24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki skorast undan að svara beinum fyrirspurnum, sem til mín er beint, eða — sem ætti að koma í sama stað niður — benda hv. fyrirspyrjanda á, hvar hann getur fengið við þeim alveg fullnægjandi svar. Hann spurði, hvaða erlendar fjármálastofnanir eða hvaða erlendir fjármálamenn það hefðu verið, sem talið hefðu, að ekki væri hægt að veita venjuleg lán til Íslands á árinu 1958. Ég ætla að benda honum á, að hann getur fengið við þessari spurningu alveg fullnægjandi og alveg tæmandi svar hjá formanni þingflokks síns, þáv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, og ég vona, að þá heimild rengi hann ekki. Hann var fjmrh. í þáv. stjórn og hafði, eins og hans embættisskylda var, forustu um að reyna að útvega lán erlendis, venjuleg viðskiptalán, með engum árangri. Þau lán, sem að lokum fengust, voru, eins og ég hef áður sagt, fengin með sérstökum hætti. Ég skal gjarnan endurtaka það, að ég hef þá skoðun, — það er a.m.k. mín skoðun, og ég held, að það eigi við hæstv. fyrrv. fjmrh. líka, — að hvorugur okkar mundi óska að standa í þeim sporum að þurfa að standa í slíkum lánsútvegunum aftur. Þetta ætla ég að láta vera nægilegt svar til hv. 7. þm. Reykv. um þetta efni.

Hitt atriðið, sem hann gerði að umtalsefni, var, að ummæli mín hefðu verið röng um það, að erlendu lántökurnar á s.l. áratug hefðu ekki aukið gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í nægilega ríkum mæli til þess að réttlæta vöxt greiðslubyrðarinnar. Þessi ummæli vildi hann telja röng. Ég mun síðar, að gefnu þessu tilefni og raunar öðrum, gera ráðstafanir til, að um þetta verði birtar alveg tvímælalausar upplýsingar. Þær tölur, sem hv. þm. vitnaði í í þessu sambandi, voru engan veginn tæmandi. Í fyrsta lagi var þar borið saman árið 1951 og árið 1958. Lengra náðu ekki tölur dr. Benjamíns Eiríkssonar, sem hann birti um þetta. Ég hef aldrei haldið því fram, að það, sem skeð var árið 1958, hefði eitt út af fyrir sig gert þær ráðstafanir, sem síðan hafa verið gerðar, nauðsynlegar, ef ekki hefði þá verið vitað, að halda mundu áfram að aukast stórkostlegir erfiðleikar. 1958 var greiðslubyrðin, eftir á skoðuð, ekki orðin nema 5.7% af gjaldeyristekjunum, miðað við 3.2%, sem hún var 1951. Ég hef aldrei haldið því fram, að slík greiðslubyrði, 5–6%, út af fyrir sig stefni afkomu eða lánstrausti þjóðarinnar í voða. Þetta hef ég margsagt við umr. hér á undan, og þess vegna er ástæðulaust að nota þetta sem rök gegn röksemdafærslu mínni, gegn málfærslu minni. Það, sem ég sagði, var þvert á móti það, að fyrirsjáanlegt var, að greiðslubyrðin mundi á næstu 4–5 árum verða helmingi meiri en hún var 1958. Það var meginstaðreyndin í málinu, að hún mundi á árinu 1961 verða milli 11 og 12% eða nákvæmlega helmingi meiri. Það var það, sem skapaði vandann, og liggur við, að manni renni í skap að þurfa að segja sama hlutinn svo að segja í hverri einustu ræðu og alltaf vera mætt með sömu útúrsnúningunum á eftir.