16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í almennar umr, um þetta mál eða ræða það almennt eða leggja neitt verulega til þeirra mála, sem þeir hafa rætt, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hæstv. landbrh. Það virðist hafa komið fram í þeim umr., að hæstv. sjútvmrh. hafi komið fyrr á vörð en hæstv. landbrh. í þessum málum, og niðurstaðan er sú, að um sjávarútveginn hefur verið aflað skýrslna þeirra, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði hér um áðan, en skýrslur um landbúnaðinn, þær sem hæstv. landbrh. virðist hafa hug á að láta safna, eru ekki fyrir hendi, og nú er komið að þinglokum. Það ætla ég svo ekki að ræða nánar.

Hv. 5, þm. Reykv., frsm. meiri hl. fjhn., virtist ekki geta fallizt á að gangast fyrir því, að n. taki brtt. mína á þskj. 516 til sérstakrar athugunar. Þykir mér það leitt, en fæ að sjálfsögðu ekki við því gert.

Hv. þm. sagði, að þetta mál hefði frá öndverðu verið takmarkað og að ekki mætti fara með málið út fyrir þau takmörk, sem því hefðu verið sett í öndverðu. Þess vegna gætu till. þær, sem hér hafa verið fram bornar varðandi landbúnaðinn, ekki komið til álita í sambandi við þetta mál og þess vegna gæti brtt. mín ekki heldur komið til álita, af því að því hefðu í öndverðu verið takmörk sett. En hver er það, sem setur máli takmörk á Alþingi? Það er vitanlega þingið sjálft og svo þau þingsköp, sem kunna að mæla svo fyrir, að ekki skuli blanda saman algerlega óskyldum málum, sem engin tengsl eru á milli. Það er vitanlega svo, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi lagt frv. fyrir Alþingi, sem fjallar um vissa aðstoð við sjávarútveginn, þá geta því máli á engan hátt verið þau takmörk sett, að ekki sé hægt að bæta þar við ákvæðum um meiri aðstoð eða ýtarlegri ákvæðum um þá aðstoð, sem um er að ræða í frv. sjálfu.

Í þessari till., sem ég hef lagt fram og er upphaflega borin fram af hv. minni hl. fjhn., er lagt til, að tekin verði inn ákvæði, sem eru í alveg beinu sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að tilgangur frv. væri aðeins sá að aðstoða sjávarútveginn og á þann hátt að breyta lausum skuldum sjávarútvegsins og fyrirtækja hans í föst lán. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er líka um þetta. Hún er um aðstoð við sjávarútveginn og hún er um að breyta lausum skuldum í föst lán. Hún er þess vegna í raun og veru alveg sama eðlis og frv. sjálft.

Hv. þm. sagði, að fram hefði farið rannsókn á hag sjávarútvegsfyrirtækja, og lýsti því nokkru nánar, á hvern hátt sú rannsókn hefði farið fram. Hann sagði, að málið hefði verið athugað í viðskiptabönkunum, bankarnir hefðu í höndum reikninga allra þeirra fyrirtækja, sem hér væri um að ræða, og hefðu því átt auðvelt með að framkvæma rannsóknina. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hér væri yfirleitt um vel stæð fyrirtæki að ræða og að sá vandi, sem þau ættu við að glíma, væri fyrst og fremst eða aðallega sá, að þau hefðu of mikið af lausum skuldum á sínum herðum, og lýsti því nokkru nánar, hvernig þær skuldir væru til komnar.

Ég veit, að það er sem vænta mátti rétt hjá hv. þm., að slík athugun sem hann gat um fór fram í bönkunum síðari hluta ársins sem leið. En ég hef aldrei skilið þetta mál svo, að sú aðstoð, sem útgerðinni væri veitt, ætti endilega að vera eingöngu bundin við þessi fyrirtæki, sem öll skipta við bankana og athuguð voru síðari hluta ársins, — þessi vel stæðu fyrirtæki að öðru leyti en því, að þau höfðu of mikið af lausum skuldum, eins og hv. 5. þm. Reykv. nefndi. Það er áreiðanlega töluvert af sjávarútvegsfyrirtækjum, sem hafa ekki nærri öll viðskipti sin í bönkum, og jafnvel fyrirtæki, sem hafa ekki nein viðskipti í bönkum. Um þetta atriði hefur áður verið rætt í þessum umr. Það eru fleiri lánsstofnanir hér í landinu en þessir tveir bankar, sem aðallega skipta við útveginn, Landsbankinn og Útvegsbankinn. Það er til fjöldi sparisjóða. Sumir þeirra skipta við útgerðina. Og viðskiptum útgerðarinnar er á ýmsan annan hátt fyrir komið. Hvers vegna skyldi þetta mál vera svo takmarkað, að eingöngu væru aðstoðaðir þeir, sem skulda í tveim bönkum, og eingöngu veitt aðstoð varðandi þær skuldir, sem þar eru?

