04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Um það bil, er fundartíma var að ljúka á síðasta fundi, sem þetta mál ræddi, á fimmtudaginn var, að ég ætla, komu fram ýmsar þær orðræður í garð togaranna og útgerðar á þeim, sem ég vildi leyfa mér að fara um nokkrum orðum og ekki láta a.m.k. ómótmælt.

Það vita allir, hverja þýðingu íslenzk togaraútgerð hefur haft fyrir afkomu þessarar þjóðar, síðan hún hófst hér á fyrsta og öðrum tug þessarar aldar fyrir alvöru a.m.k. Það má segja, að hún hafi verið einn sterkasti burðarásinn í íslenzku efnahagslífi alveg fram undir styrjaldarlokin síðari. En úr því fer að halla undan fæti og hefur hvert óhappið rekið annað fyrir þessa atvinnustarfsemi hér á okkar landi.

Það er í fyrsta lagi, sem ég vil nefna, að um langt árabil var togaraútgerðinni mismunað í verði á fiskafla, þannig að hún fékk minna verð fyrir sama fisk og raunverulega jafnverðmætan fisk heldur en önnur útgerð í landinu fékk. Það getur hver og einn sagt sér sjálfur, hvílíkar afleiðingar þetta hefur, þegar verulegur verðmunur er gerður á framleiðsluvöru þessarar veiðiaðferðar og hjá öðrum veiðiskipum. Annað, sem ég vil nefna til, er löndunarbannið, sem sett var á togarana í Bretlandi upp úr fiskveiðitakmarkaútfærslunni 1952, þegar við færðum þessi fiskveiðitakmörk úr þremur og út í fjórar mílur. í Bretlandi hafði verið einn bezti markaður fyrir íslenzkan togarafisk, sem seldur var beint ísaður til útlanda, sem til var, og er þess vegna auðskilið mál, hversu mikið áfall það hefur verið fyrir togaraútgerðina, að þessi markaður lokaðist, óbeinlínis að segja má fyrir aðgerðir ríkisvaldsins í okkar landhelgismálum. Þriðja höggið, sem þessum atvinnuvegi er svo greitt, er gert um leið og fiskveiðitakmörkin eru færð út úr 4 í 12 mílur 1. sept. 1958. Þannig hefur verið vegið þrisvar sinnum í þennan sama knérunn og með þeim árangri, að hann virðist a.m.k. í augnablikinu eiga afar erfitt uppdráttar og yfirleitt vera rekinn með miklum halla.

Það, sem sérstaklega kom mér til að segja hér nokkur orð, var, að einmitt á þessum fundi, sem ég nefndi í upphafi míns máls, s.l. fimmtudag, var því haldið fram eða látið liggja að því a.m.k., að aflarýrnunin hjá togurunum við það að vera fluttir út fyrir 12 mílurnar hefði ekki orðið svo mikil, að það væri neitt afgerandi í þessu máli. Hv. 4. þm. Austf. sagði, að hann og skipstjóri á þeim togara eða togurum, sem hann hefði haft með að gera, hefðu borið saman bækurnar um þetta efni og komizt að raun um, að hér væri ekki um mjög mikið tap að ræða, því að einungis 15%, ætla ég að hann hafi sagt, af aflamagninu á heimamiðunum væri tekið fyrir innan 12 mílna takmörkin. Hann hélt því fram, að 85% af veiðimagninu væri tekið fyrir utan og aðeins 15% fyrir innan. Nú er það náttúrlega svo, að þó að það geti vel verið, að einn togari eða kannske tveir hafi þetta hlutfall í sínum aflabrögðum, þá má ekki draga af því þá almennu ályktun, að þetta sé svo hjá öllum. Það er vitanlega dálítið mismunandi, hvert þetta hlutfall er hjá hinum ýmsu skipum, og alveg fráleitt að draga þá ályktun, að þó að það væri rétt, að eitt skip tæki ekki nema 15% af sínum afla fyrir innan 12 mílurnar, þá gerðu þau það öll. Og í nál., sem mér hefur nýlega borizt í hendur frá nefnd, sem sett var s.l. vor til þess að athuga um hag og rekstur togaraútgerðarinnar, kemur það líka í ljós, að nefndin telur, að um 37% af afla togaranna, sem tekinn er á heimamiðum, sé tekið fyrir innan 12 mílna takmörkin að meðaltali, svo að það má náttúrlega strax sjá af þeirri tölu, hversu geysilega þýðingu það hefur haft fyrir togarana að vera fluttir út fyrir þessi mörk. Náttúrlega er rétt, að þeir geta unnið sér upp nokkuð af því tapi, sem þeir verða fyrir við að vera fluttir út fyrir 12 mílna mörkin, með veiðum á öðrum stöðum. En eftir nákvæmt uppgjör eða eins nákvæmt og nefndin hefur getað aflað sér telur hún, að þessi flutningur út fyrir 12 mílna mörkin kosti togarana nettó á ári að meðaltali um 600 tonn af fiski. Það er sú niðurstaða, sem nefndin kemst að og byggir sínar tillögur á.

