30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður að neinu ráði, enda ekki ástæða til þess. Það er fram komið, sem mestu máli skiptir á þessu stigi.

Um ræðu hv. 1. þm. Vestf., sem talaði hér áðan, vil ég segja það, að ég get tekið undir margt af því, sem hann ræddi um þetta mál, enda vissi ég það áður, að skoðanir okkar væru að mörgu leyti líkar á þessum hlutum. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það þarf engan veginn að vera það sama eða fara saman að gera ráðstafanir til að draga úr atvinnuleysi og að gera ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er stuðlað að jafnvægi í byggð landsins með atvinnuuppbyggingu, en það er hægt að draga úr atvinnuleysi á ýmsan annan hátt, t.d. með því að gera ráðstafanir til þess, að fólk flytjist burt af stöðum, þar sem atvinnuleysið er, eða láta slíka flutninga gerast. Þá minnkar að sjálfsögðu atvinnuleysið. En þetta er ekki að byggja upp atvinnulífið né stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hitt er svo annað mál, að ég hygg, að vera kunni, að hv. 1. þm. Vestf. hafi ef til vill eitthvað misminnt um sögulegt atriði, enda ekki óeðlilegt, þar sem langt er um liðið. Hann misminnti það t.d., að hann hefði verið flm.till., sem sjálfstæðismenn fluttu á Alþingi 1960. Hann var ekki á þingi, þegar till. var flutt, heldur var það varamaður hans, sem þá var fyrsti flm. till., og ég er ekkert frá því, að till. hefði orðið á annan veg, ef hv. þm. hefði þá verið á þingi og lagt síðustu hönd á till. eins og hún var flutt. Eins hygg ég, að hann misminni eitthvað um afstöðu framsóknarmanna til frv. þess um jafnvægissjóð, sem flutt var árið 1956, en það skiptir ekki frekar en hitt misminnið miklu máli.

Hæstv. ráðherra vildi nú telja, að það væri ekki rétt athugað hjá mér, að ákvæði þessa frv. um fjárframlög til atvinnubótasjóðs væru spor aftur á bak, sérstaklega ekki frá fyrri ákvörðunum um upphæð atvinnuaukningarfjár. Hann sagði, sem rétt er, að í 2. gr. frv. væri gert ráð fyrir 10 millj. kr. ríkisframlagi á ári og að það væri sama upphæðin sem veitt hefur verið í þessu skyni að jafnaði undanfarin 10 ár eða mjög svipuð upphæð, aðeins hærri, sem líka er rétt. En með þessu er sagan ekki nema hálfsögð. Það er ekki hægt að gera svona samanburð. Þessi samanburður væri í gildi og réttur, ef verðlag framkvæmda hefði verið óbreytt allan þennan tíma. Engum dettur í hug að segja, að tíu milljónir eða tíu hundruð, eða hvað það nú er, sé sama upphæð nú eins og var um aldamót. Allir sjá fljótt, að það er fjarstæða. Og þó að breytingin á framkvæmdakostnaði sé ekki eins mikil á einum áratug og hún hefur orðið á sex áratugum, þá er hún samt mjög mikil. Ég man ekki betur en það væri talið hér á Alþingi á árinu 1960, að kostnaður við vegagerð hækkaði á því eina ári um 25%, og þetta gefur nokkra hugmynd um, hvernig kostnaður við framkvæmdir hefur hækkað. Þess vegna eru þessar 10 millj., sem nú er lagt til að veittar verði í atvinnubótasjóð, miklu minna virði, allt önnur upphæð en meðaltalsupphæðin 10 millj. á undanförnum 11 árum. Og 10 millj. eru nú sennilega a. m. k, helmingi lægri upphæð raunverulega en 15 millj. á árinu 1957. Þetta er sá rétti samanburður.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mikil bót í máli að fá það ákveðið í lögum, að þessi upphæð skyldi lögð árlega í sjóðinn. Þá væri ekki hægt að draga úr henni eitt og eitt ár, þótt fjárveitingarvaldið kynni að hafa tilhneigingu til þess.

