08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 1. þm. Austf. vil ég aðeins benda á, að kjarninn í þeirri ræðu var raunverulega að koma að gagnrýni á efnahagskerfi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, en ekki gagnrýni á það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hygg, að ég fari ekki rangt með, að svo að segja í hverju máli, þar sem um er að ræða fjárframlög, hafi hv. 1. þm. Austf. haldið fram því sama, sem hann heldur fram hér, að það sé allt of lítið lagt fram til hvers máls. Slíkt kom fram við framlag til Búnaðarbankans, og það kom greinilega fram við afgreiðslu fjárlaga, að hv. minni hl. hér á Alþ. óskaði þess og krafðist þess, að lagt væri miklu meira fram til sérhverra framfaramála í landinu, og ef þær tillögur væru allar saman teknar saman, þá er sýnilegt, að það yrði að gera stórkostlega byltingu í sambandi við fjárhag ríkissjóðs og hagkerfið yfirleitt, ef ætti að samþykkja þær allar saman, eins og þær hafn komið fram, og er því hér ekki nein undantekning í þessu máli. Það er enginn vandi að halda því fram, að meira fé þurfi til ýmissa framkvæmda í landi, þar sem svo að segja allt er ógert. Hitt er svo meiri vandi, að bera jafnframt ábyrgð á því, hvernig fénu er varið og hvernig þess er aflað. Og ég þekki svo mikið hv. 1. þm. Austf., að ef hann hefði setið í ríkisstj. nú, þegar þetta mál er afgr., þá mundi engu hægara hafa verið að fá hann til þess að hækka framlagið til atvinnubótasjóðsins um 15 millj. kr., ef hann hefði þá setið sem fjmrh., en þá ríkisstjórn, er nú situr. Ég er ekkert að segja það til ásökunar, en það sýnir, að menn tala öðruvísi, þegar þeir bera ekki ábyrgð á málunum, en þegar þeir eiga að standa sjálfir og bera ábyrgð á framkvæmdunum.

En mér þykir rétt í þessu sambandi að benda á, að mér sýnist stefna og skoðun hv. 1. þm. Austf. fara í allt aðra átt í þessu máli en hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. Hv. 3. þm. Norðurl. e. vill, að fé þessa sjóðs sé eingöngu varið til jafnvægis í byggð landsins, eins og hér hefur verið lýst. Ég er honum þar mjög sammála. En við þm. þurfum stundum að semja um mál til þess að fá þau samþykkt, og ég vil málið heldur fram, eins og það er nú, en að það nái ekki fram að ganga. Ef marka má ræðu hv. 1. þm. Austf., þá er það ekki höfuðmarkmið hjá honum, að sjóðurinn stuðli að jafnvægi í byggð landsins, heldur auki atvinnu, einkum í sambandi við sjávarútveg, einnig á þeim stöðum, sem fólkið flýr ekki frá. Ég vil í sambandi við það leyfa mér að spyrja: Hvernig hefur þessu fé verið varið, síðan farið var að verja fé til atvinnubóta? Því hefur hvorki í tíð vinstri stjórnarinnar á sínum tíma né í tíð núv. stjórnar eða yfirleitt síðan farið var að veita slíkt fé verið varið til jafnvægis í byggð landsins. Og mig undrar dálítið, að hv. 3. þm. Norðurl. e. skuli ekki hafa beitt áhrifum sínum meir í vinstri stjórninni en hann hefur gert í þessu máli, því að ef tekið er upp, hvernig því fé er úthlutað, þá fer það sannarlega ekki eftir þeim lögum, sem við hugsuðum okkur á sínum tíma, þegar unnið var að þessu máli hér á þinginu.

Þessu fé hefur verið varið, eins og hv. 1. þm. Austf. lýsti, til þess að afla nýrra báta í landinu, ekki eingöngu fyrir þá staði í landinu, sem höfðu kannske mesta þörf á Þeim, heldur var þessu einnig varið til ýmissa bátakaupa hér í þéttbýlinu, m.a. til bátakaupa í Vestmannaeyjum. Við skulum aðeins fara yfir listann, hvar féð liggur. Því hefur verið varið til kaupa á bátum, að vísu í kringum allt land og ekkert bundið við hina sérstöku staði, sem fólkið var að flýja frá. Hvað ætli hafi t.d. verið varið miklu fé til Norðfjarðar? Eitthvað mun hafa farið þangað. Það eru fleiri staðir í landinu, þar sem fólkið er ekki að flýja frá og fé var varið til, alveg gagnstætt því, sem hv. 3. Þm. Norðurl. e. ætlast til.