Ég veit, að það er öllum hv. alþm. ljóst, að þegar þannig hefur verið að togaraútgerðinni búið, eins og ég hef nú lýst, og með þeim áföllum, sem hún hefur orðið fyrir á s.l. áratug sérstaklega, í þrennu lagi, bæði verðmismunurinn á afla, löndunarbannið í Bretlandi og brottreksturinn út fyrir 12 mílurnar hér heima, þá hlýtur það að setja spor í afkomu þessa atvinnuvegar, enda hefur það gert það og það svo, eins og ég sagði áðan, að það heldur við stöðvun hjá nærri því öllum togaraútgerðarmönnum á þessu landi.

Nú mætti kannske spyrja, hvort það væri þá nauðsynlegt, að við rækjum þessa starfsemi, að við hefðum togarana gangandi og flyttum ekki alla okkar útgerðarstarfsemi yfir á annars konar skip, sem gætu þá veitt innan 12 mílna takmarkanna. En ég held, að það verði langt þangað til við getum gert það upp við okkur að vera alveg án þess verðmætis, sem togaraflotinn ber að landi. Það hefur á undanförnum árum reynzt mjög drjúgt, sem hann hefur flutt að landi, en af þessum ástæðum, sem ég hef nefnt, hefur það því miður verið að minnka mjög verulega á undanförnum síðustu árum. Ég get t.d. getið þess, að aflinn 1960 er ekki nema um 2/3 hlutar af því, sem hann var 1958. Að vísu var óvenjulega gott ár það ár, en þó hlýtur það að segja til sín, þegar aflinn er kominn niður í 2/3 hluta af því, sem hann var aðeins tveimur árum á undan. Og ef við höldum áfram lengra og tökum árið í fyrra og árið í ár til 1. sept., en nýrri skýrslur hef ég ekki um það mál, þá er aflinn á togurunum núna til 1. sept. ekki nema 2/3 af því, sem hann var á sama tíma í fyrra. Þannig hefur þetta alltaf sigið meir og meir á ógæfuhlið og er enn að síga á ógæfuhliðina. Það er þess vegna ekkert undarlegt, að það sé velt vöngum yfir því, hvað mögulegt sé að gera til þess að rétta hag þessa atvinnuvegar. Og án þess að nokkur ákvörðun hafi um það verið tekin, þá vil ég aðeins minna á þá möguleika, sem staðnæmzt hefur verið við til þess að reyna að koma hér lagi á.

Í fyrsta lagi er náttúrlega það að athuga möguleikana á því, hvort hægt sé að hleypa togurunum íslenzku aftur inn fyrir 12 mílna takmörkin að einhverju takmörkuðu eða verulegu leyti. Þetta mál er nú til athugunar hjá sérstakri nefnd, sem um það fjallar, og er að vænta þess, að hún skili áliti um það mjög bráðlega. En á það vil ég minna, að þegar reglugerðin um útfærslu fiskveiðilandhelginnar var sett 1. sept. 1958, þá lá fyrir umsögn bæði frá fiskideild atvinnudeildar háskólans og Fiskifélaginu, sem bæði töldu, að það væri án skaða hægt að hleypa íslenzku togurunum einum inn fyrir þessi fiskveiðitakmörk, þannig að þeir aðilar, sem bezt eiga til að þekkja, voru þeirrar skoðunar, að þetta væri alls ekki útilokuð leið. Og náttúrlega munar meira um það, þegar mörg hundruð erlendir togarar eru fluttir út fyrir landhelgina, heldur en þó að okkar ca. 40 togarar séu látnir vera þar áfram. En engin ákvörðun hefur sem sagt um þetta verið tekin, og það er beðið eftir endanlegu áliti um það mál.

