16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til vegna þess, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, að rifja enn að nýju upp, hvernig þetta mál, sem liggur fyrir hér, er til komið, og verður það þó því miður endurtekning á því, sem áður er búið að segja hér oftar en einu sinni, bæði af mér sem frsm. meiri hl. fjhn. og einnig af hæstv. ráðh., sem lagði mál þetta fyrir.

Á s.l. ári var ljóst, að sjávarútvegurinn átti við mjög mikla greiðsluörðugleika að stríða og svo mikla greiðsluerfiðleika, að það lá við stöðvun og þurfti að gera í mörgum tilfellum bráðabirgðaráðstafanir til þess að forða frá greiðslustöðvun fyrirtækjum, sem voru í greiðsluerfiðleikum, en hins vegar voru mjög vel stæð fyrirtæki mörg hver. En höfuðorsakir þessara greiðsluerfiðleika voru þær, að fyrirtækin höfðu varið of miklu fé úr rekstri sínum á undanförnum árum til fjárfestingar vegna þess mikla fjárfestingarlánaskorts, sem þau áttu og höfðu átt við að búa. Síðan var mál þessara fyrirtækja og þessa atvinnuvegar athugað mjög gaumgæfilega á s.l. ári, alveg frá því á miðju ári, eftir beiðni ríkisstj. af aðalviðskiptabönkum sjávarútvegsins, Landsbankanum og Útvegsbankanum, og sérfræðingum ríkisstjórnarinnar og könnuð nákvæmlega sú aðstaða, sem fyrir lá. Viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, höfðu í höndum rekstrar- og efnahagsreikninga allra þeirra fyrirtækja, sem hér áttu hlut að máli, og það var gerð mjög nákvæm og ýtarleg rannsókn á því, hvernig aðstaðan væri og hvar það væri, sem skórinn kreppti einkum að. Ég skal ekki rekja ýmsar orsakir, sem gerðu málið erfiðara, eins og aflabrest bæði á vetrarvertíð og síldveiðum, togveiðum o.s.frv. En það var alveg glöggt, að meginorsökin var sú, að fyrirtækin höfðu ekki haft nægilega löng stofnlán á undanförnum árum, en verið í sífelldri aukningu, sífelldum vexti og gengið of langt í því að draga fé út úr rekstrinum í þessar fjárfestingar. Það var svo komið, að í raun og veru var það orðið svo smátt og smátt, og þetta hefur komið frá ári til árs, að aflinn, um leið og hann var lagður á land, var orðinn meira og minna veðsettur í hámarki, — ekki aðeins venjuleg afurðalán, sem Seðlabankinn endurkaupir, og eðlileg viðbótarlán frá viðskiptabönkunum, heldur bókstaflega var orðin nauðsyn að kaupa afurðirnar að fullu strax og þær voru komnar í verkun vegna þessara miklu greiðsluerfiðleika.

Það tók auðvitað mjög langan tíma að rannsaka aðstöðu atvinnuvegarins, og það var farið yfir efnahags- og rekstrarreikninga meginsins af þeim fyrirtækjum, a.m.k. öllum stærstu og miðlungsfyrirtækjunum. Og það er á grundvelli gaumgæfilegra rannsókna og athugana á þessu sviði, sem þessi löggjöf er svo sett sem bráðabirgðalög í þinghléinu, 5. jan. s.l., af hæstv ríkisstj. Þá koma upp raddir um það, að bændur séu í svipaðri aðstöðu, og frá öðrum um það, að iðnaðurinn sé í svipaðri aðstöðu. Og þetta mál blandaðist inn í útvarpsumr., eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. vék að. Ég held, að það hafi verið þannig, að hann hafi vikið að a.m.k. andstöðu okkar við tilsvarandi aðstoð til bænda. Ég vildi a.m.k. leiðrétta það, — það getur verið, að ég hafi eitthvað misskilið hann, — að hjá stjórnarliðinu og meiri hl. fjhn. hefur í sjálfu sér engin andstaða komið fram við það, að bændur fengju hliðstæða aðstoð og hér væri um að ræða, heldur hitt, að þetta mál væri eitt út af fyrir sig og rannsakað til hlítar, áður en það væri fram borið, og að fyrir lægi, að ríkisstj. hefði stofnað til athugunar á aðstöðu bænda. Ég vil segja það fyrir mitt leyti, að ég er alveg sammála því, að bændur fái hliðstæða aðstoð og hér er um að ræða, eða gert verði það, sem frelsast er hægt til þess, og ekkert síður en í sambandi við sjávarútveginn.

