyrirlestra um einhverjar teoríur, en þetta er praksísinn, sem liggur fyrir okkur í lífinu.

Við heyrum nú sagt, að reglugerðin sé komin út, svo að hún kemur til með að liggja fyrir okkur, þegar við fáum þetta. Og ég vil leyfa mér alveg sérstaklega að spyrja út frá því, að ég veit ekki, hvort það er í reglugerðinni, ég hef ekki séð hana enn þá, en hæstv. viðskmrh. upplýsti okkur um, að það mundi eiga að útiloka alla þá, sem skulduðu yfir 70%, mér skildist að útiloka þá frá afurðalánunum, útiloka þá frá að selja þá víxla í bönkunum, endurkaupavíxla. Ég verð að segja, að mér finnst fara að fara nokkuð lítið fyrir frelsinu, sem þessi hæstv. ríkisstj. er að boða, ef það á að segja við íslenzka sjávarútveginn: Það má ekki lána nema 70% út á gjaldeyrisframleiðsluna, sem við erum með. — Vill hæstv. ráðh. gera sér ljóst, að ef hann skyldi vera með þessa 70% reglu frá einhverjum öðrum þjóðfélögum, þá gildir ekki í öðrum þjóðfélögum sú regla, sem hér er heimtað að framkvæma, að útvegsmenn eigi að skila sínum gjaldeyri? Ætlar ríkisstj. þá að lofa þeim að eiga gjaldeyrinn? Heldur ríkisstj., að það sé nokkur vandi fyrir útvegsmenn hér á Íslandi og hraðfrystihúsaeigendur og aðra slíka, ef þeir eru frjálsir, að útvega sér erlendis 100% lán út á þær afurðir, sem þeir hafa liggjandi hérna, og það með lægri vöxtum en þeir hafa hér? Á að banna þeim þetta frelsi? A að einoka þá undir hramm ríkisins, undir hramm þessarar ríkisstj. og hennar bankastjóra? Er það það, sem er meiningin? Það er bezt fyrir þá, sem tala ósköpin öll um viðskiptafrelsi í þessum efnum, að segja til, hvort þeir vilji þá gefa þetta frelsi, hvort þeir vilji gera svo vel að hætta að skipta sér af þessum hlutum, lofa útvegsmönnum að mynda sín eigin frjálsu samtök og láta vera að koma nærri þeim, lofa þeim að útvega sér lán til þess að geta framleitt vörur til útflutnings á Íslandi og láta þessa banka hér ekki koma nærri þessu, ef þeir eru að reka svona pólitík eins og þeir hafa gert. Vill hæstv. ríkisstj. lýsa því yfir, að hún þori að gefa útveginum frelsi? Ef hæstv. viðskmrh. vill ræða um teoríur í þessum efnum, þá er honum það opið. Hann veit, að í öðrum kapítalistískum þjóðfélögum mundi ekki vera sett sama kvöð á útveginn og hér er gert, að láta hann skila öllum gjaldeyrinum. Þar mundi hann ekki vera einokaður og króaður af, eins og hér er, undir járnhæl bankanna. Og það er aðeins eitt, sem mann hlýtur að gruna, þegar svona á að fara að, og það er, að lítil, voldug klíka í landinu ætli að nota þetta einokunarvald yfir útflutningnum og yfir ríkisbönkunum, sem ríkisstj. veitir henni, til þess að setja á hausinn þau fyrirtæki, sem henni er illa við, bjarga hinum og safna til sín völdunum í íslenzku atvinnulífi. Ég vil skora á hæstv. viðskmrh. að neita því, að þetta sé ætlunin. Við hér á Alþingi, sem eigum að setja lögin um þetta, viljum eðlilega fá að víta, hvernig þetta er.

Svo vil ég á hina hliðina minna hæstv. ríkisstj., sem segir, að eitt eigi að ganga yfir alla, sjávarútvegurinn eigi ekki að hafa neinn einkarétt í þjóðfélaginu, á að setja samsvarandi löggjöf eins og þessa um iðnaðinn, um landbúnaðinn, jafnvel um íbúðabyggingarnar, endurkaupsverð og allt saman slíkt.

