08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

35. mál, atvinnubótasjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Áður en gengið verður frá þessu máli í hv. d., langar mig til þess að segja um það nokkur orð.

Eins og menn vita og greint er frá í aths. með frv., er það ekkert nýmæli, að veitt sé fé til atvinnuaukningar í landinu, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Samkv. fjárlögum undanfarin 10 ár — og þó raunar 11 ár — hefur verið veitt fé til atvinnuaukningar á fjárlögum, samtals rúmar 100 millj. kr., sem er mikið fé, þegar þess er gætt, að á þessum árum flestum var allt annað verðlag en nú.

Þetta fé hefur mestmegnis verið lánað einstaklingum og félögum í sjávarplássum landsins til að koma þar á fót atvinnurekstri og auka þann, sem fyrir var. Þetta fé hefur haft þá sérstöðu meðal lána, að það hefur verið lánað með veði á eftir þeim lánum, sem fengist hafa annars staðar með ríkisábyrgðum eða úr stofnlánadeildum. Hér hefur í reyndinni orðið um elns konar áhættuframlag í mörgum dæmum að ræða af ríkisvaldsins hálfu móti því framlagi, sem eigendurnir hafa getað lagt í fyrirtækin. Ég fullyrði, að þetta fjármagn hefur átt ævintýralegan þátt í því að auka framleiðslu íslenzka þjóðarbúsins á undanförnum árum og stórfelldari þátt í því en flestir gera sér grein fyrir, hversu ánægjulega sjávarplássin mörg hafa byggzt upp undanfarið og stóraukið sína framleiðslu.

Þetta fjármagn hefur orðið til þess að leysa úr læðingi framtak margra dugmikilla einstaklinga, sem að öðrum kosti hefði ekki getað komið til greina að yrðu sjálfstæðir atvinnurekendur. Þannig hafa t.d. fjöldamargir ungir, dugmiklir sjómenn fyrir tilstuðlan þessa fjár getað orðið bátseigendur og sjálfstæðir framleiðendur og moka nú upp fiski og síld fyrir þjóðarbúið, og mætti rekja um þetta glögg dæmi víðs vegar um landið.

Ég efast um, að nokkurt fjármagn, sem ráðstafað hefur verið af opinberri hálfu, hafi komið að meira liði, þegar á heildina er litið, til eflingar framleiðslunni og uppbyggingu sjávarplássanna en þetta fé, einmitt vegna þess að það hefur verið látið til viðbótar öðrum venjulegum lánum og oft riðið baggamuninn að þessu leyti. Uppbyggingin gat því átt sér stað. Og fyrir unga fólkið, sem hefur verið að ryðja sér braut inn í framleiðsluna, hefur þetta fjármagn verið ómetanlegt.

Á árunum 1957–58 var þetta fjármagn hækkað verulega. 1957 var það rúmar 15 millj. og 1958 131/2 millj. 1959 var því síðan aftur aðeins þokað upp, í 14.2 millj., og 1960 var þetta fé 141/2 millj., þannig að það má segja, að á þessum fjórum árum hafi þetta fé verið frá 131/2 millj. upp í rúmar 15 millj. En síðan bregður svo við, að á s.l. ári, 1961, á fyrsta heila ári viðreisnarinnar, er þetta fjármagn skorið niður um nær því þriðjung eða niður í 10 millj. kr., á sama tíma sem stofnkostnaður allur við að koma upp framleiðslutækjum hefur vaxið stórkostlega í öllum greinum.

Eins og ég sagði áðan, hefur atvinnuaukningarstarfsemin verið í góðum gangi, þá að ekki hafi verið um hana sérstök lög, það hefur verið gert samkv. ákvæðum í fjárlögum. En nú er hér frv. til laga um atvinnubótasjóð, og er ekki nema gott um að segja að setja þessari starfsemi ákveðið lagaform. En sá galli er á gjöf Njarðar, að segja má, að aðalatriðið í þessu frv. frá því, sem áður hefur gilt, er að lögfesta lækkun á framlaginu til atvinnuaukningar, lögfesta aðeins 10 millj. kr. framlag til atvinnubótasjóðsins.

