02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

124. mál, læknaskipunarlög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel það vel farið, að hæstv. ráðherra og aðrir, sem að þessu frv. standa, hafa í huga fleiri úrræði en fram koma í þessu frv, og gera ráð fyrir því, að þau komi til greina. En út af því, sem hér hefur aðeins verið nefnt og nú síðast af hæstv. ráðherra, hvort til greina mundi koma að fækka læknishéruðum, þannig að sameinuð væru hin fámennustu og minnstu héruð, sameinuð innbyrðis eða sameinuð öðrum héruðum, þá geri ég ráð fyrir því, að það mál þurfi mjög nákvæmrar athugunar við, áður en ákvörðun í því yrði tekin, og ekki mundi ég vera reiðubúinn til þess að svo stöddu að taka undir það sem reglu um úrbót í þessu efni að fækka læknishéruðum, þó að ég hins vegar vilji engu spá um það, hvað rannsókn kann að leiða í ljós í því efni um vilja manna eða önnur rök, sem gætu stutt þá ráðstöfun. Hitt er annað mál, að það getur að sjálfsögðu komið til greina á einhverjum stöðum að breyta takmörkum læknishéraðanna, án þess að það sé beinlínis um að ræða fækkunarráðstöfun.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að þetta frv: leysti auðvitað ekki allan vandann í þessu máli, og undir það get ég fyllilega tekið. En ég mundi vilja ganga lengra í því og segja, að það sé vafamál, að þetta frv. út af fyrir sig leysi nokkurn vanda á því sviði, sem hér er um að ræða. Það er vegna þess, að mér sýnist, að frv., ef að lögum verður, muni í raun og veru auka aðstöðumuninn, sem er á milli læknanna í fjölmennu héruðunum og læknanna í fámennu héruðunum. Það þarf ekki að þýða það, að frv. út af fyrir sig sé óréttmætt, það getur verið fyllilega réttmætt, en ég held, að það leysi ekki þann vanda, sem við erum hér að glíma við að koma í veg fyrir, að fámennustu héruðin séu læknislaus. Og einmitt þess vegna vil ég leggja áherzlu á það, að samhliða því, sem um þetta frv. er fjallað, þá séu hin önnur úrræði einnig tekin með þar og ákvörðun tekin í þeim málum alveg jafnhliða því, sem menn taka afstöðu til þessa frv., sem hér liggur fyrir. Ef þetta frv. eitt út af fyrir sig væri samþykkt og ekki annað gert, þá veit ég ekki, hvort við erum miklu nær um það að ráða fram úr þeim vanda, sem frv. á að leysa og menn vilja leysa, þ.e.a.s. vanda fámennu læknishéraðanna, vanda héraðanna, sem er viðfangsefni okkar.