Ef stofna hefði átt sjóð til þess eingöngu að sinna þessum verkefnum, eins og ætlazt var til á Alþingi 1955, hvers vegna hefur það ekki verið gert allan tímann síðan? Hvers vegna fékk ekki Framsfl., sem fór með ríkisstj. frá 1956–58, frv. frá 1955 lögfest, sem hann hefur borið fram á tveimur þingum nú, eftir að hann fór úr ríkisstj.? Mér er ljóst, að það var vegna þess, að hann fékk ekki samkomulag um málið við samstarfsflokkana, og er það ekkert leyndarmál. Ég er ekkert að ásaka Framsfl. fyrir það. En þetta er það raunverulega í málinu, að hann fékk ekki samþykki sinna samstarfsflokka til Þess að koma Því máli í gegn. Mér er það fullkomlega ljóst persónulega, að hv. 1. þm. Austf. vildi koma þessum málum fram, hann lýsti því beinlínis yfir á fundi, sem ég var með honum á vorið 1956, að hann vildi koma frv. í gegn óbreyttu, eins og því var skilað hér inn í þingið á því ári. Og fólk þurfti ekki að fárast mikið yfir því, þó að það kæmi ekki fyrr en haustið 1956 í staðinn fyrir vorið 1956. En hann varð var við andstöðu frá hinum flokkunum, sem nægði til þess, að málið var aldrei samþ.

Ég tel það því sigur, ekki einungis fyrir málið, heldur fyrir okkur, sem höfum barizt fyrir þessu, að málið skuli þó vera komið það langt nú, að meiri hl. Alþ. er sammála um, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir nú og við höfum lýst. Og því tel ég það ekkert höfuðatriði, hvaða nafn sjóðurinn ber, heldur hitt, hvaða verkum hann á að sinna, og það hef ég margtekið fram, að það er fyrst og fremst að bæta úr atvinnuleysinu, þar sem það er mest, og stöðva flóttann frá sveitunum, þótt hins vegar sé tekið upp samkomulag einnig um það, að það megi veita fé samkvæmt ákvæðum b-liðar 1. gr. Og ég verð að segja, að ef samkomulag hefði fengizt um þetta frv., eins og það er orðað nú, 1956, þá væru þessi mál í allt öðru og betra horfi en þau eru í dag, svo að það situr sannarlega sízt á þeim mönnum, sem hafa stöðvað þetta mál allan tímann, að gagnrýna þetta frv. nú, eins og það liggur fyrir, þegar þeir hafa ekki haft manndóm til þess að koma fram öðru betra frv. um þetta mál.

Út af ummælum ekki einasta hv. 1. þm. Austf., heldur og ýmissa annarra, sem hafa talað hér fyrr um þetta mál, þykir mér rétt að leiðrétta það, að fé til atvinnubóta hafi verið lækkað úr 15 millj. niður í 10 millj., því að eins og ég hef tekið fram áður, var tekið upp í fjárlagafrv. 1960 13 millj. og 500 þús. til atvinnuaukningar, miðað við 15 millj. á sama lið 1957. En í fjárlögunum bæði þau ár er ekkert um það sagt, að það skuli fara til jafnvægis í byggð landsins. í fjárlögunum frá 1957 segir, með leyfi hæstv. forseta: „Til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu á þann hátt, er ríkisstj. telur heppilegast, og má setja skilyrði fyrir aðstoð þessari um mótframlag og annað, sem ríkisstj. telur nauðsynlegt“

Þetta bendir ekki til þess, að þetta fé skuli endilega fara til jafnvægis í byggð landsins, nema síður sé, því að það hefur aldrei verið ætlazt til þess, að á móti því kæmi framlag frá öðrum aðilum. En þannig er þetta í fjárl. 1960, þegar frá þeim er gengið, og upphæðin er ekki 10 millj., heldur 13.5 millj. Að vísu er þar einnig ákveðið, að 4 millj. af þeirri upphæð skuli fara til ákveðinna verkefna, einmitt í byggðum landsins, þ.e. að bæta samgöngukerfið, þar sem fámennustu héruðin áttu við mesta erfiðleika að stríða, svo að raunverulega hefur verið varið það ár, eins og kemur raunverulega fram einnig í frv., rúml. 14 millj. kr. til atvinnubóta, og það nákvæmlega sama er á fjárlögum 1961 og einnig á fjárlögum 1962, nema við er þó bætt 1400 þús. kr. það er svo rétt, að þetta er fært yfir á annan lið í fjárlögunum, þar sem þessar 4 millj. kr. eru teknar beint inn í vegaframkvæmdirnar. En það raskar ekki þeirri staðreynd, að þessari upphæð er varið á þennan hátt, enda úthlutað af þessum aðilum. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram.

Ég hef svo ekki ástæðu til að ræða um fleiri atriði, en legg til enn, að till. meiri hl. verði samþ. Hvað snertir skrifl. till., sem kom hér fram áðan, þá hef ég ekki haft tækifæri til þess að ræða hana í fjhn., en persónulega hef ég ekkert á móti því, að sú till.samþ., finnst það ekki nema eðlilegt, að sjóðurinn leiti upplýsinga frá Alþýðusambandi Íslands um þessi mál, og sé ekki ástæðu til þess að fresta málinu til þess að ræða um það atriði í n. Ég mun sjálfur fylgja þeirri till. og tel eðlilegt, að sú till. verði samþykkt.