27.03.1962
Neðri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði hér nokkur orð í gær, spurðist fyrir um það, hvort við vildum sætta okkur við, að bændur fengju hliðstætt verð og gerist í nágrannalöndum okkar, ef þeir hefðu svipuð lánsog vaxtakjör og þar gerðust. Las hann upp máli sínu til sönnunar nokkur atriði viðvíkjandi verðlagi í Danmörku og hér. Það er rétt að taka það fram, að verðlag á landbúnaðarafurðum er sérstaklega lágt í Danmörku. Og í öðru lagi virtist hæstv. ráðh, einkum nefna verð á heim vörutegundum, þar sem er tiltölulega óhagatætt verð á íslenzkum vörum í samanburði við danskar.

Ég er nú búinn að fá þetta verðlag upp síðan í gær, og þá er t.d. verð á fyrsta flokks nautgripakjöti í heildsölu hér kr. 24.85, en í Danmörku er það á fyrsta flokks nautgripakjöti kr. 27.36, þannig að það er lægra hjá okkur. Á kjöti af fullorðnum kúm er það 20.40 hér, en 19,90 í Danmörku. Á kjöti af nautum er það 22.70 í Danmörku, en 23.40 hér, þannig að nautgripakjötið er á mjög svipuðu verði. Kjöt af hrossum í Danmörku, og er það lakara hrossakjöt en við höfum, er 23 kr., 13.45 hér í heildsölu. Og kjöt af dilkum, sem er okkar aðalframleiðsluvara, er 35.75 í heildsölu í Danmörku, en 29.45 hér. Svo er smásöluverðið hérna 37 eða 38, en það fer í smásölukostnaðinn. Heildsalan er 29.45, þannig að dilkakjötið er mun lægra hérna. í Danmörku var mjólkin 1. okt. í haust 85 aurar danskir, og það gerir 5.32, þetta er útsöluverð, en hér var hún á 6.88, þegar niðurgreiðslunum er bætt við útsöluverðið. Þetta er danska verðið á þeim vörum, sem eru okkar aðalmarkaðsvörur. Verðmunur á eggjum er talsverður og eins á smjöri. Viðvíkjandi eggjunum eru það ekkert frekar bændur en kaupstaðabúar, sem framleiða Þau. Ef það yrði frjáls innflutningur á smjöri, má búast við, að það lækkaði hér. Svo fékk ég verð á norsku kjöti. Það er í heildsölu 7.27 á fyrsta flokks nautgripakjöti, en það þýðir 37.81 kr. í Noregi, en á Íslandi 24.85, Þannig að það er rúmlega þriðjungi dýrara þar. Kýrkjötið er í Noregi 36.36, en hér 20.40 kr. Lambakjötið er í Noregi í heildsölu 43.86, en hér 29.45, og smásöluverð á lambakjötinu í Noregi er 62 kr., enda fær norski bóndinn miklu meira fyrir dilkinn en íslenzki bóndinn. Hrossakjötið er í Noregi 28.88 og er þó miklu verra en okkar hrossakjöt, en hjá okkur, eins og ég las upp áðan, 13.45. Ég held því, að við Þyrftum ekki að kvíða þessum verðsamanburði. Noregur er á margan hátt líkari Íslandi en Danmörk. Mjólkin í Noregi er nú — hún er heldur lægri sumarmánuðina, en nú er hún 5.53, en hér, eins og ég las upp áðan, 6.88.

