13.10.1961
Efri deild: 3. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

4. mál, skráning skipa og aukatekjur ríkissjóðs

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þetta frv. er ekki stórt í sniðum og ekki líklegt til þess að vekja miklar umræður. Ég vil þó strax láta það koma fram við 1. umr. þessa máls, að ég álít, að í þessu frv. felist skökk stefna að því leyti, að með því er verið að taka út úr lögum ákvörðun gjalda og fela ráðherrum að ákveða þau gjöld. Það eru að vísu mýmörg dæmi fyrir þessu, að gjöld séu ákveðin með reglugerðum, en ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki rétt aðferð, hitt sé meir í samræmi við okkar stjórnarhætti yfirleitt, að það sé Alþingi, sem kveði á um hæð gjaldanna.

Ég geri ráð fyrir því, að hin raunverulega ástæða til þess, að þetta frv. er flutt, sé sú, að það sé talin þörf á því að hækka þessi gjöld, og ég skal ekki á neinn hátt vera því andvígur. En mér sýnist, að það hefði verið einfalt að gera það með lagabreytingum, og því fremur hefði ég talið, að það væri rétt að fara þá leið, þar sem ég álít, að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 40 1954, séu mörg ákvæði, sem þurfa endurskoðunar við. Ég er þeirrar skoðunar, að mörg þau gjöld, sem þar greinir, séu óeðlilega þungbær, miðað við þá skattstofna, sem þar er um að ræða. Það væri full þörf á því að taka þau lög til heildarathugunar, þó að þau séu að vísu ekki gömul.

En það var bara um þetta stefnumið frv., sem ég vildi láta koma fram strax við þessa umr. Ég álít, að það sé skökk stefna að hverfa að því að taka út úr lögum ákvarðanir gjalda og fela framkvæmdarvaldshöfum.