30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að fara um þetta frv. nokkrum orðum, áður en því verður vísað til n., og hreyfa nokkrum atriðum, sem ég vona að hv. nefnd taki til athugunar í sambandi við þetta mál.

Hæstv. ráðh. lét þess getið í framsöguræðu sinni, eins og raunar er tekið fram í grg. frv.. að frv. sé flutt sem framkvæmd á þáltill., sem afgreidd var frá Alþ. 29. marz s.l. En í þessari þáltill. ályktaði Alþ. að skora á ríkisstj. að „undirbúa og leggja fyrir næsta Alþ. frv. til laga um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins, m.a. með stofnun jafnvægissjóðs, ásamt ákvæðum um framlög í því skyni og úthlutun þess fjár.“ Enn fremur segir svo í till: „Skal tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu.“

Ætla mátti, að allmikið stæði til með flutningi þessarar till. á síðasta þingi, því að hún var flutt af 7 hv. alþm. úr öðrum stjórnarflokknum og það þeim flokknum, sem stærri er. Og hér var um mikið málefni að ræða, sem mikið hefur verið rætt um undanfarin ár. Í umr., sem fram fóru um þessa till., leyfði ég mér samt að koma fram með þá tilgátu, að þessi till. væri a.m.k. öðrum þræði flutt sem eins konar dagskrártillaga í Sþ. til þess að afla raka til að fresta um sinn afgreiðslu máls af þessu tagi, sem þá lá fyrir hv. Ed. Við þrír minnihlutamenn í allshn. Sþ. bárum þá fram brtt. við þáltill. þá, sem flutt hafði verið, og lögðum til, að till, yrði afgreidd þannig, að skorað yrði á ríkisstj. að „leggja fyrir næsta Alþ. frv. til laga um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem í meginatriðum verði sniðið eftir frv. því, sem nú liggur fyrir Ed. á þskj. 65.“ Það er frv. það, sem ég nefndi áðan. Með því að bera fram þessa brtt. vildum við minnihlutamenn í allshn. í fyrra reyna að koma því til vegar, að Alþ. gerði gleggri grein fyrir því en gert var í þáltill. þeirri, sem samþ. var, hvers efnis það frv. ætti að vera, sem ríkisstj. byggi undir og legði fyrir Alþ. það, sem nú er saman komið. Þess vegna lögðum við til, að hið væntanlega stjórnarfrv. yrði í meginatriðum sniðið eftir því frv. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem þá, eins og ég nefndi áðan, lá fyrir hv. Ed. og hefur legið fyrir þeirri hv. d. á tveim síðustu þingum, en frv. þetta var flutt af nokkrum þm. úr Framsfl. Hv. alþm. höfðu um þetta leyti, eftir að frv. hafði legið fyrir á tveim þingum, haft gott ráðrúm til að kynna sér efni þess og gera sér grein fyrir því, enda fylgdi því ýtarleg grg., og fyllri grg. hafði komið fram í framsögu á tveimur þingum í röð. Við ætluðumst vitanlega ekki til þess, þessir þrír minnihlutamenn í allshn., að ríkisstj. tæki þetta frv. upp óbreytt í öllum atriðum. En við ætluðumst til þess t.d. og vildum láta það koma fram, að ekki væri í væntanlegu stjfrv. skemmra gengið, að því leyti sem fjármagn varðar, heldur en gert var í því frv., sem fyrir Ed. lá. En meiri hl. Alþ. felldi þessa brtt. okkar minnihlutamanna, og það virðist raunar fram komið nú, hvers vegna sú till. var felld, því að í því frv., sem hér liggur nú fyrir frá hæstv. ríkisstj. um atvinnubótasjóð, er miklu skemmra gengið í Því að ákveða fjárframlög til þess sjóðs, sem ætlað er það hlutverk að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, heldur en við vildum gera ráð fyrir í okkar tillögu.

Þessum sjóði, sem í frv. er nefndur atvinnubótasjóður, eða því fé, sem hann á að hafa til umráða, er, eins og fram kemur í grg. og hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir, ætlað að koma í stað hins svonefnda atvinnuaukningarfjár á 20. gr. fjárlaga, og aðaltilgangur þessa frv. virðist vera sá að leggja þetta fé í sérstakan sjóð, kjósa yfir hann fasta stjórn og ákveða svo nánar um það með lögum, hvernig fénu skuti úthlutað, og skal ég ekki lasta þá tilhögun, sem þar er gert ráð fyrir, það sem hún nær, þ.e.a.s. sjálft skipulagið á meðferð fjárins. Þó hefði ég talið það rétt og vil skjóta því til hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, að ég hefði talið það réttara, að formaður sjóðsstjórnarinnar hefði verið tilnefndur á annan hátt en gert er ráð fyrir í frv., og vil ég koma Þeirri skoðun á framfæri.

