08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

35. mál, atvinnubótasjóður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls mæltist hv. frsm. fjhn. — eða svo skildi ég orð hans — til þess, að brtt., sem þá hefðu verið fluttar á þskj. 327 og 328, yrðu teknar aftur til 3. umr., og var það gert. Hann gat þess í þessu sambandi, að n. þyrfti að taka til athugunar tiltekið atriði í sambandi við frv. og að þá mundi verða tækifæri til þess að ræða þessar tillögur. Það mátti því þykja ástæða til þess að ætla, að þessar brtt. yrðu teknar til greina að meira eða minna leyti í hv. n. Ég efast ekki um, að sá hafi verið vilji hv. frsm., að tekið yrði tillit til þessara brtt., því að ég þekki hug hans í þessu máli frá fyrra samstarfi okkar um þau mál, sem ég minnist með ánægju. Nú hefur niðurstaðan hins vegar orðið sú, sem ég skrifa ekki á reikning hv. frsm., heldur á reikning stjórnarflokkanna í heild, að till. þær, sem fyrir lágu eða voru til umr. og voru teknar aftur til 3. umr., hafa ekki að neinu leyti verið teknar til greina af meiri hl. nefndarinnar, — ekki að neinu leyti. Frsm. sagði hér áðan fyrir hönd meiri hl., að hann legði til, að brtt. á þskj. 327 og 328 yrðu felldar, ekki meira um það. Meiri hl. vill ekki fallast á till. hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) um að breyta nafni sjóðsins, vill ekki fallast á það. Hann vill ekki fallast á að kenna þessa stofnun við jafnvægi í byggð landsins og framleiðsluaukningu, en heldur fast við, að sjóðurinn skuli heita atvinnubótasjóður. Þá lagði hv. 1. þm. Norðurl. v. einnig til, að árlegt framlag til sjóðsins yrði 25 millj. kr., en meiri hl. n. verður ekki þokað frá 10 millj., eins og í frv. stóð frá stjórnarinnar hálfu. Þó er þetta, eins og tekið var fram hér áðan af hv. 1. þm. Austf. (EystJ), í raun og veru mun minna framlag en atvinnuaukningarféð áður var og minna hægt fyrir það að vinna. Sagt er, að þetta hafi verið bætt upp, og hv. frsm. minntist á það áðan, því að hann fann það sýnilega, að smátt var skorið. Hann minntist á það, að þetta mundi verða bætt upp með því, eins og gert er ráð fyrir í frv., að fara nú að innheimta atvinnuaukningarlán, sem lítt eða ekki hefur verið gengið eftir hingað til. Skal ég engu um það spá, hvað upp úr því hefst. En með því að samþ. till. hv. 1. þm. Norðurl. v. um 25 millj. hefði verið allmyndarlega af stað farið og þó sannarlega engin ofrausn miðað við það, sem í húfi er, ef sú þróun heldur áfram, sem verið hefur undanfarið í sambandi við byggð landsins og ég lýsti nokkuð með tölum við 2. umr. þessa máls og mun víkja lauslega að nú.

Sama er að segja um afstöðu hv. meiri hl. til brtt. minnar á þskj. 327, sem ég tók aftur til 3. umr., um að lánveitingum til að hagnýta góð framleiðsluskilyrði, eins og það er orðað í 1. gr., skyldi fyrst og fremst beint til þeirra landshluta, þar sem íbúum hefur fækkað undanfarin ár, eða þar sem íbúafjölgun hefur verið minni en sem svarar íbúafjölgun landsins í heild. Á þetta getur meiri hl. ekki heldur fallizt. Það virðist þá eftir þessu vera stefna meiri hl., að lán úr þessum sjóði skv. 1. gr. b-lið eigi þrátt fyrir það, sem samþ. var sem ályktun Alþ. í fyrra, alveg eins og engu síður að veita í þau byggðarlög, sem taka við fólksstraumnum frá hinum, sem eiga í vök að verjast vegna fólksfækkunar, — alveg eins til þeirra, fyrst það fæst ekki fram, að þetta verði tekið fram á þennan hátt, að lánunum skuli fyrst og fremst varið til þeirra byggðarlaga, sem þar um ræðir. Það verður þá allt undir framkvæmdinni komið eða þeim mönnum, sem í sjóðsstjórnina veljast. Meiri hl. Alþ. virðist ekki vilja gefa fyrirmæli um, að með þessum lánveitingum skv. b-lið skuli unnið að jafnvægi í byggð landsins, þ.e.a.s. ef meiri h., þingsins tekur sömu afstöðu og meiri hl. fjhn. hefur gert.

