28.11.1961
Neðri deild: 27. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, felur í sér ýmsar mikilvægar ákvarðanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið og ákveðið að setja bráðabirgðalög um og henni þótti nauðsynlegt að láta fylgja ákvörðuninni um breytingu á verðgildi íslenzku krónunnar.

Það eru fyrst og fremst þrjú atriði í þessu frv., sem mér sýnist að skipti hér höfuðmáli. Í fyrsta lagi er það sú ákvörðun, sem felst í þessu frv., að taka skuli gengishagnað þann, sem til fellur af útflutningsbirgðum, sem í landinu voru, þegar gengisfellingin var ákveðin, og ákveða, að þessi gengishagnaður skuli renna í ríkissjóð. Annað atriðið er það, að ákveðið er að hækka stórkostlega útflutningsgjöld af sjávarafurðum. Og þriðja atriðið er að gerbreyta starfsreglum hlutatryggingasjóðs. Þetta eru að mínum dómi aðalbreytingarnar, sem felast í þessum sérstöku ráðstöfunum, sem ríkisstj. ákvað að gera, um leið og gengi íslenzkrar krónu var fellt í sumar.

Mig langar nú að koma nokkru nánar hér að hverju þessara atriða fyrir sig og lýsa skoðun minni á þeim.

Það er þá í fyrsta lagi sú ákvörðun, að gengishagnaðurinn, sem til fellur af útflutningsbirgðunum, sem í landinu lágu, þegar gengisfellingin var samþykkt, skuli renna í ríkissjóð, eða eins og ákveðið er í 6. gr. frv., að hann skuli renna til ríkissjóðs til að létta byrðar hans vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna. Það er rétt, sem hér var nýlega sagt, að það hefði ekki verið upplýst, hversu mikla fjárhæð hér er raunverulega um að ræða. Ég hef þó heyrt, og mér þykir mjög líklegt, að það geti staðizt, — ég hef þó heyrt forustumenn á vegum Landssambands ísl. útvegsmanna tala um það, að þessi gengishagnaður, sem til getur fallið vegna þeirra birgða af útflutningsvörum, sem í landinu voru, þegar gengisfellingin var gerð, geti numið í kringum 130–140 millj. kr. Hér er því vitanlega um allverulega fjárhæð að ræða sem hæstv. ríkisstj. er að ákveða að renna skuli til ríkissjóðs. Það er ekkert um það að villast að það eru engin fordæmi fyrir því, að ákvörðun eins og þessi sé tekin. Þó að, eins og hér hefur verið á minnt, ekki ósvipað fyrirkomulag hafi verið notað, á meðan uppbótakerfið var, þá er vitanlega grundvöllur sá, sem nú er byggt á í þessum efnum, allt annar. Þá rann þessi gengishagnaður eða sá hagnaður, sem kom fram af breyttu yfirfærslugjaldi, beint inn í uppbótakerfið og kom því þannig alveg beint og beinlínis útflutningsatvinnuvegunum til góða. En í þessu tilfelli gildir vitanlega allt annað, þar sem raunverulega á að taka þetta fé í ríkissjóð.

Það er líka á þessu önnur breyting frá því, sem áður var. Árið 1958, þegar yfirfærslugjaldið var ákveðið, þótti einnig óhjákvæmilegt að haga framkvæmdinni þannig um þær birgðir útflutningsvöru, sem lágu í landinu og áttu að gefast upp til framleiðenda á gamla verðlaginu, þó að þær væru fluttar aftur út undir öðrum verðlagskringumstæðum, að það átti að greiða þeim framleiðendum nokkrar aukabætur vegna þess kostnaðarauka, sem þeir yrðu fyrir vegna efnahagsráðstafananna, sem þá voru ákveðnar. En það gefur auga leið, að þeir, sem eiga liggjandi í landinu útflutningsbirgðir, þegar nýja gengið er ákveðið, eiga enn eftir að standa undir allverulegum útgjöldum vegna þessara birgða, og þau útgjöld koma á þá eftir hinu nýja gengi, eftir hinu nýja verðlagi, og útkoman verður því raunverulega sú, að nettó-tekjur þeirra af framleiðslu sinni verða minni en þó að gamla kerfið hefði gilt. Útflutningsbirgðirnar eða þær afurðir, sem framleiddar höfðu verið að verulegu leyti fyrir tíma gengisbreytingarinnar, eru þannig, að í mjög mörgum tilfellum eru þær framleiðsluvörur ekki nema hálfunnar eða alls ekki unnar til fulls, og það verður að halda áfram að fullvinna þessar vörur undir allt öðru verðlagi en áður gilti. Það verður einnig að borga af þessum vörum fyrir flutning á erlendan markað allt annað flutningsgjald, fragtirnar breytast líka í beinu hlutfalli við gengisbreytinguna, og nettógreiðslan fyrir þessar vörur verður því allt önnur vegna gengisbreytingarinnar. Það er beinlínis gengið á hlut þessara aðila, sem birgðirnar eiga. Þegar svipað fyrirkomulag var viðhaft í þessum efnum, á meðan uppbótafyrirkomulagið gilti, þá var þess gætt að greiða sérstakar bætur vegna þess mismunar, sem þarna kæmi fram. En nú er beinlínis ákveðið, að allur skakkinn, sem af þessu verður, skal falla á eigendur þessara birgða, en ríkissjóður slær eignarhaldi sínu á allan hagnaðinn af gengisbreytingunni vegna birgðanna.