En mér þykir fjárframlag það, sem sjóðnum er ætlað í 2. gr. frv., allt of lágt. Skal ég nú leyfa mér að rökstyðja það nánar, að í raun og veru er þar ekki um framför að ræða, heldur um afturför, ef frv. verður að lögum óbreytt.

Í grg. frv. á bls. 3 ofarlega er birt skrá um framlagt atvinnuaukningarfé úr ríkissjóði á árunum 1951–1961, þ.e.a.s. hún endar á því ári, sem nú er að liða, og tekur yfir 11 ára tímabil að báðum árum meðtöldum. Samkvæmt þeirri skrá hefur framlagt atvinnuaukningarfé verið að meðaltali á þessum 11 árum, eftir því sem mér sýnist, nokkuð á 10. millj. kr. árlega, og er þess þó að gæta, að fyrsta árið, sem þarna er tilgreint í skýrslunni, þ.e.a.s. á árinu 1951, eru ekki lagðar fram nema tæpar 2 millj. kr. Hæst var þetta framlag árið 1957 og var þá rúmlega 15 millj. kr., eða nánar til tekið um 15.3 millj. kr. En þrátt fyrir þetta, þó að atvinnuaukningarféð undanfarin 11 ár hafi numið nokkuð á 10 millj. kr. að meðaltali á ári og þó að það hafi, þegar það var hæst, fyrir 4 árum, komizt upp í meira en 15 millj. kr. á einu ári, þá er í þessu frv. ekki ætlazt til, að árlegt framlag verði nema 10 millj. kr., eins og fram kemur í 2. gr. frv., þar sem framlagið er ákveðið 100 millj. kr., sem greiðist með jöfnum greiðslum á næstu 10 árum. Nú er það alkunna og þarf ekki mikið um það að ræða, að allur framkvæmdakostnaður hefur hækkað mjög mikið síðan farið var að leggja fram þetta fé og á því tímabili, sem skýrslan nær yfir, og hefur meira að segja stórhækkað síðan þetta framlag var hæst, þ.e.a.s. árið 1957, og komst upp í 15 millj. kr. Hér er í rauninni verið að lögbjóða næsta áratug mjög verulega lækkun á atvinnuaukningarfénu frá því, sem það var fyrir nokkrum árum, og áreiðanlega mjög mikla lækkun frá því, sem það hefur verið að meðaltali undanfarin ár. Á þetta er óhjákvæmilegt að benda nú þegar. Í því frv., sem í fyrra lá fyrir Ed. og ég áður hef vitnað til og flutt var af þm. úr Framsfl., var gert ráð fyrir 20 millj. kr. árlegu framlagi í 10 ár. Og sannast að segja gerir sú upphæð nú í ár sennilega ekki meira eða a.m.k. ekki miklu meira en svara til 15 millj. kr. árið 1957. En sú upphæð var þá, eins og ég sagði áðan, veitt á fjárlögum í þessu skyni. Í þessu frv. er þá, ef gengið er út frá því, að til 15 millj. kr. á árinu 1957 svari 20 millj. nú, verið að lækka upphæð atvinnuaukningarfjárins um a.m.k. helming frá því, sem atvinnuaukningarfjárupphæðin var 1957.

Þetta er það, sem ég vildi nú sérstaklega vekja athygli á í sambandi við þetta frv. Og ég vil vonast til þess, að hv. fjhn., sem væntanlega fær þetta frv., taki frv. til gagngerrar endurskoðunar eða athugunar út frá þessu sjónarmiði. Ef það er svo, að þetta frv. á að vera flutt hér sem framkvæmd þál. um aukið átak til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verður það að vera öðruvísi úr garði gert en það er nú, þegar það verður afgreitt frá hinu háa Alþingi, ef svo á að vera.

