04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Þórarinn Þórarinsson:

Háttv. forseti. Ég hafði vænzt þess, að hæstv. ráðherrar væru hér viðstaddir, vegna þess að sum Þau atriði, sem ég hafði ætlað mér að minnast á, snerta það, sem þeir hafa sagt, og eins hefði ég viljað beina til þeirra nokkrum fyrirspurnum. En það mun e.t.v. gefast tækifæri til þess að gera það seinna, svo að ég skal ekki vera að tefja málið að þessu sinni með því að æskja þess, að hæstv. ráðh. séu mættir. En hitt verð ég hins vegar að láta í ljós, að mér finnst það óviðkunnanlegt af hæstv. ríkisstj. að efna til kvöldfunda um mál sem þessi, þegar enginn málsvari af hennar hálfu er hins vegar mættur og enginn til þess að gefa upplýsingar um fyrirspurnir, sem kynni að verða beint til stjórnarinnar í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir. (Forseti: Ég vil láta þess getið út af ummælum hv. þm., að ef hann óskar þess, mun málinu verða frestað nú um stund. Hæstv. ráðh., sem framsögu hafði fyrir þessu máli, er væntanlegur hér á fundinn innan stundar, og ef þess er óskað, er velkomið að verða við því að fresta málinu nokkra stund.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir hans ummæli, og mér finnst, að það sé þinglegri meðferð, að málinu verði frestað, þangað til einhver af ráðherrunum getur verið viðstaddur. (Frh.]