17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal aðeins segja örfá orð um þetta mál á þessu stigi.

Það er að sjálfsögðu svo, að það dregur enginn í efa nauðsyn þá, sem á því er að veita útvegsmönnum nú þá aðstoð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir og er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út í þinghléinu og eru þegar að nokkru komin til framkvæmda, þannig að farið er að vinna eftir þeim og farið að athuga um lánabeiðnir frá útvegsmönnum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, eins og hæstv. ráðh. sagði, hvernig hag útgerðarmanna var komið um s.l. áramót, og gerist víst enginn til þess að draga í efa, að þeir hafi fulla þörf fyrir þá fjárhagslegu aðstoð, sem hér er fjallað um. En í sambandi við þetta mál hlýtur að vakna upp sú spurning, hvernig á því standi, að hag útgerðarmanna er svo hörmulega komið sem raun ber vitni um. Í því sambandi verður ekki hjá því komizt að rifja það upp, að á öndverðu s.l. ári voru til meðferðar hér á þessu þingi lög um efnahagsmál, þar sem gengið var fellt og gerðar ýmsar aðrar ráðstafanir, sem ég ætla ekki að fara út í hér, en því var þá yfir lýst, að þær ráðstafanir, sem hlutu hið fallega nafn „viðreisn“, mundu nægja til þess að kippa öllu í lag á efnahagsmálasviðinu og ekki mundi útgerðarinnar vegna þurfa að gera aðrar ráðstafanir en þær, sem fjallað var um í þessum efnahagslögum. En þessar spár hafa því miður, vil ég segja, ekki rætzt, eins og stjórnin hefur orðið að viðurkenna, þegar hún 9 mánuðum eftir viðreisn hefur orðið að setja brbl. um þá aðstoð til útgerðarinnar, sem hér er um að ræða.

Hverju er um að kenna, að svona er komið fyrir útgerðinni? Það kunna að vera til þess fleiri en ein ástæða, og sumir mundu vilja tíunda það fyrst, að það hafi orðið aflabrestur hjá útgerðinni og sérstaklega hjá togurum. Það er rétt, að það hefur a.m.k. orðið mínni afli en miðað var við, þegar bezt lét. Ég hef rætt þessi mál við útgerðarmenn, t.d. togaraútgerðarmenn, og ég hef spurt: Ef aflinn hefði verið sá hinn sami og áður og allt hefði gengið eftir fyllstu áætlun, munduð þið þá hafa komizt af, mundi þá ekki hafa þurft að gera neinar ráðstafanir um s.l. áramót? Og þeir hafa svarað í einlægni: Nei, við mundum ekki hafa komizt af. — Það er sannleikurinn, að einn veigamesta þáttinn í því, hvernig komið var fyrir útgerðinni um s.l. áramót, eiga einmitt þær ráðstafanir eða þáttur i þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. stóð fyrir í sambandi við efnahagsmálalöggjöfina á s.l. vetri, og þá alveg sérstaklega vaxtahækkunin, þegar vextir af rekstrarlánum og öðrum þeim lánum, sem þessir aðilar hafa þurft að fá á þessu tímabili, voru hækkaðir að meðaltali um 4%.

Hæstv. ráðh. lét þess getið, að það hefði farið fram athugun á hag útgerðarmanna og það hefði verið athugað, hve mikið þyrfti til þess að ráða fram úr þessum vanda, sem hér er við að etja, með þeim hætti, sem hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Hann nefndi ekki þá upphæð, sem til þess þyrfti. Það væri fróðlegt, af því að ég veit, að hæstv. ráðh. er manna bezt að sér í öllum þessum sökum, ef hann vildi nefna þá upphæð, sem gert er ráð fyrir að þurfi í því sambandi, og þá til samanburðar um leið upplýsa það, hversu vaxtahækkunin, 4%, hjá þessum aðilum á þessu tímabili, sem hér er um að ræða, hafi numið hárri upphæð. Mér kæmi ekki á óvart, þó að þessar upphæðir stæðust nokkurn veginn á. En ég veit, að hæstv. ráðh. getur upplýst það betur.