Þá er það, sem gæti komið í staðinn fyrir þessa fyrirgreiðslu. Það væri þá einhver fjárhagslegur stuðningur, og maður getur hugsað sér, að þessi fjárhagslegi stuðningur gæti þá komið á tvennan hátt: annaðhvort þannig, að hann kæmi frá þeim sjóðum, sem með einmitt þessu frv. er verið að stofna til eða auka, eins og t.d. hlutatryggingasjóði, að einhverju leyti og kannske einnig á annan hátt, eða þessar fjárhagsbætur gætu verið greiddar beint úr ríkissjóði.

Þessar þrjár leiðir finnst mér vera þær, sem til greina koma, þegar um það er að ræða, á hvern hátt skuli leitast við að bæta hag togaraútgerðarinnar, þ.e.a.s. Í fyrsta lagi að athuga möguleikana á því að veita þeim að einhverju leyti veiðileyfi fyrir innan 12 mílna takmörkin, að veita þeim fyrirgreiðslu úr þeim sjóðum, sem hér hefur verið stofnað til og er verið að mynda eða auka, og í þriðja lagi, hvort ríkissjóður þá. treystir sér til þess eða gæti verið þess umkominn að greiða það, sem þetta kostaði, úr sínum eigin sjóði.

Í nál. togaranefndarinnar, sem eins og ég sagði hefur skilað áliti nú fyrir mjög stuttu um hag og rekstur togaraútgerðarinnar, er talið, að til þess að bæta togurunum upp þann skaða, sem þeir hafa orðið fyrir við það að missa veiðiréttinn fyrir innan 12 mílurnar, þurfi, ef það er umreiknað í peninga, 1.2 millj. á ári, og mundi það nánast verða sú upphæð, sem þyrfti til þess að ná rekstrarjöfnuði hjá togurunum, ef þeim væri ekki hleypt inn fyrir 12 mílna takmörkin.

Hver leiðin af þessum þremur verður farin, skal ég engan dóm á leggja, — um það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun enn, — en mér fannst, sérstaklega hjá hv. 4. þm. Austf., anda köldu til togaraútgerðarinnar hvað þetta snertir, og það svo köldu, að hann vildi gera sem allra minnst úr því tjóni, sem togararnir hefðu orðið fyrir af þessum sökum. En ég er sannfærður um það, að ef togaraútgerð á Íslandi á ekki að leggjast niður, þá verður eitthvað að gera, til þess að koma henni til hjálpar, og ég hef ekki komið auga á aðrar leiðir en þessar þrjár, sem ég nefndi, annaðhvort einhverja eða allar kannske að meira eða minna leyti.

En þá skal ég aðeins með nokkrum orðum minnast á útflutningsgjaldið, sem hér hefur verið gagnrýnt, að hækkað hefur verið úr 2% upp í 6%, eins og kemur fram í þessu frv. Þessu útflutningsgjaldi er nú varið, eins og í frv. kemur fram, til þess í fyrsta lagi að greiða vátryggingaiðgjöld fiskiskipanna, eða 32% af útflutningsgjaldinu, til þess að leggja í fiskveiðasjóð, eða um 30%, og til þess að leggja til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, sem er nýtt og eru líka 30%. Þá hefur hlutatryggingasjóðsgjaldið einnig verið hækkað, og mun ég koma að því síðar.