Ég vil nefna það til viðbótar, að í áðurnefndu frv., sem framsóknarmenn fluttu í Ed., var gert ráð fyrir, að sjóðurinn, sem þar var nefndur framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður, eignaðist það fé, sem ríkissjóður þá átti útistandandi eða gert var ráð fyrir að hann ætti útistandandi við gildistöku laganna vegna vangreiddra ríkisábyrgða, að svo miklu leyti sem það fé innheimtist. Ég vil benda á það, að þarna getur sennilega verið um nokkurt fé að ræða, þó að vafalaust verði vanhöld á innheimtu ríkisábyrgðanna. En ákvæði af þessu tagi er ekki tekið upp í þetta stjfrv., og einnig að því leyti, sem og í fleiri atriðum, er þetta frv. mjög á annan veg en það frv., sem við, minnihlutamenn í allshn. Sþ., gerðum ráð fyrir að yrði árangurinn af þáltill.

Ég verð að segja það, að mér þykir það mjög miður nú, eins og mér þótti það reyndar miður þá, að brtt. okkar við þál. í fyrra skyldi ekki vera samþykkt, því að ef hún hefði verið samþ., hefði hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu haft nánari fyrirmæli eða nánari vitneskju um vilja Alþ. í þessu efni og þá væntanlega eftir því farið. En eins og ég sagði áðan, verð ég að segja það því miður, að ég tel, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé a.m.k. að sumu leyti spor aftur á bak, ef það verður samþykkt óbreytt, eins og það nú hefur verið lagt fyrir. Það er spor aftur á bak frá fyrri ákvörðunum Alþ. um fjárframlög til framleiðslu- og atvinnuaukningar, þar sem hennar er mest þörf, og þó enn stærra spor aftur á bak frá þeim tillögum, sem hv. Ed. hafði til meðferðar á Alþ. 1959–60. Nú er það svo, að þær tillögur náðu að vísu ekki fram að ganga, en þar var sett markmið, sem hefði ekki átt að hvika frá hér á Alþ. Ef stuðla á að jafnvægi í byggð landsins, þarf áreiðanlega til þess mikið átak af hálfu þjóðfélagsins, og Það hefði ekki mátt draga úr þeim tillögum, sem uppi hafa verið hér á þingi um það efni.

Mér kemur það í hug í sambandi við þetta mál, að hæstv. ríkisstj. hefur nú undanfarið, sem kunnugt er, verið að leita ráða hjá frændum okkar Norðmönnum um lausn ýmissa vandamála hér á landi og fengið hingað fróða menn úr því landi til ráðuneytis um ýmislegt. Í því sambandi finnst mér, að það hefði verið rétt af hæstv. stjórn að kynna sér það, sem Norðmenn hafa gert í sínum jafnvægismálum. Það er margt líkt um Norðmenn og Íslendinga og þau tvö lönd, sem þessar tvær þjóðir byggja, og þá m.a. það, að Noregur er, eins og Ísland, mjög misjafnlega þéttbýll. Á hinu forna Hálogalandi og á Finnmörk, sem eru til samans meira en þriðjungur Noregs, búa ekki nema um 12% af norsku þjóðinni. En náttúruauður er mikill í Norður-Noregi, m.a. gnægð virkjanlegra fallvatna. Rétt um það leyti, sem hér á Íslandi var byrjað að veita fé til framleiðslu- og atvinnuaukningar úti um land, gerðu norsk stjórnarvöld og Stórþingið hina svonefndu Norður-Noregsáætlun um uppbyggingu atvinnulífs á Hálogalandi og Finnmörk, og er framkvæmd þessarar áætlunar nú nýlokið. Sú áætlun tók yfir tímabilið 1952–60. í upphafi þessa áætlunartímabils stofnuðu Norðmenn sinn framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð fyrir Norður-Noreg og lögðu til hans hvorki meira né minna en 1200 millj. ísl. kr. miðað við núverandi gengisskráningu. En til samanburðar á þessu fjármagni og því fjármagni, sem jafnvægissjóðnum samkv. þessu frv. er ætlað, má m.a. hafa í huga, að Norður-Noregur er, eins og ég sagði áðan, svipaður Íslandi að stærð eða litlu stærri, og mannfjöldi var þar fyrir 8–9 árum um 400 þús.

