09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

124. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Nefndin hefur rætt þetta frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess eins og það liggur fyrir núna, en hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e. leggja þó fram brtt. um staðaruppbót.

Eins og hv. þm. vita, eru í þessu frv. tillögur landlæknis og nokkurra annarra manna, sem um þessi mál hafa hugsað, um læknaskortinn, sem verið hefur í dreifbýlinu undanfarið till. til úrbóta í því efni. En till. landlæknis voru, eins og hæstv. heilbrmrh. tók fram, þegar þetta mál var fyrst lagt fyrir, fyllri en þetta. M.a. var í þeim lagt til, að staðaruppbót væri sett á í sumum héruðum, sem fámennust eru og erfiðast hefur reynzt undanfarið að fá lækna í. Það varð þó að ráði að svo stöddu, að það væri ekki sett inn í frv. Í stað þess hefur verið, eins og hæstv. heilbrmrh. gat um hér við 1. umr., sett inn ákvæði til bráðabirgða, þar sem ríkisstj. er heimiluð veruleg aukagreiðsla úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir því, að hægt sé að skipa Þessi héruð, 300 þús. kr. greiðsla á ári, og auk þess, eins og segir í 2. gr., heimild til þess að greiða hluta í lækningatækjum fyrir þessi héruð. En það kom fram í áliti landlæknis, að það torveldaði að nokkru skipun í þessi héruð, að þeir menn, sem helzt væru fáanlegir til þess að fara þangað, væru nýútskrifaðir læknar, sem ættu ekki lækningatæki og væri það um megn að afla sér þeirra, eins dýr og þau nú eru orðin, og það gæti og hefði orðið til þess að torvelda að fá þessi héruð skipuð.

Meiri hl. n. telur, að með þessum breyt., sem þarna hafa verið gerðar á frv., muni það nægja til þess að bæta í svipinn úr læknaskortinum, að svo miklu leyti sem unnt er með opinberum aðgerðum, en telur, að staðaruppbót sé ekki rétt að taka upp að svo stöddu, það muni þurfa frekari athugunar við. Ég vil að vísu geta þess, að það er mín skoðun, að staðaruppbót hafi um mörg undanfarin ár verið til, þótt það hafi ekki verið kallað það. Það hefur komið fram í því, að fámenn héruð hafa verið í hæsta launaflokki, en fjölmennustu héruðin í lægsta launaflokki. Og ef maður hefur í huga venju við skipun embætta, þá er það þannig, að menn fara venjulega fyrst í þau héruð, sem eru fámennust, og með vaxandi embættisframa fara þeir svo í fjölmennari héruðin, og þá er það alveg óvenjuleg framkvæmd, að menn fari þá til lægri launa frá hærri launum. En þetta hefur nú verið svo með lækna og byggist blátt áfram á því, að það hefur verið þarna eins konar staðaruppbót í gildi um mörg undanfarin ár, þótt það hafi ekki verið kallað það.

N. leggur sem sagt til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, en meiri hl. n. er að svo stöddu á móti samþykkt brtt., sem er flutt af hv. 9. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. e.