Hér er um það að ræða að koma í veg fyrir stöðvun vegna lánsfjárskorts hjá útgerðarfyrirtækjum og útgerðum. Og sé það svo, að bændur séu svo illa komnir, að þeim liggi við að flosna upp af búum sínum af þeim sökum, að þeir séu með svo þungar lausaskuldir á herðum sér, og vegna þess að þeir hafi ekki fengið nægileg stofnlán, þá tel ég, að hliðstæð aðstaða sé fyrir hendi og að Alþingi og ríkisstj. beri að veita þeim sambærilega aðstoð. En um þetta liggur ekki enn fyrir athugun málsins. Þó liggur fyrir, að ríkisstj. hefur stofnað til þessara athugana, og þess vegna er eðlilegt, að það mál sæti sinni meðferð, þegar allt þetta liggur fyrir.

Það er sagt hér, að bændur skuldi lausaskuldir, þótt ekki séu víxilskuldir, og verið að tala um, að nú eigi bara að takmarka þetta við víxilskuldir bænda. Hvaða þýðingu hefur það að vera að ræða um þessi einstöku atriði nú? Þetta kemur allt í ljós, þegar málið verður krufið til mergjar og þegar búið er að rannsaka aðstöðu bændastéttarinnar að þessu leyti. Og ég segi alveg eins og er, það eru fleiri en bændur, sem hér hafa verið nefndir. Af hverju ekki iðnaðurinn? Þarf ekki að útvega honum meiri stofnlán eða möguleika til að breyta stuttum lánum, sem verið er að stofna til vegna stofnlánsfjárskortsins, og veita honum sömu aðstöðu og hér er um að ræða?

En það er dálítið annað, þegar lagt er fyrir vel undirbúið mál í sambandi við eina atvinnugrein, að menn komi þá og segi: Við skulum taka þennan líka, Pétur og Pál o.s.frv., o.s.frv. Það hefur ekkert komið fram hér af hálfu stjórnarstuðningsmanna í fjhn. og hér í málflutningnum annað en það, að eðlilegt væri að rannsaka og kanna aðstöðu landbúnaðarins, á svipaðan hátt og aðstaða útvegsins var könnuð, áður en þetta frv. var fyrir lagt.

Ég hef lagt mikla áherzlu á það í málflutningi mínum í sambandi við þetta mál, að hv. þm. gerðu ekki meira úr þessu máli en efni standa til. Ég hef nú orðið var við, að sumir hafa freistazt til þess að gera það og ekki aðeins þingmenn, heldur einnig útvegsmenn og þeir, sem hlut eiga að máli. Það er út af fyrir sig alveg nauðsynlegt, að menn átti sig á því að gera ekki meira úr málinu og gera málið ekki stærra en það er. Menn hafa oft löngun til þess að gylla mál, sem eru til meðferðar, og gera sig og stuðningsmenn þeirra kannske meiri af. En ég tel, að það sé mjög skaðlegt í þessu sambandi. Þetta er í eðli sínu ekki stærra og meira mál en það að gera tilraun til þess að bæta aðstöðu útvegsins með því eina ráði að breyta stuttum lánum í löng lán, og það er svo takmarkað, að í lögunum er aðeins talað um stutt lán, sem eru i viðskiptabönkum útvegsins. Hugsunin er sú, og það er margbúið að taka það fram, að hér sé ekki um neinar nýjar lánveitingar að ræða, heldur að svo miklu leyti sem stofnlánadeildin veitir þessum fyrirtækjum lán til að borga upp skuldir sínar í viðskiptabönkunum, þá breyti viðskiptabankarnir aðstöðu sinni við Seðlabankann nákvæmlega að sama leyti. Seðlabankinn lánar stofnlánadeildinni, stofnlánadeildin fyrirtækjunum, þau gera um leið upp skuldir við viðskiptabankana og viðskiptabankarnir borga féð inn í Seðlabankann. Málið er ekki meira og stærra en þetta. Það getur vel verið, að menn vildu og óskuðu að hafa málið stærra og meira. En það er engin ástæða til annars en gera sér fulla grein fyrir því, að þetta er takmörkun málsins.

Það kann svo vel að vera, eins og margir hv. þm. hafa sagt, að þegar fram í sækir, sjái menn, að þetta gagni ekki útgerðinni og það þurfi eitthvað meira til. En þá koma tímar og koma ráð, og meira er ekki að þessu leyti, eins og ég sagði, um að ræða að þessu sinni.

Ég vona, að þetta mál sé nú orðið nokkurn veginn útrætt og menn geri sér fulla grein fyrir meginefni þess og einnig viðhorfunum til þeirra einstöku annarra mála, sem ég vil kalla, sem hreyft hefur verið í þessu sambandi, eins og t.d. hliðstæðri aðstoð við landbúnaðinn. Till. sú, sem hér liggur fyrir, um að setja í samband við þetta mál heimild til ríkisstj, til að ábyrgjast 25 millj. kr. fyrir viss fyrirtæki í vissum samböndum, er líka að mínum dómi annað mál, sem þyrfti að liggja fyrir miklu nánari og sterkari greinargerð fyrir, og vissa um, að þörf væri fyrir, heldur en fyrir liggur á þessu stigi málsins.