Nú það er auðvitað líka alveg augljóst mál, að t.d. sjávarútvegsmenn verða í þessum efnum fyrir miklu meiri töpum vegna þessa fyrirkomulags, vegna þess að ríkissjóður er að reyna að næla sér í þessar tekjur á þennan hátt, því að á sama tíma sem þeim er neitað um að fá nokkurn hagnað af þeim birgðum, sem þeir áttu í landinu, þá eru þeir hins vegar skyldaðir til þess að taka á sig gengistapið vegna erlendra skulda, sem þeir umfram aðra aðila í landinu hafa verið þvingaðir til í rauninni að stofna til. En þær reglur hefur núv. hæstv. ríkisstj. einmitt tekið upp, að þegar útgerðarmenn t.d. kaupa sér fiskiskip, þá geta þeir ekki fengið að kaupa þau erlendis frá nema með þeim hætti, að þeir verða að taka fyrir 2/3 hlutum af andvirði skipanna erlend lán til 7 ára. Aðrir aðilar fá hins vegar gjaldeyri nokkurn veginn eins og þeir biðja um vegna síns innflutnings, en þeir, sem flytja inn fiskiskip, hafa orðið að búa við þessi kjör nú, og þeir verða vitanlega, eins og menn sjá, þegar gengisfelling er gerð á þennan hátt, fyrir verulega miklum gengistöpum. Öll er þessi framkvæmd því gagnvart t.d. sjávarútveginum mjög ósanngjörri og mjög óeðlileg.

Orðalagið í þessum efnum í 6. gr. frv., að þessi fjárhæð, sem þarna fæst í gegnum gengishagnaðinn af birgðunum, skuli renna til ríkissjóðs til að létta byrðar hans vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna, er þannig, að maður verður að halda, að það sé meira en aðeins útflutningsatvinnuvegirnir, sem hér eigi hlut að máli. Þó að það séu útflutningsatvinnuvegirnir, sem eru sviptir í þessu tilfelli hagnaði af birgðunum, þá á þessi hagnaður að renna til ríkissjóðs til að standa undir þessum vanskilagreiðslum, sem ríkissjóður hefur innt af höndum vegna atvinnuveganna, og ég hygg, að það megi teygja þetta orðalag alllangt og að ýmsir geti fallið undir það.

Í sambandi við þetta vaknar einnig sú spurning: Hver er í rauninni meiningin með þessu, um framkvæmdina? Það liggur sem sagt fyrir, að ýmsir aðilar, sem tekið hafa lán með ríkisábyrgð á undanförnum árum, hafa ekki getað staðið við að borga vexti og afborganir af þessum lánum, og ríkissjóður hefur þurft að hlaupa undir bagga og leggja þessa fjármuni fram. En allir eru þessir aðilar eftir sem áður skuldugir ríkissjóði vegna þessara ábyrgða. Hvað á um Þessar skuldir að verða?

