08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

35. mál, atvinnubótasjóður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég hef áður, við 2. umr. málsins, lýst því, að ég teldi, að það kæmi ekki nógu greinilega fram í þessu frv., eins og það var af stjórnarinnar hendi og eins og það er enn, að með því ætti fyrst og fremst að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Mér hefur nú virzt meðnm. minn, hv. 1. þm. Vestf., vera þeirrar skoðunar einnig, að það ætti að vera aðaltilgangurinn með þessari lagasetningu að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þess vegna fannst mér nokkuð óheppilegt dæmi, sem hann kom með í ræðu sinni hér í dag um framkvæmd, sem hann taldi eðlilegt að atvinnubótasjóður veitti aðstoð til. Hv. þm. nefndi það, að þörf væri á að fá ný tæki til notkunar við að landa fiski úr togurum til þess að spara þar vinnuafl. Nú er Það þannig, að togaraútgerð er tæpast til hér á landi nú orðið nema frá stærstu kaupstöðunum, þar sem fólk er margt, og a.m.k. er það svo um þá staði, þar sem togaraútgerðin er að mestu leyti, að það hefur verið yfirleitt fólksflutningur til þeirra, en ekki frá þeim. Nú get ég tekið undir það með hv. þm. og er honum alveg sammála um, að það sé nauðsyn að fá vinnusparandi tæki við þetta verk, sem hann nefndi, eins og önnur — mikil nauðsyn á því. En ég tel, að fyrir útvegun þeirra ætti að sjá með öðru móti en því að fara að taka af mjög takmörkuðu fé þessa sjóðs til þess, því að það er ekki eitt af þeim verkefnum, sem hann ætti að styðja, að mínu áliti. Það er ekki í samræmi við þann höfuðtilgang, sem þessi sjóður hefur og þessi lagasetning, sem hér er stefnt að. Ég vildi aðeins láta uppi mína skoðun um þetta, af því að hv. frsm. fjhn. nefndi einmitt þetta sem dæmi um framkvæmd, sem sjóðurinn ætti að styðja. Ég tel, að það kæmi ekki til greina, a.m.k. ekki meðan verkefni væru fyrir hendi, sem þyrfti að sinna í þeim landshlutum, sem hafa orðið fyrir því, að fólk hefur flutzt þaðan og oft í stórum stíl til annarra staða á landinu, — það eigi að sitja fyrir að stuðla að uppbyggingu í þeim landshlutum fyrst og fremst og koma í veg fyrir áframhaldandi fólksflutninga þaðan.