09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. N. hefur rætt þetta mál og samþ. shlj. að mæla með samþykkt þess. Tveir nm., hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e., leggja fram brtt.

Önnur brtt. þeirra er um nafn á sjóðnum, og var hún nokkuð rædd í n. Mér finnst þetta nafn ágætt. Það skal að vísu játað, eins og fram kom við umr. í n., að um eitt skeið fékk orðið atvinnubót á sig nokkuð leiðinlega merkingu. Það var á atvinnuleysisárunum. Þá voru veitt nokkur fjárframlög til atvinnubóta. En því miður vorum við óvanir slíku, Íslendingar, og sums staðar kunnu menn lítt til að velja verkefni til slíks, svo að úr því varð snjómokstur og klakahögg. Þetta fékk því á sig nokkurt óorð um sinn, en ég held, að það sé engin hætta á því, að svo verði nú, og treysti því, að þegar þessi sjóður eflist, þá muni nafnið fá sína upphaflegu og góðu merkingu og sé þess vegna alveg óhætt að hafa þetta nafn á sjóðnum.

Önnur breyting, sem þeir leggja til, er að nokkru hærri framlög komi úr ríkissjóði til sjóðsins. Ég hygg, að þessi framlög, sem ákveðið er að leggja í sjóðinn, 10 millj. kr. á ári næstu tíu ár, muni verða viðhlítandi, eða vona það a.m.k., að þau verði það, sérstaklega með tilliti til þess, að það er betur ástatt nú en var, þegar byrjað var að veita fé í þessu skyni til atvinnuaukningar. Bæði hafa atvinnutæki og tækifæri úti um landið batnað á þessum tíma. Það hefur sem betur fer orðið mikið gagn víða að þessu fé, sem veitt hefur verið til atvinnuaukningar úti um landið. Þó er því ekki að leyna, að það mun hafa komið fyrir, að lítið meira gagn hafi orðið að þessu fé en varð á sínum tíma að snjómokstri og klakahöggi.

Það hefur að vísu nokkurt fé farið inn í þau héruð, sem féð fengu, til einhverra aðila, sem vafalaust hafa haft þörf fyrir það, en ekki orðið eins mikið gagn að því alls staðar og efni stóðu til og vonazt var eftir. En á öðrum stöðum er mér kunnugt um, að þetta hefur orðið að mjög miklu gagni og hjálpað til þess að byggja upp atvinnulíf, þar sem efnahagur fólksins var ekki þannig, að það gæti af eigin rammleik gert það. Það hefur sérstaklega verið gagnlegt í þessu skyni, að þeirri reglu hefur verið fylgt um þessi framlög, að ekki hefur verið krafizt eins mikilla ábyrgða eða veðs fyrir þessum lánum eins og öðrum sjóðum hættir við að taka. Þess vegna má gera ráð fyrir því og enda vitum við það, að nokkuð af þessum framlögum, sem veitt hafa verið í þessu skyni, munu ekki vera innheimtanleg aftur, og þess vegna hefur sjóðurinn ekki vaxið eins ört og annars hefði mátt vænta. En þrátt fyrir það hefur hann gert ákaflega mikið gagn, og ég hygg, að það muni verða veitt úr honum með svipuðum hætti og verið hefur, enda er skýrt tekið fram í lögunum, að það er ætlunin að veita fyrst og fremst til þeirra staða, sem verst eru staddir í atvinnumálum. Þó að heimild til þess að veita fé til annarra staða sé nokkuð rýmkuð, þá er það skýrt tekið fram, að staðirnir, sem verst er ástatt fyrir í atvinnumálum, skuli ganga fyrir. Og þá verður væntanlega ekki gengið mjög hart eftir með ábyrgðir eða aðrar kröfur, til þess að menn geti fengið þessi lán, en litið fyrst og fremst á atvinnuástandið. En það, sem ég á við um það sérstaklega, að þetta muni verða viðhlítandi, þessi upphæð, er það, að nú er veitt árlega fé frá öðrum sjóði, atvinnuleysistryggingasjóði, í svipuðu skyni víðs vegar um landið, til atvinnutækja, sem þangað eru fengin. Það er sérstaklega tekið fram um þann sjóð, að leitast skuli við að ávaxta féð, eftir því sem við verður komið, þar sem það fellur til víðs vegar um landið. Og það er enginn vafi á því, að sá sjóður verður þess árlega megnugri að veita fé til atvinnutækja víðs vegar um land heldur en verið hefur, en nú þegar hefur hann veitt milli tvo og þrjá milljónatugi árlega.

Ég held, að ég láti þetta nægja að sinni til þess að gera grein fyrir málinu og afstöðu meiri hl. til till. minni hl., sem koma fram á þskj.