09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

119. mál, Hjúkrunarskóli Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð. — Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram, var eining í n. að mæla með samþykkt þessa frv., eins og það liggur fyrir.

Þegar málið kom hér á dagskrá í hv. d., hafði ég orð á því, að möguleiki væri á að gera hér á nokkrar breytingar, sem miðuðu í þá átt að auka möguleika á fjölgun hjúkrunarfólks í landinu. Ég athugaði þetta síðar nánar, og það voru einkum þrjú atriði, sem ég athugaði í Þessu sambandi, en féll síðan frá að flytja brtt. um. Það kom í ljós, að það er ekki skortur á umsóknum til þessa skóla. Honum berast fleiri umsóknir árlega en hægt er að verða við. Það, sem er tilfinnanlegast af öllu í sambandi við hjúkrunarskótann, er sumpart skortur á kennurum og sumpart skortur á kennslustofum. Þetta eru atriði, sem ekki verður úr bætt með breytingu á þessu frv., eins og það er. Það var meginástæðan fyrir því, að ég flutti ekki neinar sérstakar till. í n. um breytingu. En eins og hv. frsm. tók fram, er mikill skortur hér í landinu á hjúkrunarfólki, og má búast við, að sá skortur verði enn tilfinnanlegri á næstu árum, einkum þegar þeir nýju stórspítalar, sem nú eru í byggingu í Reykjavík, verða teknir í notkun. Þessi skortur á hjúkrunarfólki er ekki einstæður fyrir Ísland, hann er víðar, því miður. Og sums staðar, a.m.k. í Bretlandi og í Svíþjóð, hefur nokkuð verið farið inn á þá leið að veita ólærðu fólki nokkra tilsögn í hjúkrun, þannig að betur mætti nota þann ólærða starfskraft til hjálpar á heilbrigðisstofnunum, þar sem ónógur kraftur er fullnuma starfsfólks.

Í þessu frv., 6. kafla, er heimild snertandi námskeið. Mér hafði dottið í hug, að Þörf hefði verið á að gera ákvæðið í 12. gr. nokkru ákveðnara en það er um þessi námskeið, þannig að tekið væri fram, að námskeið skyldu haldin á vegum skólans handa ljósmæðrum og aðstoðarfólki í sjúkrahúsum. En það varð, eins og hv. frsm. n. tók fram, að samkomulagi í n. að breyta ekki þessu heimildarákvæði, en það kæmi skýrt fram frá n. í framsögu, að það væri ósk hennar, að þessi heimild yrði notuð eftir þörfum: að fólki, sem starfar að hjúkrun, en ekki er útlært, verði veitt tækifæri til að sækja námskeið í hjúkrun á vegum Hjúkrunarskóla Íslands.