Það er þessi sannleikur, sem má ekki liggja í láginni, að ástæðan til þess, hvernig hag útgerðarinnar er komið, er ekki aðeins sú, að útgerðin hafi ekki fengið nægileg föst lán áður, heldur eru það ráðstafanirnar, sem gerðar voru á s.l. ári, og alveg sérstaklega vaxtahækkunin ásamt að vísu öðrum ráðstöfunum, sem þá þrengdu hag útgerðarinnar, sem valda því, hvernig komið er, og líka því, að gengisbreyt. varð auðvitað ekki t.d. togurunum sú bót, sem gert hafði verið ráð fyrir, sökum þess, hversu hún bitnar á þeim aftur, og vegna þess, hversu mikið þeir þurfa aftur að fá af erlendum gjaldeyri til að greiða með. En þessar ráðstafanir, sem hér eru ráðgerðar, ganga í þá átt eftir lögunum og þó sérstaklega samkvæmt þeirri reglugerð, sem sett hefur verið eftir brbl., að breyta lausaskuldum þessara útgerðarmanna í bönkum í föst lán. Ég vil segja það strax hér, að ég álít, að því miður verði þetta hvergi nærri nægjanleg aðstoð til útgerðarinnar. Ég álít, að það sé alls ekki nægilegt að binda þessa aðstoð með þessum hætti við bankaskuldirnar. Það mun sýna sig mjög fljótlega, að það dugir ekki til. Mér er kunnugt um, að það er þannig nú ástatt fyrir togaraflotanum, að ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að það sé búið að biðja um uppboð á hluta af togurunum. Það er engan veginn i öllum tilfellum vegna skulda í bönkum. Það eru í ýmsum tilfellum skuldir, sem hvíla á togurunum jafnvel með lögveðum og er alveg óhjákvæmilegt að verði bjargað. Þannig er það með ýmsar skuldir, sem á þessum aðilum hvíla, lausaskuldir, að það er engu minni ástæða til þess að koma þeim í eitthvert fast form heldur en skuldunum í bönkunum. Mín spá er þess vegna sú, að það sé ekki stætt á því og verði ekki stætt á því að binda þessa hjálparstarfsemi við lausaskuldir í bönkunum, eins og gert hefur verið ráð fyrir. Ef á að halda fast við þá stefnu, leiðir það aðeins til þess, að innan skamms verður að gera aðrar ráðstafanir til bjargar þessum aðilum. Ég efast um, að menn almennt geri sér grein fyrir, hversu óskaplega illa hag togaraútgerðarinnar er nú komið, og að sjálfsögðu er hagur bátaútgerðarinnar einnig bágborinn, en ég skal ekki ræða það frekar.

Að síðustu vildi ég aðeins undirstrika það, sem kom hér fram áðan í ræðu hv. 1. þm. Vesturl., að það væru ekki aðeins útvegsmenn, sem hefðu þörf á áþekkri fyrirgreiðslu eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. útvegsmönnum til handa. Ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá honum, að bændum er brýn þörf á slíkri fyrirgreiðslu. Það hefur mönnum verið ljóst engu síður en um útvegsmennina. Ég vil minna á það í því sambandi, að snemma á þessu þingi bárum við nokkrir framsóknarmenn hér í þessari hv. d. fram frv. til laga um aðstoð við bændur, sem eiga í erfiðleikum, bæði til bústofnsaukningar og til vélakaupa og til greiðslu lausaskulda. Þetta frv. hefur ekki átt greiða leið í gegnum þessa deild, þar sem ekki hefur enn verið skilað nál. um það. Ég hafði einmitt hugsað mér að bera fram til hæstv. ráðh. fsp. í svipaða átt og hv. 1. þm. Vesturl., en get þá sleppt því, þar sem upplýsingar munu fást um þau atriði, sem ég hafði í huga, ef hæstv. viðskmrh. gefur svör við þeim spurningum, sem 1. þm. Vesturl. hreyfði. En ég ítreka, að það má ekki verða óhæfilegur dráttur á því, að þessum málefnum bændanna sé sinnt, vegna þess að öllum, sem þeirra málum eru kunnugir, er ljóst, að dráttur í því efni gæti orðið mjög hættulegur vegna þess, að högum margra bænda, sérstaklega þeirra, sem eru nýlega byrjaðir á búskap og hafa ekki átt þess kost að afla sér tækja eða nægjanlegs bústofns, er þrátt fyrir gott veðurfar svo illa komið, að það liggur áreiðanlega við borð hjá mörgum þeirra, að þeir hætti við búskap, og það er illa farið og mikil hætta á ferðum, ef svo fer.