10.10.1961
Sameinað þing: 0. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Drengskaparheit unnið

Aldursforseti (GíslJ):

Þá er fundi haldið áfram í sameinuðu Alþingi. Út af fsp. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. hér á þinginu í gær um það, hvort ekki bæri að fela hv. alþm. Jóni Pálmasyni, sem mættur er sem varaþm. hv. 2. þm, Norðurl. v., Gunnars Gíslasonar, aldursforsetastörfin, þar sem vitað er, að hann er elztur þeirra þm., er nú eiga sæti á Alþingi, og vegna ummæla dagblaða um þetta atriði skal tekið fram eftirfarandi:

Eftir að forseti Íslands hafði í gær sett Alþ., óskaði hann eftir því, að aldursforseti þingsins, 1. þm. Vestf., Gísli Jónsson, tæki nú við fundarstjórn, þar til kosinn hefði verið forseti sameinaðs þings, allt samkv. fyrirmælum 1. mgr. 1. gr. þingskapa.

Gegn þessum fyrirmælum forseta Íslands var engum mótmælum hreyft, enda Alþ, þá ókunnugt um bréf hv. 2. þm. Norðurl. v., þar sem óskað er eftir því, að varamaður hans taki sæti hér á Alþ. Um það atriði, hverjum forseta Íslands bæri að fela fundarstjórn, gat ekki verið neinn ágreiningur. Það er að fullu fylgt fyrirmælum þingskapa um það atriði.

Hvort rétt hefði verið að fela Jóni Pálmasyni, hv. varaþm. 2. þm. Norðurl. v., fundarstjórn í sameinuðu Alþ., eftir að samþykkt hafði verið, að hann tæki sæti aðalmanns hér á Alþ., verður ekki heldur deilt um. Verkefni aldursforseta er að stjórna fundi í Sþ., þar til forseti Sþ. er kosinn, og standa fyrir kosningu hans. Þessu verkefni verður ekki skipt á milli tveggja manna, og ber þeim þm., sem forseti Íslands fól fundarstjórn í upphafi þings, að stjórna fundum, þar til því verkefni er lokið. Að sjálfsögðu ber aldursforseta Nd., sem nú er hv. þm. Jón Pálmason, að setja fyrsta fund þeirrar deildar og stjórna honum, þangað til forseti þar hefur verið kjörinn.