Þetta er verðið á okkar aðallandbúnaðarvörum, á kjötinu og mjólkinni, hjá okkur og hjá Norðmönnum og Dönum. Það munar miklu í Noregi, hvað það er óhagstæðara en hér, sérstaklega kjötið. Íslenzkir bændur hafa jafnan unnið fyrir frekar lítið kaup, kjör þeirra voru harla bágborin, þar til sala landbúnaðarvara var skipulögð. Ég er einn af þeim, sem alltaf hafa haldið því fram við bændur, að við yrðum að stilla okkar kröfum í hóf, vegna Þess að það er takmörkuð kaupgeta hjá fólkinu í kaupstöðunum, en þar fyrir skal ég viðurkenna það, að bóndinn fær allt of lítið fyrir sína vinnu miðað við það, sem hann þarf að borga, því að viðhald á vélum og öllu slíku er orðið svo óstjórnlega dýrt. Það er ekkert gert til að gera þetta skaplegt. Ég þurfti t.d. örlítið að láta gera við mjaltavélamótor, og smávarastykki kostuðu á annað þús. kr. Svona eru allir hlutir, sem bóndinn þarf að kaupa. Það er skattlagt bæði með söluskatti og innflutningstollum og ekkert tekið tillit til þess, þó að eigi að nota það til atvinnurekstrar. Danir láta sína bændur hafa lán til 70–80 ára með 2 og 3% vöxtum, meðan íslenzkir bændur hafa 15–20 ára lán með 61/2% og jafnvel upp í 10% vexti. Það er þess vegna ekkert líkt, hvað slíkir bændur eiga hægara með að framleiða ódýrar vörur. Danir halda m.a. verðlaginu niðri á sínum landbúnaðarvörum með því að útvega bændum hagstæð lánskjör. Þetta gætum við vitanlega líka. Í verðlagningu afurðanna er tekið tillit til vaxtanna. Það, sem er lakast við þetta allt saman, eru mismunandi vextir, mismunandi kjör bænda, Þannig að við, sem erum búnir að gera hlutina og fá hagstæð lán, höfum tiltölulega góða aðstöðu, en þeir, sem eru að byrja; hafa vonda aðstöðu. Eftir því sem lánskjör bændanna verða lakari, eykst tilkostnaðurinn við framleiðsluna, og þá verður verðið að hækka til neytendanna. Það er óhjákvæmilegt.

Ég held satt að segja, að það þurfi ekki að fárast yfir því, hvað bændur fái mikið fyrir sínar afurðir, miðað við þau lánskjör, sem þeir verða að búa við, eins og nú er komið. Og satt að segja eru þessar framkvæmdir gagnvart unga fólkinu, sem er að hefja framkvæmdir í landinu, svipaðar og hjá bónda, sem ber áburðinn á túnið, sem er nokkurn veginn fullsprottið og vel ræktað, en lætur þá hluta túnsins, sem skortir áburð og eru að byrja að spretta, vera áburðarlausa. Þeim er hjálpað, sem bezt hafa kjörin, en þeim er minnst hjálpað, sem erfiðasta hafa aðstöðuna og eru að hefja framkvæmdir. — Svo ekki meira um þessi landbúnaðarmál í bili, það verður víst tækifæri til þess seinna.

En viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir, þá álít ég, að allar brtt. hafi í sjálfu sér ekkert að þýða, úr því sem komið er. Það eina, sem hægt er að gera, er að vera á móti þessu rangláta frv. Ég sýndi fram á það í gær, að gengislækkunin var ónauðsynleg vegna fiskvinnslustöðvanna, og það var sá aðilinn, sem erfiðast átti með að hækka kaupið.

Það, sem aðallega er borið við í grg. ríkisstj., er, að þetta mundi auka kaupmáttinn, þannig að gjaldeyrisjöfnuðurinn yrði óhagstæður. Ríkisstj. hafði nóg ráð til að hindra þetta, ef um það var að ræða, Og m.a. gat hún lækkað bæði niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum og hún gat einnig lækkað tryggingarnar. Þannig gat hún dregið úr kaupmættinum, ef hann var of mikill. Þetta hafði hún alveg í hendi sér. Þess vegna þurfti ekki að lækka gengið vegna greiðslujafnaðarins út á við. En það var lækkað í fyrsta lagi til þess, að stjórnarandstaðan gæti ekkert þakkað sér, og í öðru lagi af því, að ríkisstj. þurfti að fá peninga í ríkissjóðinn.

