02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

124. mál, læknaskipunarlög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur fram komið í sambandi við þessar umr., að hér er fjallað um þýðingarmikið mál. Það er vissulega alvarlegt vandamál, að það skuli vera svo, að það vantar a.m.k. 14 lækna í læknishéruð landsins og það um langan tíma. Og eftir því sem hér kom fram í ræðu hæstv. heilbrmrh., þá virðist svo, að þetta alvarlega ástand fari sízt batnandi, jafnvel fremur versnandi en hitt. Frv. þetta eða öllu heldur sú grg., sem fylgir með því frá landlækni, ber með sér, að landlæknir telur líka, að hér sé um mikið alvörumál að ræða, mikið vandamál að ræða, og hann gerir hér allmargar tillögur til úrbóta. En því miður hefur þannig tekizt til, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að taka upp nema eina af tillögum landlæknis, en þær eru a.m.k. 4, aðaltillögur hans, sem mér sýnist vera, en ríkisstj. hefur hinar allar áfram til frekari athugunar. Ég verð að segja, að mér sýnist, að sú till., sem hæstv. ríkisstj. tekur upp, sé ekki líkleg til þess að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma. Það er að vísu líklegt, að laun héraðslækna muni hækka nokkuð frá því, sem þau hafa verið, eftir að frv. væri orðið að lögum. En sú hækkun yrði aðallega í þeim læknishéruðum, þar sem ekki hefur verið um neinn teljandi vanda að ræða í þessum efnum, þar sem hafa allajafna verið fáanlegir læknar. í hinum héruðunum er nokkurn veginn augljóst, að launabreytingin yrði ekki veruleg. Ég vil við þessa 1. umr. láta koma fram það sjónarmið mitt með ósk um, að sú nefnd, sem fær málið til frekari meðferðar, athugi það.

Ég tel, að það verði ekki komizt hjá því, þegar reynt er að leysa þetta vandasama mál, að taka tillit til annarra tillagna landlæknis varðandi skipun læknishéraðanna í landinu. Ég held, að Það þýði ekkert að víkja sér undan þeim vanda, að þar þarf að gera breytingu á frá því gamla skipulagi, sem þar hefur verið ríkjandi. Það verður mjög erfitt að ætla að leysa þessi mál, að tryggja héruðunum læknisþjónustu, að óbreyttri skipun læknishéraðanna. Vissulega eru launakjörin þýðingarmikið atriði og þó alveg sérstaklega það, sem varðar sérstöðuna varðandi launakjör í afskekktustu héruðunum og fámennustu héruðunum. Það er alveg óhjákvæmilegt að taka á því máli eins og það er, að það verður að greiða einhvers konar aukalaunabætur til þeirra lækna, sem eru í afskekktustu og erfiðustu héruðunum. Það verður ekki hægt að leysa launavandamál þeirra aðeins með því að breyta eitthvað lítillega hinum almennu eða nokkuð almennu töxtum, sem í gildi eru fyrir beina læknisþjónustu. Ég held, að það verði að taka fyrir þetta atriði, sem snýr að sérstöðu læknanna í afskekktustu læknishéruðunum.

Og þá er eitt atriði enn, sem líka er alveg óhjákvæmilegt að mínum dómi að leysa í fylgd með því, sem þetta frv. fjallar um, en það er varðandi aðbúnað læknanna í ýmsum læknishéruðum landsins. Það er auðvitað alveg vonlaust með öllu, eins og nú er komið, að fá lækna í þau læknishéruð, þar sem enginn viðunandi læknisbústaður er til. Og því er það alveg rétt, sem landlæknir drepur á í þeim efnum, að það þarf að ætla sérstaka fjárveitingu á hverju ári í fjárlögum til byggingar læknisbústaða og það þarf að ganga rakleitt í það að leysa þetta vandamál. öðruvísi tekst ekki að tryggja þessum læknishéruðum lækna til neinnar frambúðar.

Ég vildi við þessa umr. láta það koma fram sem mína skoðun, að ég tel, að það atriði, sem er góðra gjalda vert, sem þetta frv. fjallar um, það eina atriði úr tillögum landlæknis, sé með öllu ófullnægjandi til þess að leysa þann vanda, sem hér átti að leysa, og því sé í rauninni nauðsynlegt, að nefnd sú í þinginu, sem fær þetta mál til frekari meðferðar, athugi um aðrar tillögur landlæknis og þá aðrar tillögur, sem fram hafa komið hér, þegar þessi mál hafa verið rædd, sem gætu leitt til frekari lausnar á vandanum en þetta frv. felur raunverulega í sér.