04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Síðan ég talaði um daginn hafa tveir hæstv. ráðherrar haldið langar ræður um þessi málefni, en ég get ekki komið mikið inn á það í stuttri athugasemd. Ég vil aðeins drepa á, að þegar hæstv. ríkisstj. vill gera grein fyrir gengislækkuninni s.l. sumar, skortir rök fyrir henni eins og áður. Báðir hæstv. ráðherrar, sem hér hafa talað, hafa á hinn bóginn minnzt á það, sem virðist vera uppáhaldsatriði þeirra í þessu sambandi, í stjórnarherbúðunum, að Jakob Frímannsson, formaður Sambandsins, hafi lýst því yfir s.l. sumar, að þessi kauphækkun hlyti að hafa í för með sér gengislækkun. Þeir hafa í því sambandi vitnað í ummæli, sem Jakob Frímannsson hafði á aðalfundi Kaupfélags Eyfirðinga, og orðrétt eru þau ummæli þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hætt er við, að þær kaupdeilur eigi eftir að hrinda af stað nýrri skriðu dýrtíðar og verðbólgu, sem leiðir af sér gengisfellingu og enn minnkandi verðgildi íslenzku krónunnar.“

Þegar Jakob Frímannsson sagði þessi orð, var hann að segja frá þeim kröfum, sem verkalýðsfélögin höfðu lagt fram þá um vorið, — kröfum, sem voru margfaldar á við það, sem kauphækkunin nam, þegar samið var. Það er um þetta, sem Jakob Frímannsson er að ræða á aðalfundi Kaupfétagsins, ekki um samninginn, sem gerður var. Það var um þær kröfur, sem lagðar voru fram. En hæstv. ráðherrar eru það vandir að virðingu sinni — eða hitt þó heldur, að þeir nota þetta sí og æ sem rökstuðning fyrir því, að jafnvel formaður Sambandsins hafi lýst því yfir, að kauphækkunarsamningarnir, sem urðu s.l. vor, kjarasamningarnir, hlytu að hafa í för með sér lækkun íslenzku krónunnar. Það er hvergi neitt að finna frá Jakob Frímannssyni í þá átt, hvað þá meira, að kjarasamningarnir, sem gerðir voru s.l. sumar, mundu, hvað þá þyrftu að leiða til gengislækkunar. En það sýnir ofur lítið, hvernig sá málstaður er, sem hér er til meðferðar, og að dómi þeirra, sem fyrir honum standa, þarf á svona röksemdafærslu að halda.

Ég minntist á það um daginn, að hæstv. forsrh. lét þess getið hér alveg ótilkvaddur, að ríkisstj. hefði það til athugunar, hvort ætti að leyfa íslenzku togurunum að veiða meira í landhelginni en nú er, auka réttindi þeirra til þess að veiða í landhelginni.

Frá þessum ummælum ráðherra var að sjálfsögðu sagt í útvarpi, eins og öðrum þingfréttum, og ég fullyrði, að þau vöktu gífurlega athygli víðs vegar um landið og kvíða, eins og ég sagði. Ég fór fram á það við hæstv. ráðherra af þessu tilefni, vegna þess, hve þessi ummæli hefðu vakið mikla athygli og yllu víða kvíða, að hann vildi lýsa yfir því, að ríkisstj. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta mundi ekki verða gert, því að ráðherrann fullyrti ekkert um þetta. Hann sagði, að þetta væri til athugunar. Ég rökstuddi ósk mína þannig, að ef hæstv. ríkisstj. væri komin að þeirri niðurstöðu að hleypa togurunum ekki inn, þá væri bezt að segja frá því strax til þess að forða mönnum frá ástæðulausum ótta um þetta. Þá fór ég enn fremur fram á það við hæstv. ráðherra, að hann lýsti yfir því, að þetta málefni yrði lagt fyrir Alþingi, þar sem það nú á setu.

Það væri eðlilegt, að um þetta mál væri fjallað hér og ráðherrann hefði fært þetta mál inn í þingið með ummælum sínum um það. Hér væri um svo stórt mál að ræða, að það væri alveg eðlilegt, að um það væri fjallað á Alþingi, þó að ríkisstj. hefði formlega vald til þess að skipa þessum málum með reglugerð.

Þessu vildi hæstv. ráðherra ekki lýsa yfir. Hann svaraði ekki þessari spurningu, og þykir mér það miður. Mér hefði fundizt betra, ef hann hefði viljað lýsa því yfir að um þetta mál yrði fjallað á Alþingi. Vil ég nú biðja hæstv. sjútvmrh., sem hér er staddur, að athuga, hvort hann treystir sér ekki til þess að lýsa yfir því, að um þetta mál verði fjallað á Alþingi, það verði lagt fyrir Alþingi, áður en því verði ráðið til lykta.