Það eru teknar um 150 millj. í gengismismuninum af útveginum, eina og ég sýndi fram á í gær. Og það er gert meira, í leiðinni er útvegurinn stórkostlega skattlagður. Á fundi í L.Í.Ú. í fyrra urðu miklar umr. um þetta, og ég sýndi fram á, hversu gífurlega við værum skattlagðir. Og þá var send nefnd til ríkisstj. Hún ræddi við ríkisstj. um að breyta framlaginu til stofnlánadeildarinnar þannig, að sú upphæð fengi að ganga til trygginganna. Þetta er 1.8% af útflutningsverðmæti fob., sem þýðir 3.6% af verðmæti fisks upp úr sjó. Ríkisstj. tók þessu ekki illa, og þegar þessi nefnd kom aftur, sagði hún okkur, að þessu fé mundi verða varið til trygginganna, og það datt engum manni í hug annað en ríkisstj. væri fullkomlega búin að hverfa frá því að taka þetta til lánastofnananna. Hvorki ég né aðrir létu sér detta í hug, að þetta yrði tekið til lánastofnananna eftir næstu áramót, eins og kemur fram í þessu frv. Enn fremur var farið fram á það við ríkisstj., að hún lækkaði vextina. Og Þessi nefnd, sem fór fyrir útgerðarmenn á fund ríkisstj., gaf það fyllilega í skyn, að vextirnir mundu verða lækkaðir um næstu áramót. Satt að segja hafði ég ekki trú á, að þáð yrði. Ég sagði, að ég hefði ekki trú á vaxtalækkuninni. En ég trúði því, að þessi afturganga viðvíkjandi framlaginu í stofnlánadeildina mundi ekki koma aftur. En samkv. þessu frv. er hugmyndin, að þetta skattgjald komi til framkvæmda eftir næstu áramót.

Það, sem lagt er á útgerðina, er því í fyrsta lagi til fiskveiðasjóðs 1.8% af fob-verði vörunnar. Áður en efnahagsráðstafanirnar voru gerðar í ársbyrjun 1960, svaraði þetta til 1%, vegna þess að við þurftum ekki að borga útflutningsgjald af framlaginu úr útflutningssjóði. Svo kemur framlag til stofnlánadeildarinnar, sem eftir því, sem var að heyra á hv. frsm., mun e.t.v. verða látið ganga til fiskveiðasjóðs. Satt að segja er ég honum sammála um að vilja það frekar og finnst það eðlilegt. En þá kemur til það framlag, sem á að koma til framkvæmda eftir næstu áramót, 1.8% líka. Og svo er lagt til hlutatryggingasjóðs 1.25% og til fiskimálasjóðs 0.3%. Þetta er því til fiskveiðasjóðs 1.8% til stofnlánadeildarinnar 1.8% til fiskimálasjóðs 0.3% og til hlutatryggingasjóðs 1.25%. Samtals er Þetta 5.15% af fob-verði allrar útfluttrar vöru og þar með af tunnunum og vinnunni við síldina. Þetta þýðir um það bil 10.30% af aflaverðmætinu, og vitanlega hlýtur þetta allt að koma við útgerðarmenn og sjómenn. Við vitum, að söltunarstöðvar og fiskvinnslustöðvar sjá um sig. Hugsið ykkur þessar gífurlegu álögur, sem á að leggja á útveginn. Og svo er ætlazt til, að útvegsmenn steinþegi yfir þessu. Svo á að halda áfram, svo á að fitja upp á því ,að flytja þennan skatt yfir á bændurna, taka vissa prósentu af því, sem þeir vinna fyrir, og það á að gera það í skjóli þess, að vissir aðilar fyrir þeirra hönd hafi gert vitleysu með því að fara að leiða asnann í herbúðirnar viðvíkjandi þessari blessaðri bændahöll. En það er ekki nóg fyrir þessa hv. stjórnarflokka að gera vitleysur í skjóli þess, að einhverjir flokkar áður eða einhverjir menn hafi gert einhverjar vitleysur, sem eru þó e.t.v. miklu minni. Ég skal játa, að ég hef alltaf verið á móti því að innleiða þetta skattgjald vegna bændahallarinnar. En það er ekki til að bseta úr því að bæta viðbótargjöldum við, þannig að í heild verði tekið um 2% af brúttótekjum bóndans. Það þýðir milli 4 og 5% af kaupi hans. Ég skal játa, að það er tiltölulega betra en gagnvart útveginum, en þessar álögur gagnvart útveginum eru gersamlega óþolandi. Og ég er sannfærður um, að útgerðarmenn munu ekki þola Þær. Með einhverju móti í gegnum samtök sín munu þeir brjóta þessa kúgunarskatta af sér. Ég veit, að rekstrarfjárþörfin er mikil. En það eru ekki útgerðarmenn og það eru ekki bændur, sem bera ábyrgð á hinni sívaxandi rekstrarfjárþörf, heldur er það ríkisvaldið og þeir, sem hafa stjórnað, vegna þess að það hefur stöðugt verið að lækka gengið og þótt sparifé hafi myndazt, hefur verðþenslan eða réttara sagt minnkandi verðgildi íslenzkrar krónu gert meira en gleypa þetta, svo að það minnkar ekkert rekstrarfjárskorturinn, jafnvel vex.