Ég náði því ekki fullkomlega, en þó skildist mér, að hæstv. forsrh. segði hér, að eftir sem áður ætti ríkissjóður að eiga kröfu á þessa aðila og þeir ættu eftir sem áður að greiða ríkissjóði þessar fjárhæðir. Þó að búið sé sumpart og að verulegu leyti að taka þessa raunverulegu eign þessara aðila af þeim á þennan hátt til þess að standa undir þessum greiðslum, þá á eftir sem áður að vera hægt að innheimta af þeim þessar vangreiddu upphæðir. Enginn vafi er heldur á því, að mjög margir af framleiðendum í landinu hafa að fullu og öllu staðið undir þessum skuldbindingum sínum, og ríkissjóður hefur ekki þurft að leggja neitt út fyrir þá. Þannig mun það yfirleitt vera t.d. með þá, sem hafa fengið ríkisábyrgðir vegna framkvæmda, sem eru bundnar við fiskverkun, þ.e.a.s. vegna byggingar frystihúsa og annarra fiskverkunarstöðva. Aðeins í örfáum tilfellum mun þar hafa gilt önnur regla, en það má segja, að hin almenna regla hafi verið sú, að þessar ábyrgðir hafa ekki fallið á ríkissjóð. En hér á vitanlega að taka jöfnum höndum þann gengishagnað, sem þessir aðilar eiga og aðrir útflytjendur, og láta hann renna í ríkissjóð, en innheimta af þeim eftir sem áður afborganir og vexti af ríkisábyrgðarlánum þeirra. Eigi þessi framkvæmd að vera svona, sem helzt er að skilja, er augljóst mál, að hér er aðeins um nýja skattlagningu að ræða í ríkissjóð. Ríkissjóður er hér að krækja sér í skattstofn, sem mun gefa nú á þessu ári, þegar breytingin fer fram, nokkuð á annað hundrað millj. kr. Þetta álít ég, að sé óeðlilegt og það sé í rauninni ekki hægt að standa að framkvæmdinni á þennan hátt.

Þá er hitt atriðið, sem snýr að stórhækkuðum útflutningsgjöldum á sjávarafurðum. Hin almennu útflutningsgjöld á sjávarafurðum hafa verið um 2.9% — eða 2.25%, en þar að auki hefur svo verið gjaldið í hlutatryggingasjóð og til ferskfiskeftirlitsins, smágjald, þannig að heildarútflutningsgjaldið var 2.9%. En nú á þetta gjald að hækka eftir gengisbreytinguna upp í 7.4%, og reyndar verður þetta gjald af útfluttum síldarafurðum 9.4%, Þegar hið lögskipaða gjald til síldarútvegsnefndar er talið með. Það verður að segja það eins og er, að ég hygg, að þessi útflutningsgjöld af sjávarafurðum eða útfluttum vörum muni hvergi eiga sinn líka. Aðalkeppinautar okkar með útfluttar sjávarafurðir í nánd við okkur, Norðmenn, hafa svo að segja ekkert útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það mun nema 0.075%, útflutningsgjald þeirra af sjávarafurðum, en við eigum hér að vinna undir þeim kringumstæðum, að hér séu tekin útflutningsgjöld, sem nema 7.4–9.4%. Ef menn hafa það í huga einnig, að við borgum tvöfalda til þrefalda vexti á við það, sem Norðmenn gera, og reyndar einnig miklu hærri sölulaun til þeirra aðila, sem fara með útflutninginn, en þeir, þá sjá menn fljótt, að við getum ekki með nokkru móti keppt við þessa aðila á erlendum mörkuðum, nema þá á þann hátt, sem við gerum nú, að hafa hráefnisverðið, fiskverðið í landinu, miklum mun lægra hér en það er t.d. í Noregi.

