30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég var einn af þeim, sem endanlega gengu frá orðalagi á þáltill. þeirri, sem samþykkt var á Alþ. þann 29. marz 1961, þar sem skorað var á ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á næsta Alþ. frv. til laga um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins, eins og stendur í þáltill., m.a. með stofnun jafnvægissjóðs og ákveðnum framlögum til hans. Skyldi tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Ég verð að segja, að það urðu mér allmikil vonbrigði, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 38, skuli ganga fram hjá þessu meginatriði, að stofna jafnvægissjóð og stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þess vegna vildi ég segja hér nokkur orð við þessa umr. og beina þá nokkrum spurningum til hæstv. ráðh., m.a. vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem fær málið væntanlega til athugunar, en lagt hefur verið til að vísa frv. til fjhn. Vil ég þá fyrst leyfa mér að benda á, að í a-lið 1. gr. frv. stendur, að hlutverk sjóðsins sé að veita lán eða styrki til þess að auka atvinnu og framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust. Þetta þarf ekkert að fara saman við það að halda jafnvægi í byggð landsins. Og þess vegna spyr ég hæstv. ráðh.: Hefði hann nokkuð á móti því, að sett verði beinlínis inn til viðbótar í gr.: „og að stuðla að jafnvægi í byggð landsins“, eins og ætlazt var til í þáltill., og þá jafnframt, að það sé tekið fram, að hér sé um „atvinnubóta- og jafnvægissjóð“ að ræða? Ég skal m.a. koma með dæmi, sem sýnir glöggt, að það er vafasamt, hvort hægt er að veita fé úr sjóðnum í þessu skyni, ef frv. yrði samþ. óbreytt, einkum ef stjórnendur sjóðsins væru andstæðir jafnvægi í byggð landsins. í dag er sjálfsagt ekkert atvinnuleysi í Grunnavík, þar er ekki orðið eftir, að ég hygg, nema eitt heimili, sem baslast við það að búa við nokkrar kindur og nokkrar kýr, en það er enginn vafi á því, að það er stórkostlegur óhagur fyrir þjóðina að leggja þá byggð í eyði. Og þannig getur verið um marga aðra hreppa í landinu. Það gæti hins vegar risið upp töluvert atvinnuleysi í Hafnarfirði. Og það ástand gæti komið, að þar þyrfti að auka atvinnu. Það ætti þá að velja á milli þess, hvort fé mætti fara til að auka atvinnu á fjölmennum stað eins og við Faxaflóa, þar sem atvinnuleysi væri, eða byggja upp atvinnu í byggð landsins, þar sem byggð hefur farið í eyði, vegna þess að skilyrðin hafa verið svo erfið, að fólkið hefur orðið að flýja þaðan, t.d. til Hafnarfjarðar eða í aðra fjölmenna staði, og stuðlað þar að atvinnuleysi.

En eins og ákvæði frv. eru nú, mundi ekki vera heimilt að veita fé til uppbyggingar í dreifbýlinu, ef þar væri ekkert atvinnuleysi, og taka það frá þeim stöðum, þar sem fullt væri af fólki og lítið um atvinnu. En það hefur alltaf verið höfuðmarkmið okkar, sem höfum verið hlynntir þessu máli, að það fé, sem ætti að fara í jafnvægissjóðinn, verði beinlínis notað til þess að stöðva fólksflóttann úr sveitum landsins í þéttbýlið. En þetta frv., eins og það liggur fyrir hér, sýnist ekki marka þá stefnu.

Ég skal m.a. benda á, að það er nú að fara í eyði við Arnarfjörð einn hreppur, þar sem er ekki orðið meira en milli 40 og 50 manns, en um aldamót voru þar um 300 manns. Einn hluti þessa hrepps er eign ríkissjóðs, stórbýlið Selárdalur og allar þær hjáleigur, sem honum fylgja. Þarna væru mjög miklir möguleikar til útgerðar. Og ný útgerðarstöð þar mundi gersamlega bjarga hreppnum, þannig að fólk færi að flytjast inn í hann aftur og eign ríkissjóðs mundi aukast í verði. Ég teldi ekki, að eins og frv. er nú, væri heimilt að veita svo og svo mikið fé til að koma þar upp atvinnutækjum, þó að það gæti orðið til þess að stöðva flóttann og skapa þar lífvænleg kjör. En ef það er eins og hæstv. ráðh. segir, þá er bezt að setja það beint inn í lögin, svo að um það yrði enginn ágreiningur síðar. Það er þess vegna, sem ég vildi hafa spurt hæstv. ráðh. um: Hefur hann nokkuð á móti því, að ákvæði séu sett inn í frv., er nái tilgangi þáltill., eins og var gengið frá henni á s.l. þingi?