Útgerðarmenn og bændur eiga ekki sök á því, að gengið var fellt í ársbyrjun 1960 meira en þurfti, og þeir eiga ekki sök á því, að gengið var lækkað í sumar. Aðeins kostnaðinn við að byggja einn bát í kringum 100 rúmlestir og kaupa veiðarfæri til þess að geta gert hann út eykur gengislækkunin í sumar um 13%. Miðað við, að báturinn kosti 8–9 millj., eykur það útgjöld þess manns, sem þarf að kaupa bátinn, um ca. 1200 þús. kr. Af þessari upphæð þarf hann að borga vexti og afborganir. Það, sem er því verið að framkvæma hér, er, að það á að taka 10% af brúttótekjum sjómanna og útgerðarmanna og leggja í lánastofnanir, sem ríkið á og útgerðarmennirnir fá ekki að ráða yfir, og þeir fá einu sinni ekkert að segja um það, hvað vextir eiga að vera. Þingið fær ekki einu sinni neitt að segja um, hvað vextirnir eiga að vera. Sem sagt, það á að taka þarna nokkurs konar eignarnámi jafnvel svo að skiptir hundruðum millj. Þetta verður sennilega í heild um 150 millj. kr. á ári. Það á að taka þetta fé, og svo á að lána útgerðarmönnum þetta aftur með 61/2% vöxtum, sem ég vil kalla allt að því okurvexti, þegar um eigið fé er að ræða. Þeir fá ekki að ráða yfir þessu, — enginn nema Seðlabankinn og ríkisstj. Ég hef átt tal um þetta við lögfræðing, og hann leit svo á, að þetta væri ekki löglegt, ríkisstj. hefði vald til að leggja á skatta fyrir ríkið, en ekki að skattleggja menn svona til lánsstofnana. Ég hef verið að hugsa um, hvort það væri ekki rétt að láta fara fram prófmál um þessa hluti; hvort þetta væri löglegt. Við viljum allir efla fiskveiðasjóð og höfum viljað honum vel, en Það verður að vera eitthvert hóf á þessu: Þarna er gengið of langt.