Það er að mínum dómi alger misskilningur, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í sambandi við þessi útflutningsgjöld, að það sé hægt að taka þessi mál svo einfaldlega að segja, að þar sem þessi útflutningsgjöld renni í ýmsa sjóði, sem komi sjávarútveginum til gagns, þá renni þetta allt til sjávarútvegsins aftur og því sé þetta í rauninni engin skattlagning fyrir hann og í rauninni honum bara til bóta. Þetta er auðvitað grundvallarmisskilningur. Svona liggja þessi mál ekki. Þessi útflutningsgjöld, svona há, þau hvíla sem beinn þungi á rekstri viðkomandi árs og gera rekstrarafkomuna á viðkomandi ári þeim mun erfiðari sem gjöldin eru hærri, jafnvel þó að þessi fjárhæð sé lögð til hliðar, svo að hægt sé að lána hana út síðar meir eftir mörg ár. Ef slík kenning sem þessi væri rétt, ætti að mega hækka þessi gjöld enn um t.d. önnur 7.4% og halda fram, að allt væri í lagi, af því að það rynni í lánasjóði sjávarútvegsins. En það, sem þá gerðist, ef menn gerðu slíkt, væri aðeins að sigla öllu í strand, það væri engin leið að halda framleiðslunni í gangi nú. Nei, slík útflutningsgjöld geta vitanlega ekki átt sér stað. Þau geta ekki staðizt, og þau eiga ekki rétt á sér. Og það hygg ég, að meira að segja hæstv. ríkisstj. hafi fengið ábendingu um frá einum af þeim erlendu sérfræðingum, sem hún hefur leitað til, m.a. varðandi málefni sjávarútvegsins, að þessi sífellda skattlagning á útfluttar sjávarafurðir til þess að standa undir almennum lánum, stofnlánum sjávarútvegsins, sé í mesta máta óeðlileg og það verði vitanlega að ætla þessum aðalatvinnuvegi landsins til sinna stofnlána hluta af því fjármagni, sem þjóðin almennt ræður yfir, en ekki að afgreiða stofnlánavandamál hans á þennan sérstaka hátt. Það er vitanlega eðlilegt, að viss hluti af því fjármagni, sem safnast fyrir hjá þjóðinni á hverju ári, renni til þess að byggja upp þennan atvinnuveg eins og aðra, enda er þessu ekki svona háttað með aðra atvinnuvegi, að það sé lagt beinlínis gjald á árlega framleiðslu þar til þess að afla fjár í stofnlánasjóð. Þeir fá vitanlega sín stofnlán úr hinu almenna peningakerfi þjóðarinnar.

Í þessum stórhækkuðu útflutningsgjöldum er fyrst og fremst um þrjá nýja liði að ræða. Það er lagt til að taka upp nýtt útflutningsgjald til svonefnds nýs vátryggingakerfis fyrir fiskiskipaflotann. Og það mun vera áætlað, að í þetta nýja vátryggingakerfi eigi að renna á ári í kringum 50 millj. kr. Þá er einnig gert ráð fyrir, að lagt verði á útfluttar sjávarafurðir nýtt gjald, sem á að renna í stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabankann, og það mun vera áætlað, að árlega eigi að renna í þessa deild af útfluttum sjávarafurðum í kringum 45 millj. kr. Og svo er í þriðja lagi ákveðið að þrefalda tekjur hlutatryggingasjóðs eða Þær hækki frá 10 millj. upp í 311/2 millj. á ári. Mig langar nú að víkja nokkrum orðum að hverju þessu fyrir sig.

Það er þá fyrst hið nýja vátryggingakerfi. Það hefur verið rætt allmikið um, að það þurfi að breyta til um fyrirkomulag á vátryggingum fiskiskipa í okkar landi. Og ég held, að það sé alveg rétt, að það sé enginn vafi á því, að þar sé breytinga þörf. Það mun vera rétt, að vátryggingaiðgjöld hér eru miklum mun hærri en t.d. í Noregi, þó að samanburðurinn í þeim efnum sé ekki alls kostar réttur, eins og hann hefur oft verið gerður, því að nokkur munur er á því, hvað tryggt er á hvorum stað fyrir sig. En eigi að síður verður varla um það deilt, að vátryggingariðgjöld eru miklum mun hærri hér en t.d. í Noregi. En þar gildir líka í þessum efnum allt annað kerfi. Það er einmitt það kerfi, sem gildir þar, að þar er hver einstaklingur, sem kaupir sér tryggingu, þar er hann látinn borga sjálfur iðgjöldin og iðgjöldin af hverju einstöku skipi eru beinlínis miðuð við það, hve mikil útgjöld í sambandi við vátrygginguna hafa orðið á hverju skipi. Þannig er skapað aðhald að eigendum skipanna og þannig tekst líka að halda iðgjöldunum tiltölulega lágum. En með þessu nýja útflutningsgjaldi, sem hér er tekið upp og sett með bráðabirgðalögum, fer ríkisstj. í gersamlega þveröfuga átt. Hún ákveður að afla tekna til þessa nýja tryggingakerfis með allsherjar útflutningsgjaldi, sem er lagt hlutfallslega á útfluttar afurðir, og þar með er í rauninni verið að kippa grundvellinum undan því, að hægt sé að skapa það aðhald að vátryggjendum, sem t.d. Norðmenn hafa byggt upp hjá sér, enda leiddi þessi ákvörðun hæstv. ríkisstj. til þess, að nefnd sú, sem var að vinna á hennar vegum að athugun á þessum málum, klofnaði, um leið og brbl. ríkisstj. um þetta efni voru sett, og einn nm. lýsti því yfir, að hann teldi, að öllum grundvelli undir starfi nefndarinnar hefði verið kippt burt með þessum lögum, og hann neitaði að taka lengur þátt í því að semja nýjar reglur í þessum efnum og hér yrði að breyta til aftur, ef bót ætti að verða á í þessum efnum. En þótt sem sagt hæstv. ríkisstj. hafi haft nefnd til þess að athuga um þessi mál og skipulagsbreytingar á þeim, þá bíður hún ekki eftir því, að niðurstaða komi frá þessari nefnd, heldur ákveður hún með brbl. að leggja hér á nýtt útflutningsgjald í þessum efnum, svo mikið virðist henni hafa legið á að leggja á öll þau gjöld, sem felast í þessu frv. Ég fyrir mitt leyti tel, að þetta nýja útflutningsgjald í sambandi við nýtt vátryggingakerfi sé algerlega á misskilningi byggt og það eigi að leggjast niður.

