19.02.1962
Neðri deild: 39. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er undirbúið af skólanefnd Hjúkrunarkvennaskóla Íslands í samráði við landlækni. Þetta er breyting á eldri lögum um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands frá 1944.

Það má segja, að það séu ekki miklar efnisbreytingar í þessari löggjöf. Hún er færð í eðlilegra form og endurbætt í samræmi við reynslu þá, sem fengizt hefur af starfrækslu Hjúkrunarkvennaskólans.

Það er m.a. heiti þessa frv. og skólans samkv. því, að hann heiti Hjúkrunarskóli Íslands, en ekki Hjúkrunarkvennaskóli. Þetta leiðir af því, að karlmenn hafa sótt til karlréttinda hér á landi á þessu sviði og tekið til við hjúkrun, sem áður var eingöngu í höndum kvenna, og skólinn hefur verið kallaður Hjúkrunarskóli Íslands undanfarin ár, eftir að karlmenn tóku að stunda hjúkrun líka, eins og fram kemur í grg. fyrir frv. Það er gert ráð fyrir að reka þennan skóla sem heimavistarskóla, sem eðlilegt er, og var haft í huga, þegar byggt var nálægt Landsspítalanum. Skólabygggingin er staðsett, eins og kunnugt er, á landsspítalalóðinni, og fylgir því auk þess margvíslegt hagræði, að hjúkrunarnemarnir séu í sem mestum námunda við a.m.k. þetta stærsta sjúkrahús landsins.

Þá er í 2. gr. gert ráð fyrir, að skólinn heyri undir menntmrn. Það er í samræmi við þróun undanfarinna ára, að sérskólarnir skuli koma

inn í skólakerfið í heild, en ekki lúta hinum einstöku ráðh., þó að það sé að vísu svo enn, að landbúnaðarskólarnir heyri undir landbrh. Það segir að vísu svo í aths. við 2. gr., að það virðist eðlilegt, að málum skólans sé bezt skipað undir stjórn menntmrh., og það sé betri aðstaða fyrir hendi til þess að búa svo að skólanum, að hann geti orðið við sívaxandi kröfum tímans sem menntastofnun. Ég fyrir mitt leyti hefði álitið, að það væri vel hægt að búa sæmilega að honum í heilbrmrn., en hef ekki viljað fara í neinn meting við menntmrn. um þetta. Eins og ég sagði áðan, er það í samræmi við það, sem lögfest hefur verið á undanförnum árum, og telst nú að öllu leyti hagkvæmara, og stjórnendur skólans hafa óskað eftir, að svo mætti vera. Ég vil aðeins vona, að þetta frv. verði til styrktar þessari stofnun, sem er hin merkasta og ástæða til að búa að henni á sem beztan hátt.

Ég vil svo leyfa mér að svo mæltu að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.