Það hefur verið talið og kom fram hjá þeim ræðumönnum, sem ég heyrði um þetta mál tala, að þetta gjald, sem tekið er af sjávarútveginum, væri allt of hátt og það væri engin ástæða til þess að gera það, því að þetta væri gjaldaliður á þeirra árlega rekstrarreikningi, sem þeir yrðu að svara út, en þessi sjóðatillög, sem þarna væri stofnað til, kæmu þeim ekki að gagni á sama hátt tekjumegin, vegna þess að þetta væri lagt fyrir í fjárfestingarsjóði að verulegu leyti og þyrfti þess vegna ekki að reikna með, að það kæmi til tekna á því hinu sama ári, heldur yrði það á annan hátt til þess að greiða fyrir þessum atvinnurekstri. Hækkunin á þessu útflutningsgjaldi fer raunverulega í tvo staði. Hún fer annars vegar til þess að greiða vátryggingagjaldið, sem er 30% af útflutningsgjaldinu, og stofnlánadeildartillagið, sem er sama upphæð. Hækkunin á útflutningsgjaldinu er raunverulega fólgin í þessum tveimur framlögum. Út af vátryggingaiðgjöldunum skal ég segja það, að í fyrra, þegar ákveðið var, að niður skyldu falla framlög hins opinbera til vátryggingastarfseminnar, barst mér frá Landssambandi ísl. útvegsmanna bréf, þar sem beinlínis var óskað eftir því, að útflutningsgjaldið yrði hækkað um 21/2 % til þess að nota það til að greiða þetta vátryggingaiðgjald. Frá þessu var að vísu horfið þá í bili, en þessi hugsun hefur verið vakandi og verður sjálfsagt vakandi, þangað til vátryggingamálum útvegsins verður komið í betra horf en nú er, því að þau eru sannast sagna ekki í góðu lagi, að mér finnst, og þess vegna finnst mér, að þessi hluti hækkunar útflutningsgjaldsins, sem til vátryggingastarfseminnar gengur, sé beinlínis til kominn eftir óskum útgerðarmannanna sjálfra.

Hv. ræðumenn sögðu líka, að þetta útflutningsgjald væri svo hátt, að útgerðarmenn mundu yfirleitt óska eftir því, að það væri lækkað mjög verulega. Nú hef ég engan heyrt fetta fingur út í það, hvorki fyrr né síðar, að þetta 2% gjald, sem tekið var að mestu leyti handa fiskveiðasjóði, yrði látið halda áfram. Ég held, að það sé sameiginlegt álit allra, sem þessi mál þekkja og hafa kynnt sér, að það gagn, sem fiskveiðasjóður hefur gert, sé svo mikið, að það telji enginn eftir þennan hluta af útflutningsgjaldinu, sem til fiskveiðasjóðs hefur runnið. En á það má benda einmitt í sambandi við fiskveiðasjóðinn, að hans hafa togararnir aldrei notið, sem neinu nemur. Lánamöguleikar fiskveiðasjóðs hafa ekki verið meiri en það, að hans útlán hafa að langmestu leyti gengið til bátanna og að örlitlu leyti í viðbót, en varla teljandi, til fiskvinnslustöðva. Þarna hafa togararnir verið skattlagðir til fiskveiðasjóðs öll þau ár, sem fiskveiðasjóður hefur starfað, án þess að þeir nytu nokkurs stuðnings frá fiskveiðasjóði til þess að bæta úr sinni lánsfjárþörf, eins og bátarnir hafa fengið. M.ö.o.: Þarna hefur verið einn bagginn enn, sem togaraútgerðinni hefur verið bundinn með því að láta hana eins og aðra, sem fluttu út vörur, greiða til fiskveiðasjóðsins án þess að taka nokkurt gjald á móti, Til þess að jafna þessi met var hugsunin sú, að nokkuð af útflutningsgjaldinu gengi til stofnlánadeildarinnar, sem þá gæti veitt togurunum eitthvað svipaða fyrirgreiðslu að sínu leyti og þó náttúrlega langt frá því eins mikla og fiskveiðasjóður veitir bátunum. Þannig er stofnlánadeildarframlagið komið inn í þessi lög. Nú hefur það sýnt sig, að meðlimir Landssambands ísl. útvegsmanna telja, og það er náttúrlega rétt, að á árinu 1961 nægi framlagið til greiðslu vátryggingaiðgjaldanna ekki til að leysa það mál að fullu, vegna þess að þetta útflutningsgjald er ekki innheimt nema síðustu fimm mánuði ársins, og verði þess vegna einhverju við að bæta, ef þessi iðgjaldaupphæð öll eigi að greiðast að fullu. Og fram hefur komið ósk um það frá útvegsmönnunum, að í bili yrði tekið eitthvað af þessu stofnlánadeildarframlagi og flutt yfir til greiðslu vátryggingaiðgjaldanna. Þetta tel ég vel geta komið til álita um stuttan tíma af þessum orsökum, að tekjurnar af útflutningsgjaldinu eru ekki teknar nema fimm síðustu mánuði ársins og munu þess vegna ekki nægja fyrir vátryggingaiðgjöldunum, eins og þau sennilega verða fyrir 1961.