Þá er hitt atriðið, um gjaldið, sem renna á til stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Seðlabankann. Stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabankann hefur verið lokuð deild nú um langan tíma. Hún hefur ekki veitt af sínu fjármagni nein ný lán. Og þær reglur hafa þar gilt, að það fé, sem stofnlánadeildin réð yfir, átti að renna til baka út úr deildinni aftur, um leið og það kæmi inn, og hverfa aftur inn í Seðlabankann, og þannig er gert ráð fyrir því í lögum, að þessi deild smám saman hverfi. En nú kemur allt í einu nýr tekjustofn fyrir þessa deild, án þess að nokkuð sé ákveðið um það, hvernig ætlað er, að þessi deild eigi að starfa. Hvaða lán á hún að veita og eftir hvaða reglum? Engar slíkar reglur hafa verið settar, og ekkert kemur fram um það í grg. þessa frv., hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér í þeim efnum. Hér ber allt að sama brunni og áður, að svo mikið hefur hæstv. ríkisstj. legið á að leggja á ný gjöld, að hún ákveður að skella þeim á með brbl., þó að hún sé ekki á neinn hátt búin að gera sér grein fyrir því, hvernig skuli með þessi gjöld fara. Ég álít líka fyrir mitt leyti, að þetta gjald eigi að fella niður, það sé ekki aðstaða til þess að leggja þetta gjald á framleiðsluna, eins og nú standa sakir.

