23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. á þessu stigi málsins. Ég ætla ekki heldur að gera neinar aths. við ræðu hæstv. menntmrh. Hann gat þeirrar breyt., sem í frv. felst, að skólinn eigi nú að hafa húsbóndaskipti og eftirleiðis að lúta yfirstjórn menntmrn. í stað heilbrmrn. Við þá breyt. hef ég í raun og veru ekkert að athuga.

Þær breytingar, sem í þessu frv. felast, eru yfirleitt heldur smávægilegar. Sumar af þeim eru að vísu nauðsynlegar og óhjákvæmilegar, eins og um heiti skólans. Fyrir tveimur árum flutti ég frv. um svipað efni og felst í breyt. þeim, sem hér eru á ferðinni nú. Það náði ekki samþykkt þingsins þá, en m.a. fólst í mínum till. þessi breyting á nafni skólans. En ég stend ekki hér upp til þess að tala um þessa hluti, heldur um hitt, sem mér finnst vanta í þetta frv.

Eins og allir vita og um hefur verið rætt hér á hinu háa Alþingi áður, er mikill hjúkrunarkvennaskortur í landinu. Þessi skortur á hjúkrunarkonum er ekki neitt einstæður fyrir okkar land, heldur gerir hann víða vart við sig. Spurningin er þessi: Er á nokkurn hátt hægt að bæta úr hjúkrunarkvennaskortinum í framtiðinni með breyt. á lögum um hjúkrunarnám? Mér er það ljóst, að ekki verður að öllu leyti bætt úr þeim skorti með breyt. á lögunum einum, en mér er jafnljóst, að nokkuð má gera í þá átt að bæta úr hjúkrunarkvennaskortinum með breyt. á lögunum.

Ég ræði þetta ekki ýtarlega nú, en vil þó minnast á eitt eða tvö atriði.

Annað atriðið, sem ég geri að umræðuefni, minntist hæstv. menntmrh. á, að þessi skóli á að vera áfram heimavistarskóli eins og hann hefur verið. Mér heyrðist á hæstv. ráðh., að hann legði á þetta töluvert mikla áherzlu og teldi Það kost. Að mínum dómi er þetta einn stærsti ókosturinn á skólanum í dag, og ein mesta og brýnasta þörf á breyt. í þessum lögum er sú, að þetta ákvæði verði afnumið. Hvað sýnir reynslan? Fyrir nokkrum árum var byggt myndarlegt skólahús á landsspítalalóðinni fyrir hjúkrunarkvennaskólann. Vegna fjárskorts var ekki hægt að ljúka þeirri byggingu. Það var metið mest að byggja heimavistarhluta skólans, en hitt geymt til síðari tíma, að byggja kennslustofur. Fyrir þetta líður skólinn tilfinnanlega í dag. Það vantar kennslustofur, en heimavistin er nægileg. Það eru þess vegna stórir gallar á því að hafa ákvæði í þessum l. um heimavistarskóla, því ætti að útrýma með öllu. Þetta er úrelt og einskisvert ákvæði. Gallinn er mjög áberandi, sá að takmarka aðgang að skólanum. Það gerir heimavistin. Kostirnir eru sárafáir. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi verið að tala um kosti og tala um óskir nemenda, en kostirnir eru yfirskin eitt, það eru ekki neinir kostir. Ég skal aðeins minnast á einn raunverulegan kost, og hann er sá óneitanlega, að það getur verið þægilegt fyrir nemanda búsettan utan Reykjavíkur að geta átt vísa heimavist í skólanum. En fyrir alla Reykvíkinga og raunar nærsveitarmenn skiptir þetta engu máli. Heimavistarskóli í Reykjavík á yfirleitt ekki neinn rétt á sér og allra sízt ef heimavistin verður til þess að takmarka möguleika á aðgangi að skólanum. Þetta á sérstaklega við um hjúkrunarskólann vegna þess mikla og tilfinnanlega og vaxandi hjúkrunarkvennaskorts, sem í landinu er. Sá skortur verður miklu tilfinnanlegri þó eftir örfá ár. Eftir þrjú eða fjögur ár tekur til starfa hér í Reykjavík nýr, stór spítali, borgarsjúkrahúsið. Eftir væntanlega ekki allmörg ár tekur til starfa stækkunarviðbót landsspítalans. Þá fyrst tekur í hnúkana um hjúkrunarkvennaskort, þegar þessir spítalar þurfa að fara að ráða starfsfólk. Það er þess vegna sérstök ástæða í sambandi við afgreiðslu þessa máls að athuga þetta gaumgæfilega og eftir því sem unnt er að sníða lögin þannig að auðvelda ungu fólki aðgang að þessum skóla, en torvelda ekki.

Ég sé strax, að það er ástæða til að staldra við 1. gr., þar sem ákveðið er, að ríkið skuli reka heimavistarskóla, og ég er persónulega ekki í neinum vafa um, að Því ákvæði þarf að breyta. Annað, sem ég tel að ætti að athuga gaumgæfilega hér á Alþingi, er VI. kaflinn, þar sem rætt er um framhaldsnám og námskeið. Ég held, að Þar ætti að ákveða nánar um námskeið fyrir ungt fólk, sem vill stunda slík námskeið, stunda nám í hjúkrunarfræðum, jafnvel þótt það leiði ekki til þess að hljóta fullkomna hjúkrunarmenntun.

Ég hef svo ekki þessi orð fleiri, en vænti þess, að þessi hv. d., ekki sízt fyrir það, að hér eiga sæti tveir læknar, athugi þetta frv. einmitt nú með tilliti til þessara brýnu þarfa á að fjölga í stétt hjúkrunarfólks.