Gengismismunurinn um 150 millj. er tekinn, og það eru greiddar með honum ríkisábyrgðir, og það er búið að greiða fyrir togaraflotann, eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti hér um daginn, um 130 millj. kr. í ábyrgðir. Og hvað er svo gert til þess að innheimta þessar ábyrgðir? Ég veit ekki betur en það sé verið að verzla með 250 tonna togarana, það sé verið að selja þá fyrir þetta eina og tvær milljónir auk þess, sem er ógreitt hjá ríkinu. 1/10 hluti af verði þeirra upphaflega var greiddur, svo hefur enginn borgað neitt, hvorki vexti né afborganir, og það er ekkert hugsað um að innheimta þetta. Það liggur við, að það sé farið að braska með þessi skip þannig, að þeir, sem kaupa þau, reikni með að þurfa aldrei að borga þessa upphæð. Ég veit ekki til, að það hafi verið farið þannig að við bátana. Það, sem kaupendurnir geta ekki fengið að láni í fiskveiðasjóði út á fyrsta veðrétt, hafa þeir orðið að ábyrgjast persónulega, og ríkið þarf ekki að borga þar ábyrgðir. Það er ekkert vit í þessu, að fyrir vissa tegund af skipum gangi ríkið í ábyrgð og einstaklingar og fyrirtæki kaupi þessi dýru tæki með það fyrir augum að borga þau ekki, nema um verulegan gróða af þeim sé að ræða.

Ég veit, að þessar ábyrgðir fyrir togarana eru ekki allar þessari ríkisstj. að kenna. Á sínum tíma mun þingið í heild hafa samþykkt þessi lög, sem eru ákaflega ógætileg vægast sagt. Ég tala nú ekki um þessa dýrari togara; sem keyptir voru 1959 og 1960 og ríkið verður sennilega að borga að öllu leyti. En úr því sem komið er, þá er ekki hægt að skjóta sér undan þessum ábyrgðum. Það á bara að ganga fram í að innheimta það, sem innheimtandi er. Og það á að ganga jafnt yfir togara og aðra aðila. Það er þá miklu betra að gera þessi skip upp, eins og 250 tonna togarana, og menn viti, fyrir hvað þeir eru að kaupa, ef þeir kaupa Þá~ að það sé gert hreint og skipin séu svo seld hæstbjóðanda, komist þá í hendur þeirra manna, sem kunna að reka þau.

Það má vel vera, að ríkið hafi haft þörf fyrir þessa peninga, þennan gengismismun. En ég vil ætla, að það væri minna smyglað til landsins og e.t.v. minna svindlað á tollgreiðslum af ýmsum innlendum iðnaðarvörum. Ég vil setla, að það hefði verið eðlilegra, að ríkið hefði litið betur eftir því, heldur en hirða þennan gengismun af útgerðarmönnum, sem sannarlega höfðu brýna þörf fyrir hann. — Þetta fjármagn hefði vitanlega verið hægt að nota til að greiða niður skuldir bæði fiskiðjuveranna og útgerðarmannanna, ef þeir hefðu fengið þessa peninga, þannig að þetta hefði komið inn í bankana. Það er ekki eins og þetta fé sé algerlega sparað. Þetta er bara tekið af þessum aðilum, tekið af útvegsmönnunum, þannig að þeir geti ekki greitt skuldir sinar. í ár eru sennilega teknar með þessum lánasköttum öllum saman og gengismismuninum milli 200 og 300 millj. af útvegsmönnum. Þeir riða ekki beinlínis í ár, vegna þess að þetta er sennilega bezta ár fyrir útgerðarmenn, sem komið hefur. En ef um meðalár hefði verið að ræða, þá hefði það orðið erfitt. Ég held því, að það, sem þurfi að gera viðvíkjandi þessum ábyrgðum hjá þessum togurum, sé að ganga hreint til verks og gera þetta upp. Og ef menn geta ekki borgað t.d. þessa 250 tonna togara, þá þýðir ekkert annað en selja hæstbjóðanda þá og láta þá komast hendurnar á þeim mönnum, sem eru hæfastir að reka þá, og hver verði að bera ábyrgð á sínum verkum, en ekki kaupa og kaupa í einhverju ábyrgðarleysi.

