17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég lét þess getið í framsöguræðu minni, að ríkisstj. hefði haft og hefði til athugunar möguleika á því að greiða fyrir bændum landsins með sama hætti og þetta frv. gerir ráð fyrir að greitt verði fyrir þeim, sem stunda sjávarútveg og fiskvinnslu, í tilefni af rekstrarfjárskorti. Ég get á þessu stigi ekki gefið upplýsingar um, hvenær þeirri athugun, sem nú fer fram á vegum ríkisstj., muni verða lokið, og þar af leiðandi ekki heldur fyrirheit um, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir þetta þing, sem nú mun að vísu ekki eiga mikið eftir af starfstíma sínum. En ríkisstj. mun gera viðeigandi ráðstafanir þegar í stað, er þeirri athugun, sem nú fer fram, er lokið og niðurstaða er fengin um, hversu mikið kveður að rekstrarfjárskorti hjá bændum landsins og hvers konar ráðstafanir þá þyki tiltækilegar til bóta.