Mér hefur alltaf fundizt frá öndverðu, síðan þetta mál var lagt fram í þinginu, að hér gætti nokkurrar þröngsýni, og vissulega er það þröngsýni, þegar um það er að ræða að veita útgerðinni aðstoð, að takmarka sig aðallega við það að veita aðstoðina vel stæðum fyrirtækjum. Maður hefði haldið, að þeir þyrftu jafnvel fremur aðstoðar við, sem eru ekki vel stæðir, og víst er um það, að frá almennu sjónarmiði getur það fullkomlega eins átt rétt á sér, að haldið sé áfram rekstri fyrirtækis, sem hefur ekki yfir miklum eigin fjármunum að ráða, eins og fyrirtækis, sem er betur stætt og meiri eignir á. Það er nú svo, og þannig held ég, að flestir liti á nú á dögum, að atvinnuvegirnir séu fyrst og fremst til og fyrst og fremst reknir — ja, vegna þeirra, sem eiga atvinnutækin, að sjálfsögðu, svo langt sem það nær, en jafnframt og jafnvel fyrst og fremst vegna fólksins, sem hefur atvinnu við þessa atvinnuvegi, og byggðarlaganna, sem byggja tilveru sína á því, að atvinnuvegir séu til, og hljóta að bíða afhroð, ef atvinnuvegir rýrna eða leggjast niður. Ég held, að nú á tímum sé þetta sjónarmið orðið nokkuð almennt viðurkennt og alveg sérstaklega í sambandi við öli opinber afskipti eða afskipti ríkisvaldsins af atvinnuvegum. Það væri líka undarlegt, ef ríkisvaldið, eins og það gerir, væri reiðubúið til þess að leggja í kostnað við hitt og annað fyrir byggðarlögin, leggja þangað vegi, byggja þar hafnir, reisa þar skóla, samkomuhús, kirkjur, byggja vatnsveitur og þess háttar, en ætlaði svo að láta sér óviðkomandi það, sem allt þetta hlýtur að byggjast á og öll tilvera fólksins og byggðarlaganna byggist á í framtíðinni, sem sé hið starfandi atvinnulíf. Sá hugsunarháttur er úreltur.

Hv. 5. þm. Reykv., frsm. fjhn., sagði, að auðvitað kæmi það til álita að veita aðstoð af öðru tagi, eins og ég held að hann hafi orðað það, til sjávarútvegsfyrirtækja, en það væri ekki tímabært enn þá að taka ákvarðanir um það, skildist mér. Hann sagði: Það liggur ekkert fyrir um það enn þá, það er engin rannsókn, sem sýnir það, að í sjávarútveginum séu fyrirtæki, sem nægir ekki að skulda 70% á móti eignum. — En ég vil segja: Ég held, að það liggi engin rannsókn fyrir um hið gagnstæða, að ekki séu til fyrirtæki, sem slík aðstoð er ónóg, að ekki séu til fyrirtæki, sem skulda meira en 70% á móti eignum, og þurfa þó á aðstoð að halda, enda ætti þetta að liggja nokkurn veginn í augum uppl.

Ég man ekki betur en ég heyrði hér lesna skýrslu í vetur úr þessum stól, sem flutt var af einum hæstv. ráðh., þar sem sagt var frá því, að ríkissjóður hefði gengið í ábyrgð fyrir tiltekin fyrirtæki í sjávarútveginum, sem næmi ekki 70, heldur 90% af andvirði þeirra eigna, sem um var að ræða. Og þegar menn hafa hlýtt á það, þá ætla ég, að menn þurfi ekki að undrast, þó að til séu fyrirtæki í sjávarútveginum, sem eiga ekki svo mikið, að þeim nægi 70% lán, eins og hér er gert ráð fyrir.

Það er mjög ánægjulegt og ber að þakka, ef skilja má orð hv. 5. þm. Reykv. á þá leið, að ríkisstj. hafi þessi skuldamál sjávarútvegsins áfram til athugunar og þá sérstaklega þeirra fyrirtækja, sem hætt er við að ekki geti notið aðstoðar samkvæmt því frv., sem hér liggur fyrir. Það ber að þakka, ef þetta er til athugunar. En ég vil leyfa mér að benda á það, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, mun nú vera stefnt að því, að Alþingi ljúki störfum innan skamms, þannig að ekkí sé eftir af þingtímanum nema ein eða tvær vikur eða svo. Þess vegna hefur mér virzt, að æskilegt væri og raunar nauðsynlegt, að einhverjar frekari ráðstafanir væru gerðar og ákveðnar einmitt í sambandi við þetta frv., því að eftir að þessu þingi er lokið, hefur hæstv. ríkisstj. ekki möguleika til þess að fá samþykki Alþingis til frekari ráðstafana, fyrr en þing kemur saman að nýju. Og þó að það sé auðvitað möguleiki að gefa út brbl., þá hefði ég haldið, að hverri ríkisstj. þætti æskilegra að fá lög samþykkt á Alþingi heldur en gefa þau út á þann hátt, þó að það geti að sjálfsögðu verið í vissum tilfellum fullkomlega réttmætt og nauðsynlegt að gera slíkt. En áður en næsta þing kemur saman, væntanlega á næsta hausti, lýkur þeirri vetrarvertíð, sem nú stendur yfir, í maímánuði, og í sambandi við það þurfa margir að gera upp sínar sakir, og á þessu tímabili verður væntanlega ný síldarvertíð fyrir norðan land. Allt þetta þarf þá að gerast, án þess að ríkisstj. hafi heimild til sérstakra ráðstafana í þá átt, sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 516, nema hún þá taki sér vald til þess með brbl.

Ég skal svo ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég á erfitt með að sjá, hvað hæstv. ríkisstj. getur haft á móti því eða þeir, sem hennar máli tala í hv. fjhn., að fá þá heimild, sem hér er um að ræða, sem með tilliti til þeirrar umsetningar, sem um er að ræða samkv. upplýsingum, er mjög hófleg og hún að sjálfsögðu mundi nota á þann hátt, sem hún sér ástæðu til. En ég á von á því, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að komast að raun um það, þegar hún fer að framkvæma þau lög, sem væntanlega verða sett um þetta efni, að það hefði verið heppilegra fyrir hana að hafa eitthvað rýmri hendur í þeim lögum til þess að veita aðstoð á ýmsum stöðum, þar sem áreiðanlega verður farið fram á við hana að veita slíka aðstoð og hefur jafnvel verið gert.