30.03.1962
Efri deild: 75. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

177. mál, málflytjendur

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Við upphaf 3. umr. um mál þetta flutti hv. 9. landsk. þm. (JÞ) brtt. á þskj. 463 við þetta frv., og fjallar sú brtt. um próf hæstaréttarlögmanna, sem annars er fjallað um í 9. gr. laganna. Til þess að fá heimild til að taka próf hæstaréttarlögmanna og fá réttindi sem hæstaréttarlögmenn þurfa menn að fullnægja ýmsum skilyrðum, t.d. vissum aldri, vera lögráða, hafa íslenzkan ríkisborgararétt, embættispróf í lögfræði og hafa verið héraðsdómslögmenn í þrjú ár samtals eða um jafnlangan tíma gegnt embætti eða stöðu, sem lagapróf þarf til. Hv. 9. landsk. þm. leggur til í brtt. á Þskj. 463, að hér við bætist það skilyrði, að próftaki hafi flutt a.m.k. 40 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða kveðið upp dóma í 40 munnlega fluttum einkamálum. Hv. þm. færði rök fyrir þessari till. sinni, sem ég mun ekki endurtaka, þau eru hv. Þdm. væntanlega í fersku minni.

Till. þessi var rædd á fundi í allshn. Nefndin var á einu máli um það, að rök hv. tillögumanns ættu talsverðan rétt á sér og ekki væri ástæðulaust að hreyfa þessu máli. Hins vegar var það samhljóða álit nm., að till, gengi of langt og mál þetta þyrfti rækilegri athugunar við, áður en breyting yrði á gerð. Hv. 9. landsk. viðurkenndi og í ræðu sinni, sem hann flutti um mál Þetta á sínum tíma, að till. væri raunar samin í nokkrum flýti. N. treystir sér því ekki til að gera till. að sinni till. eða mæla með því, að hún verði samþ., og voru allir nm. á einu máli þar um.