Það er sama sagan viðvíkjandi þessum gengislækkunum hvað Búnaðarbankann snertir. Dollarinn hefur lækkað úr 16 í 43 kr. á tiltölulega stuttum tíma. Þetta er stórfé, og það er náttúrlega ríkisvaldið, sem ber ábyrgð á þessu öllu saman.

Ég segi ekki, að núv. stjórn beri alla ábyrgðina. Það er ekki hægt annað en viðurkenna, að fyrrv. stjórn átti að taka vísitöluna úr sambandi. En núv. ríkisstj. ber óneitanlega mikla ábyrgð, því að gengið hefur raunverulega fallið um sem svarar 40% vegna ráðstafana, sem hún hefur gert, en ekki var brýn þörf á að gera. Það er þannig bæði með bændur og útgerðarmenn, að þeir eru menn rólyndir og vilja vel. Ég er einn í þeirra hópi og vil helzt leysa málin með friði. En ég er satt að segja dálítið hissa, ef ríkisstj. ímyndar sér, að hún geti framkvæmt þetta á þann hátt, sem gert hefur verið. í raun og veru var launafólkið með gengislækkuninni tekið algeru steinbítstaki. Það var búið að gera samninga, og svo var allt tekið aftur. Mér er sagt, að kennarastéttin sé búin að segja upp ætli að segja lausum stöðum sínum í vor, þannig að það hlýtur að fara að verða dálítið almenn óánægja yfir þessum aðförum að lækka gengi að óþörfu, að hirða gengismuninn, að auka rekstrarfjárskortinn með því að lækka gengið, þannig að hann gleypir algerlega sparifjármyndunina. Þó að sparifjármyndunin sé meiri í krónutölu, hverfur það allt inn í aukna rekstrarfjárþörf vegna gengislækkunarinnar. Með því að þjappa bændum saman á móti þessum nýju álögum og útvegsmönnum, þessum óhemjuálögum, sem á þá eru lagðar, þá sé ég ekki annað en ríkisstj. hljóti að veikja aðstöðu sína. Ég skal ekki segja, hvað atkv. segja, en ég er alveg sannfærður um það, að stéttasamtökin hljóta að taka til sinna ráða. Þessir útgerðarmenn eru ekki háskólaborgarar. Þeir hafa flestir byrjað af litlum efnum, jafnvel á árabátum, en það eru duglegir menn, og þeir eru með hjartað á réttum stað og þekkja lifið. Ég hef enga trú á því, að það séu ekki takmörk fyrir því, hvað hægt er að taka af þeim mikið með aðferðum, sem eru a.m.k. vafasamar, svo að ekki sé meira sagt. Ég trúi ekki öðru en þessar stéttir fari að mynda samtök. Það er hægt að taka menn steinbítstaki, en einhvern tíma verður að sleppa því. Þá verður ríkisstj. að gera sér það ljóst, að hún verður að vera fær um að taka afleiðingunum. Eina ráðið, álít ég, sem hægt er að finna núna til þess að gera fólkið ánægt, er að minnka rekstrarfjárþörfina með því að hækka gengið a.m.k. um það, sem það lækkaði um í sumar, og bæta kjör fólksins á þann hátt að gera verðgildi peninganna meira. Á þann hátt er helzt hægt að laga þetta, bæði hvað snertir kjör fólksins og rekstrarfjárskortinn, því að þessi rekstrarfjárskortur er að miklu leyti tilbúinn vegna hinna óeðlilega miklu gengislækkana. Þess vegna get ég ekki annað gert gagnvart þessu frv. en að mótmæla því og greiða atkv. á móti því.

Ég skal játa, að mér finnst útvegsmenn eiga hér furðulega fáa forsvarsmenn. Það eru e.t.v. margir, sem ekki eru kunnugir þeirra málum og þeirra atvinnurekstri. Sumir eru kunnugir því, en af einhverjum ástæðum segja þeir ekki neitt.