Ég kem þá að þriðja gjaldinu, sem á að renna til hlutatryggingasjóðs. Hlutatryggingasjóður hefur haft sem tekjur 0.5% af útfluttum þorskafurðum bátaútvegsins og 0.75% af útfluttum síldarafurðum. En nú er ákveðið, að þetta skuli hækkað upp í 1.25% af þorskafurðum bátanna og af síldarafurðum bátanna, og svo er einnig ákveðið nú, að greiða skuli í sjóðinn 1.25% líka af öllum útfluttum afurðum togaranna. En hlutatryggingasjóður hefur ekki fengið fram til þessa neinar tekjur af framleiðslu togaranna. Og það er eins og hæstv. forsrh. gerði hér grein fyrir, það er áætlað, að tekjur sjóðsins geti af þessum ástæðum vaxið um rúmar 20 millj. kr. á ári. En svo er ákveðið í frv., að þessi nýi tekjuauki skuli renna í sérstaka deild innan hlutatryggingasjóðs og þessi deild geti veitt sérstakan stuðning þeim greinum sjávarútvegsins, sem verða fyrir sérstökum óhöppum vegna aflaleysis eða af öðrum ástæðum. Það fer ekkert á milli mála, hver er ætlunin hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Ætlunin er einfaldlega sú, eins og málin standa nú, að það á að taka þessar tekjur, sem þarna falla til, til stuðnings togaraútgerðinni í landinu. Það hafa ekki verið uppi neinar sérstakar raddir um það, og ástæður sjóðsins hafa ekki heldur bent til þess, að það eigi að breyta þeim almennu kjörum, sem bátaútgerðin í landinu á að hafa frá þessum sjóði, þó að vitanlega sé hægt að segja, að slíkt árferði gæti hugsanlega komið, að úr þessari sérstöku deild yrði veitt til bátaflotans einnig. En þó yrði þá að breyta lögum og reglum sjóðsins, ef hægt ætti að vera að gera það, vegna þess að bæturnar til bátanna eru miðaðar við aflaleysi eftir þar til settum reglum. Hér er því farið inn á þá braut að leggja raunverulegan skatt á bátaútveginn í landinu, bæði þorskveiðibátana og síldveiðibátana, til þess að hægt sé með þessum skatti að rétta nokkuð við í bili bágan fjárhag togaraflotans í landinu. Ég fyrir mitt leyti er algerlega andvígur því að koma þessum málum fyrir á þennan hátt. Hingað til hefur verið lögð á það áherzla, að hlutatryggingasjóður starfaði þannig, að það yrði ekki blandað saman þeim tekjum, sem sjóðurinn hefur af síldveiðum og aftur af þorskveiðum, og þeim útgjöldum, sem sjóðurinn á að inna af hendi vegna þorskveiðanna annars vegar og síldveiðanna hins vegar. Menn hafa verið á þeirri skoðun, að það ætti ekki með þessum sjóði að geta verið um það að ræða að verðjafna neitt á milli mismunandi starfsgreina. Hver útgerðarþáttur fyrir sig hefur átt að standa undir sínum vandamálum. Það átti ekki að vera hægt að skattleggja þorskveiðarnar til stuðnings síldarútgerðinni í landinu, og þrátt fyrir mjög lélegan rekstur á síldveiðum um margra ára skeið var aldrei gripið til þess að láta þorskveiðarnar sérstaklega standa undir vandamálum síldveiðiútgerðarinnar. En nú á að hverfa frá þessu grundvallarsjónarmiði og ákveða, að hægt sé raunverulega að skattleggja bátaútgerðina í landinu, síldveiðibáta og þorskveiðibáta, svo að hægt sé að rétta togaraútgerð landsmanna hjálparhönd. Ég er að vísu á þeirri skoðun, að það sé mikil nauðsyn á því að taka vandamál togaraútgerðarinnar til sérstakrar athugunar og það þurfi að rétta togaraútgerðinni hjálparhönd að vissu leyti. En á þennan hátt vil ég ekki gera það. Ég tel, að af því stafi veruleg hætta, og ég veit, að útvegsmenn eru almennt á móti þessu fyrirkomulagi. En það er eins og í hinum fyrri tilfellum, hæstv. ríkisstj. ákveður í skyndi að setja brbl. um málefni eins og þetta, leggja hér á stórhækkuð gjöld, sem eiga að renna til þessa sjóðs, og ætla honum alveg nýtt verksvið. Ég tel, að setning brbl. í slíkum tilfellum sé í mesta máta óeðlileg og það eigi að breyta þessu gjaldi, því að svona eigi þetta ekki að vera.

Annað er einnig í sambandi við öll þessi stórhækkuðu útflutningsgjöld á sjávarafurðum, sem er að mínum dómi stórhættulegt. Það er með þessum gjöldum verið að raska því samkomulagi, sem sjómenn annars vegar og útvegsmenn hins vegar hafa gert með sér um skiptakjörin á fiskiskipaflotanum. Það var einmitt á s.l. ári, að þessir aðilar komu sér saman um, að það skyldu gilda grundvallarreglur um skiptingu aflaverðmætisins á milli skipshafnar og skipseigenda og báðir skyldu fá að njóta endanlegs og rétts verðs fyrir aflann og báðir skyldu hafa sama aflaverð. Lengur skyldi ekki gilda skiptaverð, sem væri eitthvað annað, eins og það var áður, heldur en hið almenna söluverð á aflanum. En með þessum brbl., sem hér hafa verið sett, er verið að raska þessu samkomulagi, það er verið að hrinda því um koll. Síðan er ákveðið að taka af óskiptu 50 millj. kr. á hverju ári, sem renna eiga í vátryggingarsjóð, en vátryggingariðgjöldin áttu skipaeigendur einir að greiða, en ekki áhöfnin. Það er líka verið að ákveða það að safna saman allmiklu gjaldi árlega af útfluttum sjávarafurðum í stofnlánadeild sjávarútvegsins, og kannske á að geyma það þar um langan tíma eða lána það út til nýrra stofnlána, en slíkt vitanlega verður til þess, að fiskverðið í landinu verður lægra en það átti að vera. Sjómenn finna, að hér er verið að leika rangt við þá, og þeir munu líka svara því, því að þeir hafa tekið eftir þessu og það hefur greinilega komið fram hjá þeim. Þeir munu svara lögum eins og þessum með því að segja upp samkomulaginu, sem gert var á s.l. ári um skiptakjörin. Það var byggt á því, að útvegsmenn og sjómenn ættu báðir að búa við sama fiskverð. Slíkar ráðstafanir sem þessar er því ekki hægt að gera af ríkisstj., og því verður ekki trúað, að hún hafi gert þetta í samráði t.d. við samtök útvegsmanna. En í samráði við samtök sjómanna hefur hún áreiðanlega ekki gert það. Mér sýnist líka alveg ljóst, að hún hafi ekki gert þetta í samráði við samtök útgerðarmanna, vegna þess að á nýafstöðnum aðalfundi þeirra lögðu útgerðarmenn einmitt til að breyta þessum gjöldum frá því, sem segir í þessum lögum, og ráðstafa þeim á allt annan hátt.