Þá kem ég að því, sem hæstv. viðskmrh. ræddi allýtarlega. Það var viðvíkjandi þeim hluta, sem skip, bátar og önnur framleiðslutæki hefðu átt í innflutningnum á undanförnum árum. Hann talaði í því sambandi dálítið um heiðarlegan málflutning. Ég vildi óska, að hann hefði áminnt sína hagfræðinga, ekki sízt sinn ráðuneytisstjóra, um það í hagfræðiskýrslunni 1959. Svo vildi til, að ég átti sæti í fjhn. þá eins og nú, þegar frv. ríkisstj. um efnahagsmál lá fyrir og þar á meðal sá útreikningur, sem er í grg. á bls. 31 um vexti og afborganir af erlendum lánum, sem hæstv. viðskmrh. hefur rætt hér mikið um, og það var strax greinilegt, að þessi skýrsla var sett fram í þeim tilgangi að blekkja. Ég krafðist þess í fjhn., að þessir sérfræðingar, Jónas Haralz og þeir, héldu áfram útreikningnum, héldu honum áfram lengra en til 1963, og þeir urðu að gera það, þeir komu með þann útreikning. Hvað kom þá í ljós? Það kom í ljós, að undireins eftir 1963 lækkaði þessi prósenta niður í það, sem var alveg normalt, og það undirstrikaði ég í mínu nál., hverjar blekkingar væru í þessu fólgnar.

En nú skulum við athuga undirstöðuna að þessu. Hvernig stendur á, að þessi prósenta er svona há á árunum 1959–63? Það stendur þannig á því, að á þessum fjórum árum á að borga upp báta og skip, sem höfðu verið keypt í Noregi, Vestur-Þýzkalandi, Danmörku, Hollandi og viðar. Hvernig stendur á, að þessi skip voru keypt þarna? Hverjir stjórnuðu því? Þá er bezt, að ég upplýsi það hér. Það var hægt að fá lán til 12 ára og lengri tíma til að byggja öll þau skip, sem við þurftum, og báta í AusturÞýzkalandi. Það var hægt að fá lán til þess að gera það og byggja góða báta, með 21/2% vöxtum, til tólf ára og borga þetta hægt og hægt. Hvernig stóð á, að þetta var ekki gert? Hvernig stóð á, að það voru veitt leyfi á þessum tíma til þess að byggja þessa báta í Vestur-Evrópu? Það stóð þannig á því, að víssir ofstækisfullir ráðh, í vinstri ríkisstj., sem hæstv. viðskmrh. kannast við, vildu ekki, að Ísland tæki hagstæð lán til langs tíma með lágum vöxtum, ef það var hjá röngum þjóðum. Það átti heldur að taka lán til skamms tíma með háum vöxtum en taka það þarna austur frá, — taka lán, sem við að áliti núv. hæstv. ríkisstj. gátum ekki greitt, og það var sjálfur hæstv. viðskmrh., sem m.a. stóð að þessu. Það er röng viðskiptapólitík, sem þarna er rekin af pólitísku ofstæki. Það var þessu að kenna, að þetta stóð svona. Við verðum að borga upp á örfáum árum báta, sem við vorum að kaupa í Vestur-Evrópu. Við gátum keypt þessa báta annars staðar. Við gátum skipt þessu á langan tíma. En út frá sömu stefnunni, sem nú ræður, þeirri stefnu að brjóta niður viðskiptin í austurveg og hætta öllu í sambandi við viðskiptin á vesturmörkuðunum, var verið að gera þarna svona skakkt. Það var byrjun á þeirri vitleysu, sem síðan hefur haldið áfram. Og af hverju var þetta gert? Af því að það var ekki stjórnað með ákveðna áætlun fyrir augum um þessa hluti — og er heldur ekki gert enn. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann muni eiga mikið eftir af ræðu sinni.) Já, það er mikið eftir. (Forseti: Ef svo er, þá held ég, að við frestum umr. núna.) Já. [Frh.]

Umr. frestað.

Á 49. fundi í Nd., 24. jan., var enn fram haldið 1. umr. um frv.