Hér er þó vissulega alvörumál á ferðum. Eins og ég gat um áðan, ræddi ég um það lauslega við 2. umr., hverjar horfurnar væru um misskiptingu fólksfjöldans eftir landshlutum, miðað við það, sem átt hefur sér stað á tveim síðustu áratugum í þeim efnum. Ég vakti athygli á því þá, að ef sú þróun héldi áfram til næstu aldamóta, sem verið hefur undanfarin 20 ár, ef hún héldi áfram í næstu 40 ár, þá yrði samanlögð íbúatala Reykjavíkur og næsta nágrennis hennar, þ.e.a.s. Kópavogs, Hafnarfjarðar og tveggja hreppa á því svæði, komin upp í 360 þús. og í öllum öðrum byggðarlögum landsins samtals þá jafnframt niður í 30 þús., miðað við, að fólksfjölgunin í landinu verði svipuð og hún hefur verið undanfarið. Ég benti á það þá, að í fjölda byggðarlaga færi fólki nú fækkandi og að jafnvel á Akureyri, sem er fjölmennasti bær á Norðurlandi og annar fjölmennasti bær landsins, hefði nú síðustu fimm árin verið um hlutfallslega fólksfækkun að ræða. Ég sagði þá eitthvað á þá leið, að ef þessu færi fram næstu 40 árin, yrði Ísland í lok þess tímabils orðið að borgríki hér á litlum bletti við innanverðan Faxaflóa, en telja mætti þá, að landið utan .ess væru að miklu leyti komið í eyði, ef þessi þróun heldur áfram. Þ.e.a.s. ég hygg, að allur fólksfjöldi landsins utan Reykjavíkur yrði þá í lok þessarar aldar álíka eða heldur minni en hann var eftir stórubólu í byrjun 18. aldar, en þá var um alveg sérstaka fólksfækkun að ræða, þar sem stórir hlutar landsins urðu auðir að mönnum. Þessi þróun byggðarinnar í landinu, sem í vændum sýnist vera að öllu óbreyttu, yrði áreiðanlega engum til góðs, a.m.k. ekki íslendingum, og það er ekki þetta, sem höfuðborgin þarfnast. Þetta er Reykvíkingum líka sjálfum ljóst, a.m.k. mörgum okkar, sem hér eigum heima. En það er ekki uppörvandi fyrir byggðarlögin úti um land ofan á það, sem á undan er gengið á umliðnum árum í þá átt að rýra fornt sjálfstæði þeirra, að þurfa að horfa upp á það, að hjá meiri hl. Alþ. ríki tómlæti um þessi mál og að sá mikli vandi, sem hér er vissulega fyrir hendi, sé gerður að sýndarmáli án innihalds, eins og nú virðast helzt horfur á. Þar við bætist svo, að haldið er uppi á ýmsan hátt áróðri fyrir því, að stórframkvæmdir í atvinnumálum, sem ráðizt kann að verða í hér á landi á komandi árum, megi helzt hvergi annars staðar vera en þar, sem þéttbýlið er mest fyrir. Mér er nú spurn: Ef fjármagnið og hinar stærstu framkvæmdir eiga alltaf að fylgja þéttbýlinu, hvenær verða þá skilyrði til þess, að íbúafjöldi fari vaxandi annars staðar á landinu? Hvenær verða þau? Það ætti að vera sæmilega auðskilið mál, að þeirra er þá langt að bíða.

Ég held, að það hafi margir búizt við því í fyrra, þegar þál. var samþ. hér á hv. Alþ. um þessi mál, að sú stofnun, sem nú er verið að koma á fót eða talið er að verið sé að koma á fót, ætti að hafa það hlutverk eitt eða fyrst og fremst að vinna að jafnvægi í byggð landsins og henni væri helzt ekki annað ætlað, enda áreiðanlega ærið viðfangsefni fyrir hverja stofnun. Og það er líka áreiðanlega betra og hagkvæmara, að aðrar stofnanir sinni öðrum verkefnum, m.a. því að efla atvinnulífið, þar sem fólksfjölgunin aðallega á sér stað. Vitanlega heldur fólksfjölgunin áfram í þeim landshlutum, þar sem hún hefur verið mest undanfarið, og eins þótt hún yrði ekki eins mikil og hún er nú, það dettur engum annað í hug. Þess vegna þarf atvinnulífið þar líka að eflast í samræmi við eðlilegan vöxt, og þjóðfélaginu ber að sjálfsögðu að stuðla að því, einnig með aðgerðum hér á Alþingi. En því, sem þar þarf að gera og vissulega er margt og mikið, á a.m.k. að mínum dómi ekki að blanda saman við þá stofnun, sem að því miðar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. því á ekki að blanda saman við þá stofnun og hennar starfsemi. Sú starfsemi er alveg sérstaks eðlis og á að vera út af fyrir sig. Um hana þarf að gera sérstakar áætlanir. Þetta var það, sem margir vonuðu að ætti að felast í þessu frv. og að þar yrði með nokkrum myndarskap og stórhug af stað farið. Menn byggðu það, eins og ég sagði áðan, á þáltill., sem samþykkt var á þingi í fyrra, og orðalagi hennar og ummælum, sem ýmsir létu um hana falla þá. En við, sem þá vorum minnihlutamenn í allshn. Sþ., hv. 5. þm. Norðurl. v., sem þá var um stundarsakir, Jón Kjartansson, hv. 4. landsk þm., Hannibal Valdimarsson, og ég, — við þessir minnihlutamenn, sem þá fjölluðum um þessa till. í allshn. Sþ., vorum hræddir um, að hér mundi verða minna úr, ef ríkisstj. fengi ekki ákveðnari fyrirmæli eða bendingar frá Alþ.