Athugum svo, hvað kostnaður við framkvæmdir hefur vaxið, og íhugum, að innkaupsverð á ýmsum þýðingarmiklum vélum hefur hækkað um 90% síðan 1958, að verð á skipum og bátum hefur hækkað um 70–90%, mismunandi nokkuð eftir stærðum og gerðum, síðan 1958, og húsabyggingar hafa hækkað a.m.k. um 26% síðan 1958, eða þessir þýðingarmestu liðir í uppbyggingunni um a.m.k. 67% að meðaltali.

Þegar við athugum þessa miklu byltingu, sem orðið hefur í verðlaginu, og íhugum síðan, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að lögfesta aðeins 10 millj. í atvinnuaukningarfé, framlag í þennan sjóð, en atvinnuaukningarféð hefur áður verið frá 131/2 og upp í 15 millj., þá kemur glöggt í ljós, að með þessu frv. er í raun og veru verið að skera niður atvinnuaukningarféð um meira en helming, því að þessar 10 millj., sem nú er gert ráð fyrir að lögfesta, jafngilda áreiðanlega ekki meira en 6–7 millj. fyrir verðlagsbyltinguna, sem varð með viðreisninni, þannig að þær jafngilda alveg tvimæla- og ýkjulaust ekki meira en 6–7 millj. á móti 131/2–15.

Hér er því verið að draga stórkostlega úr þeim stuðningi, sem veittur var, áður en hæstv. núv. ríkisstj. kom til valda og nýja stjórnarstefnan var tekin upp, draga stórkostlega úr þeim stuðningi, sem veittur hefur verið af því opinbera til þess að byggja upp atvinnulífið í sjávarplássunum og mesta þýðingu hefur haft allrar þeirrar starfsemi, sem beint hefur verið í þá átt. Við þessu vil ég alvarlega vara, og það hryggir mig, að hv. meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að taka til greina brtt. þá, sem flutt hefur verið hér um að hækka þetta framlag í 25 millj. kr., því að augljóst er af þeim rökum, sem hafa áður komið fram, og þeim, sem ég hef nú bent á, að minna má framlagið í raun réttri ekki vera, til þess að þessi starfsemi haldist í horfinu, miðað við það, sem hún var fyrir þessar byltingarkenndu ráðstafanir til þess að draga úr þessum stuðningi.

Ég býst ekki við, að það þýði að flytja áskoranir til hv. meiri hl. úr þessu að breyta afstöðu sinni í þessu sambandi, en ég vil láta í ljós hryggð mína út af þessu. Og ég vil vonast eftir því, að hægt verði að fá hv. Ed. til þess að íhuga þetta mál betur og gera sér grein fyrir, hvað raunverulega er verið að gera með því að skera svona stórkostlega niður þennan stuðning við uppbyggingu atvinnulífsins í sjávarplássunum.