Ég tel þess vegna að þetta útflutningsgjald, sem tekið er, sé tekið af fullri þörf og komi útvegsmönnum að fullu gagni, öll aukningin, sem kemur til framkvæmda nú. Ef stofnlánadeildarframlagið í bili verður flutt yfir í vátryggingarnar, Þá verður aukningin á útflutningsgjaldinu nokkurn veginn nákvæmlega öll flutt yfir á vátryggingastarfsemina og útvegsmönnunum þannig endurgreitt þetta samstundis að heita má í þessu ákveðna augnamiði. Ef síðan verður hægt að leggja stofnlánadeildinni fé til í þessu skyni, sem upphaflega var ætlað, þá er það vitanlega sjálfsagt.

Ég vil undirstrika, að það hafa ekki komið fram, ekki a.m.k. til mín, neinar óskir um, að þetta gjald verði fellt niður, heldur einasta um, að það verði nú í ár a.m.k. tilflutningur á stofnlánadeildarframlaginu yfir til vátrygginganna, þangað til hið nýja vátryggingakerfi getur tekið til starfa. Þessu er ekki búið að ganga frá, en verður væntanlega gert innan tíðar, því að ég tel rétt og sjálfsagt, að þeir, sem þetta fé leggja fram, fái að ráða því að verulegu leyti, hvernig því verður ráðstafað, enda frá þeim sjálfum tekið, og hefur verið yfirlýst, að þeir yrðu hafðir með í ráðum um það, hvernig þessu gjaldi yrði ráðstafað. Framlagið til hlutatryggingasjóðs hefur verið hækkað, og ég vil segja, að það er sízt að ófyrirsynju. Hlutatryggingasjóðurinn kemur til hjálpar, þegar almennur aflabrestur er, þannig að ef aflamagnið í einhverri veiðistöð fer niður úr ákveðnum hundraðshluta af meðalveiði undanfarinna ára, þá er greitt framlag til þess að styrkja þá, sem fyrir þessum óhöppum hafa orðið, úr hlutatryggingasjóði. Hlutatryggingasjóðurinn hefur mörgum hjálpað á þennan hátt og hans starfsemi komið að mjög góðum notum, að ég tel. En nú er hagur hans þannig, að honum er skipt í tvær deildir, almennu deildina og síldveiðadeildina. Síldveiðideildin skuldar í augnablikinu um 121/2 millj. kr. Þessa upphæð hefur hún að vísu ekki fengið að láni hjá ríkissjóði og ekki fengið að láni hjá bönkum, heldur hefur henni verið lánað úr almennu deildinni, sem hefur ekki orðið eins illa úti og síldveiðideildin, þannig að almenna deildin á nú í eignum um 11 millj. kr. og þessa inneign sína hjá síldveiðideild að auki. En eigi að síður tel ég mjög þarft og nauðsynlegt að styrkja síldveiðideildina og almennu deildina raunar líka, svo að þær geti betur mætt þeim áföllum, sem þær kunna að verða fyrir.

Togararnir koma nú inn í hlutatryggingasjóðinn í fyrsta sinn, og er það vegna þess, að þeir hafa ekki áður verið með í kerfinu og einskis styrks úr sjóðnum notið. En með því að taka nú upp greiðslur af þeirra afla eins og bátaaflanum er ætlazt til þess, að þeir geti notið fyrirgreiðslu úr sjóðnum eins og aðrir, og er einmitt þessi þáttur starfsemi hlutatryggingasjóðs hugsaður sem úrbót handa hinum illa stæðu togaraeigendum. Þetta er eiginlega rekstrartrygging fyrir útveginn, sem ég tel að mjög mikla þýðingu hafi og þess vegna sé nauðsynlegt að efla, til þess að hann geti mætt tímabundnum erfiðleikum, sem við er að fást, eins og segir í þessu frv.

Í 8. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta, að hlutverkið sé að aðstoða einstakar greinar útvegsins, er þær verða fyrir sérstökum tímabundnum áföllum vegna aflabrests eða annarra utanaðkomandi orsaka, og á það vissulega við og einmitt alveg sérstaklega við um togarana.

Raunar er ekki miklu meira, sem ég þarf að segja í sambandi við þetta mál. En ég get ekki stillt mig um að minnast lítillega á þær fullyrðingar, sem ég hef heyrt um það, að gengisbreytingin, sem gerð var s.l. sumar, hafi raunverulega verið alveg óþörf og komi ekki að neinu gagni.

