20.03.1962
Neðri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Það er aðeins um eitt atriði þessa frv., sem ég gerði fyrirvara. Ég er samþykkur frv. að öllu öðru leyti og þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á því í nefndinni. Þetta atriði, sem ég geri fyrirvara um, er það, að í frv. er lagt til, að Hjúkrunarskóli Íslands heyri framvegis undir menntmrn., en ekki eins og hingað til hefur verið undir heilbrmrn. Ég tel hér vera um að ræða undirbúning undir starf í þjónustu heilbrigðismálanna, og í raun og veru má segja, að hinn verklegi þáttur námsins í Hjúkrunarskóla Íslands fari fram í landsspítalanum, undir stjórn og í samstarfi við læknana þar.

Það hefur nokkrum sinnum áður verið til umr. hér á Alþingi, hvort ætti að færa yfirstjórn allra skóla undir menntmrn., en fram að þessu hefur ekki verið þingmeirihluti fyrir því. Svo sem kunnugt er, heyra bændaskólarnir báðir undir landbrn., sjómannaskólinn heyrir undir sjútvmrn. og vélstjóraskólinn sömuleiðis. Þannig heyra þessir sérgreinaskólar í þjónustu ákveðinna atvinnugreina undir ráðuneyti viðkomandi atvinnugreina. Það er í raun og veru enn þá regla, að sérskólarnir heyri undir viðkomandi ráðuneyti. Iðnskólar hafa a.m.k. fram að þessu, ef ég man rétt, einnig heyrt undir iðnmrn., en ekki undir menntmrn. Ég hef ekki heyrt færð nein rök fyrir því, að þetta væri óheppilegt, og a.m.k. tel ég, að það sé ekki ástæða til að færa einn skóla fremur en annan undan yfirstjórn þess ráðuneytis, sem hann heyrir eiginlega til, nema þá því aðeins að það verði allsherjarregla, að þingið telji réttara, að bændaskólarnir, sjómannaskólinn, vélstjóraskólinn, iðnskólar o.s.frv. heyri allir undir menntmrn. Ef Alþingi fellst á það, sem það hefur ekki gert fram að þessu, þá fyrst teldi ég eðlilegt, að Þessi skóli væri tekinn undan heilbrmrn.