Ég vil hér aðeins slá upp einni einustu mynd til að sýna mönnum viðfangsefnin í þessum plássum, eins og þau blasa við núna, eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef bezt getað aflað mér, þá mun nýtt 75 rúmlesta eikarskip, innflutt með fullum búnaði, hafa kostað um áramótin 1959–60 sem allra næst 3 millj. kr. Fiskveiðasjóður veitti þá 2/3 að láni, eins og hann gerir enn, þegar skip eru innflutt, eða rúmar 2 millj. og þá var sú fjárhæð veitt til 20 ára með 4% ársvöxtum. Það, sem þurfti þá að skrapa saman í byggðarlaginu af hendi eigendanna á móti fiskveiðasjóðsláninu, var rúm milljón. Þá var alltaf nokkur hluti af því fenginn af atvinnuaukningarfé, af þessum 131/2–15 millj., sem það fé var um nokkur ár. En nú kostar 75 rúmlesta eikarbátur með fullum búnaði, sem að vísu mun vera nokkru fullkomnari, þ.e.a.s. tækin eru eitthvað fullkomnari en þau voru og dýrari þar af leiðandi, en ekki um annað að ræða en kaupa slík tæki samt sem áður, — þá mun kaupverð 75 rúmlesta eikarskips með fullum búnaði vera sem næst 5 millj. kr., eða tæpum 2 millj. kr. hærra en það var fyrir hinar nýju efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. Fiskveiðasjóður lánar eins og áður 2/3 af andvirði innfluttra skipa, eða í þessu falli 3.334 millj. og þá þurfa eigendur að ná saman sem næst 1.660 millj. til þess að geta komizt yfir svona bát. Vitanlega sækja þeir til atvinnuaukningarsjóðs, en það sjá allir, að það verður hreinn hégómi, sem atvinnuaukningarsjóður getur lagt af mörkum, miðað við þær ógnar fjárhæðir, sem þarf orðið til þess að komast yfir hin nýju tæki, þegar heildarframlag til hans er komið niður í 10 millj. kr.

Á þessu dæmi sjá menn tvennt: í fyrsta lagi, hversu geigvænlegan vanda búið er að leiða yfir sjávarplássin og framleiðsluna og hversu torvelt það er orðið, a.m.k. fyrir nýja menn að komast inn í bátaútveginn, sem er þó alveg lífsnauðsyn, því að í bátaútveginum þarf þetta að ganga þannig, eins og komið var í gang, að þeir, sem vinna við framleiðsluna, dugmiklir sjómenn, gætu sameinað sig um að eignast bátana, ásamt þá öðrum, sem vildu vera með þeim í rekstrinum. En ofan á þetta bætist svo, að áður voru fiskveiðasjóðslánin til 20 ára með 4% ársvöxtum, en nú aðeins til 15 ára. Lánin hafa verið stytt og eru með 61/2% vöxtum. Það er því ekki aðeins, að það, sem menn þurfa sjálfir að leggja af mörkum í þessu falli, hafi hækkað á 7. hundrað þúsund, heldur eru fiskveiðasjóðslánin með miklu verri kjörum en áður var.

Það sést af þessu dæmi, sem ég var að rekja, þótt ekki sé lengra farið, og enn fremur af því, hve stórhækkað hefur kostnaðurinn við alla uppbyggingu, en að sama skapi lækkar atvinnuaukningarféð, eins og nú á að lögfesta með þessu frv., að verið er með þessu óðfluga að gera þessa starfsemi að engu. Það dregur svo hratt saman, þegar annars vegar eru lækkuð framlögin, en hins vegar hækkar svona stórkostlega kostnaðurinn við framkvæmdirnar.

Þetta vænti ég að allir hv. þm. hljóti að sjá, að hér er mikil alvara á ferðum, þegar þess er gætt, að aldrei má nema staðar í uppbyggingunni í sjávarplássunum fremur en annars staðar. Og það getur ekki lengi staðið þannig, að aðeins örfá skip séu keypt til landsins eða örfáir bátar, eða örfá skip byggð eða örfáir bátar í landinu, eins og varð s.l. ár. Þannig getur þetta ekki staðið. Uppbyggingin verður að halda áfram með mikilli atorku, enda verkefnin í þessum byggðarlögum alveg óþrjótandi. Koma þarf upp fullkominni fiskvinnslu og síldarvinnslu og endurbæta þær fiskvinnslustöðvar, sem fyrir eru, og koma upp líka öðrum atvinnurekstri, sem þyrfti að geta fengið stuðning.