Ég vil í því sambandi benda á, að launahækkanirnar, sem samið var um hér á s.l. sumri, nema í heild á milli 5 og 6 hundruð millj. kr.. og ég vildi nú í upphafi spyrja: Hvar ætti að taka þetta fé? Eða var þessi afgangur fyrir hendi hjá atvinnurekendum í landinu? Græddu þeir virkilega svo mikið áður, og var fjárhagur ríkissjóðs svo góður áður, en hann á 130 millj. af þessum 5–6 hundruð millj. í hækkun, að þessi hækkun væri möguleg án þess, að til neinna aðgerða þyrfti að koma? Ég held, að allir, sem leiða hugann að þessu í alvöru, sjái, að þessar 5–6 hundruð millj. kr. er ekki hægt að taka, nema þær séu teknar einhvers staðar frá, og atvinnureksturinn gat áreiðanlega ekki látið þær í té, því að hann hafði þessa upphæð ekki til sem afgang.

Þá vil ég rétt geta þess í þessu sambandi, Þó að á það hafi verið minnzt hér áður, að forsvarsmaður Sambands ísl. samvinnufélaga lét þess getið, þegar þetta mál var á dagskrá eða þegar um það var rætt á aðalfundi hans félags í vor eða sumar, að þetta væri ekki hægt, nema það hefði hinar stórkostlegustu afleiðingar. Og greinilegt var það af reikningum hans félags, að tekjuafgangur félagsins var miklu minni en sú launaaukning, sem um var samið, hvernig svo sem átti að jafna þau met. Og eitt vildi ég líka minna á í þessu sambandi, sem mér þykir vera furðulega sláandi, að þegar launajafnréttismál kvenna var til umræðu hér á þinginu í vetur, þá var frv. sent til umsagnar atvinnurekendum í landinu, bæði Vinnuveitendasambandi Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda og Vinnumálasambandi Sambandsins. Hækkunin, sem í því frv. fólst fyrir konurnar, var sú, að á sex árum ætti kaupið að færast upp í það að vera jafnhátt karlakaupinu, en það þýddi, að kaup kvenna mundi þá hækka um ca. 4% á ári. En viti menn, Vinnumálasamband samvinnufélaganna taldi þá ekki, að atvinnureksturinn í landinu gæti staðið undir 4% hækkun handa íslenzkum konum. En nokkrum mánuðum seinna telur þetta sama samband, að það sé hægt að hækka laun kvennanna, ekki um 4%, heldur um 20%. Menn sjá gerla, hvað í þessu felst og hvað hér hefur gerzt. Þeir varkáru forsvarsmenn Vinnumálasambandsins, Kaupfélags Eyfirðinga og Sambandsins, sem samvinnusamtökunum stjórna, sjá það og vita, að vinnulaunahækkun eins og sú, sem hér átti sér stað í vor, getur ekki gerzt nema með einhverjum mótaðgerðum, og þessi hugur þeirra hefur komið fram í vetur, þegar launajafnréttismálið var hér til umræðu, og í sumar, þegar forsvarsmaður Kaupfélags Eyfirðinga gaf þá yfirlýsingu, sem hefur verið margvitnað til hér á hv. Alþingi. Sá áróður, sem hafður hefur verið uppi um það, að engra aðgerða hafi verið þörf og að sérstaklega samvinnuhreyfingin hafi þarna gengið fram fyrir skjöldu og sýnt, að hún hafi verið megnug að gera þetta, án þess að til neinnar aðstoðar þyrfti að koma, stangast algerlega við þær fullyrðingar, sem framámenn þessara fyrirtækja höfðu látið frá sér fara, ýmist nokkrum vikum áður en þetta gerðist eða nokkrum dögum, og svo í vetur, þegar launajafnréttismálið var til umræðu og ekki var einu sinni hægt að hækka laun kvennanna um 4% á ári.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess, að ég fari um þetta mál fleiri orðum að sinni. Það, sem gaf mér sérstaklega tilefni til þess að segja þessi fáu orð, var, að ég taldi, að það hefði í umræðunum, sem hafa farið fram að undanförnu um þetta mál, andað svo köldu að togaraútgerðinni, að því mætti ekki láta ómótmælt, og þær fullyrðingar, sem komið hafa fram í því sambandi, t.d. um aflabrögð togaranna, fái ekki staðizt.