Á sama tíma, þ.e.a.s. á 8 ára áætlunartímabilinu, námu auk þess sérstakar fjárveitingar af ríkisfé, þ. á m. af mótvirðisfé, sem Norðmenn fengu vegna Marshallaðstoðarinnar, öðrum 1200 –1300 millj. ísl. kr. til ýmiss konar framkvæmda í Norður-Noregi, auk sjóðsins og auk venjulegra fjárveitinga til þessa landshluta. En auk þess hefur á ýmsan annan hátt verið stuðlað að fjárflutningi í stórum stíl til Norður-Noregs á þessu tímabili, og skal Það ekki nánar rakið hér, en um það liggja nú fyrir mjög merkilegar og athyglisverðar skýrslur. Arangurinn er líka sá á þessu átta ára tímabili Norður-Noregs-áætlunarinnar, að Norður-Noregur hefur haldið eðlilegri fólksfjölgun sinni að mestu. Fólksfjöldi Norður-Noregs var um 12.3% af fólksfjölda Noregs rétt eftir 1950 og er einnig 12.3% á árinu 1960, þannig að þar hefur ekki fækkað hlutfallslega. Landshlutinn hefur haldið sinni fjölgun, a.m.k. að mestu leyti, og er það meira en hægt er að segja um stóran hluta strjálbýlisins hér á Íslandi á þessum tíma. Raforka í Norður-Noregi hefur nálega þrefaldazt á þessum 8 árum, iðnaðurinn stóraukizt og vélvæðing landbúnaðarins er þar nú margföld á við það, sem hún var í byrjun áætlunartímabilsins.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að það væri mikil ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. og raunar fyrir hið háa Alþ. að kynna sér þessa löggjöf og þessar framkvæmdir Norðmanna, sem að því miða að stuðla að jafnvægi í þeirra landi, og þann árangur, sem af því hefur orðið, og hvernig sá árangur hefur náðst. Hjá þeirri þjóð, þ.e.a.s. Norðmönnum, hefur sýnilega verið litið á það verkefni í fullri alvöru að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Menn hafa þar ekki látið sér nægja lagafrv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Ég skal taka það fram, mér er kunnugt um það, að um leið og Norður- Noregs-áætluninni nú er lokið, hefur Stórþingið og norsk stjórnarvöld gert nýja jafnvægisáætlun, sem er á breiðari grundvelli en Norður Noregs-áætlunin var og mun verða framkvæmd á næsta hálfum eða heilum áratug. Ég veit ekki nákvæmlega, hvort heldur er. Sú áætlun tekur ekki eingöngu yfir Norður-Noreg, heldur eftir því sem mér skilst yfir hinn strjálbýlli hluta landsins yfirleitt eða þá hluta landsins, sem talið er að skorti atvinnutæki, séu skemmra á veg komnir en æskilegt væri í atvinnumálum. En það er athyglisvert samt, að það mun vera alveg sérstaklega fram tekið í þessari nýju löggjöf Norðmanna og áætluninni nýju, að Norður-Noregur skuli, þó að áætlunin færist yfir á breiðari grundvöll, ekki missa neins í frá því, sem hann hefur haft undanfarin 8 ár í sambandi við fjárframlög þangað og framkvæmdir þar.

Mér fannst ástæða til þess, áður en ég lauk máli mínu, að benda á þetta og skýra frá því, sem ég hef aflað mér vitneskju um í sambandi við þetta mál í Noregi, til þess að það megi ljóst vera hér á Alþ., að það er ekki nein sérvizka, sem fundin hefur verið upp hér á Íslandi, að gera sérstakar ráðstafanir og að þjóðfélagið leggi nokkuð á sig til að stuðla að jafnvægi í byggðinni, heldur hefur það einnig gerzt með öðrum þjóðum og hjá þeirri þjóð, sem okkur er um margt líkust og býr í landi, sem er að mörgu leyti líkt okkar landi.

Ég vil svo mega vænta þess, að hv. n., sem málið fær til meðferðar, taki til athugunar þau atriði, sem ég hef nú bent á, og þá alveg sérstaklega möguleikana á því að hækka það fjármagn, sem ákveðið verður að atvinnubótasjóðnum verði lagt til úr ríkissjóði á næstu áratugum. Þó að þessi lága upphæð hafi verið sett í frv., þá er auðvitað ekki útilokað, að henni verði breytt. Og ég vil vænta þess, að hv. þm. sannfærist um það, að ef hér á að gera eitthvert átak í þessum málum, þá þýðir ekki að samþ. frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Þetta frv. getur falið í sér bætta skipan á útvegun þess atvinnuaukningarfjár, sem gert er ráð fyrir að veita skv. fjárlagafrumvarpi því, sem fyrir liggur, en í því felst ekki nein framtíðarumbót, ekkert nýtt átak, engin stór framtíðarlausn í þessum málum.