Ég vildi ekki láta þetta mál fara svo héðan, að ég tæki ekki í strenginn með þeim, sem hafa varað við og bent á, hvað hér er raunverulega að gerast, og vildi með þessum fáu orðum mæla mjög eindregið með þeirri brtt., sem flutt er um að hækka framlagið til sjóðsins. Hér er áreiðanlega um eitt allra stærsta þjóðmálið að ræða. Það er ekki nokkur vafi á því, að verði þetta látið ganga svona og atvinnuaukningarstarfsemin gerð að engu, þá verður það svo, að sjávarplássin úti um landið, sem þurfa að eflast, bíða stórkostlegan hnekki. Mönnum verður algerlega um megn að ná saman því eigin fjármagni, sem þarf til að leggja í fyrirtækin, þegar svo er komið, eins og ég vænti að menn hljóti að sjá.

Ef menn skella algerlega skollaeyrum við þessu, þá hlýtur það að vera fyrir það, að menn kæra sig kollótta um, þó að uppbyggingarframþróunin í þessum plássum stöðvist. Þá hlýtur það að vera fyrir það, því að ef menn vilja, að hún haldi áfram, þá verður að draga inn í hana fjármagn af sameiginlegu fé þjóðarinnar. Og það er alls ekki nóg að ætla í því skyni þessi föstu stofnlán, hlutfallslega þau sömu sem verið hafa, en bara með verri kjörum. Það er alls ekki nóg, heldur verður hið opinbera að draga inn í þetta fjármagn eftir atvinnuaukningarleiðinni.

Hér er að mínu viti um eitt allra stærsta þjóðmálið að ræða, því að ef hið opinbera kippir svo gersamlega að sér hendinni með stuðningi við uppbygginguna, þá annaðhvort stöðvast hún eða hún verður einhliða á vegum fjársterkustu aðilanna í landinu. Enda er alls ekki því að leyna, að það eru mjög ískyggileg teikn á lofti í því sambandi, jafnvel að þau atvinnufyrirtæki, sem fyrir eru og menn hafa verið an reyna að koma upp, vinnandi framleiðendur hafa verið að reyna að koma upp, séu nú að dragast úr höndum þeirra og lenda hjá þeim, sem meira hafa umleikis. Hafa nýlega komið fram um þetta hin ískyggilegustu dæmi, þar sem hinir allra dugmestu menn, sem hafa lagt allar eigur sínar í bátakaup, hafa orðið fyrir svo þungum áföllum í sambandi við tvennar gengislækkanir og aðrar fjármálaráðstafanir núv. ríkisstj., að þeir hafa misst þessi framleiðslutæki yfir til hákarlanna, sem eru í kjölfarinu eins og vant er. Það vantar ekki, þeir eru þar til þess að hirða eignir þeirra, sem verða fyrir svo þungum höggum, að þeir geta ekki staðizt þau.

Þetta er sorgleg þróun, sorgleg saga, og þessi þróun þarf að stöðva sem skjótast með því að gerbreyta stjórnarstefnunni aftur í það horf að standa með þessu fólki, standa með einstaklingsframtakinu, eins og gert hefur verið, láta ríkisvaldið styðja það, og þá ekki sízt einstaklingsframtak þess vinnandi fólks, sem stendur sjálft í framleiðslunni, reyna að stuðla að því, að það geti eignazt atvinnutæki, eins og gert hefur verið undanfarið. Það þarf að gerbreyta stefnunni á nýjan leik í þá átt. Þess vegna gengur þetta ákvæði frv., að lækka nú atvinnuaukningarframlagið, lögbjóða lækkun á atvinnuaukningarframlaginu, alveg í þveröfuga átt við það, sem lífsnauðsyn væri að halda.

Ég skal láta þessi fáu orð nægja og þessi dæmi, sem ég hef nefnt, sem ég vona að verði til þess, jafnvel þó að enginn í meirihlutanum vilji hlusta á þau hér í þessari d., að þetta mál gæti orðið athugað betur í Ed., áður en það yrði lögfest.