Á það hefur verið minnzt í sambandi við þetta mál, að það væri alveg ljóst, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki að fullu og öllu yfirgefið uppbótakerfið í sambandi við sjávarútveginn þrátt fyrir allar sínar yfirlýsingar fyrr um, að það ætlaði hún að gera. Það liggur nú fyrir, svo að ekki verður um deilt, að á fyrsta ári viðreisnarstefnunnar, árinu 1960, voru vátryggingariðgjöld alls fiskiskipaflotans, jafnt báta sem togara, greidd af hinu opinbera. Þau voru greidd að nafninu til — megnið af þeim — úr útflutningssjóði, sem leggja átti niður samkvæmt viðreisnarlöggjöfinni, en nokkur hluti mun nú verða greiddur af því fé, sem ríkissjóður hefur slegið eignarhaldi sínu á af þessum gengishagnaði. Vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans munu nema fullum 90 millj. árið 1960, og þau eru greidd eftir uppbótakerfi eins og áður var, greidd af ríkinu. Og í Þessum efnum var gengið miklu lengra en nokkru sinni áður hafði verið gert, því að áður hafði lengst verið gengið þannig að greiða vátryggingariðgjöld bátaflotans eftir þar til settum reglum, og voru öll iðgjöldin ekki greidd, ekki einu sinni hjá bátaflotanum. Nokkuð var þar alltaf út undan. En nú var ákveðið á fyrsta ári viðreisnarinnar að greiða einnig vátryggingariðgjöld alls togaraflotans. Og þetta hefur verið gert. En vegna þess að útgerðarmenn telja hag sinn mjög rýran vegna ráðstafana ríkisstj. í efnahagsmálum almennt, hafa þeir nú gert kröfu til ríkisstj. um að fá vátryggingariðgjöld alls flotans greidd einnig fyrir yfirstandandi ár, árið 1961. Og það var upplýst á síðasta aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi ekki lofað að greiða þau iðgjöld að fullu fyrir árið, þá hafi sjútvmrh. lofað því, að þegar skyldi byrjað á því að greiða iðgjöld ársins í ár fyrir flotann með því fé, sem á þessu ári safnaðist vegna hins nýja útflutningsskatts og renna átti í nýtt vátryggingakerfi. Þetta loforð, sem tilkynnt var á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, að ríkisstj. hefði gefið, stríðir auðvitað í bága við brbl., því að samkvæmt brbl. á þetta gjald að renna til nýs vátryggingakerfis, en ekki til greiðslu á vátryggingariðgjöldum flotans eftir gamla laginu. En loforð hafði samt verið gefið um það að byrja á greiðslunum 1961 með þessu fé. Og útvegsmenn lögðu einnig til, að þeir fengju einnig það fé, það nýja gjald, sem átti að renna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins í þessu sama skyni. Og mér sýnist allt benda til þess og það mjög greinilega, að það eigi að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipaflotans einnig á árinu 1961, þó að ekki sé nú búið að ganga endanlega frá því.

Uppbótakerfið er því í þessum efnum alveg greinilega í fullum gangi, vegna þess að reglur þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett um efnahagsmál í landinu, eru þannig, að sjávarútvegsmenn telja sinn hag verri nú en nokkru sinni áður, þó að allar þessar ráðstafanir hafi nú verið gerðar til þess að bjarga einmitt sérstaklega sjávarútveginum.