Ég hef lagt allmikinn tíma í að kynna mér þessi mál, allt síðan ég var í mþn. með hv. 3. þm. Norðurl. e., og þekki þar af leiðandi nokkuð, hvar skórinn kreppir að, auk þess sem ég hef nokkuð kynnt mér þessi mál síðar á ferðalögum um landið. Mín bjargföst trú er sú, að það sé ekki einungis landinu öllu, heldur einnig þéttbýlinu nauðsynlegt, að fólkið flytjist ekki of ört úr sveitunum í þéttbýlið. Það er mín bjargföst skoðun, að það sé nauðsynlegt að stöðva þann flótta þegar og hefði átt að gerast fyrr, því að eins og ástand er nú, þarf a.m.k. einnar milljón króna fjárfestingu hér við Faxaflóa fyrir hverja fjölskyldu, sem flytur í burtu utan af landinu og skilur þar eftir ræktuð tún, nýbyggð hús og sums staðar nýbyggðar raforkustöðvar, — eignir, sem verða einskis virði, þegar búið er að flytja frá þeim, en gætu verið í fullu verðmæti, ef haldið væri áfram að búa þar og starfrækja, en fólkið verður að flýja frá, vegna þess að það er ekki mætt nauðsynlegustu kröfum þess. Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að sumar af þessum sveitum gefa enn þá þeim mönnum, sem þar búa, allt að 20–25 þús. kr. framtalstekjur á hverju ári á hvert mannsbarn, sem þar er. Er það heppileg stefna að sinna ekki nauðsynlegum þörfum og kröfum þessa fólks og neyða það til að flytjast til þéttbýlli staða, þar sem að vísu er nóg atvinna í dag, en vel gæti komið fyrir, að ekki héldist slíkt atvinnuástand um alla eilífð? Og er það rétt stefna að stöðva ekki þann flótta? En sé það viðurkennt af Alþingi, að það sé rétt að stöðva þann flótta, þá teldi ég, að það væri sjálfsagt að breyta þessu frv. í það horf, að það verði meginverkefni þess sjóðs, sem hér á að stofna, að vinna að því að stöðva flóttann úr sveitunum. Það einkennilegasta við þetta mál er, að hér, eins og kannske í ýmsum öðrum málum, sem fram eru borin á Alþingi, er mikill meiri hl. þingmanna fylgjandi því, að málið nái fram að ganga, og hafa jafnan verið, síðan því var fyrst hreyft, 1954, að ég hygg, þó að aldrei hafi tekizt að fá það samþykkt. Árið 1953 voru fyrst gerðir samningar milli Sjálfstfl. og Framsfl. um að koma þessu máli í framkvæmd, og var það þá lagt fram hér sem stjfrv. á Alþ. og mjög í þá átt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á áðan. Það mætti þá þeirri andúð hjá ýmsum mönnum, að það var hæðzt að því og kallað „litla gula hænan“. En bæði þeim mönnum, sem völdu því það orð, og Framsfl. tókst að slátra þeirri litlu gulu hænu á þinginu 1956, að mér skilst vegna þess, að það hafi verið gert að skilyrði fyrir myndun hinnar ágætu vinstri stjórnar, að sú litla gula hæna fengi ekki að stækka og verpa og veita þjóðinni betri lífskjör.

Ég minnist þess einnig, að á ágætum framboðsfundi, sem ég og núv. hv. 1. þm. Austf. vorum á í Barðastrandarsýslu þá um vorið, lýsti hann því yfir, að þetta mál yrði lögfest á næsta hausti og það væru engin vandræði fyrir kjósendur, hvorki í Barðastrandarsýslu né annars staðar á landinu, að bíða eftir því í nokkra mánuði, að sjóðnum yrði á fót komið, því að það yrði gert eftir kosningarnar. Þessi ágæta stjórn sat nú nær fram til loka ársins 1958. Það komu aldrei fram frv. né neinar framkvæmdir í þessu máli. En svo strax eftir að Framsfl. var laus úr þeim tröllahöndum, sem honum var haldið í á því tímabili, þá vaknaði aftur hjá honum áhugi á málinu og að nú væri nauðsynlegt að koma þessu máli í framkvæmd og það með miklu stærra fjárframlagi en þá var hugsað og nú er hugsað í þessu frv. Málið hefur því átt fylgi í þinginu allan tímann, þó að það af einhverjum sérstökum ástæðum hafi verið stöðvað.

Fyrir mér er það ekki höfuðatriði, — og það vil ég segja hæstv. ráðherra, — hvort ætlaðar eru í þetta á fyrsta stigi málsins 10 millj. eða 20 millj. eða eitthvað annað. Höfuðatriðið er að stofna sjóðinn, láta hann þróast og vaxa eðlilega og láta hann gegna því hlutverki, sem er nauðsynlegt að gegna í sambandi við þessi mál, það finnst mér vera höfuðatriðið í sambandi við þetta mál.

Ég geri ráð fyrir um ýmsa aðra sjóði, sem voru stofnaðir hér, eins og fiskimálasjóður, jarðræktarsjóðir og aðrir fleiri sjóðir, sem stofnaðir hafa verið og voru smáir á þeim tíma, að það mundi enginn vilja missa slíkar stofnanir nú. Þær hafa þroskazt og vaxið, eftir því sem verkefni hafa aukizt, og fé hefur verið veitt til þeirra á fjárlögum hverju sinni. Og eins mun verða um þennan sjóð hér. En ég mun leggja höfuðáherzlu á það í nefndinni að fá frv. breytt á þann veg, að það sé enginn efi um það, til hvers á að nota féð, þegar sjóðurinn verður stofnaður.