Þess vegna vildum við orða till. í fyrra á þá leið, að væntanlegt frv. ríkisstj. skyldi í meginatriðum sniðið á þann hátt, sem nánar var tiltekið í brtt., sem við fluttum í Alþingi. En þar var aðallega miðað við efni frv. um þessi mál, sem nokkrir þm. úr Framsfl. fluttu í Ed. og lá þá fyrir þeirri hv. deild. En sú till. okkar minnihlutamanna í allshn. var þá felld á þingi og ríkisstj. raunverulega gefnar frjálsar hendur um undirbúning þessa máls. Það var þetta, sem við í minni hl. vildum ekki gera. Við vildum gjarnan samþykkja slíka þál., en við vildum, að í þál. fælist ákveðin ábending um það, hvers efnis Alþ. ætlaðist til að þetta frv. yrði, þegar það væri lagt fyrir Alþingi.

Nú sýnir efni frv., eins og það er, og meira að segja nafnið á frv., eins og það er, hvernig um þetta mál hefur farið í höndum hæstv. ríkisstj. Árangurinn af ályktun Alþ. í fyrra er þá það stjórnarfrv., sem lagt var fyrir Alþ. í haust, frv. um atvinnubótasjóð, frv. um sjóð, sem samkvæmt heiti sínu á að bæta úr atvinnuleysi. Og ég verð þess greinilega var, að hv. frsm. finnur þetta, að þetta er einkennilegt nafn á frv., því að hann var að bera hér fram einhvers konar álitsgerð frá n. eða meiri hl. hennar um það, að þótt frv. héti þetta, þá ætti það ekki að vera aðallega til þess að ráða bót á atvinnuleysi samt. Auðvitað hefur verið rætt um þetta í n., og hv. frsm. talar á þessa leið vegna þess, að þeir meirihlutamenn sjá það og finna, að eins og frv. er sniðið mun flestum virðast við fyrstu sýn, að þetta sé í raun og veru frv. um atvinnuleysismál, sérstaklega eins og það var upphaflega lagt fyrir af hálfu hæstv. ríkisstj., og skal viðurkennt, að þar var lítils háttar umbót á gerð við 2. umr., en mjög lítil. En ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins eru ekki í eðli sínu atvinnuleysisráðstafanir. Þær eru það ekki í eðli sínu, þó að þetta tvennt geti auðvitað í einstökum tilfellum farið saman. Það getur í einstökum tilfellum, ef sérstaklega stendur á, farið saman.

En í eðli sínu eru ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins ekki atvinnuleysisráðstafanir. Til þess að koma í veg fyrir hnignun og stuðla að eflingu byggðarlaga þarf að efla og auka atvinnulífið þar, sem skilyrði eru til þess, og alveg eins, þó að ekki sé um neitt atvinnuleysi á þeim stað að ræða. En hér í meðferð þessa máls er einhvern veginn blandað saman jafnvægi í byggð landsins og atvinnuleysisvandamálum, og á þessari blöndu er stjórnarfrv. byggt, eins og sum ákvæði þess bera glöggt vitni um, og sjóðurinn jafnframt skorinn svo mjög við nögl, að hann getur hvorugu verkefninu valdið, svo að gagn sé að. Það er auðvitað enn á valdi hv. d. að breyta þessu frv., gera það þannig úr garði, að það gefi fjölda fólks víðs vegar um landið nýja von um myndarleg átök þjóðfélagsins á komandi árum, gera það þannig úr garði, að þar komi fram skýr stefna og einhverjir möguleikar til að framkvæma hana. Þetta getur hv. d. enn þá gert, m.a. með því að samþykkja þær brtt., sem liggja fyrir á þskj. 327 og 328, þó að hv. meiri hl. fjhn. hafi lagt til, að þær verði felldar. Og ég vil nú, um leið og ég lýk máli mínu, snúa mér alveg sérstaklega til þeirra, sem ætla má að telji sér bera nokkra skyldu til að gæta hagsmuna þeirra landshluta, sem eru í vaxandi hættu vegna fólksflutninganna. Ég vil alveg sérstaklega beina því til þeirra að gefa nú þessu máli gaum og taka til athugunar, hvort ekki sé rétt fyrir þá að greiða atkv. um brtt. á annan hátt en hv. meiri hl. hefur lagt til.