Ég er ekki alveg viss um, að þetta sé til bóta. Það er að vísu rétt, að ef þessi upphæð er í lögum, þá verður hún veitt, og segja má, að líkur séu til þess, að hún verði ekki lækkuð. En ég vonast líka til þess, að ekki séu mjög miklar líkur til, að farið verði að lækka atvinnuaukningarféð úr þessu á fjárl. En setning laga um þetta efni mun líka, þar sem þessi upphæð er fastákveðin, lögbundin, heldur draga úr fjárveitingarvaldinu að hækka upphæðina á komandi árum. Lögin geta alveg eins haft þau áhrif. Það getur verið varhugavert að lögbinda lága upphæð til frambúðar eða langs tíma, þar sem menn gjarnan vildu hafa möguleika til að veita hærri upphæð. Þá getur verið betra að hafa hana lausa og óbundna.

Hæstv. ráðh. lét orð falla á þá leið, að það skipti nú kannske ekki svo miklu máli fyrir framkvæmdir til uppbyggingar og jafnvægismyndunar, hvort veittar væru 10 eða 20 millj. á ári. Það getur verið, að þetta verði ekki talið skipta mjög miklu máli. Ég mundi nú telja, að það skipti nokkru máli. Og ef það skiptir ekki máli fyrir uppbygginguna úti um landið, þá skiptir það væntanlega ekki heldur mjög miklu máli fyrir ríkið. Þá vildi ég mjög mælast til þess, að hæstv. ráðh. féllist heldur á að taka hærri upphæðina inn í frv.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En hæstv. ráðh. minntist á N.-Noregs-áætlunina og vildi telja, að þótt Norðmenn hefðu haft ástæðu til þess að vinna að uppbyggingu í Norður-Noregi, þá væri ekki þar með sagt, að við hefðum sömu ástæðu til þess að vinna að uppbyggingu hér úti um land, sem það er kallað. Hann sagði, að N.- Noregur hefði orðið fyrir miklu tjóni í styrjöldinni og að N.- Noregs-áætlunin mundi hafa verið gerð vegna styrjaldartjóns. Ég er nú ekki alveg viss um, að þetta styðjist við staðreyndir fullkomlega. Stríðinu lauk árið 1945, Þannig að þegar N.- Noregs-áætlunin var lögfest, voru liðin sjö ár frá stríðslokum. Ég held nú satt að segja, að endurbætur eða uppbygging vegna styrjaldarskemmda hafi þá verið nokkuð verulega á veg komið, a.m.k., ef ég man rétt, var þá m.a. langt komið að bæta úr hinum miklu skemmdum, sem urðu á námu- og iðnaðarmannvirkjum við Varangursfjörð, sem trúlega hafa verið meðal hinna meiri skemmda, sem þar urðu á mannvirkjum atvinnulífsins. Auðvitað urðu einnig skemmdir, nokkuð miklar, á íbúðarhúsum, en til þess mun þessi áætlun ekki hafa tekið fyrst og fremst að bæta þær skemmdir.

Ég geri ráð fyrir, að nokkuð muni hafa verið á það litið, þegar áætlunin var gerð, sem gerðist á stríðsárunum í þessum landshluta, og að því hafi verið beitt sem rökum í þessu máli. En þó hefur mér skilizt það á umr. um málið, sem ég hef kynnt mér nokkuð, að áætlunin hafi fyrst og fremst verið gerð til þess að sporna við fólksflutningi úr N.- Noregi og til þess að hagnýta þann náttúruauð, sem þar er og menn hafa í seinni tíð gert sér ljósara en áður, að til mikils mátti nota, og þá ekki sízt vatnsorkuna, sem þar er mjög mikil, eins og í mörgum héruðum hér á landi.