Það er líka öllum alveg ljóst mál, að gengislækkunin, sem ákveðin var í byrjun ágústmánaðar í sumar, hefur ekki verið gerð, eins og hún er framkvæmd, fyrir sjávarútveginn í landinu. Það var því engin tilviljun, að á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var hér í bænum fyrir stuttu, þá einmitt felldu útvegsmenn tillögu, sem fram kom á fundinum um það að lýsa því yfir, að þeir teldu, að gengislækkunin í sumar hafi verið óhjákvæmileg. Þeir felldu hana m.a. vegna þess, að þeir álitu að miklum meiri hluta til, að hún hefði verið sjávarútveginum til tjóns, miklu fremur en til gagns, eins og hún hefur verið framkvæmd. En framkvæmdin hefur verið þannig, að innfluttar vörur allar, sem sjávarútvegurinn t.d. þarf til sinna nota, hafa hækkað sem gengisbreytingunni nemur í innkaupi, eða um 13.15%, og svo vegna óhjákvæmilegra gjalda, sem á vöruna falla hér eftir þeim reglum, sem gilda í landinu, þá má telja, að verðhækkunin á innfluttum vörum, sem svona stendur á um, muni vera ekki 13.15%, heldur líklega nær 15–16% sem lágmark. Þannig hafa rekstrarvörur útgerðarinnar m.a. hækkað í verði og sumar reyndar miklu meir. En hvaða hækkanir hafa aftur á móti runnið til framleiðslunnar, sem gætu komið fram í tekjunum? Jú, vegna þess, hvernig einmitt er búið um hnútana í sambandi við þessi nýju útflutningsgjöld, þá er það svo, að það eru engir möguleikar á því, að útflutningur nú geti fengið tekjur sínar hækkaðar um meira en 8%. Það er það mesta. Hitt er tekið af gengisbreytingunni og lagt í sérstaka sjóði eða ráðstafað á sérstakan hátt. Útflutningurinn getur ekki hækkað meira í verði en rétt í kringum 8%, þó að hins vegar innfluttu vörurnar, sem framleiðslan þarf til síns rekstrar, hækki um 15–16%. Þannig liggur dæmið fyrir. Auk þess er svo það, að mjög þýðingarmiklar greinar sjávarútvegsins hafa ekki getað fengið neina hækkun á móti hækkuðum rekstrarútgjöldum sínum. Fiskverð bátaflotans og togaranna hefur ekki hækkað um einn einasta eyri hér innanlands, — ekki um einn einasta eyri, frá því að gengislækkunin var gerð í byrjuðum ágústmánuði í sumar. Síldarverð í sumar hækkaði ekki neitt, þorskverðið hefur ekki hækkað neitt eftir gengislækkunina. Bátaútvegsmenn hafa orðið að búa við nákvæmlega sama fiskverð og áður, en hins vegar fengið á sig allverulegar rekstrarhækkanir vegna gengisbreytingarinnar.

Það er alveg útilokað að halda því fram, að þessi gengisbreyting hafi verið gerð til þess að bjarga fjárhag þessara aðila, sem svona hefur verið að búið. En það er rétt: þeir, sem kaupa aflann af bátunum, frystihús og aðrir þeir, sem verka fisk, hafa vitanlega fengið hækkun um ca. 8% á verði útfluttra vara, sem framleiddar hafa verið eftir gengisbreytinguna. En þeir telja, að sú hækkun geri ekki betur en vega upp á móti auknum rekstrarkostnaði hjá þeim og þeir geti ekki skilað neinni hækkun út í hráefnisverði.

Ég tel því, að það sé alveg augljóst mál, að gengislækkunin var ekki gerð vegna sjávarútvegsins, og mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að gera allmikið í þessum málum til þess að sanna það í framkvæmd, að hún hafi gert gengisbreytinguna í þessu skyni, sem hún hefur þó gefið upp. Það er því mín skoðun, að það þurfi að gera á þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, allverulegar breytingar, enda fannst mér, að hæstv. forsrh. boðaði í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli, að það stæði til af hálfu ríkisstj. að gera það, og ég hygg líka, að hún sé þegar búin að gefa þau loforð, að hún verði að breyta frv. eða lögunum allverulega frá því, sem þau voru sett í ágúst í sumar. En það þarf að breyta lögunum þannig, að útflutningsgjaldið verði ekki hærra en það var. Sannleikurinn er sá, að það var mikil þörf á því að lækka það útflutningsgjald á sjávarafurðum, sem í gildi var. En hærra en það var má útflutningsgjaldið ekki vera. Og það er óhjákvæmilegt einnig að breyta frv. að því leyti til, að hagnaður sá af gengisbreytingunni, sem kemur fram í afurðum þeim, sem í landinu lágu, — það er óhjákvæmilegt að breyta lögunum þannig, að eigendur útflutningsbirgðanna fái a.m.k. að einhverju leyti þennan gengishagnað.

Ég vil vænta, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, athugi þessi atriði og viðurkenni, að það sé fyllilega þörf á að gera þessar breytingar, sem ég hef hér bent á.