02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

124. mál, læknaskipunarlög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara örfáum orðum um þetta frv., áður en það fer til nefndar, vegna Þess að ég vil gjarnan vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við frv. til athugunar fyrir þá hv. nefnd, sem fær það til meðferðar.

Eins og tekið er fram af hæstv. ráðh., er það aðaltilgangur þessa frv., að gerð verði tilraun til þess að ráða bót á læknaskortinum eða skorti á héraðslæknum í hinum fámennari læknishéruðum. Það mál var til umr. á síðasta Alþingi, og var þá samþykkt í því ályktun hinn 29. marz s.l. En um afgreiðslu þeirrar ályktunar var, ef ég man rétt, farið eftir tillögum allshn. í Sþ., og ætla ég, að nefndin hafi orðið sammála um afgreiðslu till. í till. stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi (þ.e.a.s. í sambandi við læknaskortinn) sé athugað, hvort tiltækilegt sé eða líklegt til árangurs: 1) að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, er gegni jafnframt störfum héraðslæknis; 2) að greiða staðaruppbót á laun í fámennum héruðum; 3) að hraða byggingu eða endurnýjun læknisbústaða; 4) að hið opinbera eigi nauðsynlegustu lækningatæki og lyfjaforða í fámennum héruðum; 5) að breyta skipun læknishéraða. Jafnframt verði athugaðir möguleikar á að fá sérfræðinga í hinum ýmsu greinum læknisfræðinnar til þess að setjast að á stöðum utan Reykjavíkur og nágrennis eða starfa í sambandi við fjórðungssjúkrahúsin, eftir því sem framast eru tök á og bezt þykir henta.“ — Þessi siðasta mgr. ályktunarinnar var, ef ég man rétt, samþykkt þannig samkv. brtt. frá hv. 4. þm. Norðurl. e., sem mig minnir að allshn. tæki upp, a.m.k. varð n. sammála um þessa ályktun.

Eins og fram kemur í þeirri skýrslu frá landlækni, sem fylgir frv. eða grg. þess, á bls. 2 á þskj., hefur landlæknir tekið ýmis Þessi atriði til athugunar, sem bent var á í ályktun Alþingis, og um a.m.k. sum af þeim atriðum er farið nokkrum orðum í þessari skýrslu landlæknis og gerðar tillögur um sumt, sem hæstv. ráðh. minntist á áðan í ræðu sinni. En þetta frv. fjallar ekki um neitt af þeim atriðum, sem Alþ. benti á í ályktun sinni 29. marz 1961, heldur um nýtt atriði, Þar sem gert er ráð fyrir því, að störf héraðslækna og aðstoðarlækna og staðgöngumanna héraðslækna verði aðgreind í tvennt, í almenn læknisstörf, sem er nánar gerð grein fyrir í frv., sem greidd verði með embættislaununum, og í öðru lagi Það, sem kallað er venjulega praxís læknanna, sem greiddur verði á sama hátt og störf praktíserandi lækna, samið við sjúkrasamlög í héruðunum.

Nú ætla ég ekki að leggja neinn dám á það, hvort þetta mundi vera heppilegt fyrirkomulag. Má vel vera, að svo sé. En ég vil leyfa mér að benda á það, eins og reyndar hæstv. ráðh. vakti athygli á, að ávinningur lækna af samþykkt þessa frv. mundi verða minnstur í þeim héruðum, þar sem helzt er hætta á læknaskortinum. Ávinningur héraðslæknis við samþykkt þessa frv. yrði minnstur, þar sem minnst er starfað við lækningar, þar sem minnstur praxís er, en mestur þar sem mest er að gera. Þess vegna óttast ég, að frv., þó að það kunni að vera réttmætt að öðru leyti, nái ekki þessum tilgangi, að læknar fáist í fámennustu héruðin, þar sem minnstur er praxísinn. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. n. á þessu og benda á það, að mér sýnist, að nefndin þyrfti að taka til athugunar í sambandi við þetta frv. fleiri atriði og Þau engu síður en Það atriði, sem frv. fjallar um, bæði í tillögum landlæknis, sem getið er um í skýrslunni, sem fylgir grg., og þau atriði, sem felast í ályktun Alþingis frá 29. marz. Ef þau atriði eru tekin til athugunar, þarf það auðvitað alveg sérstaklega að koma til athugunar í því sambandi, þegar um er að ræða að leggja nýjan kostnað á læknishéruðin, þessi fámennu héruð, hvort Það væri Þá ekki nauðsynlegt, að Þjóðfélagið tæki þátt, meiri eða minni, í þeim kostnaði.

Ég tek eftir því, að þar sem talin eru skyldustörf læknis í héraði, sem gert er ráð fyrir að séu greidd með embættislaununum, þá er m.a. minnzt á hina samfelldu gegningarskyldu læknis, skyldu héraðslæknis til þess að vera jafnan á verði og gegna læknisstörfum, hvenær sem á þeim þarf að halda. Þetta hefur tíðkazt hér á landi frá öndverðu. Héraðslækninum bar skylda til að sinna kalli, hvort sem var að nóttu eða degi og hvar sem hans var þörf, og þurfti það auðvitað að vera svo og gat ekki á annan hátt verið. Nú vitum við það samt, að á okkar tímum, þegar það almennt tíðkast, að allir opinberir starfsmenn fái sumarleyfi eða einhvern leyfistíma á árinu, þá þykir þessum mönnum, héraðslæknunum, að sjálfsögðu hart að mega aldrei um frjálst höfuð strjúka, ef svo mætti segja. Þessari skyldu er að sjálfsögðu ekki hægt að breyta eða ákvæðunum um hana, nema því aðeins að ráðstafanir væru þá gerðar til þess, að þjónusta fáist í héruðunum þann tíma, sem læknirinn yrði að hverfa frá. En ég held, að það væri kannske eitt af þeim ráðum, sem alveg nauðsynlega þyrfti að athuga í sambandi við læknaskortinn, hvort ekki er hægt að koma því svo fyrir, að héraðslæknarnir geti fengið einhvern frítíma ár hvert, séu leystir af af öðrum læknum, sem hið opinbera hefði þá í þjónustu sinni til þess að inna það starf af hendi. Á þetta vil ég leyfa mér að benda einmitt í sambandi við gegningarskylduna, sem hér er vikið að í frv.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, vil aðeins benda hv. nefnd á það, að mér sýnist ástæða til þess, að hún athugi frv. á breiðari grundvelli en í því sjálfu er lagður.