16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

35. mál, atvinnubótasjóður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur verið lögð fram í fjárlögum hvers árs nokkur fjárhæð til atvinnuaukningar í landinu. Á þá starfsemi, sem þannig hefur verið stofnað til, er því komin nokkur reynsla, og sú reynsla er þannig, að það fé, sem lagt hefur verið fram í þessu skyni og úthlutað í ýmsar áttir, hefur áreiðanlega komið að mjög miklum notum. Því hefur m.a. verið varið til þess að veita aukin lán þeim, sem ráðizt hafa í kaup á vélbátum, og hafa þau lán á sumum stöðum haft áhrif á, að auðið var að afla nauðsynlegra framleiðslutækja, þar sem fjármagn er lítið heima fyrir, en mikil þörf á uppbyggingu atvinnuvega.

Með þessu frv. er stefnt að því að koma þessari starfsemi í fastara form en verið hefur. Það á samkvæmt frv. að kjósa sérstaka stjórn fyrir þennan sjóð, sem hér um ræðir, og lögbinda fast framlag til sjóðsins. Ég tel því, að þetta frv. stefni í rétta átt. En í þessu sambandi verður að hafa það í huga, að miklar verðhækkanir hafa átt sér stað á undanförnum árum og einkum nú á síðustu árum. Af því leiðir, að atvinnutæki eins og vélbátar og önnur slík kosta í krónutölu miklum mun hærri fjárhæð nú en þau gerðu fyrir fáum árum. Þegar á þetta er litið, þarf vissulega að taka tillit til þess í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, og gera atvinnubótasjóðinn þeim mun sterkari fjárhagslega sem verðhækkununum nemur. Mér finnst það skorta mjög á í þessu frv., að þessa sjónarmiðs sé gætt.

Aðalstofnfé sjóðsins myndast samkv. 2. gr. frv. af árlegu framlagi frá ríkinu á næstu 10 árum, sem á að verða samkv. frv. 10 millj. kr. árlega. Nú er þessi fjárhæð beinlínis lægri að krónutölu en stundum hefur verið veitt í þessu skyni undanfarin ár. Ég held, að fjárveiting til atvinnuaukningar hafi komizt hæst upp í 15 millj. kr. á ári og var um skeið 13–14 millj. kr., en mér skilst samkvæmt þessu frv., að með því eigi að binda þessa fjárveitingu næstu 10 ár við 10 millj. kr. árlega. Verði þetta samþykkt í þessu formi, þá hlýtur að leiða af því. annaðhvort að miklu færri aðilum verði unnt að veita stuðning samkvæmt þessu frv. heldur en þó hefur verið gert á undanförnum árum eða að stuðningurinn, sem aðilarnir fá, verði hlutfallslega minni en hann hefur verið á undanförnum árum, og finnst mér, að hv. Alþ. megi ekki ganga svo frá þessu máli, að það gefi þessu sjónarmiði ekki fullar gætur. Á það vil ég enn fremur benda, að ef borið er saman þetta fjárframlag við heildarhæð fjárlaga, eins og hún hefur verið á undanförnum árum, þá er þetta framlag hlutfallslega miklum mun lægra, miðað við heildarhæð fjárlaga, en áður hefur verið. Þegar heildarhæð fjárlaga var um 800 millj. kr., var framlag til atvinnuaukningar 13–15 millj. kr. sum ár. En nú þegar heildarhæð fjárlaga er komin upp í 1750 millj. kr., er miðað við, að framlagið verði einungis 10 millj. á ári. Með þeirri starfsemi, sem hér á að setja fastar skorður með þessari lagasetningu, er stefnt að því að efla atvinnulífið á ýmsum stöðum, einkum við sjávarsíðuna, þar sem fjármagn er litið heima fyrir, og þar með að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Tilgangurinn með þessari lagasetningu er því, eins og ég tók fram í upphafi, að mínum dómi mjög góður, og frv. stefnir í rétta átt.

Ég endurtek það: íslenzka þjóðin er í örum vexti, sem betur fer, og hún þarf á því að halda bæði nú og framvegis að efla atvinnuvegi sína og hagnýta gæði landsins bæði til lands og sjávar. Og í því sambandi þarf ríkisvaldið að gera raunhæfar ráðstafanir til þess, að óeðlilegir og sívaxandi fólksflutningar utan af landsbyggðinni til fárra staða eða lítils svæðis af landinu eigi sér ekki stað, heldur að um nokkurn veginn eðlilega þróun geti verið að ræða um gervallt landið og að atvinnulífið geti staðið með sem mestum blóma hvar sem er. Þetta er bæði fjárhagslegt atriði fyrir þjóðfélagið og einnig menningarlegt. Þessu sjónarmiði má Alþ. ekki gleyma, heldur gefa því fullar gætur, og þessi lagasetning, sem fjallað er um með þessu frv., gefur einnig sérstakt tilefni til þess að taka þetta fyrirbrigði þjóðfélagsins til athugunar.

Ég vil því að lokum beina því til þeirrar n.. sem fær þetta mál til athugunar, að endurskoða að nýju ákvæði 2. gr. um árlegt fjárframlag með tilliti til þeirra sjónarmiða, sem ég hef bent á. Og ég vil beina því til hæstv. ráðh., sem flytur þetta mál og beitir sér fyrir því, hvort hann sjái sér fært að styðja að því, að breyt. fáist á frv. að þessu leyti, áður en það verður lögfest hér á hv. Alþingi.