Loks beindi ég því til hæstv. forsrh., hvort hann vildi ekki lýsa yfir því, að í þetta mál yrði skipuð nefnd, fjölmenn nefnd, hliðstæð þeirri, sem skipuð var 1958, þegar fjallað var um sams konar mál. En í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar frá togaraútveginum og einnig fulltrúar, sem sérstaklega voru kosnir af bátaútvegsmönnum og sjómönnum. Ég hygg, að þeir hafi verið kosnir af deildunum í Fiskifélagi Íslands, og Það átti að tryggja það, að hér kæmu öll sjónarmið til greina. En þessu vildi hæstv. ráðh. ekki heldur lýsa yfir. Ég vil því endurtaka þetta og biðja hæstv. sjútvmrh. að lýsa yfir því, að málið fái a.m.k. þessa meðferð. Málið verði einnig borið undir nefnd, sem skipuð verði fulltrúum frá öllum flokkum, en það var líka gert 1958. Í þessu sambandi vil ég einnig taka undir þá beiðni hv. 4. þm. Austf., að hæstv. ráðherra upplýsi, hvaða nefnd það er, sem hann talaði um í þessu sambandi. Hann talaði eins og hún væri að athuga þetta mál sérstaklega, því hann talaði um nefndina í sambandi við þessar hugleiðingar um aukinn rétt til togaranna og talaði um nefndina með ákveðnum greini, eins og hún væri þegar til. Þá er spurningin: Hvaða nefnd er það, hverjir eru í þeirri nefnd?

Hæstv. forsrh. virtist vera mjög viðkvæmur fyrir þessu máli um daginn, hann svaraði þessum fyrirspurnum frá mér, mjög svo hógværum fsp. mjög ókurteislega, með ljótum og óvirðulegum orðum, sem voru ekki honum samboðin. En ég skal ekki fara lengra út í það. Málinu var hreyft hér af mér af beinu tilefni frá hæstv. forsrh. Vitanlega gat hæstv. forsrh. ekki búizt við því, að þingmenn hlustuðu steinþegjandi á það í stólum sínum, að hann steig fram og lýsti því yfir, að það væri til athugunar í ríkisstj., hvort ætti að hleypa íslenzka togaraflotanum inn á fiskimið bátanna í landhelginni.

Hæstv. forsrh. gat ekki búizt við því, að þingmenn hlustuðu á þetta þegjandi. Þeir hlutu að fara fram á upplýsingar. Það er því ósæmilegt af hans hendi að kasta fram ókurteisum og ljótum orðum í sambandi við þetta. Það voru engar getsakir gerðar neinum í þessu sambandi. Það var ekki fullyrt, að nein niðurstaða væri fengin á einn eða annan hátt. Það eitt var gert að mæla nokkrum almennum varnaðarorðum um þetta mjög svo þýðingarmikla mál og biðja um yfirlýsingar. En upplýsingar fengust engar og yfirlýsingar engar, því miður.

Nú væri það mjög til bóta, ef hæstv. sjútvmrh. vildi taka undir þessi atriði og beita sér fyrir því að efna til víðtækrar samvinnu um málið, og má það þá auðvitað vera algerlega gleymt, sem mönnum kann að hafa orðið á í orðalagi í þessu sambandi. Það er mín persónulega skoðun, að togararnir eigi inni hjá þjóðarbúinu. Aðstaða þeirra hefur verið þannig, að ég tel þá eiga miklu fremur inni hjá þjóðarbúinu en hitt og að það sé mjög nauðsynlegt, að hlaupið sé undir bagga með þeim, eins og nú er ástatt, og þá í þeirri von, að um tímabundna erfiðleika sé að ræða, a.m.k. að mjög verulegu leyti. En ég vil enn mjög eindregið vara við því, að það sé gert með þeim hætti að auka veiðar togaranna í landhelginni, eins og ég fyrir mitt leyti færði nokkur rök fyrir um daginn. Ég vil mjög eindregið vara við því enn á ný.

Ég vil einnig alveg eindregið mótmæla því, að það sé sérstaklega bátaútvegsins að standa undir hjálp til togaraútgerðarinnar. Ég álít, að þjóðin öll verði að sameinast um að láta af sínum sameiginlegu sjóðum eitthvert fjármagn til að hlaupa undir bagga með togaraútgerðinni. Hún er stödd nú á mjög erfiðum tímamótum, og við skulum vona, að það verði hægt að breyta ýmislega til og aðstæður breytist þannig, að togaraútgerð verði hér framvegis. Það eru gífurlega miklir erfiðleikar, eins og nú standa sakir. Fram úr þeim þarf að greiða, og það álít ég, að þjóðin verði að gera með sameiginlegu átaki, og ég vona, að það verði niðurstaðan af athugunum hæstv. ríkisstjórnar á því máli.