26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

155. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera hér nokkrar athugasemdir út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. Það er alveg rétt hjá honum, að ég gat hér ekki áðan um nokkrar smávægilegar breyt., sem felast í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er þá fyrst og fremst, að það er fellt niður 150 þús. kr. beint framlag úr ríkissjóði. Það getur nú varla kallazt stórvægilegt, sérstaklega þegar lagt er til í frv. að hækka stórkostlega það framlag, sem kemur úr ríkissjóði til sjóðsins. Þá mun það varla taka því, að ég hygg, að hafa þetta framlag.

Viðvíkjandi innlánsdeildaákvæðunum, þá er það alveg rétt, sem hann gat um, að það er álit sjóðsstjórnarinnar, að þetta hafi ekki haft neina praktíska þýðingu til þessa og þeir sjái ekki, að það hafi það á næstunni. Það hefur þess vegna ekki verið lagt til af þeirri nefnd. sem endurskoðaði l., að halda því ákvæði áfram.

Atriðunum viðvíkjandi útboði, sem hv. þm. gat um, hefur hv. 10. þm. Reykv. þegar svarað. Það hefur einhver misskilningur komizt að hjá hv. 9. þm. Reykv. viðvíkjandi framlögum í sjóðinn á undanförnum árum. Þau áttu á s.l. ári að vera sem næst — ekki rúmar 3 millj., eins og hann sagði, heldur 3 millj. 217 þús. frá sveitarfélögunum og væntanlega annað eins frá ríkissjóði, þannig að framlagið í sjóðinn hefur verið 6 millj. 435 þús. eða sem næst því. Og sú hækkun, sem lagt er til að verði á þessum framlögum nú, bæði framlagi sveitarfélaganna og ríkissjóðs, er sem næst 662/3%, þannig að þetta framlag ríkissjóðs og sveitarfélaganna ætti því að hækka á næsta ári — að óbreyttum íbúafjölda — upp í 10 millj. 725 þús. á ári, eða meira, ef íbúum fjölgar.

Hann spurði um a-liðinn í brtt. nefndarinnar á þskj. 420, þar sem við leggjum til að standi „löglegur félagsmaður“. Það er alveg rétt, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði, það felst í því, eftir því sem okkur er sagt, sem næst að fylgja þeim reglum, sem fylgt hefur verið undanfarið, þ.e.a.s. þeir, sem hafa verið löglegir félagar og hafa haldið áfram að vera það meðfram með því að greiða sín gjöld og að öðru leyti fullnægt skilyrðunum, þeir hafa haft atkvæðisrétt og meiningin, að þeir hafi það áfram. Það er sem sagt einfaldara orðalag, og það feist ekki í því nein breyting frá þeim venjum, sem ríkt hafa undanfarið.

Þá er það viðvíkjandi b-liðnum, að miða við kaupgjaldið, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. var sammála um að leggja til. Okkur fannst það eðlilegri viðmiðun. En ég get vel skilið þessa athugasemd hv. þm., að vísitalan sé eins og snara í hengds manns húsi. Ég get vel skilið, að þetta sé svona fyrir honum, því að það var nefnilega þannig, að þetta var snaran, sem hengdi vinstri stjórnina á sínum tíma.

Viðvíkjandi d-liðnum, þá ræddi ég þessa breyt., sem þar er, að setja 10 ára regluna inn í staðinn fyrir það, sem gilt hefur undanfarið um endurgreiðslu í I. og till., sem nefndin, er samdi þetta nýja frv. um verkamannabústaði, lagði til.

Það var samkomulag um það hjá meiri hl. heilbr.- og félmn. að setja þessa 10 ára reglu inn, af því að hún er einfaldari í framkvæmd og tekur til fleiri tilvika heldur en þeirra einu tilvika, sem getið er í till. n., nefnilega með fjölgun fjölskyldumeðlima. Okkur fannst það of Þröngt, því að það getur margt fleira til borið, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, svo að það sé nauðsyn fyrir eiganda íbúðarinnar að skipta um íbúð, og ekki víst, að hann eigi þá, og raunar, eins og lögin eru, Þá veit hann Það. að hann getur ekki einu sinni átt rétt á því að fá þegar í stað íbúð í verkamannabústað, þó að hann flytjist á annan stað, eins og getur borið við. Þess vegna fannst okkur nauðsynlegt að hafa þessa reglu, að þegar maður væri búinn að vera 10 ár í íbúðinni, ætti hann rétt á að greiða hana upp til þess að njóta verðhækkunar. Hitt er alveg rétt hjá honum, að það er dálítið ankannalegt orðalag að tala um verðhækkun á verði. Þetta orðatiltæki hefur komið til af því, að það var meiningin að reyna að orða þetta þannig, að það væri einungis eðlileg verðhækkun á íbúðinni, sem ætlazt væri til að maðurinn fengi greidda, og er þess vegna ætlazt til þess, eins og gert hefur verið, þegar íbúðirnar hafa verið seldar, að þá hafa þær verið metnar og metin eðlileg verðhækkun. Það er nánast það, sem fyrir nefndinni vakti, þó að það hafi kannske ekki tekizt nógu vel með orðalagið — og matsverðið væri síðan það verð, sem eigandi, sem hefði átt íbúðina í 10 ár, gæti fengið, ef hann neyddist af einhverjum ástæðum til þess að selja hana og fá sér aðra íbúð.

Ég held, að ég hafi þá drepið á það, sem ástæða var til, af því, sem fram hefur komið við umr.